Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Góða stríðið

Aðgerðir sem gátu virst skynsamlegar í Washington og Whitehall reyndust fljótlega vera hræðilega kjánalegar og rangar á svæði þar sem jafnvel menntamálaráðherrann var ólæs. Þetta kemur m.a. fram í bók Jack Fairwather fyrrum blaðamann á Daily Telegraph og Washington Post um Afganistan stríðið "The good war. Why we could not win the war or the peace in Afganistan."

Í 9 ár voru herir Bandaríkjanna, Breta og fleiri í Afganistan. Billjónum dollara var eytt í aðstoð við landið. Hvaða áhrif hafði þetta svo allt saman?

Fairweather segir frá því hversu ruglað þetta var. Hroki og vanþekking helstu herveldanna (UK/USA) hafi komið fram aftur og aftur. Þess vegna hafi innrásarveldin misst af tækifærinu til að komast að samkomulagi um friðsamlega lausn. Hann segir að margir leiðtogar Talibana hafi strax árið 2001 viljað semja, en Bandaríkjamenn hafi hafnað því og það hafi tekið þau um áratug að átta sig á að einhverskonar friðarsamningur væru eina leiðin til að ná árangri.

Sagt er frá því hvernig Talíbanarnir styrktust með árunum og stríðsherrarnir í borgunum hafi náð völdum á nýjan leik og spilling aukist. Spilling varð gríðarleg ekki bara vegna opíum sölunnar heldur líka vegna billjóna dollara styrkja frá Bandaríkjunum sem oftar en ekki lentu í vitlausum höndum enda eftirlit bágborið.

Bandaríkjamenn misstu 2.353 hermenn fallna og Bretar 453. Þessir ungu menn voru fórnarlömb fáráða sem stjórnuðu ríkjum þeirra og skipulögðu hernaðaraðgerðir og billjóna dollara styrkveitingar. NATO hermennirnir voru á fölskum forsendum andstætt stofnskrá NATO og þeir voru líka fórnarlömb fáráða við stjórn ríkja sinna.

Skilningur á aðstæðum er forsenda þess að afkipti af erlendum ríkjum beri árangur og menn verða að gera sér grein fyrir takmörkunum þess að senda her segir Fairweather. Bandaríkin og Bretar ættu að hafa þetta í huga áður en þeir valda meiri skaða í heiminum.

Væri ég Bandaríkjamaður þá væri mér sem skattgreiðenda og hugsanlega foreldris hermanns sem hefði fallið algjörlega misboðið. Ég mundi krefjast þess að friðarverðlaunahafinn Obama, Bush jr. og fleiri yrðu dregnir til ábyrgðar. Ég myndi styðja Ron Paul sem og son hans en þeir eru einu málsmetandi stjórnmálamenn í Bandaríkjunum sem hafa allt tíð verið á móti þessum stríðsaðgerðum og talað af skynsemi. 

Þess vegna eru þeir stimplaðir hægri öfgamenn í Bandaríkjunum.

 


Pólitískt nýmál.

Við sem erum fædd um og fyrir miðja síðustu öld eigum stundum erfitt með að átta okkur á að orð sem hafa verið okkur töm eins og öðrum af okkar kynslóð flokkast nú sem dónaleg, óviðurkvæmleg, særandi og jafnvel niðurlægjandi.

Nokkrir hafa farið hamförum yfir því að ritstjóri Morgunblaðsins skuli ekki hafa tileinkað sér pólitískt nýmál og sagt múlatti um mann sem á svartan fyrirgefið litaðan nei fyrirgefið aftur negra ó nei, nei  nú sagði ég eitthvað ljótt og meiðandi. Alla vega var verið að tala um Obama sem á föður fæddan í Afríku og er ekki með sama litarhátt og móðir hans sem hefði verið hægt að segja fyrir 20 árum að væri WASP, en Guð veit hvort það er réttlætanlegt í dag. Leyfir pólitískt nýmál að tala um hvítt fólk eða á að segja eitthvað annað. Má e.t.v. ekki tala um litarhátt lengur?

Tíu litlir negrastrákar gengur alls ekki lengur. Ég er búinn að stinga þeirri bók efst úti í horni á barnabókaskápnum svo barnabörnin rekist ekki á þetta subbulega heiti og fari að bulla einhverja vitleysu. 

Í bók sinni 1984 skrifar George Orwell um alræðisríkið þar sem tekið var upp pólitískt nýmál og þar segir: "Ætlunin var að þegar Nýmál hefði verið tekið upp og Gamalmál gleymt að þá væru trúvillukenningar óhugsanlegar alla vega að því leyti sem orð tækju til þeirra."

Á grundvelli pólítísks nýmáls má ekki segja neitt ljótt og mynd Clint Eastwood sem hét á sínum tíma "The good, the bad and the ugly."  Heitir í dag "The good, the client of the correctional system and the cosmetically different."

Nú er engin leiðinlegur heldur öðruvísi áhugaverður. Feitabolla er ekki lengur til heldur maður með annað vaxtarlag. Harmur mikill verður síðan kveðinn að hagfræðinni því nú má ekki segja lengur að maður sé fátækur heldur hagrænt fórnarlamb.  Spurning hvað við fáum lengi að halda órökræna nýyrðinu áfallastreituröskun sem fellur  þó einkar vel að ruglhyggju pólitíks réttmáls.

  


Opinberanir Steingríms J.

Steingrímur J. Sigfússon hefur gefið út opinberanir sínar um verk sín. Fáum sýnist þessar opinberanir vera í ætt við heilagan sannleika og frekar að þær hafi fengið innblástur og fullkomnun  með sama hætti og söngvar Satans hjá spámanninum Múhammeð.

Flokksbróðir Steingríms og baráttufélagi til langs tíma hefur stigið fram og gert athugasemdir við opinberun í bók fyrrum fóstbróður síns og sama er með Jón Bjarnason fyrrum liðfélaga Steingríms.

Svo mikið var Steingrími J í mun að losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn að eigin sögn að hann bauð honum embætti forseta Alþingis bara ef Jón vildi fara úr ráðherrastól.  En Steingrímur hafði ekkert vald á að bjóða Jóni forsetastólinn eftir því sem þáverandi forseti Alþingis hefur upplýst. Svo virðist því sem Steingrímur hafi ætlað að plata Jón Bjarnason með því að lofa honum einhverju sem hann gat aldrei staðið við.

Athyglisvert að þessi sami Steingrímur J. sem gaf innihaldslaus loforð og hagar sannleikanum eins og honum hentar hverju sinni,  hamaðist í því að sérstök siðfræðinefnd starfaði við hlið Rannsóknarnefndar Alþingis til að fjalla um siðferði í íslenskum stjórnmálum o.fl.  Ef til vill er þar komin enn ein sönnunin fyrir mikilvægustu sálfræðikenningum Sigmund Freud.


Hvað kostar bókin.

Í bókabúðum og stórmörkuðum landsins svigna borð undan þeim tæplega 1000 bókum sem gefnar eru út fyrir þessi jól. Bóksala er mjög takmörkuð nema bara í desember. Þess vegna er rangt að við séum bókaþjóð. Við erum bókagjafaþjóð. 

Mér virtist sem verð á ýmsum þýddum skáldverkum væri um 5.000 krónur. Sumar dýrari aðrar ódýrari. Aðrar bækur almennt dýrari. Hægt er að deila um hvort það er dýrt eða ódýrt. Hitt er ljóst að fæstir höfundar fá lágmarkslaun fyrir vinnu sína við samningu og frágang bóka sinna. Hönnun, umbrot, pappír, prentun og markaðssetning kostar sitt. Bókagjafaþjóðin gefur nefnilega innbundnar bækur. Þegar allt kemur til alls þá eru bækur sennilega ekki dýrar miðað við tilkostnað.

Í gær keypti ég tvær bækur inn á lestölvuna mína frá Amason. Að sjálfsögðu fara þær ekki í bókahillur eða verða gefnar. Komnar hingað í bókabúðir innbundnar hefði hvor um sig sennilega kostað nálægt 10 þúsund krónur og því prýðis jólagjöf. Kostnaður minn var þó rétt um 2.000 íslenskar krónur fyrir báðar bækurnar eða innan við helming af þýddri, innbundinni spennusögu í bókabúð í Reykjavík.

Spurning er þá hvað er dýrt og hvað er ódýrt og hvernig ráðstafar neytandinn peningunum sínum sem best.


Þjóð í hafti

Fyrir tæpum aldarfjórðungi vakti athygli mína bókin "Þjóð í hafti" eftir Jakob F. Ásgeirsson. Með skýrum og einföldum hætti sagði höfundur sögu viðskiptahafta og tefldi fram rökum frelsisins gegn ríkisafskiptum, bönnum og haftabúskap. Jakob markaði sér þá stöðu sem víðsýnn, rökfastur og einlægur hugsjónamaður fyrir málstað hinna gömlu gilda Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins.

Um árabil hefur Jakob haldið úti ritinu Þjóðmál, besta og iðulega eina tímaritinu hér á landi, sem berst fyrir málstað takmarkaðra ríkisafskipta, frelsi einstaklingsins og gegn spillingu í þjóðfélaginu.  Þrautseigja og dugnaður Jakobs F. Ásgeirssonar hefur gert útgáfuna mögulega ásamt bókaútgáfu þar sem ýmis tímamótarit eru gefin út um pólitík, heimspeki og trúmál m.a. rit Benedikts páfa um líf Jesú.

Jakob berst með pennanum fyrir frelsið og hefur gert það með afgerandi hætti í langan tíma.

Jakob gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hefur gert að vígorðum sínum m.a. "traust, ábyrgð og ráðdeild."  Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn eigi sjálfur að hafa frumkvæði að því að setja frelsinu nauðsynlegar skorður þannig að siðblindir einstaklingar misnoti það ekki.  Einnig á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi um of samsamað sig sérfræðiálitum og öflugum hagsmunasamtökum og  það sé lífsnauðsyn að færa Sjálfstæðisflokkinn aftur til almennings og gera hann á ný að brjóstvörn einstaklinga og smáfyrirtækja gagnvart stórhagsmunum og alltumlykjandi ríkisvaldi.

Jakob hefur verið trúr hugsjón sinni og barist fyrir henni með kyrrlátum en beittum  hætti. Jakob er hins vegar ekki maður sem lætur mikið á sér bera í fjölmiðlum eða fer fram með gaspri og svigurmælum eins og því miður tíðkast of mikið í þjóðmálaumræðunni og fleytir fólki stundum langt í prófkjörum.

Nú reynir á Sjálfstæðisfólk að tryggja endurnýjun á framboðslistum flokksins og veita þeim mönnum sérstaka athygli og brautargengi sem hvergi hafa hvikað frá grundvallargildum Sjálfstæðisflokksins um víðsýnan, frjálslyndan hægri flokk gegn spillingu en fyrir réttlátu framsæknu þjóðfélagi.

Jakob F. Ásgeirsson er sá frambjóðandi, sem hvað fremst hefur staðið í þeirri málefnabaráttu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf öflugan málsvara sem þekkir vel grunngilda hugmyndafræðinnar, virðir þau og berst fyrir þeim. Hann þarf okkar stuðning til að sjónarmið hans fái aukið vægi í Sjálfstæðisflokknum


Vesalings prófessorinn.

Sumir róttækir vinstri menn eru svo illa haldnir af mannfyrirlitningu gagnvart  þeim sem eru á öndverðum meiði við þá í pólitík að þeir mega ekki heyra af mannkostum þeirra án þess að hreyta í þá ónotum. Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands er einn þessara manna.

Í gær benti ég á bók sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaðu um hana og þær fallegu lýsingar sem hann gaf af henni sem umhyggjusamri og góðri konu. Konu sem hugsaði vel um starfsfólkið sitt.

Þetta var of mikið fyrir Stefán Ólafsson sem í blindu ofstæki hefur fundið út að skrif mín um Margaret Thatcher stafi af meiriháttar plotti frjálshyggjumanna. Auk þess sem fátækt barna sé sópað undir teppið. Þau tilþrif prófessorsins eru þess eðlis að ég hlakka til að svara honum hvað það varðar. Ég mun gera það fljótlega með grein í Morgunblaðinu.

Prófessorinn finnur það út í sínum tryllta pólitíska hugarheimi að ég sé að hippavæða frjálshyggjuna með þessum skrifum og kasta sauðagærunni yfir gráðuga fjárglæfrafólkið sem í mér og öðru markaðshyggjufólki búi. Mig skorti hugmyndaflug til að átta mig á þessu alheimsplotti mínu, sem Stefán Ólafsson telur sig hafa afhjúpað.

Af tilliti til andlegrar og pólitískrar heilsu Stefáns Ólafssonar prófessors mun ég láta hjá líða um stund að benda á hvað Ronald Reagan var einstaklega vænn maður og vandaður til munns og handa.


Umhyggjusama járnfrúin

Margaret Thatcher fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands er einn merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar. Hún barðist m.a. fyrir lækkun skatta, minni ríkisútgöldum og ríkið eyddi ekki um efni fram. Meðan hún var við völd sóttu vinstri menn í Bretlandi og víðar hart að henni. Hún varð tákn baráttunnar gegn vinstri öfgunum sem því miður hafa tekið völdin víða í Evrópu og stefna hverju þjóðfélaginu á fætur öðru í gjaldþrot.

Margaret Thatcher sagði oft "The problem with socialism is that in the end you run out of other peoples money".

Myndin sem búin var til af Margaret Thatcher af vinstri mönnum var sú að hún væri hörð, ósveigjanleg og frek. Þessi afskræmda mynd var að verulegu leyti tekin upp í kvikmyndina sem átti að vera um hana, en sýndi aðallega gamla konu sem þjáðist af elliglöpum.

Þessi mynd af Margaret Thatcher er röng. Fólk sem var í nánu samneyti við hana lýsir henni sem umhyggjusamri og tilfinningaríkri konu. 

Í bók sem Barry Stevens fyrrum lífvörður hennar skrifar kemur fram að Thatcher sýndi fólki sem vann hjá henni mikla umhyggju og gerði margt sem fáum hefði dottið í hug að forsætisráðherra Breta mundi nokkrum sinnum gera. Bókarhöfundur lýsir því að Thatcher hafi m.a. sjálf gætt þess að starfsfólkið fengi að drekka og borða og ekki vílað fyrir sér að fara á fjórar fætur til að hreinsa hundaskít af skóm lífvarðar sem varð fyrir því óhappi að stíga á slíkt rétt fyrir utan Downing stræti 10.

Lýsing lífvarðarins sem var ekki stuðningsmaður Thtacher í upphafi á því hvað hún lét sér umhugað um starfsliðið hefði það eins gott og unnt var þegar þau þurftu að vera með henni á hátíðisdögum er mjög athyglisverð. Enda segir Barry Stevens að hún hafi sýnt starfsliðinu svo mikla móðurlega umhyggju að hann hefði ekki hikað við að standa í skotlínunni til að vernda hana ef á þyrfti að halda.

Oft er dregin upp röng mynd af þeim einstaklingum sem vinna iðulega vanþakklátt starf í þágu fjöldans. Það á við um Margaret Thatcher og marga aðra stjórnmálamenn sem skara fram úr og láta ekki feykja sér til eftir því hvernig fjöldinn hrópar hverju sinni og vindurinn blæs.

Gera þarf nýja og raunsanna kvikmynd um Margaret Thatcher. Draga þarf fram hvað hún kom mörgu góðu til leiðar og leiddi Bretland út úr kreppu og stjórnleysi.


Tungumál og bækur

Bækur og bóklestur er forsenda kröftugs og lifandi tungumáls.

Lestur ritaðs máls á blöðum minnkar. Fólk sækir í auknum mæli fréttir, fróðleik og afþreyingu á netmiðla og tölvurit. Þessi þróun er bara á byrjunarstigi. Fullkomnari og fullkomnari lestölvur verða til.

Lestölvan er handhægari og léttari en hefðbundar bækur. Bækurnar sem keyptar eru á lestölvuna eru mun ódýrari og  koma strax og pöntun er staðfest. Ekki þarf að bíða í biðröð.

Á síðasta ári telst mér til að hafa keypt 17 rafbækur. Heildarkostnaður er um 23.000 krónur. Þessar bækur keyptar hér hefðu kostað yfir 100 þúsund krónur. Segir þetta einhverja sögu?

Þróunin bíður upp á möguleika og nú skiptir máli fyrir okkur sem viljum vernda tunguna að taka myndarlega á og tölvubókarvæða það sem gefið er út og hefur verið gefið út á íslenskri tungu. Ef vil vill missir einhver spón úr aski sínum við það. En aðrir spónar koma þá í staðinn.

Framrás tækninnar verður ekki stöðvuð.    Vefarar í Bretlandi gátu ekki sigrað saumavélina.


Rafbækur og íslenskt mál

Samningur um útgáfu íslenskra rafbóka var undirritaður í gær. Á morgun er dagur íslenskrar tungu. Það hefði verið gaman að samningurinn hefði verið gerður þann dag.

Rafbækur munu í vaxandi mæli koma í stað pappírsbóka. Kostirnir við rafbókina eru margir m.a. að hægt er að vera með þess vegna 1000 bækur í lítilli lestölvu. Bókapöntun er afgreidd samstundis og rafbókartölvan er léttari en pappírsbókin.  Samt erum við bara á upphafstíma rafbókarinnar.

Rafbókin er líka umhverfisvænni en pappírsbókin.

Ég hef notað næst einföldustu gerð af Kindle lestölvu í rúmt ár. Hægt er að nota þá leturstærð sem hver kýs. Algengt verð á rafbókum er um eða undir 1000 krónur. Þegar bók Alistair Darling "Back from the brink" kom út keypti ég hana og byrjað að lesa á Kindlinum á sömu klukkustund og hún kom út.

Sé það vilji stjórnvalda að styðja íslenskt mál og málkennd þá er ljóst að okkar fámenna málsvæði verður að bregðast við rafbókinni með því að auðvelda útgáfu rafbóka á íslensku.


Tómarúm í miðborginni

Miðborg Reykjavíkur er fátækari eftir að bókabúð Máls og menningar lokaði.  Það var ekki að ástæðulausu að bókabúðin var valin ein af bestu bókabúðum í Evrópu.  Bókabúðin var kærkomin menningarleg vin í þessari miðstöð Mammons í Reykjavík.

Sú var tíðin að bókabúð Máls og menningar var merkisberi ákveðinnar pólitískrar hugmyndfafræði sem mér hefur alltaf verið í nöp við. Samt sem áður var gott að koma í búðina til að ná í bækur sem gátu nýst í baráttunni gegn þeim sem aðhylltust þau sjónarmið sem bókabúð Máls og menningar stóð fyrir.

Það var ef til vill kaldhæðni örlaganna að síðasta bókin sem ég keypti í bókabúð Máls og menningar var bók um ógnarstjórn kommúnista í Norður Kóreu. Þannig geta hlutirnir og tilgangurinn breyst í tímans rás. Bókabúðin varð fyrir löngu góð bókabúð án sérstakrar skírskotunar til þeirrar helstefnu sem margir af stofnendum hennar vildu að hún héldi á lofti.

Lokun bókabúðar Máls og menningar leiðir hugann að tvennu. Í fyrsta lagi að því að á Íslandi ríkir ekki eðlileg samkeppni lengur í verslun, m.a. vegna ríkishafta og afskipta en þó meir vegna stórreksturs banka og  fjármálafyrirtækja. Ójöfn barátta Máls og mennigar gegn ofurvaldi bankarekinna samkeppnisaðila varð bókabúðinni m.a. að falli. Það er enn kaldhæðni örlaganna að fall bókabúðarinnar megi rekja til skorts á samkeppni. Bókabúðin barðist einmitt gegn markaðs- og samkeppnisþjóðfélaginu í árdaga.

Í öðru lagi þá leiðir maður hugann að því hver verður framtíð hefðbundinna bókaverslana. Eins gaman og mér þykir af bókum og bóklestri þá á ég stöðugt minna erindi í bókabúðir vegna þess að nú er einfaldara og ódýrara að kaupa erlendar bækur á netinu. Tölvubókin er síðan enn ein bylting sem hlítur að hafa mikil áhrif. Í dag kaupi ég bók á Amason lestölvuna mína og hún er tilbúin til lestrar innan 5 mínútna frá því að ég ýtti á takkann um að kaupa bókina.

Unnendur bóka og bóklestrar verða að leiða hugann að því hvernig á að bregðast við í breyttum heimi bókarinnar. Ef að líkum lætur  mun frjálsi markaðurinn finna sér eðlilegan farveg í þessu efni ef hann fær þá að vera til í þessu sérkennilega miðstýrða Hörmangaraveldi viðskipta á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 398
  • Sl. sólarhring: 1287
  • Sl. viku: 6043
  • Frá upphafi: 2276681

Annað

  • Innlit í dag: 378
  • Innlit sl. viku: 5616
  • Gestir í dag: 370
  • IP-tölur í dag: 366

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband