Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Að gæta hagsmuna þjóðarinnar

Fróðlegt að lesa frásögn fyrrum forseta Ólafs Ragnars Grímssonar af viðtali við sjónvarpsstöðina Sky, þar sem hann fór réttilega hörðum orðum um Gordon Brown forsætisráðherra Breta fyrir að beita Ísland hryðjuverkalögum og setja okkar í hóp með Al Kaída, Talíbönum og ISIS þegar við áttum hvað erfiðast. 

Afar fróðlegt að heyra að Tony Blair fyrirrennari Gordon Brown skyldi segja við hann að Brown væri þrjótur,sem hann var. 

Ólafur Ragnar stóð sig best í forsetaembætti, þegar hann lét ekki bugast í fjármálahruninu, en stóð með íslenskum hagsmunum hvar svo sem við var komið. 

Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar stóðu báðir einarðir með íslenskum hagsmunum varðandi Icesave og náðu ásamt annarra góðra manna hjálp, að koma í veg fyrir að við yrðum beitt afarkostum. 

Því miður voru ekki allir jafn ákveðnir og framsýnir í hagsmunagæslunni fyrir hönd Íslands.

Setning hryðjuverkalaga á Ísland var ólöglegt skv. alþjóðalögum, ósiðlegt og ósæmilegt og gjörsamlega ófyrirgefanlegt gagnvart vinaþjóð og bandalagsþjóð í NATO. Sú aðgerð olli okkur gríðarlegu tjóni. Það tjón vildum við Guðni Ágústsson, að Bretum yrði gert að bæta okkur og settum ítrekað fram þau sjónarmið og kröfur strax eftir að Bretar settu hryðjuverkalögin. 

Því miður var þá og í framhaldinu engin Davíð og engin Ólafur í forsvari fyrir Íslands hönd í ríkisstjórn og þáverandi ráðamenn og þeir sem við tóku sáu því miður ekki ástæðu til að standa með málstað Íslands gagnvart þeirri fólskulegu árás sem Bretar beittu okkur. 

Það skiptir alltaf máli fyrir þjóðir, að hafa góða málsvara á hvaða vettvangi sem er. Fólk, sem þorir sérstaklega þegar bjátar á, að standa með Íslandi, Íslendingum og íslenskum hagsmunum. 


mbl.is Gordon Brown er bara þrjótur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuskortur

Forstöðumaður fiskvinnslu á Austurlandi sagði fyrir nokkru að svo gæti farið,að fyrirtækið þyrfti að keyra díselrafstöðvar til að hafa næga orku til að sinna starfseminni.

Hvernig stendur á því að við stöndum nú frammi fyrir því að hafa ekki ofgnógt grænnar orku og þingflokksformaður Framsóknar kalli eftir heimild til að stækka smávirkjanir einstaklinga, svo mikill er stórhugurinn.

Ástæðan er sú að Vinstri grænir sitja í ríkisstjórn.Þessi "græni flokkur" hefur verið í andstöðu við allar vatnsaflsvirkjanir sem byggðar hafa verið. Það var ekki svo alvarlegt meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá fluttu Steingrímur og Katrín ræður sínar út í tómið á Alþingi án þess að það skipti máli. 

Af einhverjum furðulegum ástæðum,fannst formönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eðlilegt, að leiða þennan fámenna vinstri öfgaflokk VG til öndvegis í ríkisstjórn. 

Ráðherrar VG hafa ekki talað út í tómið heldur staðið gegn nauðsynlegum ráðstöfunum til bjargar fyrir fólk og fyrirtæki. Ein afleiðing þess er orkuskortur í landinu, sem mun bitna af gríðarlegum þunga á þjóðinni hiksti virkjunin við Svartsengi. 

Á 7 ára valdatíma VG hefur málum verið komið svo fyrir að engin vistvæn græn vatnsaflsvirkjun hefur verið byggð og ekki ráðgerð. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem halda um þennan málaflokk hafa látið það yfir sig ganga en bera stjórnskipulega ábyrgð. 

Nú verður ekki við þetta unað lengur. Það verður að bregðast við og tryggja  næga orku svo ekki komi til lífskjararýrnunar, atvinnuleysis og margvíslegra erfiðleika. 

Forsenda þess er að VG fari úr ríkisstjórn núna.

 


Bankarnir, ráðherrann og lausnirnar.

Húseigendur í Grindavík eru tryggðir fyrir tjóni vegna jarðskjálfta og eldgosa skv. lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Þrátt fyrir það reynir bankamálaráðherra að slá pólitískar keilur á Alþingi með óræðum kröfum á hendur lánastofnana um aðgerðir þegar boltinn er hjá henni um að móta tillögur um lausn vandans í núinu. 

Á endanum þarf Náttúruhamfaratrygging Íslands að greiða húseigendum í Grindavík nánast fullar bætur vegna þess tjóns sem þeir kunna að verða fyrir. 

En þá er spurningin um millibilsástandið? Eðlilegast er að ráðherra bankamála komi með tillögur í því efni, það er hennar hlutverk og hún verður að gera sér það ljóst. Lánastofnanirnar ættu hins vegar þegar í stað að gera samninga við húseigendur í Grindavík um að ekki verði innheimtar afborganir og vextir af húsnæðislánum í Grindavík meðan óvissuástandið er Aðkoma að því samkomulagi þarf bankamálaráðherra og stjórn Náttúruhamfaratrygginga að eiga.

Það er ljótt að hræða fólk í vanda. Grindvíkingar eru núna í miklum og margvíslegum vanda og stjórnvöld sem og aðrir eiga að vinna að eðlilegum jákvæðum lausnum í stað þess að bulla á Alþingi. Það ber alltaf að leysa málin á grundvelli þess velferðar- og tryggingarkerfis sem er fyrir hendi annað væri ósæmilegt.  

 


mbl.is Ræða eftirgjöf og niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhuga Framsóknarflokkur

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins ritaði ágæta grein í Morgunblaðið s.l. laugardag, þar segir m.a. " Staðreyndin er sú að um þessar mundir er orkuvinnslukerfi landsins fullnýtt og skortur á orku er farinn að valda vanda."

Af hverju búa Íslendingar, sem eiga gnógt vistvænnar orku við orkuskort? Vegna þess, að engin vatnsaflsvirkjun hefur verið gerð á 7 ára valdatíma samstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðis og VG  eða fyrirhuguð vegna þvergirðingsháttar VG.

Á 7 ára valdatíma ríkisstjórnarinnar hafa ráðherrar orkumála ekki hreyft af alvöru hugmyndum um stórar vistvænar virkjanir, sem brýn þörf er á sbr. ummæli þingflokksformannsins. 

Stórhugur þingflokksformannsins er þó ekki meiri en svo, að hún bendir á þá leið, að kanna hvort ekki sé hægt að stækka smávirkjanir. Sú tillaga er góðra gjalda verð, en dugar þó hvergi. 

Nauðsyn ber til að koma í veg fyrir áframhaldandi orkuskort og tryggja að myndarlega verði tekið á í orkumálum til að skapa atvinnu- og framfarasókn þjóðarinnar. Nýta verður hagkvæma virkjunarkosti. Það getur ekki orðið að veruleika meðan sértrúarsöfnuður VG situr í ríkisstjórn. 

Þjóðin verður því að losna við VG úr ríkisstjórn ef koma á í veg fyrir vaxandi orkuskort í landinu.


Óráðshjal gegn betri vitund

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar nýtur mikils trausts skv. skoðanakönnunum. Þessvegna er eðlilegt að fylgst sé grannt með þessari ungu stjórnmálakonu og fólk reyni að átta sig á fyrir hvað hún stendur. 

Margir hafa bundið vonir við að Kristrún geti m.a. vegna menntunar sinnar og reynslu komið Samfylkingunni frá ofurtrúnni á ríkisafskipti, millifærslur og aukna skattheimtu. Þeir sem hlustuðu á Kristrúnu í þættinum vikulokin á Rás 1 urðu því fyrir miklum vonbrigðum. 

Kristrún telur eðlilegt að auka ríkisumsvif verulega. Hún vill auka skattheimtu og hún vill gera upp á milli borgara með sértækum aðgerðum. 

Látum svo vera þó að trúr og tryggur sósíalisti vilji standa fastur í fortíðinni og auka skattheimtu og millifærslur, en hitt er verra þegar hún fer rangt með og byggir hugmyndir sínar á fölskum forsendum.

Í þættinum talaði Kristrún um að sækja meiri skatta til fjármagnseigenda, sem hún hélt fram að væru að hagnast verulega (koma út í rosalegri rassíu) og vísaði sérstaklega til hækkunar hlutabréfa og skuldabréfa. 

Þetta er rangt hjá Kristrúnu og hún veit betur. Fá ár hafa verið eins mögur fyrir fjármagnseigendur eins og einmitt þetta ár. Hlutabréf hafa lækkað í Kauphöllinni frá áramótum um 16%, lækkun sem nemur tugum milljarða. Auk þess hefur Kristrún talað bankana niður með hugmyndum um sérstakan bankaskatt.

Kristrún virðist ekki skilja, að í verðbólgu eru það ekki bara einstaklingar, sem tapa. Skuldsett fyrirtæki gera það líka sbr. bændur sem með sín smáfyrirtæki.

Lækkun hlutabréfaverðs nemur fleiri milljörðum á árinu eins og áður segir og vilji fjárfestir vera með fé sitt á hávaxtareikningi í banka,þá nær ávöxtunin ekki verðbólgunni þegar fjármagnstekjuskatturinn hefur verið greiddur. Aukin skattlagning á fjármagnseigendur á grundvelli gróða þeirra, er því rangt pópúlískt rugl, sem að kona eins og Kristrún veit vel eða á að vita miðað  við þekkingu sína að stenst ekki. Blaður eins og þetta gegn betri vitund, er því henni til minnkunar, en ekki stendur steinn yfir steini í hugmyndum hennar um hvernig á  að ná í aukið fé í ríkissjóð. 

Annað sem kom á óvart var tal Kristrúnar um sértækar aðgerðir í kjaramálum, þar miðar hún við að gert sé upp á milli fólks eftir því hvort þeir hafa fengið aðstoð frá sínum nánustu eða ekki. Þannig var ekki hægt að skilja hana með öðrum hætti en þeim, að t.d. tvær konur í sömu stöðu þar sem önnur hefði fengið aðstoð foreldra sinna til að fjármagna sig ætti að fá minni launahækkun en konan við hliðina, sem hefði ekki fengið slíka aðstoð.  Með hvaða hætti og hvernig skyldi nú ganga að miða kjarviðræður við þessar forsendur Kristrúnar?

Eðlilega verður mörgum um og ó, að hlusta á svona því miður endemis rugl í stjórnmálaleiðtoga. Hvað þá heldur einstaklingi, sem flestir hafa talið að hefði gripsvit á efnahagsstjórn og fjármálum einstaklinga og ríkis. 


Er þörf fyrir sósíalisma?

Fyrrum formanni Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn var boðið að halda fyrirlestur í Safnahúsinu í Reykjavík s.l. laugardag, til að fjalla um "hvers vegna er þörf fyrir sósíalisma" Eðlilegra fundarefni hefði verið "Er þörf fyrir sósíalisma"? og svarið miðað við reynsluna er að sjálfsögðu nei.

Jeremy Corbyn var ekki kominn til að ræða um jafnaðarstefnu eins og sá ágæti flokkur Alþýðuflokkur heitinn barðist fyrir frá 1959 þar til hann var illu heilli vélaður í samstarf með kommúnistum við stofnun Samfylkingarinnar. Heldur öfga vinstri marxisma.

Jeremy Corbyn er öfgafullur vinstri sósíalisti, kommúnisti, sem varð formaður Verkamannaflokksins um nokkurra ára skeið, en kjósendur höfnuðu honum og vinstri stefnu hans alltaf. 

Þar sem fjallað er um fundinn með Corbyn er sagt, að þegar Keir Starmer varð formaður hafi hafist ofsóknir gegn Corbyn og róttækum vinstri sósíalistum til að koma nýfrjálshyggjunni í öndvegi í Verkamannaflokknum. Hvílíkur viðsnúningur á staðreyndum. 

Corbyn var rekinn úr Verkamannaflokknum fyrir rasisma. Það voru engar hreinsanir og það var engin breyting til nýfrjálshyggju í Verkamannaflokknum, hann er enn vinstri sinnaður sósíalistaflokkur. 

Vígorð James Corbyn er "For real change" (fyrir raunverulegar breytingar). Öfgafullir sósíalistar hafa það jafnan á hraðbergi þegar þeim er bent á hvílíkar hörmungar sósíalisminn hefur valdið. Þá segja þér það vantaði upp á að það væri alvöru sósíalismi við berjumst fyrir honum. Raunar sama mantran að breyttum breytanda og Mammonsdýrkendur flytja um ágæti þess, að peningar vaxi á hlutabréfamörkuðum. 

Hvers vegna fengu fundarboðendur ekki frekar flóttamann frá Venesúela til að fjalla um efnið "Hvers vegna þarf fólk að flýja sósíalismann? Sósíalistar um allan heim þurfa að horfast í augu við, að aldrei hefur róttækur sósíalismi leitt til annars, en fátæktar, fólksflótta, sviptingu mannréttinda og aftökur á stjórnarandstæðingum. Það er sama í hvaða heimsálfu sem er sbr. Kambódíu, Kúbu, Sovétríkin, Austur Þýskaland og fjölmörg ríki Afríku. Alls staðar brást Marxíski sósíalisminn. 

Það er sagnfræðileg staðreynd að sósíalismi gengur hvergi með sama hætti og það er staðreynd, að samkeppnisþjóðfélagið lyftir fólki og þjóðum úr fátækt til bjargálna.

Róttækir sósíalistar allra tíma eru alltaf úr tengslum við sögulegar staðreyndir. Annars væru þeir ekki sósíalistar. 

 


Stjórnmálamenn taka eyri ekkjunar og gefa þeim ofurríku

 

Stór hluti stjórnmálamanna tók þá trú, að hamfarahlýnun væri yfirvofandi vegna aðgerða mannfólksins. Þar sáu stjórnmálamenn leið til að ríkið gæti í auknum mæli stjórnað lífi og starfi borgaranna og aukið ríkisbáknið svo um munar. Gríðarlegu fé er varið til "vísindamanna" sem eru fyrirfram þeirrar skoðunar að tryllt hamfarahlýnun sé í gangi. Hinir fá ekkert.

Stjórnvöld á Vesturlöndum fengu auðmenn í lið með sér, með því að peningar væru teknir frá skattgreiðendum til að gefa þeim ofurríku og fyrirtækjum þeirra. Það var gert með allskyns brellum m.a. kolefniskvóta og ofurstyrkja til hins svokallaða "græna hagkerfis", sem hvergi er rekið nema með gríðarlegum fjárframlögum skattgreiðenda. Allt er þetta síðan vafið inn í góðmálapakka undir ýmsum nöfnum þó markmiðið sé aðeins það eitt að færa til fjármuni frá hinum snauðu til hinna ríku.

Með þessu náðu stjórnmálamenn því að vekja athygli á góðmennsku sinni og ráðsnilld og þá skiptir engu máli þó að snilldin kosti skattgreiðendur trilljónir á heimsvísu. Á sama tíma brosir ofurauðvaldið út í bæði yfir þeim viðskiptatækifærum, ríkisstyrkjum og gróða, sem stjórnmálamennirnir færa þeim allt á kostnað skattgreiðenda, iðulega fátæks fólks sem þarf að horfa í hverja krónu og er við það að missa húsin sín vegna vaxtaokurs sem afleiðing af glórulausri peningastjórn stjórnmálamannanna.

Í vor var frá því skýrt, að bílaleigur fengu milljarð frá skattgreiðendum til að kaupa rafbíla. Þessi milljarður var að sjálfsögðu tekinn frá skattgreiðendum og greiddur til fyrirtækja sem notuðu peninga skattgreiðenda til að borga sjálfum sér aukinn arð. 

Nú hefur verið tilkynnt um styrkveitingar úr Orkusjóði, en þar er tæpur milljarður tekinn frá skattgreiðendum til að greiða fyrir orkuskiptum atvinnurekenda. Hæstur styrkveitingarnar í ár ganga til ofurríkra hlutafélaga annarsvegar Samherja og hinsvegar Ísfélags Vestmannaeyja um og yfir 100 milljónir til hvors félags. Garmurinn hann Jón Ásgeir, sem skildi eftir 1000 milljarða skuld í Hruninu,  fær síðan dúsu líka þó hún sé ekki nema 12 milljónir.

Á sama tíma þurfa neytendur og almennir skattgreiðendur að sitja uppi með kostnaðinn vegna þessara gjafa stjórnvalda til hinna ofurríku og þurfa líka að sæta auknum kostnaði og hærri sköttum vegna loftslagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar sem fyrst og fremst eru í þágu hinna ofurríku. Við neytendur og skattgreiðendur þurfum t.d. núna að greiða um 20 krónur af hverjum bensínlítra í loftslagshítina og eigum ekki lengur kost á öðru en lélegu bensíni allt vegna aðgerða og markmiða ríkisstjórnarinnar. 

Er ekki kominn tími til að losna við þessa stjórnmálaelítu sem étur upp afkomu og lífskjör venjulegs fólks. Eyrir ekkjunar er enn á ný tekinn, til að færa auðmönnum og stjórnmálaelítunni til að leika sér með. 

 


Guð býr í myndverinu amma.

Í fréttamiðlum er greint frá því að Leonardo diCaprio leikari ásamt nokkrum erlendum kollegum hans hafi í hótunum við Íslendinga ef þeir ætli að voga sér að koma fram sem sjálfstæð þjóð og nýta landsins og sjávarsins gæði, svo sem gert hefur verið í aldir.

Leonardo þessi, skutilsveinar hans og hofróður halda, að peningarnir verði til í myndverinu og standa saman um að berjast fyrir því, að venjulegt fólk geti ekki farið í ferðalög og greiði mun meira fyrir nauðsynjar en áður. Það skiptir diCaprio og hans fólk litlu máli þar sem þau eru milljarðamæringar sem ferðast um á einkaþotum eins og enginn sé morgundagurinn.

Þetta kvikmyndafólk heldur að það geti ráðið málum á litla Íslandi og beygt fólk til hlýðni hvort sem er sjálfbærar veiðar á hval eða greiðsla loftslagsskatta. Fyrir svona fólki má ekki hvika því þá gerist aðeins eitt. Hótanirnar færast í aukana.

Haft er á orði að kvikmyndafólk þetta færi gríðarleg verðmæti inn í landið. Er það svo? Ríkið endurgreiðir vegna kvikmyndagerðar allt að 35% af framleiðslukostnaði. Hvað situr þá eftir þegar erlenda fyrirtækið krefst endurgreiðslunnar? Er í raun þjóðhagslegur hagnaður af þessari starfsemi þegar upp er staðið? Gæti verið að skattgreiðendur væru í raun að greiða meira en þeir fá til baka vegna þessarar starfsemi.

Hræddur er ég um að svo sé. 

En hvort heldur sem er, þá megum við aldrei beygja okkur fyrir hótunum eins og þessum en standa keikir við okkar gildi og grundvallaratriði stjórnarskrár landsins um atvinnufrelsi. 

En er ekki annars skrýtið að þessi mótmæli kvikmyndafólksins skuli koma einmitt í dag þegar spurningin er um að ráðherra framlengi ekki geðþóttaákvörðun sína um veiðibann á hval. 

Skyldi þetta erlenda sjálftökulið kvikmyndanna eiga sér innlenda vitorðsmenn, þegar beygja á Ísland til hlýðni?


Vaxtaokur og dýrtíð

Afkomutölur viðskiptabankanna og ávöxtun eigin fjár þrátt fyrir ofurlaun og bruðl, sýna að bankarnir eru með óeðlilega háa vexti og óeðlilega mikinn vaxtamun. Ástæða þess er takmörkuð samkeppni og skortur á aðhaldi.

Þegar um takmarkaða samkeppni er að ræða ber ríkisvaldinu að gæta hagsmuna neytenda bæði sparifjáreigenda og lántakenda, en það gerist ekki og enn og aftur bregðast stjórnvöld neytendum. 

Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands eiga ekki að leiða  til hærri vaxta bankanna eða meiri vaxtamunar en sem því nemur. En íslensku bankarnir hafa alltaf kunnað það fag með miklum ágætum, að nýta hækkun stýrivaxta til að taka meira af kökunni til sín en eðlilegt er. 

Sé vilji fyrir að ná verðbólgunni niður, þá þarf að bregðast við á öllum sviðum til að stöðva það gegndarlausa okur sem viðgengst í þessu þjóðfélagi einkum þar sem samkeppni er takmörkuð.

Af hverju virkja stjórnvöld ekki almannasamtök eins og Neytendasamtökin og fleiri með myndarlegum fjárframlögum, til að sinna því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki að berjast gegn verðbólgu og fyrir eðlilegum viðskiptaháttum? Það kostar minna og er þjóðhagslegra hagkvæmara en að láta einokunarfyrirtækin og okrið vaða yfir samfélagið.  

 


Gölluð vara í boði ríkisstjórnar og olíufélaga.

Allir söluaðilar bensíns tilkynntu, að þeir hygðust hefja sölu á gölluðu bensíni. Bensínið er blandað etanoli, orkan er minni og veldur skemmdum á vélum bíla. Gölluðu vörunni á að troða upp á neytendur hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Á sama tíma og olíufélögin hefja sölu á gallaða bensíninu er venjulegt bensín tekið af markaðnum og er ekki í boði lengur. Neytandinn fær ekki sjálfur að velja. 

Einokunarkaupmennirnir á 18.öld voru frægir fyrir að selja maðkað mjöl. Nú hafa olíufélögin ákveðið að feta í fótspor þeirra. 

Af hverju fá neytendur ekki sjálfir að ráða hvort þeir vilja venjulegt bensín eða þetta lélega? Af hverju eru olíufélögin og ríkisstjórnin að svindla á neytendu og koma í veg fyrir valfrelsi þeirra með þvingaðri neyslustýringu.

Er einhver furða þó mörgu Sjálfstæðisfólki þyki lítið leggjast fyrir forustu flokksins í ríkisstjórn þegar frelsinu og almennum markaðslögmálum er vikið ítrekað til hliðar og víðtæk neyslustýring er tekin upp?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 115
  • Sl. sólarhring: 838
  • Sl. viku: 2501
  • Frá upphafi: 2294052

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 2277
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband