Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Póstverslun með lyf?

Lyfjastofnun hefur ákveðið að það sé ólöglegt að flytja inn ódýr lyf frá Svíþjóð. Íslenski læknirinn sem bauðst til að hafa milligöngu í málinu má ekki þjónusta landa sína við að kaupa ódýr lyf.

Hvað á heilbrigðisráðherra að gera í þessari stöðu?

Boða á næsta ríkisstjórnarfundi lagabreytingu þar sem það ákvæði laganna sem Lyfjastofnun hengir hatt sinn á verði breytt með þeim hætti  að hægt sé að hafa milligöngu um kaup á lyfjum frá nágrannalöndum okkar.  Jafnframt að leggja fram tillögur sem tryggja eðlilega samkeppni á lyfsölumarkaðnum til að borgarar þessa lands geti keypt lyf á lágmarksverði. Lyf á sama verði og á hinum Norðurlöndunum.

Sjúklingar eiga enga vörn gegn okrinu þeir verða að fá lyfin sín þeir eiga ekkert val. Stjórnvöld verða að standa með þeim gegn einokunar- og okuröflunum.


Frábært

Við á Stór Hafnarfjarðarsvæðinu höfum sennilega aldrei upplifað jafnlangvinna góðviðristíð  og núna. Sagt er að sumir séu orðnir uppiskroppa með umræðuefni af því að það þýðir ekki að tala um veðrið lengur af því að það er alltaf eins. En við þekkjum það hér að breytingar koma fyrr en varir.

Á Norðurlöndum og í Bretlandi hefur heldur betur rignt. Einhvern tíma styttir upp hjá þeim og rigningin kemur til okkar. En við skulum njóta góða veðursins eins og við getum meðan það varir.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki er hægt að koma því þannig fyrir að verslanir og þjónustufyrirtæki lokuðu fyrr yfir sumartímann til að gefa starfsfólki sínu kost á því að njóta útivistar.


Afnám vörugjalda

Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að vörugjöld verði afnumin og undir það taka samtök verslunar og þjónustu. Samkvæmt greinargerð sem Samtök atvinnulífsins hafa látið gera þá mundi afnmám vörugjalds leiða til þess að verðlag hér á landi yrði svipað og í nágrannalöndum okkar og afnmám vörugjalds á heimilistæki og byggingarvörur mundi stuðla að bættum hag lág- og miðtekjufólks.

Ég tek undir það að nauðsynlegt er að afnema þessa séríslensku skattheimtu sem vörugjaldið er. Slíkur skattur sem og tollar og innflutningshöft hefta frelsi borgarana til að gera hagkvæm viðskipti. Þá skiptir máli að verðlag hér verði það sama og annarsstaðar í okkar heimshluta En meira verður að koma til en afnám vörugjalda.

Samkvæmt nýustu könnun ASÍ á verðlagi á mat- og nýlenduvörum þá hafði lækkun vörugjalda og vsk. skatts einungis áhrif til lækkunar vöruverðs að hluta til í bili. Síðan virðist verðið vera að þokast upp þannig að verslunin er að taka til sín lækkanirnar á opinberum gjöldum.  Hver er afsökunin fyrir því. Hvað segja talsmenn Samtaka atvinnulífsisn og verslunarinnar um það.

Skortir á að um sé að ræða virka samkeppni í landinu?


Af hverju ber stjórnvöldum skylda til að tryggja lyf á lágmarksverði?

Nokkrir hafa haft samband við mig og lýst þeirri skoðun sinni að það færi í báq við frjálsa samkeppni og viðhorf mín í markaðsmálum að gera kröfu til að stjórnvöld tryggi sjúklingum lyf á lágmarksverði. Það er ekki rétt.

Markaðshyggjan byggir á því að þegar einokunar- eða fákeppnisaðilar koma í veg fyrir eðlilega samkeppni og verðlagningu þá ber ríkisvaldinu að grípa til ráðstafana til að tryggja eðlilega samkeppni. Hugmyndafræði markaðsþjóðfélagsins byggir á því að með frjálsri og virkri samkeppni sé neytendum tryggð hagstæðustu kjör. Þegar þau kjör eru ekki í boði þá er eitthvað að. Samkeppnin er skekkt eða ekki fyrir hendi. Þá ber stjórnvöldum að grípa inn í.

Lyf eru vara sem fólk þarf á að halda hvort sem því líkar betur eða verr. Það getur ekki nýtt þann valkost að sleppa því að kaupa lyfið. Við slíkar aðstæður er ennþá brýnni nauðsyn til að gæta almannahagsmuna með virku eftirliti með lyfjamarkaðnum og inngripi í verðlagningu gerist þess þörf og þess er þörf núna það sýnir verðmunur á lyfjum hér og í nágrannalöndum okkar.

Ég sá vísað til þess hvaða hugmyndir fráfarandi heilbrigðisráðherra hafði sett fram í þessu máli. Þær hugmyndir ganga allt of skammt. Það eru milljarða hagsmunir sjúklinga og skattgreiðenda að eðlilegt lyfjaverð sé til staðar í landinu. Þess vegna dugar ekkert hálfkák.

Í lengstu lög vona ég að aðili komi inn á íslenskan lyfjamarkað sem bjóði lyf á sama verði og lyf eru boðin til sölu á í Svíþjóð en meðan verðmunur er þrefaldur og allt að tífaldur þá er samkeppnin ekki að virka hér á landi.


Þegar stjórnvöld bregðast þá hvað?

Lyf eru margfalt dýrari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Aðalsteinn Arnarson hefur boðið upp á þá þjónustu í gegn um vefsíðuna minlyf.net að kaupa lyf í Svíþjóð.  Hann bendir á að lyf eru margfalt ódýrari þar og tekin eru dæmi af þremur lyfjum blóðfitulyfi, blóðþrýstingslyfi og þunglyndislyfi og hér eru þessi lyf níu sinnum dýrari en í Svíþjóð.  Talað hefur verið um að lyf væru almennt þrisvar sinnum dýrari hér en í Svíþjóð. 

Lengi hefur verið vitað að lyf eru miklu dýrari hér en í nágrannalöndum okkar en stjórnvöld og heilbrigðisráðherrar hafa brugðist hver af öðrum. Þegar stjórnvöld bregðast þeirri skyldu sinni að tryggja sjúklingum lyf á sambærilegu verði og er á hinum Norðurlöndunum hvað er þetta fólk þá að hugsa.

Nýr heilbrigðisráðherra segist ætla að taka þessi mál föstum tökum. Helst er á honum að skilja að setja eigi málið í nefnd sem á að skilgreina vandann.  Vandinn hefur þegar verið skilgreindur. Verð er hátt þar sem samkeppni er ekki næg. Verð á lyfjum hér á landi sýnir að eitthvað er að og stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við strax. Ekki eftir marga mánuði heldur strax. Heilbrigðisráðherra á að skipa aðgerðarhóp til að tryggja að innan 30 daga verði lyf á sambærilegu verði á Íslandi og í Svíþjóð. 

Við skulum leyfa heilbrigðisráðherra að njóta vafans en komi til þess að starfsemi Aðalsteins Árnasonar verði stöðvuð af Lyfjastofnun og honum meinað að aðstoða fólk við að fá lyf margfalt ódýrari ber heilbrigðisráðherra þann sama dag að gera ráðstafanir til að ríkisvaldið hlutist til um að sambærileg starfsemi og þjónusta verði í boði til að koma í veg fyrir lyfjaokrið.

En bregðist stjórnvöld en einu sinni hvað gerum við þá? Látum þá sem ráða ekki í friði fyrr en þeir eru búnir að gera skyldu sína.


Mótvægisaðgerð 1. Bætur til útlendinga.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur kynnt mótvægisaðgerð nr. 1 vegna minnkunar þorskafla á næsta fiksveiðiári. Félagsmálaráðherra heitir því að hugsa vel um þá útlendinga sem hugsanlega munu missa vinnuna og gæta að félagslegri stöðu þeirra.  Fallega hugsað í sjálfu sér.

Fyrir síðustu kosningar gagnrýndi Samfylkingarfólk okkur Frjálslynd fyrir að vara við óheftu flæði útlendinga til landsins. Þá sögðu þau í Samfylkingunni að þetta fólk eins og þau kölluðu útlendinga sem vinna hér mundi fara þegar atvinna drægist saman í landinu. Nú er komin upp önnur hlið á krónunni. Þegar atvinna dregst saman þá eiga útlendingar sem missa vinnuna ekki að fara þeir eiga að lifa á íslenska velferðarkerfinu. Það var einmitt þessi raunveruleiki sem ég benti á. Fólkið fer ekki. Af hverju ætti Filipseyingur að fara þegar hann fær tíu sinnum meiri peninga úr atvinnuleysisbótum á Íslandi en hann fengi fyrir fullan vinnudag á Filipseyjum.

En það er ekki til neitt sem heitir ókeypis hádegisverður. Það er alltaf einhver sem borgar. Þessa velferð Jóhönnu mótvægisaðgerð nr. 1 bætur til útlendinga greiða skattgreiðendur. Ekki kvótagreifarnir, ekki þeir sem nýttu sér vinnuframlag fólksins.

Venjulegir skattgreiðendur greiða. Nú skiptir miklu að vera kvótagreifi og hafa selt kvótann og lifa af fjármagnstekjum og þurfa ekki að borga nema 10% fjármagnstekjuskatt.  Þeir sem ekki fengu þúsund milljarðana gefins frá Halldóri Ásgrímssyni, Davíð Oddssyni, Þorsteini Pálssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni, Geir Haarde og fleirum þurfa að borga mótvægisaðgerð 1 bætur til útlendinga og aðrar mótvægisaðgerðir. Hinir sleppa af því að það er vitlaust gefið.


Skemmtulegur samanburður.

Þessi samanburður á hamborgaraverði hjá The Economist er skemmtileg aðferðarfræði við að bera saman verðlag og gengi í mismunandi löndum heimsins. Væri verð á hráefnunum í hamborgarann ekki skekkt með niðurgreiðslum, ríkisstyrkjum, sköttum og öðru slíku þá gæfi hamborgaravísitalan góða mynd af mismun í ýmsum þjóðfélögum.

Íslenska hamboragravísitalan hefur venjulegast verið sú allra hæsta. Ástæðurnar eru ekki bara ofmetin króna. Þar kemur lika til hæsta verð á landbúnaðarvörum í heiminum.  Vinnulaun skipta líka máli. Þessi mikli munur er samt allt of mikill og sýnir nokkuð sem er einkennandi fyrir íslenskt þjóðfélag í dag. Það er okur á neytendum.

Af hverju er hamborgarinn meir en helmingi dýrari hér en í Bandaríkjunum. Af hverju eru lyf þrefalst dýrari hér en í Svíþjóð. Af hverju kostar brauð miklu meira hér en annarsstaðar í Evrópu. Það getur vel verið að íslenska krónan sé ofmetin. En sé svo þá ættu erlendar vörur að vera ódýrari en þær eru. Af hverju lækkar ekkert þegar krónan styrkist en allt hækkar þegar hún veikist?


mbl.is Íslenska krónan ofmetnasta myntin samkvæmt Bic Mac vísitölunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágreiningur í Sjálfstæðisflokknum

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst sig andvígan ákvörðun sjávarútvegsráðherra flokksins um heildarafla þrosks á næsta fiskveiðiári. Ekki var annað að skilja á þingmanninum en hann teldi þessa ákvöðrðun ríkisstjórnarinnar fráleita og sýna takmarkaða þekkingu. Nú spyr ég getur þingmaður sem þannig talar og hugsar stutt þessa ríkisstjórn?

 


Ótrúlegt

Ég var undrandi að heyra af niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms Reykjavíkur í meintu nauðgunarmáli á Hótel Sögu. Ég er ósammála niðurstöðu dómsins og get ekki með neinu móti fallist á það að einstaklingur þurfi að láta limlesta sig til að staðfest sé að ofbeldi sé beitt.  Ákæruvaldið verður að láta á það reyna í Hæstarétti hvort þessi vægast sagt sérstæða lagatúlkun fær staðist. Yrði sú niðurstaðan verður Alþingi að skoða hvort að nýu hegningarlögin um kynferðisbrot sem Alþingi samþykkti s.l. vor veita þolendum kynferðisafbrota nægjanlega vernd.

Það verður að breyta kerfinu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður aflamark í þorski og halda óbreyttu kvótakerfið að öðru leyti. Kvótakerfið var sett á til að byggja upp þorskstofnin og stofna annarra nytjafiska. Þetta hefur mistekist.  Þrátt fyrir þessa tegund friðunar og vísindalegrar verndunar fiskistofna þá hefur stöðugt sigið á ógæfuhiðina. Af hverju ekki að viðurkenna að kerfið dugi ekki.

Af hverju má ekki breyta til og setja flotann á sóknarmark í stað aflamarks. Það mundi draga verulega úr framhjálöndun og brottkasti. Af hverju má ekki heimila bátaflotanum að setja fleiri öngla út í sjóinn? Það skaðar ekki lífkerfið og veldur engu hruni. 

Öllum má vera ljóst að það vantar æti í sjóinn.  Getur verið að ríkisstjórnin sé með þessari ákvörðun að vinna gegn því markmiði að byggja upp þorskstofnin? Magt bendir til þess.

Með því að taka einhliða ákvörðun um að færa aflamark í þorski svona mikið niður. Halda kvótakerfinu óbreyttu og hafna því að heimila lítt takmarkaðar krókaveiðar frá sjávarbyggðum er ríkisstjórnin að taka ranga ákvörðun. 

Miðað við þessa tilkynningu þá óttast ég að boðaðar mótvægisaðgerðir verði einnig vanhugsaðar og kosti mikil útgjöld úr ríkissjóði án þess að nokkuð verði byggt upp fyrir þá peninga. Það mætti ef til vill benda ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á að skapa skilyrði til að leyfa markaðnum að vinna sig út úr vandanum í stað þess að múlbinda allt í boðum og bönnum.


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 947
  • Sl. sólarhring: 1323
  • Sl. viku: 6592
  • Frá upphafi: 2277230

Annað

  • Innlit í dag: 886
  • Innlit sl. viku: 6124
  • Gestir í dag: 841
  • IP-tölur í dag: 817

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband