Leita í fréttum mbl.is

Skuldaleiðrétting, stjórnarsáttmáli og undanhlaupsmenn

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22.5.2013 segir m.a.

" Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum."

Stjórnarsáttmálinn var samþykktur af flokksráði Sjálfstæðisflokksins nokkru síðar. Ekki minnist ég þess að nokkur þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði neitt við stjórnarsáttmálann að athuga en hafi allir fúslega greitt atkvæði með honum.

Það skýtur því skökku við þegar formaður Sjálfstæðisflokksins leggur fram stjórnarfrumvarp um leiðréttingu verðtryggðra skulda í samræmi við stjórnarsáttmálann að þá skulu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þeir Pétur Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason hlaupast undan merkjum og hafa allt á hornum sér varðandi frumvarp formannsins sem er þó í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann.

Þó vissulega beri að virða rétt þingmanna til að hafa sínar sérskoðanir og þjóna lund sinni eftir atvikum þá verður samt að gera þá kröfu í borgaralegum flokki að menn standi við samninga og fylgi því sem þeir hafa skuldbundið sig til að gera á kjörtímabilinu.

Það skiptir máli að vel takist til um skuldaleiðréttingu fyrir heimilin í landinu. En það er ekki nóg. Það verður að taka verðtrygginguna af eldri lánum sem allra fyrst. Annars mun nýtt verðbólguskot kaffæra heimilin á nýjan leik og færa fjármálastofnunum eignir fólksins á verðtryggingarfatinu eins og svo oft áður. 

Jafnræði og réttlæti  í þjóðfélaginu byggist ekki á einhliða rétti fjármálastofnana til að arðræna fólkið í landinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Samála, það mikið samála að ef ekki verður tekið á verðtryggðum lánum með afnámi verðtryggingar þá verðum við að steypa stjórnini. Kjósa upp á nýtt án aðkomu flokkræðis!

Sigurður Haraldsson, 9.4.2014 kl. 21:50

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón. Þarna ert þú að snúa út úr málflutningi Jóns og Péturs. Eins og sést á tilvitnun þinni í stjórnarsáttmálann og einnig orð forráðamanna Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninganna þá snerist stjórnarsáttmálinn um leiðréttingu lána fjármagnaða með fé frá kröfuhöfum í þrotabú bankanna en ekki skattgreiðendum. Sú tillaga sem nú liggur fyri miðar við að þessi leið verði fjármögnuð með sköttum. Það verður því almenningur sem borgar. Þessi tillaga er því ekki í saræmi við stjórnarsáttmálann.

Þegar kemur að því að þetta er fjármagnað með sköttum þá kemur upp spurningin um það hvort þeim peningum sé vel varið. Það er þeim klárlega ekki í þessum tilfelli. Það er því ekki á nokkurn hátt verið að svíkja stjórnarsáttmálann með því að greiða atkvæði á móti þessari tillögu.

Ef leggja á álögur á skattgreiðendur til að greiða fé til valinna einstaklinga þarf að réttlæta slíkt með skýrum hætti. Til dæmis er hægt að rökstyðja það með því að þeir sem eigi að fá peningana hafi meiri þörf fyrir þá en þeir sem borga eða að það felist eitthverst réttlæti í slíkri tilfærslu á fé frá sumum heimilum til annarra. Þannig er það alls ekki í þessu tilfelli. Fæstar þeirra fjölskyldna sem eiga að fá þessa peninga eru í nokkrum vanda og flestar þeirra hafa hagnast á sínum húsnæðisviðskiptum því verðmæti þeirra íbðuða sem þeir keyptu fyrir lánsféð hefur hækkað meira en lánin þeirra. Það vantar því í flestum tilfellum öll rök fyrir því að láta önnur heimili greiða hlta af lánum þeirra.

Þessi aðgerð mun hækka vexti og því munu þau heimili sem skulda mikið í skammtímalánum og öðrum lánum með breytilegum vöxtum borga brúsann að mestu leyti. Það eru því þau heimili sem eiga í mestum vanda sem munu bera þyngri byrgðar því þau munu þurfa að taka stærri þátt í fjármögnun aðgerðarinnar en nemur því sem þau fá út úr aðgerðunum. Verði þessi þingsályktunartillaga að lögum mun hún því leiða til fjölgunar á gjaldþrotum heimila og fjölga þeim heimilum sem ekki eiga frir mat.

En hvað varðar verðtryggingu á þegar teknum lánum þá ættir þú sem lögfræðingur að vita það að einhliða afnám hennar af hendi löggjafans stenst ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Og sem lögfræðngur ættir þú að vita að þar með er sú leið lokuð fyrir Alþingi.

Sigurður M Grétarsson, 10.4.2014 kl. 22:14

3 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er ekki að snúa út úr neinu Sigurður. Það lá ljóst fyrir að þessi skuldaleiðrétting yrði fjármögnuð í gegn um ríkissjóð og þeir Pétur og Vilhjálmur gerðu sér jafn góða grein fyrir því og ég á þeim tíma sem þetta var samþykkt.  Ég geri almennt þá kröfu að athugasemd sé styttri en færslan sjálf en geri undantekningu í þessu tilviki.

Jón Magnússon, 11.4.2014 kl. 09:50

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jú það er alveg rétt að það stóð alltaf til að ríkissjóður yrði milliliðurinn. En hann átti að vera milliliðurinn milli lántaka og kröfuhafa í þrotabú bankanna sem áttu að borga brúsann bæði samkvæmt kosningaloforðum Framsóknarflokksins og samtkvæmt stjórnarsáttmálanum. En í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði milliliður milli lántaka og almennings sem þarf þá að borga brúsann.

Það að færa byrgðarnar af kröfuhöfunum yfir á almenning gerir það að verkum að hér er ekki um að ræða aðgerði samkvæmt stjórnarsáttmálanum og því eru engir þingmenn bundrir af honum varðandi stuðning við þessa risavöxnu tilfærslu frá sumum heimilum landsins til annarra heimila landsins. Þegar slíkt er gert er lágmarkskrafa að slík tilfærsla auki réttlæti eða leysi fleiri vandamál en hún skapar. Tillaga ríkisstjórnarinnar uppfyllir hvorugt silyrðið.

Sigurður M Grétarsson, 12.4.2014 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1663
  • Frá upphafi: 2291553

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband