Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Út úr þrengingunum.

Við Sigurjón Þórðarson fyrrum alþingismaður verðum með fund á Hótel Reyðarfirði í kvöld þar sem við ræðum efnið: Út úr þrengingunum.  Á morgun verðum við með fund um sama efni í Verkalýðshúsinu á Húsavík og síðan fund á Hótel KEA á þriðjudaginn um sama efni og ljúkum þessum fundum með því að halda einn fund í Norðvesturkjördæmi á Sauðárkróki á Hótel Mælifelli. Þar bætist Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins og þingmaður kjördæmisins í hóp framsögumanna. Allir fundirnir byrja kl. 20.

Við Sigurjón vonumst til að sjá ykkur sem flest og vonum að það verði fjörgugar umræður og skoðanaskipti.

Ástand þjóðmála er með þeim hætti í dag að óvissan er nánast algjör um það sem stjórnvöld ætla sér og þau hafa vanrækt að móta stefnu til skemmri og lengri tíma í efnahagsmálum miðað við breyttar aðstæður.  Vandamál sem eru auðleysanleg ef brugðist er við fljótt geta orðið alvarleg og leitt til kreppu ef ekki er brugðist við af einurð, skynsemi og festu.

Vonast til að sjá ykkur sem flest á þessum fundum.

En þetta er bara byrjunin.  Við Frjálslynd munum beita okkur fyrir fundum á höfuðborgarsvæðinu og annarsstaðar á landsbyggðinni í lok ágúst og byrjun september. Við teljum mikilvægt að vera í sem bestu sambandi við fólkið í landinu til að gera okkur góða grein fyrir skoðunum og þörfum fólksins í landinu.

Baráttukveðjur.


Ofurlaun, kaupaukar og kaupréttarsamningar

 græðgiJean Claude Juncker forseti Evrópuhóps fjármálaráðherra sagði fyrir nokkru að ofurlaun væru þjóðfélagsleg plága og krafðist aðgerða. Ofurlaun á Íslandi eru ekki einskorðuð við Kaupþing banka. Kjör stjórnenda þess banka  hafa þó oftar en ekki hneykslað þjóðina. Davíðs Oddsson þáverandi forsætisráðherra  tók út sparifé sitt  í mótælaskyni á sínum tíma.  Nýlega nýttu stjórnendur bankans sér kaupréttarsamninga sem færðu þeim meir en milljarð. Ekki hefur frést af því að forsætisráðherra hafi tekið út sparifé sitt úr bankanum. Nú kann  að vera að forsætisráðherra eigi ekkert sparifé í  bankanum og geti því ekki beitt þeirri táknrænu aðferð sem forveri hans notaði á sínum tíma. Hins vegar getur forsætisráðherra látið í ljós álit sitt á ofurlaunagreiðslum og hvernig á að bregðast við.  

Ofurlaunagreiðslur  voru ekki þekktar hér á landi fyrir nokkrum árum síðan. Nýr ósiður hefur rutt sér til rúms. Þessi ósiður hefur rutt sér til rúms í Evrópu en var lítið þekktur í álfunni þar til nýlega.  Markaðshyggjumenn í Evrópu státuðu sig jafnan af því að markaðshyggjan í Evrópu væri mun mannúðlegri en markaðshyggja engilsaxa í Englandi og Bandaríkjunum. Talað var um Skandinavíska mótdelið eða Rínar módelið sem dæmi um mannúðlega markaðshyggju. Nú er þetta því miður að breytast. Ofurlaun og aukin misskipting auðs og valda hefur verið að ryðja sér til rúms víða um álfuna.

Spurning er hvernig á að bregðast við þeim ofurlaunum sem er eitt helsta einkenni nýmarkaðshyggjunar, sem engu eirir og ekkert viðurkennir nema vald peninganna. Hér á landi hafa stjórnvöld ekki tjáð sig um aðgerðir og telja þær greinilega ekki viðeigandi. Íslenska ríkisstjórnin virðist telja eðlilegt að þeir sem stjórna fyrirtækjum geti skammtað sér þau laun sem þeir vilja og ríkisvaldið eigi ekkert að gera í því. Komi hins vegar til þess að fjármálastofnanir eins og banka skorti fé til útlána eða kreppi að í þeirra ranni þá beri stjórnvöldum að breiða út faðminn og leysa vandamál þeirra á kostnað skattgreiðenda.  Ég hygg að við séum eitt fárra landa í Evrópu hugsanlega eina landið þar sem talsmenn ríkisstjórnar hafa ekki gagnrýnt ofurlaun harðlega og talað um viðbrögð við þeim eða lagt fram tillögur í því efni.

Franska viðskiptablaðið L´Expansion áætlar að forstjóralaun hafi hækkað um 57% á árinu 2007. Fjármálaráðherra Frakka  Christine Lagarde hefur sagt að þetta væri hneyksli og hefur boðað aðgerðir. Forsetar Frakklands og Þýskalands, Nicolas Zarkozy og Horst Köhler hafa báðir fordæmt ofurlaunin. Í umræðunni í Evrópu er því haldið fram af sumum að ofurlaun stjórnenda fjármálafyrirtækja eins og banka hafi valdið því að þeir hafi tekið meiri áhættu en ella hefði verið og afleiðing þess sé gríðarlegt tap útlána. Hollenska þingið hefur til meðferðar lagafrumvarp þar sem sérstakur skattur er lagður á ofurlaun. Evrópusambandið er að vinna að aðgerðum vegna ofurlauna  sem afleiðing af gagnrýni Evrópuhópsins.

Hvað ætlar hnípin ríkisstjórn Geirs H. Haarde að gera í ofurlaunamálunum? Fyrsta spurningin er hvort að ráðamönnum á Íslandi finnist það eðlilegt að launamunur og ójöfnuður aukist í þjóðfélaginu? Ójöfnuðurinn er þegar til staðar þar sem að launþegar í landinu bera þyngstu skattbyrðarnar en ofurlaunafurstarnir hafa aðrar og betri leiðir í því sambandi. Mér finnst ekki koma annað til greina en að setja sérstakar reglur um ofurlaun, kaupauka og kaupréttarsamninga og skattleggja ofurlaun sérstaklega. Ofurlaunaskattur er við núverandi aðstæður sjálfsagður og eðlilegur.

græðgiergóðOfurlaun forstjóranna eru andstæð  hugmyndum um þjóðfélagslegt réttlæti og mannúðlega markaðshyggju.  Forstjórarnir mega ekki   komast upp með það á  tímum efnahagsþrenginga og atvinnuleysis, að halda áfram að borga sjálfum sér ofurlaun.

Samhjóða grein sem birtist í 24 stundum í vikunniþ


Haldið í nýja vegferð.

nývegferðSjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa samið um að halda á ný í þá vegferð sem flokkarnir hófu fyrir tveim árum í borgarstjórn Reykjavíkur. Vegurinn er þó mun grýttari en hann var þegar lagt var upp í hina fyrri.  Nú eru fyrrum oddvitar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks horfnir á braut eða í bakherbergjum og liðsheildin til muna veikari en hún var þegar upphaflega var lagt af stað.

Um leið og ég óska Hönnu Birnu til hamingju með að vera orðinn borgarstjóri þá finnst mér samt nokkuð sérstakt hvað hún leggur mikla áherslu á að hún treysti Óskari Bergssyni borgarfulltrúa Framsóknarflokksins fullkomlega. Það er vonandi fyrir Reykjavíkinga að hún hafi lög að mæla, en var það ekki einmitt þessi sami Óskar Bergsson sem sat heima hjá Villa og sagði að Björn Ingi væri á leiðinni og alveg að koma meðan Björn Ingi sat á fundi með Degi Eggertssyni og Svannhvíti Svavarsdóttur við að mynda Tjarnarkvartetinn svonefnda? Getur verið að Björn Ingi hafi ekki látið Óskar Bergsson vita hvað hann var að gera og hann væri ekki á leiðinni heim til Villa á sínum tíma?

Mestu skiptir hvað sem öllu þessu líður að Hanna Birna treystir Óskari þrátt fyrir allt og Sjálfstæðismenn halda ótrauðir út í nýtt meirihlutasamstarf  þrátt fyrir að varamaður Óskars, Marsibil,  lýsi því yfir opinberlega að hún styðji ekki þennan meirihluta.  Eitthvað virðist hafa skort á samskiptatækni þeirra Framsóknarmanna í gær þegar Óskar hringdi í Marsibil, en þá gat hún ekki svarað borgarfulltrúanum af því að hún var upptekin í líkamsrækt. Svo virðist sem hún hafi haldið áfram að vera upptekin alla vega hafði hún ekki samband við Óskar eftir því sem segir í Fréttabaðinu.  Óskar fær nú að reyna það sem segir í alþekktri auglýsingu, þú tryggir ekki eftir á.

Það sama á við um Hönnu Birnu borgarstjóra. Hún tryggir ekki eftirá. Hún og Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa ákveðið enn einu sinni að leggja á sjó þó að meirihlutinn sé jafn tæpur og raun ber vitni og byggist á því að Óskar Bergsson haldi heilsu og þurfi ekki frá að hverfa. Er það ábyrgð við stjórn borgar og myndun meirihluta að standa þannig að málum?

Ég óska Hönnu Birnu velfarnaðar í starfi vegna þess að það eru hagsmunir okkar Reykvíkinga að vel takist til við stjórn borgarinnar. Hins vegar þarf mikið að breytast til að ábyrgt fólk geti kosið Sjálfstæðisflokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum eftir það ábyrgðarleysi, upplausn og spillingu sem borgarstjórnarflokkurinn ber ábyrgð á að þróast hefur í stjórn Reykjavíkur.

Nú er spurningin hvort að nýi meirihlutinn haldi út kjörtímabilið eða gefist upp á Tröllahálsi?ófæra


Heilindi og málefni í fyrirrúmi?

Það er ótrúlegt að fylgjast með ruglandanum í kring um slit meirihluta Sjálfstæðisflokks og Íslandshreyfingarinnar með Óalf F. Magnússon sem oddvita og borgarstjóra. Það lá fyrir í gær að nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks yrði myndaður en samt sem áður láta allir sem við var talað í morgun eins og þeir vissu ekki neitt og allt væri á aumingja Huldu.

Það er síðan í samræmi við "heilindi og drengskap" Ólafs F. Magnússonar sem honum hefur orðið svo tríðrætt um að bjóða fólkinu sem hann sveik síðast upp í nýjan dans með sér og varamanni sínum. Sá varamaður afsagði þó Ólaf fyrir rúmum 200 dögum síðan. Ólafur F er ekki einn um að að sýna af sér "sérstök heilindi og drengskap".  Æðsta stjórn borgarinnar er með því marki brennd frá síðustu kosningum.

borgarstjórnin


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr meirihluti. Nýr Borgarstjóri.

hanna_birna Mér skilst að búið sé að ákveða að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði nýr borgarstjóri í Reykjavík. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson haldi stöðu sinni sem  forseti borgarstjórnar en Óskar Bergsson verði formaður Borgarráðs.  Þó skilst mér að enn sé eftir að greiða úr einum litlum hnökra til að hægt sé að ganga frá málinu.

Úr því sem komið er á Hanna Birna ekki annan kost en að slíta meirihlutasamstarfinu við Ólaf F. Magnússon fyrst að Óskar Bergsson Framsóknarflokki hefur fengið leyfi til að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Stjórnartíð Ólafs F. Magnússonar með Sjálfstæðisflokknum hefur kostað Reykvíkinga um 20 milljónir  hvern dag sem hann hefur verið vegna vitlausra ákvarðana og  ónauðsynlegra húsa- og lóðakaupa auk ýmissa annarra ruglaðgerða. Það er ærið fé sem meirihluti Sjálsfstæðisflokksins þarf að afsaka við næstu borgarstjórnarkosningar.  Sjálfstæðisflokkurinn getur auk heldur aldrei þvegið hendur sínar af því að hafa sett borgarstjórastólinn á upboð og afhent hann einstaklingi sem útilokað var að gæti valdið starfinu og það mátti fulltrúum Sjálfstæðismanna í borgarstjórn vera ljóst.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þessu rugltímabili hverfur því ekki. Þeir munu þurfa að svara fyrir það.


mbl.is Borgarfulltrúar segja fátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýragarðsbörnin.

Heroinhatesyou

Saga Christine F er mjög sterk og myndin sem gerð var um hana var það líka. Mér er minnistætt þegar Christine F og kærastinn hennar höfðu vanið sig af heróíni og gengið í gegnum kvalirnar sem því fylgdu og fóru síðan að hitta vinina á Bahnhof Zoo í Berlín og þá sagði vinur þeirra að hann ætlaði að hætt líka en það væri bara svo gott efni á markaðnum núna að hann ætlaði að nota það og hætta síðan. Þau Christine F og kærastinn ákváðu þá að fyrst þau hefðu getað hætt þá væri það ekkert mál að prófa þetta frábæra efni og þar með voru þau bæði sokkinn í neysluna. Kærastinn og vinurinn dóu en Christine F lifði.

Líf þessarar 46 ára konu sýnir hvað það er erfitt fyrir fólk sem byrjar í harðri neyslu fíkniefna ungt að koma sér frá neyslunni í eitt skipti fyrir öll. Það er dauðans alvara að prófa fíkniefni.

Skyldi saga Christine F vera kynnt í íslenskum skólum  og kvikmyndin sem gerð var um hörmungar krakkana sem voru í fíkniefnaneyslu með henni vera sýnd í íslenskum skólum.

Ef til vill er virkara að beita fræðslu og forvörnum í stað refsinga og lögregluaðgerðum.


mbl.is Christiane F. enn í eiturlyfjavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupaukar í kreppu.

Mikið hljóta viðskiptavinir Kaupþings banka að vera ánægðir með að æðstu stjórnendur bankans geti nýtt kaupréttarsamninga sína til að hagnast hvor um hundruði milljóna. Bankinn er greinilega ekki á flæðiskeri staddur.  Það er ánægjuefni fyrir þessa stjórnendur að þurfa ekki að greiða nema 10% skatt af hagnaðinum af kaupréttarsamningunum á meðan venjulegt fólk þarf að greiða rúmlega þrisvar sinnum meira af laununum sínum.

Kaupþing er ekki eini bankinn sem gleður stjórnendur sína með kaupaukum og kaupréttarsamningum. Þegar kemur að viðgjörningi við æðstu stjórnendur fjármálastofnana á Íslandi þá eru nægir peningar til.  Það virðast samt ekki vera nægir peningar til að lána á viðráðanlegum vöxtum.

Ég hef lengi furðað mig á því af hverju stjórnvöld hlutast ekki til um að lánakjör hér á landi verði þau sömu og í nágrannalöndum okkar. Afnema verður verðtrygginguna og tryggja fólki svipuð vaxtakjör og t.d. í Danmörku eða Svíþjóð.

Þýðir þá að vera með Seðlabanka sem beitir snargölnum stýrivöxtum?


Sjálfstæðismenn kjósa komma í skipulagsráð.

Það er kaldhæðni örlaganna að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn skuli hafa látið hafa sig út í að kjósa gamlan vinstri komma í skipulagsráð í stað Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur.  Það á ekki af borgarstjórnarflokknum að ganga. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er komið niður í  26%. Er við öðru að búast þegar Sjálfstæðísflokkurinn setur borgarstjórastólinn á uppboð.

Borgarstjórinn í Reykjavík er forstjóri stærsta fyrirtækis landsins. Það skiptir máli hverjir gegna því og það er ljóst að það eru hagsmunir Reykvíkinga að borgarstjóri sé vel hæfur stjórnandi. Borgarbúar telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki vandað valið eða gætt hagsmuna þeirra. Þess vegna hefur tæpur helmingur stuðningsmanna flokksins við síðust borgarstjórnarkosningar snúið baki við flokknum.

Það er  ævintýri út af fyrir sig að sitjandi borgarstjóri sem gegnt hefur embætti í nokkra mánuði skuli ekki fá nema tæp 2% fylgi í skoðanakönnuninni enda borgarstjóraembættið fram að þessu jafnan verið til vinsælda fallið.  Því miður fyrir Frjálslynda flokkinn þá er alltaf talað um F listann þegar vikið er að borgarstjóra. Með því eru fréttamenn vísvitandi að rugla málum til að skaða Frjálslynda flokkinn. Af hverju er ekki greint frá því að Ólafur F og helstu lautinantar hans Jakob Frímann Magnússon og Ásta Þorleifsdóttir eru í Íslandshreyfingunni og Ásta leiddi listan Íslandshreyfingarinnar á Suðurlandi og Jakob lista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi við  síðustu Alþingiskosningar.

En ef til vill er fréttmönnum vorkunn því  sumir forustumenn í Frjálslynda flokknum hafi ekki áttað sig á því að Ólafur F sagði sig úr Frjálslynda  flokknum og gekk í Íslandshreyfinguna fyrir síðustu Alþingiskosningar. 

En illur fengur illa forgengur eins og  máltækið segir. Á það e.t.v. við í þessu tilviki.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1009
  • Sl. sólarhring: 1311
  • Sl. viku: 6654
  • Frá upphafi: 2277292

Annað

  • Innlit í dag: 946
  • Innlit sl. viku: 6184
  • Gestir í dag: 892
  • IP-tölur í dag: 868

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband