Leita í fréttum mbl.is

Kemur verðbólgan engum á óvart?

Verðbólga mælist nú meiri en verið hefur í tæpa 2 áratugi. Þessi verðbólga virðist ekki koma neinum á óvart miðað við að greiningardeildir bankanna höfðu sumar spáð meiri verðbólgu en skráð er. Þrátt fyrir Evrópumet í stýrivöxtum til að vinna gegn verðbólgu hefur Seðlabankinn aldrei náð verðbólgumarkmiðum sínum. Þvert á móti má færa rök að því að stefna Seðlabankans sé mikill orsakavaldur vandans nú og þess vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og síðustu ríkisstjórna, einkum skattastefnan og síaukin útþensla opinbera báknsins ásamt vanhugsuðum og allt of takmörkuðum aðgerðum Seðlabankans leiddi til hágengis, spennu í efnahagslífinu og mikillar einkaneyslu. Þjóðin verður nú að taka afleiðingum af þessari vitlausu stefnu. Það var alltaf ljóst að það mundi koma að skuldadögunum. Þrátt fyrir það markaði hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki neina stefnu um það hvernig bregðast ætti við þegar hágenginu yrði ekki lengur haldið uppi. Þegar skuldasöfnun þjóðarinnar gæti ekki haldið áfram og þegar verðbólgudraugurinn berði að dyrum.

Efnahagskreppur á Íslandi hafa hingað til stafað af lækkandi fiskverði og minnkandi sjávarafla. Nú er fiskverð hinsvegar í hámarki og útflutningsverðmæti haldast þrátt fyrir að heimilað sé að veiða minna en oftast áður. Efnahagskreppan nú er því af öðrum toga en áður. Hún er heimatilbúin. Hún er bein afleiðing hagstjórnarmistaka Seðlabanka og ríkisstjórna í rúman áratug.

Aukin umsvif og skattheimta hins opinbera er einn af helstu orsakavöldum þeirra efnahagsþrenginga sem við erum nú að ganga í gegn um. Það er því með ólíkindum að þrátt fyrir þetta og stöðugt vaxandi hlutar hins opinbera þá skuli talsmenn sósíalismans í Vinstri Grænum og Samfylkingunni nú kalla eftir enn meiri ríkisafskiptum og jafnvel þjóðnýtingu á kostnað skattborgaranna. 

Er ekki nóg komið af sósíalismanum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðasta áratug aukið útgjöld og umsvif hins opinbera þvert á stefnu sína? Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið skattheimtuna á launafólk í landinu en lækkað skatta þeirra sem best eru settir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sumum þjóðarauðlindir og selt öðrum rýmingarsöluverði.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig  stundað sósíalisma í anda sérkenninegrar frjálshyggju?

Væri ekki skynsamlegra að takmarka umsvif hins opinbera, lækka skatta og leyfa borgurum þessa lands að ráða meiru um fjármál sín. Er nokkur hætta á því að fólkið mundi stjórna fjármálum sínum verr en ríkið og Seðlabankinn hefur gert fyrir það?


mbl.is Verðbólga mælist 12,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þess vegna á Ísland að ganga í ESB. Það verður aldrei efnahagslegur stöðugleiki á þessu landi öðruvísi og almenningur mun áfram borga hæstu vexti í heimi auk verðtryggingar.  Það skiptir engu máli hvaða flokkar eru við völd hér. Þaraðauki er flest gott sem kemur frá Brussel.

Babbitt (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 11:12

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Jón

Ég er hjartanlega sammála þér um að minnka þurfi hinn opinbera geira og lækka skatta, sem enn eru í sögulegum háhæðum. Það er bráðnauðsynlegt. En það er erfitt að kenna ríkisstjórn alfarið um verstu alþjóða fjármálakreppu heimsins síðan 1930.

Seðlabanki Íslands á hrós skilið fyrir að vinna vel undir þessum kringumstæðum. Menn eiga eftir að skilja það seinna. Það er ekki hægt að segja annað en að það séu undur og stórmerki að krónan skuli hafa haldið þetta vel undir eftirtöldum kringumstæðum:

1) Íslendingar kynna nýjan gjaldmiðil fyrir umheiminum. Kynning hans er í umsjá alþjóðavæddum fjármálageira Íslands. Síðast þegar þetta skeði í Evrópu þá var það evra sem var kynnt fyrir umheiminum og hún féll álíka mikið eða yfir 30% án nokkurra sýnilegra framfara, ávinninga, aukinna fjárfestinga eða framkvæmda.

2) Heill nýr atvinnuvegur Íslendinga leit dagsins ljós, sem er alþjóðavæddur fjármálageiri og sem skilaði fyrsta íslenska fyrirtækinu innná NASDAQ-OMX-100 listann - þ.e. Kaupþing Banki er núna eitt af 100 stærstu fyrirtækjum á þessum lista.

3) Stærsta fjárfesting Íslandssögunnar fór fram.

4) Alþjóðlegt lánsfé var ódýrara en nokkurntíma áður síðan krónan var sett frjálst fljótandi.

5) Svæsin alþjóðleg hráefna- og matvælaverðbólga hefur ríkt núna í tvö ár.

Þetta er all nokkuð nokkuð afrek hjá Seðlabanka Íslands að halda utanum allt þetta án þess að ver hafi farið. En traust gjaldmiðla er langhlaup og ekki spretthlaup. Eftir þessa kreppu mun krónan verða HERT KRÓNA. Það er augljóst.

Gunnar Rögnvaldsson, 26.6.2008 kl. 12:43

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón, af hverju ætti þessi verðbólga að koma á óvart?  Olíuverð hefur hækkað og gengið lækkað.  Megnið af þessari verðbólgu er auk þess vegna verðbólgu sem mældist í september á síðasta ári og síðan í febrúar, mars, apríl og maí á þessu.  Þessir mánuðir leggja til hátt í 10% af þessari hækkun og það er ekki fyrr en þeir eru komnir út úr mælingunni sem við förum að sjá tölur undir 6%.  Þó svo að verðbólga milli mánaða lækki í næstu tveimur til þremur mælingum, þá mun 12 mánaða hækkun neysluverðsvísitölu fara hækkandi eða í besta falli standa í stað.

Marinó G. Njálsson, 26.6.2008 kl. 14:48

4 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er þeirrar skoðunar Gunnar að framrás íslensks atvinnlífs og framfarir á því sviði hafi verið þrátt fyrir Seðlabankann og ríkisstjórnina en ekki vegna þessara aðila. Það má þó segja þessum aðilum til hróss að þeir alla vega þvældust lítið fyrir.

Jón Magnússon, 26.6.2008 kl. 14:53

5 Smámynd: Jón Magnússon

Marinó þessi verðbólga kemur ekkert á óvart. Ég er hins vegar hræddur um að það verði allt of löng bið á því að við sjáum verðbólgu undir 6% því miður. Þróun fasteignaverðs gæti þó skipt máli hvað þetta varðar.

Jón Magnússon, 26.6.2008 kl. 14:55

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég er þeirrar skoðunar Gunnar að framrás íslensks atvinnlífs og framfarir á því sviði hafi verið þrátt fyrir Seðlabankann og ríkisstjórnina en ekki vegna þessara aðila. Það má þó segja þessum aðilum til hróss að þeir alla vega þvældust lítið fyrir.

Mikið rétt, en samt viltu kenna honum um, og þrátt fyrir alla þá þætti sem ég taldi upp. Það er nú ekki sanngjarnt. Það þarf nánast galdragjaldmiðil til til þess að þola annað eins.

Gunnar Rögnvaldsson, 26.6.2008 kl. 15:10

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Miðað við mína útreikninga (sem eru bara leikur að tölum í Excel), þá má búast við að verðbólgan fari hæst í 13,5 - 13,9% í ágúst og taki að lækka eftir það.  Hún haldist þó um og yfir 12% vel fram að jólum og 12 mánaðaverðbólga ársins verð á bilinu 11,5% til 12,5%.  Eftir það taki hún skarpa dýfu og verði komin niður í 5,6 - 7% í apríl á næsta ári.  Sömu forsendur gefa mér að líklegt sé að verðbólgumarkmiðum Seðlabankans verði náð við lok næsta árs, en það standi tæpt. 

Það er ýmislegt sem mælir gegn því að þessi niðurstaða fáist.  T.d. er gert ráð fyrir að stöðugleiki ríki á næstu 18 mánuðum, en sagan hefur sýnt okkur að sveiflurnar í hagkerfinu eru tíðar og öfgakenndar.  Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir verðhjöðnun á milli mánaða, en það getur gerst ef krónan styrkist samhliða lækkun húsnæðiskostnaðar og olíuverðs.  Hafa skal þó í huga, að þar sem gengið hefur haldist veikt lengur en menn vonuðust, þá munu fleiri þurfa að hækka hjá sér vöruverð og þrýstingur mun koma á frekari hækkun launa.  Hvoru tveggja stuðlar að hækkun verðbólgu.

Marinó G. Njálsson, 26.6.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 873
  • Frá upphafi: 2291639

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 772
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband