Leita í fréttum mbl.is

Mokað í flórinn

Einu sinni var viðmiðun í frjálsum atvinnurekstri að eigendurnir bæru ábyrgð á rekstrinum. Nytu arðsins ef vel gengi, en töpuðu ef illa gengi. Önnur viðmiðun varð upp úr 2002. Þá tóku eigendur margra  fyrirtækja arð út úr þeim jafnvel þó að fyrirtækin væru rekin með tapi. Óábyrg lánastarfsemi banka og vafasamar bókfærslur endurskoðenda urðu til þess að þetta leit vel út.

Nýlega benti Ólafur B. Thors fyrrverandi forstjóri Sjóvá-Almennra trygginga á með hvaða hætti fyrirtækið hefði verið rekið meðan hann hélt um stjórnvölin og lýsti furðu á því að þeir hlutir hefðu gerst sem gerðust í rekstri fyrirtækisins eftir það og hvað bæri að varast.

Ætla hefði mátt að einhver hefði lært eitthvað af öllu þessu en svo er ekki. Bent hefur verið á dæmi þar sem bankarnir fella niður milljarða skuldir en keyra aðra í þrot.  Í samræmi við það fyrirkomulag var eðlilegt að nútíma eigandi fyrirtækis skyldi flytja þessa ræðu (stílfærða) fyrir nokkru.

Það er ómögulegt að standa í einkarekstri meðan bankinn afgreiðir ekki hlutina. Það er gjörsamlega óviðunandi að þurfa að vera í þessari óvissu þegar maður er með yfir hundrað manns í vinnu. Við erum búin að bíða eftir aðgerðum bankans í tæp tvö ár. Þetta er óþolandi fyrir fyrirtæki sem veitir svona mörgum vinnu.

Af umræðum sem fóru fram í kjölfar þessarar orðræðu var ljóst að samúð þeirra sem tjáðu sig um málið var hjá þeim stórhuga athafnamanni sem þarna talaði og viðskiptabankanum var formælt.

Við skoðun á reikningum fyrirtækisins mátti sjá að fyrirtækið var rekið með glórulausu tapi undanfarin ár. Heildarskuldir þess eru  tveir milljarðar og tapið síðustu 3 ár nam rúmum milljarði. Samt höfðu eigendur fyrirtækisins tekið út 200 milljónir í  arð á sama tíma. 

Er það ekki einmitt svona svona fólk sem á að halda áfram að stjórna fyrirtækjum landsins?

Er ekki hin sanna markaðshyggja nútímans fólgin í því að allir beri ábyrgð aðrir en eigandinn og allir leggi fram fé í fyrirtækið nema eigendur? 

Yfirsást einhverjum eitthvað einhversstaðar í þessu þjóðfélagi?  Með því að halda svona starfsemi gangandi út og suður er þá ekki verið að moka í flórinn áfram í stað þess sem átti að gera?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Lög verður að setja um greiðslur á arð, þess efnis að prósenta arðgreiðslu takmarkist við prósentu hagnaðar af rekstri. Þá er ég að tala um hagnað af sjálfum rekstrinum, þannig að sala á eign komi ekki til greina sem viðmið, þó slíkt skapi hagnað á efnahagsreikningi.

Arðgreiðsla verði að sjálfsögðu ekki, ef enginn er hagnaðurinn.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 23.1.2011 kl. 22:01

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Meðan við vorum undir Dönum  vissu menn að eigin fé var skuld við hluthafa, þjóðina ef um stjórnsýsluna var að ræða. Má líka kalla fjöregg með það er óveðsett.

Hér voru lög þar sem lykilaðilar í hlutafélögum, máttu ekki bera fyrir sig til afsökunar, vanþekkingu á lögum sjálfum. Ekki til að veita afslátt frá eðlilegri refsingu.

Í Finnlandi fóru siðspilltu fjármálamennirnir úr landi, hér fer vsk liðið fyrst úr landi og að vísu topparnir sem hirtu mest. 

Goodwill, er það sjálfsálit?

Ég tel það einkennast fyrst og fremst af lítill starfsmannaveltu, í rekstri sem tjaldað lengur en til 5 ára. Ánægðum viðskiptavinum.  

Júlíus Björnsson, 24.1.2011 kl. 03:23

3 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu á það að vera þannig. En er ekki aðalatriðið Einar Björn að þeir sem hafa rekið fyrirtækin sín í glórulaust þrot verði látnir taka afleiðingunum?

Jón Magnússon, 24.1.2011 kl. 09:59

4 Smámynd: Jón Magnússon

Eignfærður Good-Will upp fyrir öll eðlileg mörk er arfablómið í kálgarði íslenskra endurskoðenda síðustu árin og hefur unnið til sérstakra heiðursverðlauna á hverju ári.

Jón Magnússon, 24.1.2011 kl. 10:01

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hverskonar afleiðingum?

Það mætti hugsa sér lagasetningu t.d. að þér sé heimilt að stýra rekstri í gjaldþrot tvisvar á 10 árum. Í þriðja sinn fáir þú 10 ára bann við því að koma nokkuð nærri stjórnun á rekstri.

Slík regla ætti að duga til að taka út þá sem eru að stóla á kennitöluflakk, en samtímis nægilega sveigjanleg til að aðilar geta eftir sem áður tekið eðlilega áhættu - ekki er refsað fyrir einskæra óheppni eða að rekstur var hafinn af einhverjum frumkvöðli en sá náði ekki endum saman, eftir allt saman.

Einhver sem verður gjaldþrota þrisvar á 10 árum, sennilega á ekkert erindi með það að stunda rekstur.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 24.1.2011 kl. 13:25

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég hef það eftir ábyggilegum heimildum að löngu útskrifaðir viðskiptafræðingar kaupi sér tíma í grunnbókhaldi og séu mjög sáttir við kennsluna.

Er ekki best að flýta sér hægt og krefjast, ágætis bókhaldskunnáttu hjá viðskiptatengdum aðilum fyrir útskrift úr æðri menntastofnunum. 1000 tíma verklegri heimavinnu t.d. 

Ég lærði mest í bókhaldi af því að færa það sjálfur í 3 ár. Þar sem ég var eigandi komast ég að því að einfalt vel sundurliða tvíhliða bókhald, sem færst samstundis var arðbærast á langtíma forsendum.

þá veit maður líka hverju maður á von á fyrir endurskoðun eða staðfestingu á efnahagsreikningi af löghæfum aðila.

Júlíus Björnsson, 24.1.2011 kl. 17:56

7 Smámynd: Jón Magnússon

Er ekki einfaldast Einar að hafa engar reglur um það. Ef þeir sem verða gjaldþrota hafa lánstraust þá það. Stundum mistekst mönnum og geta gert góða hluti síðar eins og t.d. Thor Jensen sem fór 3 á hausinn.  Ég held að þeim mun einfaldara regluverk og það að brýna það fyrir öllum að hver beri ábyrgð á sjálfum sér sé betra en þessi ofstjórnun sem engu skilar nema hagræðingu fyrir ryksuguskrýlinn í efnahagslífinu.

Jón Magnússon, 24.1.2011 kl. 22:44

8 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt hjá þér Júlíus það er best ef menn eru með alvöru rekstur og alvöru viðskipti, en ekki loft.

Jón Magnússon, 24.1.2011 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 119
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 4355
  • Frá upphafi: 2291374

Annað

  • Innlit í dag: 108
  • Innlit sl. viku: 4014
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband