Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

70 þúsund

Þ.30. nóvember n.k. munu 70 þúsund manns koma saman á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna C0P 28 í olíuríkinu Dubai. Skattgreiðendur  borga fyrir þessa 70 þúsund lúxusferðamenn. 

Hvað eru annars 70 þúsund manns að gera á loftslagsráðstefnu í Dubai? Þó að ráðstefnan eigi að standa til 12. desember n.k. þá er ljóst að fáir ráðstefnugesta munu koma nokkru að eða hafa nokkuð að gera annað en að sýna sig og sjá aðra og fá sér gott að borða og drekka á kostnað annarra. Já og skilja eftir sig stórfellt kolefnisspor.

70 þúsund fulltrúar eru, álíka margir og allir íbúar Hafnafjarðar og Kópavogs.

Á ráðstefnunni verður ekki fjallað um hvað spár fyrri loftslags ráðstefna hafa reynst ranga. Að skoða hluti í ljósi sögu og reynslu er bannað þegar trúarbrögð eins og þessi eiga í hlut. 

Framkvæmdastjóri Sþ., Guterres auglýsir nú sem aldrei fyrr  hamfarahlýnunina,sem að hans mati er að drepa allt kvikt á jörðinni. Þær spár hans eru jafn glórulausar og þær sem hann setti fram ásamt Grétu Túnberg á sínum tíma eða þá spár hans frá 13. júní 2019, þar sem hann lét taka myndir af sér  jakkafataklæddum í vatni upp á læri við strönd eyríkisins Túvalú og sagði að eyjan væri að fara í kaf. Staðreyndin er hinsvegar, að land á Túvalú er nú 2.9% stærra. 

En það skiptir engu máli fyrir sanntrúaða hvað bent er á margar og miklar missagnir hjá Guterres og SÞ., hann er að þjóna hagsmunum loftslagstrúboðsins og ofurauðkýfingar heims láta sér vel líka um leið og þeir geta komið og ráðslagast um sölu og kaup á loftslagskvótum og öðru slíku fíneríi svo þeir geti grætt sem mest á meðan skattpínd alþýða í Evrópu og neytendur þurfa að greiða meira og meira vegna vitlausustu stjórnmálastéttar, sem nokkru sinni verið við völd  í Evrópu og er þá langt til jafnað. 

Er ekki kominn tími til að þetta trúarsamfélag haldi sína fundi á eigin kostnað og láti venjulegt fólk í friði. 

En hvað skyldu nú fulltrúar Íslands verða margir á þessari trúarsamkomu og skyldi allt ráðherralið sértrúarsöfnuðarins í VG mæta ásamt drjúgum hluta þingflokksins. Það væri þá eftir öllu og allt á kostnað skattgreiðenda.

Já og ekki má gleyma Gulla umhverfis, sem lét vinna rándýra skýrslu um loftslagsþolið Íslands, um þá vá sem að landi við heimskautsbaug í norðri stafar af hnattrænni hlýnun. Sér var nú hver sköpin og væntanlega fær hann að tala í 3 mínútur á trúarsamkomunni vegna þessa merka framlags.  


Orkuskortur

Forstöðumaður fiskvinnslu á Austurlandi sagði fyrir nokkru að svo gæti farið,að fyrirtækið þyrfti að keyra díselrafstöðvar til að hafa næga orku til að sinna starfseminni.

Hvernig stendur á því að við stöndum nú frammi fyrir því að hafa ekki ofgnógt grænnar orku og þingflokksformaður Framsóknar kalli eftir heimild til að stækka smávirkjanir einstaklinga, svo mikill er stórhugurinn.

Ástæðan er sú að Vinstri grænir sitja í ríkisstjórn.Þessi "græni flokkur" hefur verið í andstöðu við allar vatnsaflsvirkjanir sem byggðar hafa verið. Það var ekki svo alvarlegt meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá fluttu Steingrímur og Katrín ræður sínar út í tómið á Alþingi án þess að það skipti máli. 

Af einhverjum furðulegum ástæðum,fannst formönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eðlilegt, að leiða þennan fámenna vinstri öfgaflokk VG til öndvegis í ríkisstjórn. 

Ráðherrar VG hafa ekki talað út í tómið heldur staðið gegn nauðsynlegum ráðstöfunum til bjargar fyrir fólk og fyrirtæki. Ein afleiðing þess er orkuskortur í landinu, sem mun bitna af gríðarlegum þunga á þjóðinni hiksti virkjunin við Svartsengi. 

Á 7 ára valdatíma VG hefur málum verið komið svo fyrir að engin vistvæn græn vatnsaflsvirkjun hefur verið byggð og ekki ráðgerð. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem halda um þennan málaflokk hafa látið það yfir sig ganga en bera stjórnskipulega ábyrgð. 

Nú verður ekki við þetta unað lengur. Það verður að bregðast við og tryggja  næga orku svo ekki komi til lífskjararýrnunar, atvinnuleysis og margvíslegra erfiðleika. 

Forsenda þess er að VG fari úr ríkisstjórn núna.

 


Ábyrgð og ábyrgðarleysi

Fyrir 12 dögum ákváðu lögregluyfirvöld að rýma Grindavík. Sú aðgerð var nauðsynleg miðað við upplýsingar og viðvaranir um hugsanlegt eldgos í eða við bæinn. 

Yfirstjórn Almannavarna tók við stjórninni og beitti furðulegum og ónauðsynlegum aðgerðum sem gerðu Grindvíkingum erfitt fyrir að ná í nauðsynlegan húsbúnað og bjarga verðmætum. Hver ber ábyrgð á því? 

Í fróðlegri grein á Moggablogginu bendir Haraldur Sigurðsson einn fremsti jarðvísindamaður okkar á mikilvæga hluti og segir m.a. að fyrir hafi legið frá 1954 að Grindavík væri byggð á sprungusvæði í sigdal. Einnig  að í aðalskipulagi Grindavíkur 2020 komi fram að sprungur séu undir bænum. 

Ætla hefði mátt þegar jarðhræringar byrjuðu á Reykjanesi að Ríkisstjórn Íslands gæfu sérstakan gaum að öryggi íbúa í Grindavík og nágrennis og öryggi innviða. 

Þegar til átti að taka var ekkert tilbúið af hálfu stjórnvalda og ekki verður annað séð en að Katrín Jakobsdóttir hafi vanrækt allan þennan tíma eða í 3 ár að halda ráðherrafundi um þetta mikilvæga stjórnarmálefni.

Má minna á, að árið 2011 var þessi sama Katrín í hópi  ákærenda á hendur Geir H. Haarde fyrir það sakarefni að hafa ekki haldið ráðherrafundi um vanda banka-og fjármálakerfis landsins. Tíminn sem þar var um að ræða voru 3 mánuðir en nú hefur meint vanræksla Katrínar varað í 3 ár.

Skyldi Katrín vera tilbúinn að axla ábyrgð og ákæra sjálfa sig með sama hætti og hún gerði þegar Geir H. Haarde átti í hlut eða segja af sér vegna þessa?

Katrínu hefði átt að hafa verið ljóst að alvarlegur háski vofði yfir Grindavík og nágrenni. 


Gerum allt sem í okkar valdi stendur

Engin ágreiningur er um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa sem þéttast með Grindvíkingum og styðja þá og styrkja eins og okkur er unnt. Þá er engin ágreiningur um að verja mannvirki svo sem kostur er og bæta tjón. 

Á hættustundum reyna stjórnmálamenn jafnan að gera sem mest úr eigin mikilvægi og möguleikum til að hafa áhrif á gang mála, jafnvel þó engir séu. Dæmi um það er stjórnarfrumvarp, sem nú er til umræðu á Alþingi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Asinn er svo mikill, að meiningin er að afgreiða málið í kvöld og/eða nótt þó engin brýn þörf sé á því.

Við höfum lög um almannavarnir nr. 82/2008, sem duga í tilvikum sem þessum e.t.v. þarf að bæta örlitlu við 25.gr. laganna vegna uppbyggingu varnargarða á Reykjanesi og varðandi fjármögnun.

Hættan við fum og fát í lagasetningu er ekki síst sú að Alþingi samþykki vond lög, þar sem ekki er gætt vandaðra vinnubragða við lagasetningu. Sú virðist ætla að vera raunin varðandi það frumvarp, sem nú er til afgreiðslu á Alþingi. 

Bent skal á, að skv. stjórnarfrumvarpinu um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi á m.a. að víkja til hliðar lögum eins og stjórnsýslulögum. Af hverju þarf að víkja þeim til hliðar? Svo að stjórnvöld geti farið sínu fram af geðþótta og eftirlit með aðgerðum þeirra verði ekkert og réttindum almennra borgara verði vikið til hliðar. Við eigum aldrei að samþykkja slíkt.

Almenn umgjörð um mannréttindi og takmörkun á því að ríkisvaldið geti farið sínu fram eftirlitslaust að geðþótta verður alltaf að vera leiðarstefið við lagasetningu í landinu ekki síst þegar skyndileg hætta steðjar að.

  


Skyldan við þjóðina

Ógnin af hugsanlegum jarðeldum á Reykjanesi er mikil og tók nokkuð óvænta stefnu þegar kom í ljós, að kvikugangur er kominn undir Grindavík. Grindavíkur gætu því beðið sömu örlög og Vestmannaeyja, að gosið verði svo nálægt byggð eða í byggð, að Grindvíkingar neyðist til að flytja búferlum tímabundið. Þetta glæsilega samfélag, þar sem byggð hafa verið upp sterk fyrirtæki sérstaklega í sjávarútvegi á annað skilið, en að því er ekki spurt þegar óblíð náttúra tekur völdin.

Vonandi líður hættan hjá og vonandi finnur hugsanlegt gos sér annan farveg fjarri byggð. En þær staðreyndir sem við okkur blasa nú verðum við að taka alvarlega og undirbúa okkur sem best til að takast á við þau óblíðu náttúruöfl, sem lengst af hafa með reglubundnum hætti valdið gríðarlegu tjóni í landinu og leiddu á árum áður iðulega til mannfellis og viðvarandi hörmunga.

Nú erum við betur undir búin til að takast á við óblíð náttúruöfl, en nokkru sinni fyrr. Við megum þó aldrei gleyma því hvað við erum ógnarsmá og lítils meigandi þegar kemur að viðureign við náttúruöflin.

Við verðum alltaf að muna, að okkur ber fyrst og fremst skylda við fólkið í landinu og gæta hagsmuna þess og verðum að láta allt annað víkja meðan við bætum tjón, sem fólk og fyrirtæki kunna að verða fyrir í hugsanlegri viðureign við jarðelda og aðra náttúruvá.

 


Viðbúnaður og undirbúningur

Jörð skelfur sem aldrei fyrr á Reykjanesi. Við sem fylgjumst með úr fjarlægð vorkennum þeim sem búa í nágrenninu sérstaklega Grindvíkingum, sem þurfa að þola margar svefnlausar nætur auk ýmiss annars og veltum fyrir okkur hvað við getum gert.  

Vonandi linnir skjálftum og vonandi komumst við hjá því í lengstu lög að það gjósi nálægt byggð á Reykjanesi. Gos nálægt byggð er ein alvarlegasta náttúruvá, sem um ræðir. 

Við þessar aðstæður ber öllum að undirbúa sig sem best. Huga verður að möguleikum á brottflutningi fólks með skömmum fyrirvara og koma upp hjálparstöðvum og bráðabirgðahúsnæði. 

Ekki verður komist hjá að skoða gerð nýs flugvallar fyrir innan- og millilandaflug annarsstaðar en á Reykjanesskaga. Þá kemur helst í huga Melasveit í Borgarfirði eða nágrenni Selfoss. Þó svo ekkert verði gert eða þurfi að gera, þá er gott að hafa valmöguleikann og láta vinna nauðsynlega hönnunarvinnu. 

Ísland er illa sett ef gos leiðir til þess að fjöldi fólks þarf að yfirgefa heimili sín og Keflavíkurflugvöllur lokast. Það er því miður raunhæfur möguleiki. Við verðum að búa okkur undir það og verðum að setja peninga í slíkan undirbúning en hætta að mala með stofukommúnistunum um mögulega hlýnun af mannavöldum.

Dekurverkefnum verður að ýta til hliðar þegar alvaran bankar á dyrnar. 


Óráðshjal gegn betri vitund

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar nýtur mikils trausts skv. skoðanakönnunum. Þessvegna er eðlilegt að fylgst sé grannt með þessari ungu stjórnmálakonu og fólk reyni að átta sig á fyrir hvað hún stendur. 

Margir hafa bundið vonir við að Kristrún geti m.a. vegna menntunar sinnar og reynslu komið Samfylkingunni frá ofurtrúnni á ríkisafskipti, millifærslur og aukna skattheimtu. Þeir sem hlustuðu á Kristrúnu í þættinum vikulokin á Rás 1 urðu því fyrir miklum vonbrigðum. 

Kristrún telur eðlilegt að auka ríkisumsvif verulega. Hún vill auka skattheimtu og hún vill gera upp á milli borgara með sértækum aðgerðum. 

Látum svo vera þó að trúr og tryggur sósíalisti vilji standa fastur í fortíðinni og auka skattheimtu og millifærslur, en hitt er verra þegar hún fer rangt með og byggir hugmyndir sínar á fölskum forsendum.

Í þættinum talaði Kristrún um að sækja meiri skatta til fjármagnseigenda, sem hún hélt fram að væru að hagnast verulega (koma út í rosalegri rassíu) og vísaði sérstaklega til hækkunar hlutabréfa og skuldabréfa. 

Þetta er rangt hjá Kristrúnu og hún veit betur. Fá ár hafa verið eins mögur fyrir fjármagnseigendur eins og einmitt þetta ár. Hlutabréf hafa lækkað í Kauphöllinni frá áramótum um 16%, lækkun sem nemur tugum milljarða. Auk þess hefur Kristrún talað bankana niður með hugmyndum um sérstakan bankaskatt.

Kristrún virðist ekki skilja, að í verðbólgu eru það ekki bara einstaklingar, sem tapa. Skuldsett fyrirtæki gera það líka sbr. bændur sem með sín smáfyrirtæki.

Lækkun hlutabréfaverðs nemur fleiri milljörðum á árinu eins og áður segir og vilji fjárfestir vera með fé sitt á hávaxtareikningi í banka,þá nær ávöxtunin ekki verðbólgunni þegar fjármagnstekjuskatturinn hefur verið greiddur. Aukin skattlagning á fjármagnseigendur á grundvelli gróða þeirra, er því rangt pópúlískt rugl, sem að kona eins og Kristrún veit vel eða á að vita miðað  við þekkingu sína að stenst ekki. Blaður eins og þetta gegn betri vitund, er því henni til minnkunar, en ekki stendur steinn yfir steini í hugmyndum hennar um hvernig á  að ná í aukið fé í ríkissjóð. 

Annað sem kom á óvart var tal Kristrúnar um sértækar aðgerðir í kjaramálum, þar miðar hún við að gert sé upp á milli fólks eftir því hvort þeir hafa fengið aðstoð frá sínum nánustu eða ekki. Þannig var ekki hægt að skilja hana með öðrum hætti en þeim, að t.d. tvær konur í sömu stöðu þar sem önnur hefði fengið aðstoð foreldra sinna til að fjármagna sig ætti að fá minni launahækkun en konan við hliðina, sem hefði ekki fengið slíka aðstoð.  Með hvaða hætti og hvernig skyldi nú ganga að miða kjarviðræður við þessar forsendur Kristrúnar?

Eðlilega verður mörgum um og ó, að hlusta á svona því miður endemis rugl í stjórnmálaleiðtoga. Hvað þá heldur einstaklingi, sem flestir hafa talið að hefði gripsvit á efnahagsstjórn og fjármálum einstaklinga og ríkis. 


Landsins forni fjandi

Ertu kominn landsins forni fjandi, orti þjóðskáldið sr. Matthías Johcumson um páskana 1888 þegar hann sá, að hafís var kominn inn á Eyjafjörð. Um aldir hafa helstu náttúrulegu óvinir þjóðarinnar verið Jarðeldar,kuldar og hafís.

Jarðeldar hafa ítrekað opnast á Reykjanesi, en staðið stutt án þess að valda tjóni. Íslenska þjóðin hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi um langa hríð, að jarðeldar hafa ekki valdið tilfinnanlegu tjóni ef undan er skilið gosið í Vestmannaeyjum.

Náttúruöflin eru aldrei stöðug og nú skelfur jörð á Reykjanesi, sem gæti boðað alvarlegra gos en hingað til. Vonandi verður það ekki. Vísireglan er sú hvort sem okkur líkar betur eða verr, að líkur eru á að þar sem einu sinni hefur gosið, gjósi aftur. 

Við erum vanmáttug gagnvart jarðskjálftum,eldgosum og öðrum umbrotum náttúrunnar. Þessvegna skiptir máli fyrir þjóð, sem má vænta þess að þurfa að takast á við óblíð náttúruöfl með reglubundnu millibili, að hún gæti aðhalds og sparnaðar, til að hafa eitthvað fyrir sig að leggja þegar náttúruvá verður. 

Þess höfum við ekki gætt á umliðnum árum, eb eytt um efni fram og hent peningum í gáleysislega í hluti sem okkur koma ekki við eða getum ekkert gert í. 

Við eyðum um 40 milljörðum á ári í gerviflóttamenn sem okkur koma ekki við og fórnum milljörðum vegna loftslags trúarinnar.

Hlýnun eða hitar hafa aldrei verið vandamál á Íslandi. Þessvegna er það vægast sagt skondið að umhverfisráðherra skuli standa fyrir viðamikilli gríðarlega kostnaðarsamri skýrslugerð um  hættu Íslands af hlýnun. Sjálfsagt ágætis heilaleikfimi fyrir háskólafólk, án efa jafn gagnleg og deilur háskólaspekinar á umliðnum öldum um það hvort Jesús hefði verið krossfestur á fimmtudegi eða föstudegi. 

 

Kólnandi veður og hafísþök eru raunveruleg vandamál. Þess vegna var sagt og hefur iðulega verið sagt, að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims. Þannig var það iðulega þegar hafísinn lagðist að landi og eldgos komu í veg fyrir að það sæist til sólar á Suðurlandi langtímum saman. 

Náttúrulegar ógnir eru víðfeðm eldgos og kuldi og við þurfum að undirbúa okkur undir að bregðast við því allt annað er þjóðfjandsamlegt.


Samsæriskenningar og staðreyndir

Ég lauk í gær við að lesa bókina "Case Closed" (Málinu lokið) eftir Gerald Posner rannsóknarlögfræðing. Bókin fjallar um morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta 22. nóvember 1963 og gerir góða úttekt á þeim samsæriskenningum sem hafa verið uppi og niðurstöðum Warren nefndarinnar svokölluðu sem rannsakaði málið í upphafi á vegum stjórnvalda.

Niðurstöður Warren nefndarinnar voru trúverðugar og niðurstaðan, að Lee Harvey Oswald hefði verið einn að verki og myrt Kennedy. Ég var hissa þegar ég sá stórmynd Oliver Stone: JFK, sem var um bullkenningu Jim Garrison saksóknara í sambandi við morðið, að þessi þekkti leikstjóri skyldi gera slíkri bullkenningu svona hátt undir höfði.

Það var of einfalt fyrir marga að rugludallur eins og Lee Harvey Oswald hefði myrt Kennedy og leitað var allskyns skýringa og margvíslegar hugmyndir settar fram oft frekar af óskhyggju eða sjúkri ímyndun frekar en nokkuð annað. Haldið var fram, að bandaríska mafían stæði að baki morðinu, leyniþjónustur Bandaríkjanna, ríkisstjórn Kúbu, Sovétríkjanna. Já og jafnvel Lyndon B. Johnson viðtakandi forseti. Allar samsæriskenningar eru rangar og bók Posner er góð úttekt á því hvað gerðist. Niðurstaða Warren nefndarinnar var rétt og Posner sýnir enn betur fram á það í bók sinni en áður hefur verið gert. Málinu er lokið. Hin eina rétta niðurstaða liggur fyrir: 

Lee Harvey Oswald myrti John F. Kennedy. Hann var einn að verki. Sönnunargögnin eru fullnægjandi og ekkert vitrænt sem hnekkir þeirri niðurstöðu eða styður samsæriskenningarnar. 

 


Vandamálafræði og vansæld

Sagt er frá niðurstöðu könnunar, sem sýnir að íslendingar eru nú óhamingjusamari en fyrr. 

Hvað veldur því að sú þjóð, sem býr við hvað mestu efnahagslegu velsæld, býr við frið og meira öryggi,en flestir aðrir í heimi hér, skuli vera svona vansæl. Já og hvernig stóð á því að þjóðin var mun hamingjusamari hér áður fyrr, þó efnahagsleg verðmæti og almenn velsæld væri minni en nú er. 

Getur verið að vandamálafræðin sem umlykur fólk með allskyns greiningum og meðferðum og lyfjagjöf valdi hér einhverju? 

Pólitíkin hefur e.t.v. ákveðið með þetta að gera, en stjórnarandstaða á öllum tímum hamast við að segja fólki hvað því líður illa þó því líði þokkalega og jafnvel asskoti vel. Horfa má á leikþátt með einleik Inga Sæland til að sjá það. 

Et til vill skortir fólk markmið hugsjónir og áskoranir til að það átti sig á hvað lífið er skemmtilegt og þess virði að lifa því sælt og ánægt þó að stundum gefi hressilega á bátinn.

Já og ef til vill vantar þjóðina rótartengingu við kristilegan menningararf til að geta betur áttað sig á þeim áskorunum sem allir standa frammi fyrir á lífsleiðinni. Sumir oftar aðrir sjaldnar og hvernig á að bregðast við og með von og trú.

Já og ef til vill skortir á, að fólki sé bent á þá grundvallarstaðreynd að: "Hver er sinnar gæfusmiður" 

Sennilega væri þjóðin hamingjusamari ef fólk fengi að vera í friði fyrir vandamálafræðinni og háskólaspekinni og gerði sér grein fyrir því að við höfum öll gildi sem einstaklingar og við höfum þær skyldur að ávaxta okkar pund hvort sem er í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu eins vel og við getum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 1673
  • Frá upphafi: 2291563

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1501
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband