Leita í fréttum mbl.is

Guðlastið og hatrið.

Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir samhengi hryðjuverkaárásar Jihadistanna á blaðið Charlie Hedbo og 125.gr. almennra hegningarlaga á Íslandi um guðlast. Þingflokkur Pírata og Egill Helgason eiga því þakkir skyldar fyrir að leiða okkur í allan sannleika um raunverulegt orsakasamhengi þeirra hluta enda gildir hér hið fornkveðna. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Þingflokkur Pírata hefur tilkynnt að í tilefni árása og morða Jihadista á starfsfólki franska blaðsins Charlie Hedbo telji þeir rétt að 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast verði afnumin. Ekki verður alveg séð orsakasamhengið milli veru 125.gr. almennra hegningarlaga í löggjöf landsins og árásarinnar, en þar sem Egill Helgason pistlahöfunur hefur blessað þetta sem eitt mesta nauðsynjamál varðandi breytingar á löggjöf landsins af gefnu tilefni, þá hlítur svo að vera.

Hægt er að taka undir með Pírötum og Agli Helgasyni að þetta ákvæði í refsilöggjöf er óþarft og almenn æruvernd og friðhelgi einstaklinga og samtaka á að vera varin af almennum ákvæðum hegningarlaga. Það þarf því að skoða það mál í samhengi og hvort ekki sé rétt að breyta fleiru.

Í tilefni fréttatilkynningar Pírata um að þeir vilji afnema 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast þá er rétt að þeir gaumgæfi hvort ekki sé líka rétt að afnema 233.gr.almennra hegningarlaga svonefnt hatursákvæði.  Ekki verður annað séð en að blað eins og t.d. Charlie Hedbo hefði ítrekað gerst sekt um brot gegn þeirri grein almennra hegningarlaga ekki síður en 125.gr. almennra hegningarlaga.

Þó visst tilefni sé til að hafa bæði 125.gr. og 233.gr. almennra hegningarlaga þá vega almenn rök tjáningarfrelsis þyngra um að afnema beri þessi sérákvæði æruverndar enda eru þau fyrst og fremst notuð til að koma í veg fyrir eðlilega umræðu og kímni eins og leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á.

Gott mál afnemum hvorutveggja og miðum við að allir séu jafnir fyrir lögunum og njóti sömu æruverndar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Góður punktur Jón, auðvitað eru hatursákvæði takmörkun á tjáningarfrelsinu og Charlie Hadbo marg braut þau ákvæði.

Mofi, 9.1.2015 kl. 14:10

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þú segir það. Mér finnst nú ágætt að hafa það í heiðri að bera virðingu fyrir tilfinningum annarra hvort sem það snýst um trúar-, stjórnmála-, eða annarra skoðana. Hvort það á að beita refsilöggjöfinni eða hafa þetta sem óskráð lög er síðan álitamál. Sjálfur er ég ekki trúaður en það skiptir engu um mína afstöðu. En það má ekki nota þetta til að bera flak af þessum hryðjuverkamönnum. Ef linað er á málfrelsinu og ritskoðuninni þeirra vegna er að sjálfsögðu verið að styðja við þeirra málstað.

Jósef Smári Ásmundsson, 9.1.2015 kl. 14:58

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir það. Við eigum öll að vera jöfn fyrir lögunum sé glæpur framinn. Myndin verður bara gruggug þegar sérhópar hafa rétt umfram aðra.

Ragnhildur Kolka, 9.1.2015 kl. 15:30

4 Smámynd: Jón Magnússon

Takk Mofi.

Jón Magnússon, 10.1.2015 kl. 01:10

5 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér Jósef. Það gerði blaðið Charlie Hedbo ákkúrat ekki og mér geðjast satt að segja ekki að groddaralegum meiðandi húmor þeirra á köflum. En þá skulum við muna það sem franski heimspekingurinn Voltaire sagði: Ég fyrirlít skoðanir þínar en er tilbúinn til að fórna miklu svo þú fáir að halda þeim fram (eða þetta er alla vega eignað honum.)

Jón Magnússon, 10.1.2015 kl. 01:12

6 Smámynd: Jón Magnússon

Einmitt Ragnhildur og ef einhver þarf á æruvernd að halda þá er það einstaklingur en hópar og þjóðir þurfa þess ekki með sama hætti.

Jón Magnússon, 10.1.2015 kl. 01:12

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sjálfur bannar Egill fólk í stórum stíl á bloggi sínu og á Eyjunni. Engar lagalegar skýringar eru gefnar. Hann er kannski Guð?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.1.2015 kl. 07:08

8 Smámynd: Jón Magnússon

Nei Vilhjálmur það verður hver að ráða því. Sumir leyfa engar umræður. Ég hafna mjög fáum og aldrei ef það er málefnalegt. En ég geri það ef það snertir ekki efni bloggsins eða er meiðandi fyrir einhvern eða felur í sér aðdróttun.

Jón Magnússon, 10.1.2015 kl. 14:20

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Sjálfir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson og Mofi banna fullt af andstæðingum sínum og þola ekkert spaug, háð eða ígrundaða gagnrýni. Annar S.D. Aðventisti en hinn Gyðingur.

Fyrir 170 árum lét Jóseph Smith brjóta prentsmiðju í Nauvoo þar sem fyrrum Mormónar dirfðust að gagnrýna kauða fyrir fjölkvæni og fleiri loddarabrögð í kenningum sínum. Jóseph var ákærður fyrir eignaspjöll og aðför að ritfrelsinu og fangelsaður ásamt nokkrum fylgisveinum sínum.

Lýðurinn var óþolinmóður, réðist að lögreglustöðinni og skaut Jóseph til bana 10. júní 1844. Við söfnuði Mormóna tók Brigham Young sem flúði með liðið yfir ísi lagt fljótið í vesturátt og nam ekki staðar fyrr en hann kom að Salt Lake þar sem hann hélt áfram iðju fyrirrennara síns og eignaði sér 52 konur.

Baráttunni fyrir rit- og tjáningafrelsinu er hvergi nærri lokið.

Sigurður Rósant, 11.1.2015 kl. 01:37

10 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég sé að þú hefur ekki birt athugasemdir mínar frá því í gær, Jón Magnússon. Sjálfsagt má túlka þær sem meiðandi og fela í sér aðdróttun.

En athugasemd Vilhjálms hér að ofan er líka aðdróttun og felur í sér háð, þar sem hann gantast með sjálfsálit Egils og líkir því við að hann líti á sig sem Guð. Sem er kannski þitt álit líka?

En hvernig stendur á því að 233. gr. hegningarlaganna er túlkuð sem 'hatursákvæði' af sumum í stað 'hæðnisákvæði', 'rógsákvæði', 'smánunarákvæði' eða 'ógnunarákvæði'?

Ég get hvergi séð að ákvæðið taki á 'hatri' sem slíku.

233. gr. a. Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Sigurður Rósant, 11.1.2015 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 67
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 1728
  • Frá upphafi: 2291618

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 1553
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband