Leita í fréttum mbl.is

Iðnaðarráðherra hunsar "Fagra Ísland"

Sama dag og Mörður Árnason varþingmaður Samfylkingarinnar og ritstjóri vefsíðu flokksins skrifar leiðarann " Almenningur styður stefnu Samfylkingarinnar Fagra Ísland", undirritaði iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson viljayfirlýsingu um byggingu 250 þúsund tonna álvers á Bakka við Húsavík.

Við það tækifæri sagði Össur að stóriðja sem þessi væri jákvæð fyrir þær sakir að aðgætni væri viðhöfð gagnvart náttúrunni og var helst að skilja að það væri vegna þess að jarðvarmi væri nýttur.

Raunar verður ekki séð að það skipti umhverfismáli hvort stóriðja notar jarðvarma eða orku úr fallvötnum. Fróðlegt væri að iðnaðarráðherra skýrði hvaða umhverfislegi munur þar er um að ræða.

Mörður Árnason vefsíðustjóri Samfylkingarinnar segir að almenningur styðji "Fagra Ísland" stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. 

Í þeirri stefnumörkun segir m.a.  að slá eigi ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.  Í annan stað er talað um að úthluta mengunarkvótum og í þriðja lagi að sérstök félög sem fjármagni sig á markaði og greiði fyrir afnotarétt af auðlindum reisi virkjanir fyrir stóriðju. Ekkert af þessu kemur fram í viljayfirlýsingunni sem iðnaðarráðherra undirritaði.

Viljayfirlýsingin um að byggja 250 þúsund tonna álver á Bakka af Alcoa er ekki í samræmi við stefnumótunina "Fagra Ísland."  Hafi Mörður Árnason vefsíðuritstjóri  rétt fyrir sér að almenningur styðji stefnuna þá er ljóst  að ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni gera það ekki. 

Eða hvað? 

 


mbl.is Álversyfirlýsing undirrituð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð Símonarson

Það er augljóst að um leið og SF fengu smá völd þá fylgja þau frekar "gömlu spillingunni" / skuggastjórnvöldum frekar en þeim gefnu loforðum sem kom þeim til valda. Við Íslendingar þurfum að láta ríkisstjórnina sæta ábyrgð á gjörðum sínum og opinberum svikum sem  fjölmiðlar tala ekki um.

 Kær kveðja Alli.

Alfreð Símonarson, 26.6.2008 kl. 16:41

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fagra Ísland! yfirlýsing Samfylkingarinnar dró til sín fylgi stóriðjuandstæðinga frá öðrum flokkum. Til þess var ætlast. Jafnframt hélt hún kyrru fylgi frambjóðenda flokksins og hindraði kjósendur þeirra í að hrökklast til V.G. eða Íslandshreyfingarinnar. Aðferðin svínvirkaði.

Í mínu langa pólitíska minni tel ég að þetta hafi verið lúmskustu og subbulegustu kosningasvik stjórmálaflokks í samanlagðri sögu þeirra allra á Íslandi.

Og þetta var ljótt! Það var ljótt vegna þess að þarna var ekki verið að plata einvörðungu. Það var ljótt vegna þess að þarna var um að tefla mál sem snerti afar viðkvæmar tilfinningar  fólks.

Þórunn umhverfisráðherra hefur þó sýnt greinilega tilburði í þá átt að standa við þær væntingar sem við hana voru bundnar.  

Árni Gunnarsson, 26.6.2008 kl. 20:35

3 identicon

Hér er úrdráttur úr grein eftir undirritaðan ,,Þetta er síðasta álverið''sem birtist í Morgunblaðinu maí 2006. Össur er að framlengja viljayfirlýsinguna sem Valgerður Sverrisdóttir skrifaði undir þegar hún var iðnaðarráðherra í síðustu ríkisstjórn. 

,,Betra er að hafa einn fugl í hendi en 5 út í skógi er sagt einhvers staðar því nú ber nýrra við. Það er komin viljayfirlýsing um að setja álver niður í Helguvík. Hæstvirtur iðnaðaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Eyfirðinga og Húsvíkinga, vill tryggja að álver verði á öðrum hvorum staðnum. Staðir þessir eiga það sameiginlegt að vera mjög sérstakir: Eyjafjörðurinn er einn af fallegustu og skjólbestu landbúnaðarsvæðum landsins með höfuðstað norðurlands, Akureyri, á einu glæsilegasta bæjarstæði sem fyrir finnst hér á landi; Húsavík er einn af aðal ferðamannastöðum á þessu stóra svæði sem Norðausturkjördæmið er og hefur að geyma stórkostlega náttúrufegurð eins langt og augað eygir. Erlendir ferðamenn fyllast lotningu þegar þeir líta fjöllin, lækina, vötnin, árnar, fossana, jöklana og alla okkar íslensku flóru sem er ómetanleg fyrir ferðamanna- og frístundaiðnaðinn. Eitt er víst að álver á ekki heima á þessum svæðum fyrir norðan enda sjá það flestir sem vilja horfa á þetta hlutlaust. Valgerður Sverrisdóttir ráðherra hefur átt það til að verja sig í þessari álversumræðu um væntanlega staðsetningu þess að fjárfestar muni eiga um það síðasta orðið. Það er ekki rökrétt hjá henni að hugsa þetta svona því við erum að tala um síðasta álverið sem reist verður hér á landi eins og hún hefur stundum komið inn á í umræðunni. Því ætti lögmálið að hafa snúist við, iðnjöfrarnir nú í keppni um að ná til sín síðasta bitanum þegar stjórnvöld í samráði við viðkomandi bæjarfélag hafa ákveðið staðsetningu þess. Helguvík er án efa besta staðsetningin fyrir álver því hún hefur ekki að veði það samspil hagsmuna og náttúru eins og lýst var hér að ofan. Helguvík er með dýpstu höfnum landsins með stórskipahöfn. Þar þarf ekki að óttast hinn forna fjanda Norðlendinga, hafísinn, né stillur í veðri, vikum saman. Sjónmengun er lítil vegna sjálfrar byggingarinnar því hún fellur vel að umhverfinu t.d. þegar horft er eftir sjóndeildarhringnum í áttina að Keflavíkurflugvelli. Háspennulínur mætti hafa í jörðu meðfram þjóðvegum eins og t.d. meðfram Reykjanesbrautinni og vel út fyrir byggð. Álver í Helguvík yrði álíka langt frá byggð og álverið í Hafnarfirði en þar virðist ríkja mikil sátt. Þetta er síðasta álverið sem reist verður á Íslandi eins og sjá má þegar litið er á Kyoto-bókunina. Samkvæmt útdrætti úr Kyoto-bókuninni og útfærslu hennar gagnvart Íslandi eru útstreymisheimildir Íslands tvíþættar: Í fyrsta lagi skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, það er innan við 3.100 þúsund tonn koltvíoxíðígilda árlega að meðaltali 2008 til 2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 ekki vera meiri en 1.600 þúsund tonn árlega að meðaltali árin 2008-2012. Ísland fullgilti Kyoto-bókunina 23. maí 2002.''

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 21:41

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Nú er það bara fagri ísbjörn.

Sigurjón Þórðarson, 26.6.2008 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 60
  • Sl. sólarhring: 93
  • Sl. viku: 2545
  • Frá upphafi: 2291528

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 2312
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband