Leita í fréttum mbl.is

Icesave, vinir eða óvinir.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðu um svonefndar Icesave skuldbindingar.  Þar hafa margir látið stór orð falla ekki síst í garð Evrópusambandsins og einstakra þjóðlanda og ítrekað er talað um að við þurfum ekki að greiða þessar skuldir "óreiðumanna".

Til upprifjunar þetta:

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde lagði fyrir Alþingi þingslályktunartillögu í nóvember 2008 þar sem segir m.a. "Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innistæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðilarríkjum Evrópusambandsins. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland."

Það er því ljóst að strax í nóvember 2008 var ljóst að lánafyrirgreiðsla til Íslands væri bundin því að tilskipunin um lágmarskinnistæðutryggingar 20.887 Evrur væri virt. Forsenda þess að við fengjum fyrirgreiðslu frá Norðurlöndum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var afgreiðsla þessa máls.

Í samræmi við það skrifuðu  Árni Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra og Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri bréf til Dominique Strauss-Kahn yfirmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins  þ. 15.11.2008 þar sem talað er um að Ísland muni virða þessar skuldbindingar. Þar segir í tl. 9

"We will be working constructively towards comparable agreements with all international counterparts for the Iceland deposit insurance scheme in line with the EEA legal framework. Under its deposit insurance system Iceland is committed to recognize the obligations to all insured depositors. We do so under the understanding that prefinancing for these claims is available by respective foreign governments and that we as well as these governments are committed to discussions within the coming days with a view to reaching agreement on the precise terms for this prefinancing."

Samhliða lagði þáverandi ríkisstjórn fram þingsályktunartillögu í nóvember 2008 um að gengið yrði til samninga um Icesave skuldbindingarnar.

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um"  þskj. 219. 177 mál 136 löggjafarþing:

Í byrjun desember 2008 var þessi þingsályktunartillaga samþykkt af meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða eins og segir í lok nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar þar sem mælt er með samþykki tillögunnar. "Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að ráðast í samningagerð sem tillagan gerir ráð fyrir og leggur til að hún verði samþykkt óbreytt.

Samningar fóru síðan fram og ég hef lýst því hér í bloggfærslu að ég tel að illa hafi tekist til og fjármálaráðherra beri ábyrgð á því að skipa samninganefndina svo sem hann gerði og það hafi haft þá þýðingu að við fengum verri samninga en ella hefði verið.

En staðan er sú að í október 2008 fyrir rúmum 9 mánuðum síðan þá var ljóst að semja þyrfti um Icesave skuldbindingarnar. Það var líka ljóst þá að forsenda lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlandanna að Færeyjum undanskildum væri sú að samið yrði um innistæðutryggingarnar.

Í október 2008 áður en fallist var á að semja lá fyrir að allar lánalínur til landsins voru lokaðar. Þess vegna taldi ríkisstjórnin þáverandi eins og ég gat best skilið að brýnt væri vegna hagsmuna þjóðarinnar að ná samkomulagi um máið og þess vegna sendu Árni Matt og Davíð Oddsson bréf til Strauss-Kahn og þess vegna fékk ríkisstjórnin samþykkta þingsályktunartillögu um að  gengið yrði til samninga.

Þetta Icesave mál kemur Evrópusambandinu ekki við að öðru leyti en því að Ísland er aðili að samningi um að tryggja neytendum lágmarksinnistæður á bankareikningum viðskiptabanka og krafan er sú Ísland standi við þann samning. Icesave málið kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur ekki við að öðru leyti en því að samningurinn um lánafyrirgreiðslu til Íslands er í uppnámi og ekki er farið að tl. 9 í bréfi þeirra Árna Matt og Davíðs frá miðjum október. 

Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar rætt er um Icesave skuldbindingarnar.

Ég hef alla tíð talið óhjákvæmilegt að ganga ti samninga um svonefndar Icesave skuldbindingar en hafði verulega fyrirvara við meðferð ofangreindrar þingsályktunartillögu á Alþingi og greiddi henni því ekki atkvæði. Nú er staðan sú að fyrri ríkisstjórn skuldbatt sig með ákveðnum hætti. Núverandi ríkisstjórn er búin að skuldbinda sig með undirritun samnings. Alþingi þarf að afgreiða málið með þeim hætti að hagsmunum Íslands sé best borgið.

Fái Icesave samningur Steingríms J ekki meirihluta fylgi á Alþingi þá sé ég ekki annað en ríkisstjórnin verði að segja af sér þar sem hún hefur þá ekki í raun starfhæfan meirihluta til að koma brýnustu málum sínum í gegn um þingið. Þá hefur forsætisráðherra ekki leitað eftir því að fá úr því skorið hvort viðsemjendur okkar fallast á þá fyrirvara sem stór hluti Alþingismanna vill gera áður en þeir fallast á að ríkissjóður ábyrgist þær skuldbindingar sem um ræðir.

Icesave samningurinn er svo alvarlegt mál að það er ekki tækt fyrir formann Framsóknarflokksins eða aðra þingmenn að stunda málflutningsæfingar í ræðustól Alþingis. Það skiptir máli að meiri hluta vilji Alþingis komi fram og málið verði afgreitt frá Alþingi sem allra fyrst með þeim afleiðingum sem það mun hafa í för með sér. En stundaglas Alþingis til afgreiðslu málisins er raunar runnið út og því skiptir máli að bretta upp ermar og ljúka afgreiðslu málsins.


mbl.is Icesave tefur endurskoðun AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum sammála dag eftir dag! Mér finnst upprifjunin góð og meðlætið einnig. Ætla að vísa í bloggið.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir það. Þú hefur þá samþykkt þetta með Árbæinn?

Jón Magnússon, 31.7.2009 kl. 19:59

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta er bara mjög gott hjá þér svei mér þá. En þó finnst mér vanta að þú segir hvernig þú vildir verja þínu atkvæði í þessu máli. Finnst þér rétt að samþykkja eða hafna. Fyrst þú gast skrifað allt þetta hlýturðu að hafa skoðun,

Gísli Ingvarsson, 31.7.2009 kl. 23:38

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Ég er ekki alveg sammála þér varðandi þetta sem þú hér nefnir.

" Þetta Icesave mál kemur Evrópusambandinu ekki við að öðru leyti en því að Ísland er aðili að samningi um að tryggja neytendum lágmarksinnistæður á bankareikningum viðskiptabanka og krafan er sú Ísland standi við þann samning. "

Frá síðasta hausti hefur það gerst að ný ríkisstjórn tók við eftir kosningar í apríl og sú hin sama ríkisstjórn ákvað að sækja um aðild að Esb, áður en samningar um icesave komu til afgreiðslu þingsins, sem óhjákvæmilega hefur kallað yfir okkur andstöðu þjóða innan bandalags þessa sem aftur blandar málum saman í einn hrærigraut sem ekki hefði þurft til að koma.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.8.2009 kl. 01:59

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Vá hvað ég er EKKI reið við vini okkar "norðurlönd" og AGS...heldur þá sem hafa kosið xB og xD í 18 ár!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.8.2009 kl. 04:32

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Jón flestir eru sammála um að við eigum að greiða lágmarskinnistæðutryggingar að upphæð 20.887 Evrur fyrir hvern reikning, eða það sem á vantar við uppgjör dæmisins, en ekki meira.Um þetta skrifar Ragnar Hall áætar greinar og undir það taka hjón úr fjarðarbyggð í Mbl. í fyrradag.

Sigurður Þorsteinsson, 1.8.2009 kl. 07:00

7 identicon

Þar hittir þú naglann á höfuðið:

"Fyrri ríkisstjórn skuldbatt þjóðina með ákveðnum hætti". (EIns og þú orðar það)

Fyrrverandi ríkisstjórn "skrifaði upp á víxilinn" og víxillinn féll.

Það er kjarni málsins.

Eru íslendingar menn til að standa við samninga?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 08:41

8 Smámynd: Magnús Jónsson

Jón: er það ekki staðreynd að eignir bankans duga og vel það fyrir 20,000 evrum á hvern reikning? það sem Icesave samningurinn gerir er að afhenda Bretum og Hollendingum fyrst 50% af eignum bankans, og ábyrgjast svo 20,000 evrur, eða er ég að misskila eitthvað, einfaldast væri að afhenda Bretum og Hollendingum eignir bankana og búið spil?.   

Magnús Jónsson, 1.8.2009 kl. 09:27

9 Smámynd: Jón Magnússon

Já en Guðrún þetta er ekkert Evrópusambandsmál. Vinir okkar Norðmenn voru hvað harðastir á að við ættum að standa við innistæðutryggingarnar.

Jón Magnússon, 1.8.2009 kl. 10:35

10 Smámynd: Jón Magnússon

Er ekki réttara að beina reiðinni að þeim sem voru gerendur í bankahruninu Anna.

Jón Magnússon, 1.8.2009 kl. 10:36

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér er fjandans sama þó einhver fífl í fyrri  ríkisstjórn hafi gefið þessar og hinar yfirlýsingar og þessi síðari tekið undir. Ef þetta voru vitlausar yfirlýsingar þá eru þær ógildar ef þjóðin skoðar málið upp á  nýtt.

Ég tel mig ekki bundinn af erfðahyllingunni í Kópavogi árið eitthvað, né Gamla Sáttmála Gizurar frænda míns 1262 frekar en ísraska þjóðin er bundin af ákvörðunum Saddams Hussein eða þjóðverjar af lögum Hitlers um  dauðarefsingu við að hlusta á BBC.

Þið lögfræðingar eru ávallt hættulegustu menn í defeatism sem til eruð. Þið starið á paragröff en lítið fram hjá lífinu, neyðinni, og hungrinu sem getur orðið hlutskipti heillar þjóðar

Er ekki kominn tími til að standa í lappirnar pólitískt ?

Halldór Jónsson, 1.8.2009 kl. 23:36

12 identicon

Sæll Jón.

Góð upprifjun á staðreyndum málsins. Ég tel að málþóf stjórnarandstöðunnar sé heint lýðskrum og það ætti síst að nota icesave málið til að klekkja á ríkisstjórninni. Það voru einmitt Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem skópu það ástand sem leiddi til banka- og efnahagshrunsins í haust og Geir Haarde stýrði síðan aðgerðarleysinu fyrst eftir hrunið.

Vegna þess að ákveðið var að greiða allar innistæður á Íslandi í október 2008 vorum við raunar skuldbundin að greiða allar innistæður íslenskra bankaútibúa innan EES.  Bretar og Hollendingar hafa verið rausnarlegir í þessu máli og tekið á sig byrðar sem eru Íslendingar þurfa að bera eða meiri. Þeir borgar breskum og hollenskum innistæðueigendum hærri upphæð en Íslendingar munu þurfa að gera samkvæmt icesave samningunum. Þeir hefðu getað farið fram á að Íslendingar gerðu ekki greinarmun á íbúm Selfoss, Sheffield eða Amsturdams.

Ég tel mjög ólíklegt að Bretar eða Hollendingar vilji semja aftur upp á verri kjör fyrir þá og því er öll töf eingöngu til þess að koma íslensku efnahagslífi ennþá lengra niður í svaðið.

Gísli Már Gíslason (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 912
  • Sl. sólarhring: 1330
  • Sl. viku: 6557
  • Frá upphafi: 2277195

Annað

  • Innlit í dag: 855
  • Innlit sl. viku: 6093
  • Gestir í dag: 813
  • IP-tölur í dag: 794

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband