Leita í fréttum mbl.is

Hvernig á að bregðast við hryðjuverkaárásinni?

Þrautþjálfaðir hryðjuverkamenn ráðast inn á ritstjórnarskrifstofu grínblaðsins Charlie Hedbo í París og myrða á annan tug manna. Hryðjuverkaárásin var það vel skipulögð að hryðjuverkamennirnir höfðu fest í minni nöfn og útlit þess fólks sem þeir ætluðu að myrða.  Þeir höfðu líka skipulagt flóttaleið, sem er óvanalegt af Íslömskum Jihadistum.

Þegar þeir komu út úr ritstjórnarskrifstofum blaðsins hrópuðu þeir "Við höfum hefnt spámannsins" og "Við drápum Charlie Hedbo"

Tilgangur árásarinnar er að vekja ótta fólks í Evrópu. Helst hinna talandi og skrifandi stétta og koma í veg fyrir að þetta fólk fjalli um eða gagnrýni Íslam eða setji fram skoðanir sem Íslamistunum er ekki að skapi. Þrátt fyrir góðan ásetning og samúðarmótmæli vítt og breytt um Evrópu þá munu hryðjuverkamennirnir samt ná ákveðnum árangri í þeim efnum því miður.

Hryðjuverkaárásin er grein af sama meiði og morðið á hollenska stjórnmálamanninum og andÍslamistanum Pim Fortyn fyrir nokkrum árum. Dauðadóm erkiklerksins í Íran yfir Salman Rushdie rithöfundi. Drápstilraunir gegn dönskum teiknara. Árásir á danska blaðið Jyllands Posten fyrir að birta myndir sem Íslamistum féll ekki í geð. Morðhótanir gegn Ali Hirsi Ali fyrrum þingmanni í Hollandi. Hryðjuverkaárásin á aðaljárnbrautarstöðinni í Madrid. Sjálfsmorðssprengingar í neðanjarðaletum í London, svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt þetta miðar að því að draga kjark úr þeim sem gagnrýna  miðalda- afturhaldshugsun Íslamskra Jihadista en sú hugsun beinist gegn einstaklingsfrelsi og mannréttindum.

Franska lögreglan hefur á undanförnum árum upplýst og komið í veg fyrir á annan tug ráðgerðra hryðjuverkaárása Íslamista en í þetta skipti tókst það ekki. Ekki frekar en þrjár aðrar hryðjuverkaárásir Jihadista að undanförnu í Frakklandi.  

Í framhaldi af þessari hræðilegu árás fékk Ríkisútvarpið  álit Eiríks Bergmann Eiríkssonar kennara og þekkts undansláttarmanns á eins og hann væri sérfræðingur í þessu. Eiríkur sagði að um væri að ræða tvö öfgalið í Evrópu annars vegar hryðjuverkamenn Íslamista og hins vegar lið sálsjúka norska morðingjans Breivik.

En heldur þessi kenning kennarans rökfræðilegu vatni?

Breivik og Oklahoma sprengimaðurinn á sínum tíma eru einstaklingar eða "lone wolves" eins og þeir eru kallaðir á engilsaxnesku sem eru ekki í neinu liði. Þeir eru fordæmdir af öllum öðrum en örfáum sem eru á sama andlega róli og þeir sem senda sálskjúkum morðingjum eins og t.d. Charles Manson kveðjur í fangelsi. Eiríkur Bergmann setur  hlutina í þetta samhengi til að draga athyglina frá því sem er raunverulega á ferðinni og finna afsökun fyrir þessari hryllilegu hryðjuverkaárás. Menn eins og Eiríkur reyna að girða fyrir skynsamlega umræðu um málefni sem er brýnt að sé rætt af alvöru og tæpitungulaust.

Í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu í dag segir Sigurjón M. Egilsson ritstjóri, "Hryðjuverkamennirnir eru hluti hóps ofbeldismanna sem ógna fólki víða"  Síðar segir "Múslimar munu eiga erfitt uppdráttar vegna þessa. Meðal okkar er fólk sem er tilbúið að hegna saklausu fólki" Þetta er ákveðinn mergur málsins. Í fyrsta lagi bendir ritstjórinn á að um er að ræða hluta hóps ofbeldismanna sem bregðast verður við og í annan stað að refsa ekki saklausum.

Að sjálfsögðu eru til milljónir góðra og velmeinandi játenda Múhameðstrúar. Það er fólk eins og við. En við eigum að fara fram á það og gera þá kröfu, að þeir komi til baráttúnnar gegn öfgamönnunum. Þá myndast engin önnur lið en lið þeirra sem vilja viðhalda mannréttindum og nútímaþjóðfélagi gegn liði dýrkenda miðaldamyrkurs, fáfræði, vanþekkingar og haturs á vestrænum mannréttindum og lífsháttum. Pakistanska stúlkan sem vann friðarverðlaun Nóbels er dæmi um Múslima, sem er skínandi ljós á svæði þar sem stór hópur karla vill viðhalda miðaldamyrkrinu og reyndi að drepa hana fyrir það eitt að sækja skóla.

Vara ber við fljótræðislegum refsiaðgerðum ríkisstjórna "a la" Bandaríkin. Það er vafalaust hægt að ná Baghdadi og drepa hann eins og Osama bin Laden. Það er hægt að senda ómannaðar drónur sem drepa jafnt seka sem saklausa, en eru það réttu leiðirnar? Útrýmum við hryðjuverkaógninni með því. Það er ekkert "quick fix" eins og Bandaríkjamenn mundu kalla það til varðandi þetta mál.

Gaumgæfa þarf aðgerðir til að koma í veg fyrir að nýir einstaklingar gangi öfgasamtökum á hönd. Það þarf að bregðast við hugmyndafræðinni og heimsmyndinni sem Jihadistarnir aðhyllast. Málið snýst um að vinna hugmyndafræðilega baráttu eins og lýðræðissinnar hafa áður þurft að gera gagnvart öfgaöflum eins og nasistum og kommúnistum. Á þeim grundvelli er hægt að vinna þessa baráttu með því að hvika hvergi hvað varðar lýðræðisleg gildi, einstaklingsfrelsi og mannréttindi.

Í tæpan áratug var stjórnmálamaður í Brelandi í hlutverki hrópandans í eyðimörkinni, þegar hann benti á, að sótt væri að frjálsri hugsun, lýðræði og mannréttindum af ofstopafullum hatursmönnum þeirra gilda. Eiríkar Bergmann þess tíma gerðu grín að þessum manni og drógu úr hættunni, sem varð þess valdandi að hildarleikurinn sem á eftir fylgdi varð enn ógurlegri en annars hefði verið. Þessi maður, Winston Churchill varaði við uppgangi nasista og hugmyndafræði þeirra meðan Bretar sváfu á verðinum og skildu ekki að um gríðarlega mikilvæga hugmyndafræðilega baráttu væri að ræða.

Við skulum ekki láta svæfingameistarana eða talsmenn vanhugsaðra hefndaraðgerða ná árangri. Það verður að bregðast við raunverulegri ógn af skynsemi með þeim eina hætti sem hægt er að vinna slíka baráttu.

Á grundvelli hugmyndafræðilegra yfirburða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Góð grein. Hvert orð eins og út úr mínu hjarta. Vert þó að vekja athygli á því að ofbeldi gegn múslímum á Vesturlöndum hefur verið afar sjaldgæft og engin ástæða til þess að gera ráð fyrir því núna frekar en endranær. Ofbeldið er nánast allt a hinn veginn. Sérstaklega verða gyðingar fyrir ofbeldisaðgerðum t.d. í Frakklandi og þá að sjálfsögðu af hálfu múslíma enda þeir farnir að flýja landið í stórum stíl eins og er að gerast víðar, - þekktast Malmö.

Valdimar H Jóhannesson, 8.1.2015 kl. 11:23

2 identicon

Auðvitað gæti kenning Eiríks Bergmanns gengið upp, ef við hofrum mjög þröngt á landakortið, dagatalið, og horfum bara á einangruð tilvik.
Þannig væri t.d. hægt að tengja atburðina í Frakklandi og Breivik saman.

En ef við víkkum þetta aðeins út, þá fellur þetta tal eins og spilaborg.
Anders Breivik var einn. Það voru engin samtök á borð við ISIS og Al-Qaeda á bakvið hann. Samtök með þúsundir, sennilegast hundruði þúsunda meðlima sem eru að gera nákvæmlega sömu hluti og gerendurnir í Frakklandi.

Það þarf óskaplega mikinn vilja til að horfa framhjá ástandinu í Sýrlandi, Írak, Jemen, Líbíu, Sómalíu, Nígeríu, Afganistan, og Pakistan, svo helstu átakasvæði tengd íslam eru nefnd, og horfa einangrað á atburði eins og í Frakklandi.
Átökin í hinum íslamska heimi eru tvennskonar, annarrs vegar átök á milli sunni og shia, og svo ofsóknir þeirrar greinar íslam sem hefur yfirhöndina í garð annarra minnihlutahópa, s.s. kristinna og gyðinga. Af tvennu illu, þá virðist það vera skárra að shia hafi yfirhöndina, enda líklegra að þeirra vald sé veraldlegra. En ólíklegt er að 15% shia hafi sigur að lokum gegn 85% sunni.

Atburðirnir í Frakklandi er einn hlekkur í langri keðju atburða, sem allir tengjast, og eiga að enda með yfirtöku íslam.

Vissulega eru flestir múslimar á vesturlöndum hófsamir, en það ber þess samt að geta, að afar stórir hópar, talað er um 20-50%, sem hafa samúð með öfgasamtökum, og aðhyllast Sharia. Málið er bara, að allstaðar þar sem róttækt íslam stingur sér niður, þar gefur hið hófsama eftir. Það hefur allstaðar gerst, undantekningarlaust.

Sem dæmi um ofangreint má nefna, að hinir s.k. hófsömu bandamenn vesturlanda í Sýrlandi, Frjálsi sýrlenski herinn, sem hefur boðað vernd á kristnum og öðrum minnihlutahópum, brenndu kirkjur og vanhelguðu kristnar grafir (eða gerðu ekkert til að varna því) þegar herinn náði tímabundið yfirhöndinni í bænum Kessab.
http://www.telegraph.co.uk/news/worldnews/middleeast/syria/11323109/Dispatch-Syria-rebels-burned-down-churches-and-destroyed-Christian-graves.html

Þetta er nú þegar orðið of langt, en gæti verið mun lengra og ítarlegra yfirlit yfir hversu skelfilega miklar rangfærslur og vanþekking felast í vörn Eiríks Bergmanns. Og reyndar í málatilbúnaði Ríkisútvarpsins, sem allur er á þá leið, að atburðirnir í Frakklandi megi alls ekki verða til þess að "hægri öfgamenn" nái ekki yfirhöndinni á vesturlöndum.

Hægri öfgamenn er heiti Ríkisútvarpsins yfir þá sem vara við yfirgangi íslam.

Hilmar (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 12:00

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég heyrði ekki viðtalið við Eirík Bergmann og get því ekki tjáð mig um hans afstöðu. Að öðru leiti er ég þér sammála um flest sem þú skrifar Jón. Ég vil þó leggja áherslu á það að öfgar sem birtast í árásum á múslima/moskur eru af sama meiði og hatursárásiröfgamannanna í París og æsingur íslenskra öfgamanna sem hatast við múslima er olía á eldinn.

Bush og Cheney fóru leiðina sem leiddi til meiri hörmunga og skerðinga á mannréttindum. Norðmenn svöruðu með öðrum hætti. Þeir sögðu; stöndum vörð um okkar lýðræði og það er rétta leiðin að mínu mati.

Það er sigur öfgaaflanna þegar við gefum eftir mannréttindi í nafni „öryggis“.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.1.2015 kl. 12:22

4 identicon

Þegar maður horfir á viðbrögð vinstrimanna, þá eru þau svona:
"Þetta er voða leiðinlegt, en ef Bush og Cheney hefðu ekki gert það sem þeir gerðu, og ef teiknarar hefðu nú bara tekið tillit til tilfinninga múslima...." Og síðan fylgja tilvísanir í gjörðir Breiviks.

Við á vesturlöndum getum sumsé kennt okkur sjálfum um. Við berum ábyrgð á morðum múslima. Og við verðum að tryggja, að enginn gangrýni íslam, því þá gerist þetta bara aftur. En við verðum náttúrulega að vernda lýðræðið og málfrelsið.

Fyrir hvern erum við að vernda málfrelsi og lýðræði, ef ekki má gagnrýna trúarbrögð ofbeldis?

Hilmar (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 14:05

5 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir það Valdimar. Það stafar almennt engin ógn af trúuðu fólki. Trúarbrögðin eru hins vegar iðulega notuð sem yfirvarp fyrir stríði og andskotahætti. Í umfjöllun á Vesturlöndum hafa menn verið átaldir fyrir að vera á móti Múhameðstrú þegar þeir andæfa Jihadistunum, en það er ekki þannig. Menn gleyma pólitísku hlið Íslam sem að hlítur að mega gagnrýna eins og aðrar pólitískar lífsskoðanir.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 14:51

6 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir gott innlegg Hilmar. Það er alveg rétt að fólk er stimplað sem öfgafólk ef það leyfir sér að ræða þessa hluti. Það er sú þöggun sem er hættulegust Vesturlöndum af því að þá fer engin opin vitræn umræða fram og raunverulegir öfgahópar taka forustuna.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 14:53

7 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er alveg sammála því Hjálmtýr og er ekki sáttur við hvernig Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafa spilað sínum spilum í utanríkis- og hernaðarmálum gagnvart Mið-Austurlöndum og Líbýu á þessari öld. Vanhæfir stjórnendur Vesturlanda hafa vissulega kynnt undir, en þetta er annað og meira. Raunverulegur djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur milli frelsis annars vegar og helsis Jihadistanna hins vegar.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 14:55

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki gleyma því Hilmar að meirihluti Þjóðverja var alltaf á móti nasistum, en þeir hreyfðu sig ekki eftir að Hitler tók völdin. Þannig er það nú með gott fólk að það reynir að komast hjá óþægindum lengur en lengstu lög ná til.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 15:01

9 Smámynd: Jón Magnússon

Já það er alveg rétt Hilmar þetta er skelfilegt viðhorf.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 15:05

10 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég tel það vera frumskilyrði að standa saman gegn þessum hryðjuverkamönnum. Það á að sjálfsögðu ekki að slaka á ritfrelsinu. En það má heldur ekki alhæfa um þá sem aæhyllast múhameðstrú. Þetta er ákveðinn hópur sem flestir múhameðstrúarmanna er ekki samþykkur. Það hafa verið haldnir mótmælafundir meðal múslima í Noregi og Þýskalandi gegn þessum hryðjuverkahópum og það besta sem við getum gert er að taka höndum saman við þessa mótmælendur og einangra þannig þessa hryðjuverkamenn. Það sem virðist vinsælast hér og í öðrum löndum er að setja allan hinn múslimska heim undir einn hatt en það viðhorf kemur seint með að skila árangri.

Jósef Smári Ásmundsson, 8.1.2015 kl. 16:25

11 identicon

Jón M, þú segir "Trúarbrögðin eru hins vegar iðulega notuð sem yfirvarp fyrir stríði og andskotahætti."

Já einmitt, en hvað gæti það þýtt í þessu samhengi? Getur verið að utanaðkomandi hópur - sem er jafnvel trúlaus - sé viljandi að nota þessa vel þekktu staðreynd til að búa til stríð?

Getur verið að það þurfi að skoða þetta meinta hryðjuverkastríð með þetta í huga, til að skilja vandamálið "Á grundvelli hugmyndafræðilegra yfirburða."?

http://www.informationclearinghouse.info/article29273.htm

Símon (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 19:26

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, góð er grein þín, nafni, þökk fyrir hana!

PS. Um hvaða "íslenzka öfgamenn sem hatast við múslima" er Hjálmtýr von Heiðdal að skrifa hér?

Jón Valur Jensson, 8.1.2015 kl. 20:35

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Maður sér víða á samfélagsmiðlum hvernig vinstri menn reyna að tengja/líkja/bera saman islamskar hryðjuverkaárásir í Evrópu og Breivik. 

Ég er næstum orðlaus. Annað hvort er þetta fólk forheimskt eða annarleg pólitísk sjónarmið ráða för, sem er undarlegt því það er engin win/win staða í því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 21:31

14 identicon

því miður er næstum alt sem kemur úr fjölmiðlum tóm lygi,maður er mikið nær sannleikanum þegar búið er að snúa fréttinni  a hvolf.ég raðlegg öllum her að slökkva a útvarpi og sjónvarpi og lesa ekki blöð.það er eina leiðin til að komast nær staðreyndinni

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 22:57

15 Smámynd: Jón Magnússon

Alveg sammála Jósef.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 23:31

16 Smámynd: Jón Magnússon

Nei Símon svona samsæriskenning er of langsótt í þessu tilviki.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 23:32

17 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir nafni. Ég veit ekki hvaða menn Hjálmtýr er að tala um þegar hann nefnir íslenska öfgamenn sem hatast við múslima.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 23:33

18 Smámynd: Jón Magnússon

Það er verið að reyna að drepa umræðunni á dreif Gunnar eins go Eíríkur Bergmann gerir. Hann er einmitt með þetta alltaf til samanburðar aftur og aftur og áttar sig ekki á því að það er ólíku saman að jafna. Þetta er dæmi um undanslátt sósíalista sem virðst ekki átta sig á öðrum mannréttindum en samkynhneigðra og múslima. Þeir reyna ítrekað að rugla umræðuna með allskyns undanslætti og bulli.

Jón Magnússon, 8.1.2015 kl. 23:36

19 Smámynd: Gunnlaugur I.

Takk fyrir mjög góða og fræðandi grein Jón Magnússon. Umræðan er líka upplýsandi og ég verð að hæla kommenti Hjálmtýs hér að ofan því að innlegg hans er án öfga eða gífuryrða og bendir til þess að það séu til skynsamir vinstri menn sem geta tekið umræðuna af viti og fordómalaust !

Við skulum líka hafa það í huga að Charlie var alltaf talið róttækt vinstra blað og ritstjórinn var hallur undir Franska Kommúnista - Íslenskir visntri menn gætu hér lært ýmislegt af frönskum skoðanabræðrum sínum sem hafa ekki fallið í gryfju meðvirkninnar gagnavart öfga Islamistum !

Gunnlaugur I., 9.1.2015 kl. 00:03

20 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Gunnlaugur þetta er hárrétt ábending hjá þér Charlie var talið og var vinstra blað, sem féll þó ekki í þá gryfju sem allt of margir sósíalistar hafa fallið í að loka augunum fyrir mannréttindabrot sem framin eru í nafni Íslam. Vinstri menn hér á landi mættu læra af þeim og við þessi tímamót þegar sótt er að tjáningarfrelsinu að standa í fæturna með mannréttindum gegn öfgum.

Jón Magnússon, 9.1.2015 kl. 09:53

21 identicon

Jón M, ég var ekki að tala um þetta einstaka tilvik, heldur þetta Sunni Wahhabisma hryðjuverka-net sem stendur á bak við þetta allt saman, hvort sem það er kallað AQ eða eitthvað annað.

Linkurinn sem ég skildi eftir fyrir þig var fyrir grein eftir Dr. Paul Craig Roberts, sem var efnahagsráðgjafi Reagans á sínum tíma, og tengiliður í leyniþjónustuna. Sem sagt hægrimaður úr innsta kjarna kerfisins í BNA.

Símon (IP-tala skráð) 9.1.2015 kl. 10:33

22 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir það Símon en ég kemst ekki inn á linkinn.

Jón Magnússon, 9.1.2015 kl. 13:40

23 identicon

Google leit: Dr. Paul Craig Roberts - Is The War On Terror A Hoax?

Ef þú klippir og límir eftirfarandi í Google leit þá ætti þetta að koma upp:

http://www.informationclearinghouse.info/article29273.htm

Símon (IP-tala skráð) 9.1.2015 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 536
  • Sl. sólarhring: 650
  • Sl. viku: 2922
  • Frá upphafi: 2294473

Annað

  • Innlit í dag: 499
  • Innlit sl. viku: 2666
  • Gestir í dag: 477
  • IP-tölur í dag: 462

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband