Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Rangur og hlutdrægur fréttaflutningur Stöðvar 2.

Í hádegisfréttum og kvöldfréttum Stöðvar 2 var fjallað um ágreiningsmál innan Frjálslynda flokksins með röngum og hlutdrægum hætti. Fréttamaðurinn Heimir Már Pétursson virti ekki þá frumskyldu fréttamanns að afla sér heimilda heldur lét sér nægja að styðjast við frásögn fyrrverandi flokksbróður síns úr Alþýðubandalaginu, Kristins H. Gunnarssonar.

Frétt Stövar 2 er í öllum aðalatriðum röng. Það er fréttastofunni til vansa og átelja verður vinnubrögð eins og þau sem Heimir Már Pétursson viðhefur.  Nú reynir á nýjan fréttastjóra hvort hann samþykkir að svona sé staðið að upplýsingaöflun og fréttamennsku eða hvort hann vill að hægt sé að treysta fréttum stöðvar 2.

Í fréttinni segir að Kristinn H. Gunnarsson sé lagður í einelti af harðsnúnum andstæðingum útlendinga í Frjáslynda flokknum á suðvesturhorninu. Þetta er rangt. Í fyrsta lagi er enginn slíkur hópur í Frjálslynda flokknum. Því síður bundinn við suðvestur hornið. Staðhæfingin er röng.

Í fréttinni er því einnig haldið fram að ég hafi farið fyrir ályktunartillögu á síðasta miðstjórnarfundi þar sem skorað var á þingflokkinn að skipta um þingflokksformann. Þetta er rangt. Ég hvorki fór fyrir þeirri tillögu hafði nokkuð með hana að gera né var hún mér þóknanleg og vék af fundi um leið og hún kom fram þar sem að tillagan vék að mér persónulega. Þessi staðhæfing í fréttinni er því röng.

Þá er því einnig haldið fram í fréttinni að óvenju margir varamenn hafi setið fundinn þegar tillagan var til umfjöllunar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið fleiri varamenn í þessu tilviki en almennt gerist á miðstjórnarfundum í Frjálslynda flokknum. Þessi staðhæfing á því ekki rétt á sér.

Í fréttinni kemur Kristinn H. Gunnarsson fram og lætur að því liggja að umrædd tillaga kunni að vera komin fram vegna þess að hann hafi boðið Palestínskar flóttakonur velkomnar. Þetta er rangt og það veit Kristinn H. Gunnarsson fullvel. Tillagan hafði ekkert með það að gera.

Þá heldur Kristinn H. Gunnarsson því fram að engin dæmi séu um tillöguflutning sem lýsi jafnmikilli lítilsvirðingu á formanni flokksins. Hann víkur þó ekki að því í hverju lítilsvirðingin við formanninn á að hafa verið fólgin.

Þegar farið er þannig yfir meginefni fréttarinnar þá liggur fyrir að hún er röng. Hallað er réttu máli og ekki gætt þeirrar frumskyldu fréttamanna að fjalla um mál með hlutlægum hætti.

Staðreynd málsins er sú að fram kom tillaga um að formaður Frjáslynda flokksins viki úr formannanefndinni sem fjallar um lífeyrismál Alþingismanna og æðstu embættismanna ríkisisins. Sú tillaga var samþykkt með þorra atkvæða gegn atkvæði formanns. Ég var þeirri tillögu samþykkur enda tel ég í andstöðu við Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson að breyta eigi lífeyrislögunum í samræmi við hugmyndir sem fram koma í tillögu Valgerðar Bjarnadóttur.

Borinn var fram tillaga um að skipt yrði um þingflokksformann og ég yrði kjörinn. Tillagan var þó hvorki frá mér komin né hafði ég nokkuð með hana að gera. Þess þá heldur var tillagan mér ekki þóknanleg. Tillagan kom fram vegna þess að fjölmargir flokksmenn telja að Reykjavíkurkjördæmi sé algerlega afskipt en öll völd og störf innan flokksins sem máli skipta séu bundin við Norðvesturkjördæmi eitt og þá nánast eingöngu Ísafjarðardjúp.

Þetta eru helstu staðreyndir í málinu.

Hitt er annað mál að á miðstjórnarfundi þ. 23.5. s.l. lýsti varaformaður flokksins vantrausti á vinnubrögð Kristins H. Gunnarssonar og þá urðu umræður um vinnubrögð hans og varð hann einn til að bera í bætifláka fyrir þau vinnubrögð.

Varðandi það hvort Kristinn H. Gunnarsson sé lagður í einelti þá verður að finna þeim fullyrðingum stað og gera grein fyrir hverjir það gera. Fjölmargir flokksmenn geta hins vegar gert grein fyrir með hvaða hætti Kristinn hefur veist að þeim með vömmum, skömmum og lítilsvirðingum. Fólk sem er að reyna að vinna flokknum vel í sjálfboðaliðsvinnu. Kristinn og Guðjón Arnar hafa hins vegar staðið að ráðningu vina sinna í þau fáu störf sem flokkurinn ræður. Þess sést m.a. glögg merki á heimasíðu flokksins.

Ummæli sem höfð eru eftir formanni flokksins  finnast mér undarleg, að Kristinn sé lagður í einelti. Mér finnst það undarlegt vegna þess að það er ekki í samræmi við það sem formaðurinn hefur sagt við mig og ýmsa aðra m.a. að Kristinn H. Gunnarsson eigi erfitt með mannleg samskipti og hann væri ekki málefnalega samstíga flokknum auk ýmis annars sem ekki er tíundað að sinni.

Það er alltaf leiðinlegt þegar upp koma deilur innan flokka en stundum er slíkt óhjákvæmilegt.  Ég hef reynt að vinna að uppbyggingu flokksins eftir því sem við hefur verið komið. Staðið fyrir stofnun félaga og flokksstarfi í fullri andstöðu við Kristinn H. Gunnarsson og ef til vill fleiri.

Þrátt fyrir að full ástæða væri til að þingflokkur og miðstjórn kæmu saman til að ræða málin og taka ákvarðanir í þeim mikilvægu málum sem steðja að þjóðinni núna, þá sá hvorki formaður flokksins né þingflokksformaður ástæðu til að boða til funda í þingflokki eða miðstjórn frá því í lok mai og þangað til í september. Þá sá framkvæmdastjórn ekki ástæðu til að boða til funda meðal flokksmanna á sama tímabili. Fundahöld sem ég stóð fyrir ásamt Sigurjóni Þórðarsyni voru hins vegar gagnrýnd harðlega af formanni þingflokksins. Á mínum pólitíska ferli þá þekki ég ekki annað eins áhugaleysi um pólitík eins og þarna kemur fram og virðingarleysi við fólkið í flokknum.


Viljum við að svona verði Ísland framtíðarinnar?

Kaupmannahöfn er í hugum margra þar á meðal mín ein fallegasta og skemmtilegasta borg Evrópu.  Fram til þessa hef ég litið á Kaupmannahöfn sem einkar friðsælan stað þar sem almennt væri hægt að ganga óhultur um stræti og torg.  Nú virðist það því miður breytt.

Í dag voru 6 dönsk ungmenni fundin sek um að afla fjár til hryðjuverkastarfsemi. Hvaðan skyldu þau ungmenni vera komin til Danmerkur?

Í Fréttablaðinu í dag er frétt á bls. 2 sem lætur lítið yfir sér en þar segir að átök hafi verið meðal Vítisengla og annarrar kynslóðar innflytjendaklíkna og byssuklúlum hafi rignt  á Jægerborggade í Nörrebro í Kaupmannahöfn. Í átökunum undanfarna daga milli þessara hópa hefur einn maður látist og tugir særst. Sagt er að gengin hafi m.a. notast við vélbyssur og handsprengjur. Haft var eftir yfirmanni í morðdeild dönsku ríkislögreglunnar að Vítisenglar væru greinilega rólegri aðilinn. Yfirmaður lögreglurnnar vísar til þess að það þurfi tvo til að dansa tangó og í augnablikinu séu það innflytjendaklíkurnar sem sjái um dansinn.

Við höfum meinað Vítisenglum að koma til landsins. Þurfum við ekki líka að vera á varðbergi gagnvart öðrum sem eru líklegir til að  spilla friði í landinu? 


mbl.is Dönsk ungmenni studdu hryðjuverkasamtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virði bréfa deCode hefur aldrei verið 50 senta virði.

david_oddsson 

Þegar markaðsstjóri deCode Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra auglýsti dótturfélag deCode sem eitt merkasta fyrirbrigði vísindasögunnar og fól Kára Stefánssyni forstjóra félagsins að búa til sérstök lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði héldu margir sem túðu að Davíð færi ekki með fleipur að deCode væri einhvers virði.  Þá voru ríkisbankar látnir kaupa bréf og aðrir bankar fylgdu á eftir og bréfin voru markaðssett sem demantar af forsætisráðherranum, bönkunum og varamarkaðsstjóranum Hannesi Smárasyni og að sjálfsögðu manninum sem sjálfur og sumir aðrir hér á landi töldu mankynsfrelsara, Kára Stefánsson.  Íslenskir fjölmiðlar kyrjuðu allir sama söngin um mankynsfrelsarann og þá miklu sigra vísindanna sem væru innan seilingar fyrir tilstillli deCode undir stjórn Kára 

hannes_smarason

 

 

 

 

Aldrei hefur verið rekinn eins skefjalaus áróður fyrir einu fyrirtæki eins og markaðsstjórarnir, Kári og bankarnir sem voru látnir kaupa bréfin í fyrirtækinu gerðu við að markassetja bréfin á gráa markaðnum. Óskráð bréf. Margir tóku lán og keyptu og keyptu. Þeir trúðu fagurgalanum.

Ný vísindi. Nýtt fyrirtæki. Ný tækni var sagt við þjóðina og líka að hún væri svo sérstök í erfðamenginu að annað eins væri ekki til á jörðinni. Fyrirtækið fékk síðan einkarétt á að gera miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og markaðssetti sig á þeim grunni til að byrja með. Miðlægi gagnagrunnurinn varð aldrei til. Ef til vill var þetta bara viðskiptabrella. Alla vega er gagnagrunnurinn ekki til og sjálfsagt hefur fyrirtækið hvorki greitt ríkinu fyrir leyfið né verið krafið um greiðslur.

Ég og fleiri sem leyfðum okkur að vera með athugasemdir vorum níddir niður og reynt var að gera okkur hlægilega.   Á þeim tíma skrifaði hinn virti bandarísk hagfræðingur Paul Krugmann um fyrirtæki eins og deCode grein sem hét "The Ponsi Paradigm" og fjallaði um fyrirtæki sem voru rétt fyrir aldamótin að skjóta upp kollinum og voru sjálfvirkar seðlaprentanir eins og deCode. Paul Krugmann benti á að yfirleitt stæði ekkert á bak við þessi fyrirtæki en þau fengju svo mikla peninga að efasemdamennirnir yrðu gerðir hlægilegir og endalok þeirra yrði síðan mörgum árum seinna þegar umræðan væri þögnuð. Þannig gæti það orðið með deCode og þeir sem ábyrgðina bera þurfi aldrei að axla hana en fara í burtu forríkir menn og/eða í mektarstöðum hjá ríkinu þökk sé Davíð.

karistefansson

Ég hef alltaf vonað að það væri eitthvað í deCode og því tækist að komast á réttan kjöl rekstrarlega. Því miður hefur það ekki orðið og síendurteknar fullyrðingar Kára Stefánssonar um að eitthvað stórkostlegt væri í farvatninu eru farnar að hljóma hjákátlega.

Eins og fyrirtækið hefur þróast þann áratug sem það hefur verið til þá virðist sem að það hafi í raun aldrei verið nokkurs virði fyrir utan væntingarnar sem aldrei hafa orðið að veruleika. Samkvæmt hálfsársuppgjöri deCode á fyrirtækið 110.617.000 Bandaríkjadali en skuldar 297.446.000 Bandaríkjadali. Fyrirtækið skuldar því 186.829.000 Bandaríkjadali umfram eignir. Heitir það eitthvað annað en að vera rækilega á hausnum að skulda rúma 186 milljónir Bandaríkjadala umfram eignir?

Í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 segir í 64 grein:

64. gr. Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
Skuldara, sem er bókhaldsskyldur, er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr.

Vafalaust er deCode komið í þess stöðu fyrir löngu en fyrirtækið er með sveitfesti í Delaware fylki í Bandaríkjunum. Ef til vill gilda aðrar reglur þar.

Vonandi tekst að selja fyrirtækið og koma upp vitrænni starfsemi þannig að starfsfólkið haldi vinnunni. Það breytir hins vegar ekki því að ábyrgð Kára, Hannesar, Davíðs og fleiri er mikil. Þeir bera ábyrgð á fjárhagslegu skipbroti og gjaldþrotum fjölda fólks.

Því má svo ekki gleyma að maðurnn sem taldi sig vera markaðssinna Davíð Oddsson vildi að ríkið, skattgreiðendur ábyrgðust 200 milljón Bandaríkjadala lán fyrir fyrirtækið. Geir Haarde var fenginn til að flytja málið á Alþingi og biðja eftirlitsstofnun Efta um að leyfa þetta en sem betur fer leyfðu EES reglurnar þetta ekki og þess vegna eru skattgreiðendur 200 milljón Bandaríkjadölum ríkari í dag en þeir væru ef Davíð og Geir hefðu komist upp með þennan glórulausa pilsfaldakapítalisma eða eigum við að kalla það sósíalisma í þágu þeirra ríku?

 


mbl.is Gengi bréfa deCODE aðeins 50 sent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgan 4.7% í Bretlandi

Verðbólga í Bretlandi nær nýjum hæðum skv fréttamiðlum þar í landi í dag. Verðbólga þar mælist nú 4.7% sem er hátt miðað við þeirra mælikvarða en við værum áreiðanlega ánægð með að hafa verðbólgu á því róli. Hér er verðbólgan yfir 15% og því meir en 10% hærri en sú verðbólga sem fjölmiðlar fárast yfir í dag á Bretlandi.

Því miður virðist útlitið vera þannig að verðbólgan sé komin til að vera í einhvern tíma bæði hér á landi og í Bretlandi. Í Bretlandi hefur fjármálaráðherrann varað við því að miklir erfiðleikar væru framundan og undir það hefur forsætisráðherra tekið.  Hér tala ráðamenn hins vegar eins og við séum að fara í gegn um minni háttar vandamál. Þannig er það því miður ekki.


Ástæða til að kaupa Morgunblaðið í dag.

Flest blöð sem vilja láta taka sig alvarlega hafa ákveðna fasta dálkahöfunda. Margir kaupa blöð eingöngu til að lesa slíkar greinar.  Morgunblaðið hefur ekki farið þá leið en nýtur þess að mikið af góðum greinarhöfundum skrifar í blaðið.

Full ástæða er til að benda á að í dag er mikið af góðum greinum í blaðinu. Jónas Elíasson prófessor skrifar um Bjallavirkjun með einkar skýrum hætti eins og honum er lagið. Í greininni bendir hann á hversu innantóm og andstæði heilbrigðri skynsemi barátta virkjana andstæðinga í Vinstri grænum og Samfylkingunni eru.

Grein Ragnars Önundarsonar fyrrverandi bankastjóra "Um bókstafstrú og mistök í hagstjórn" er framhald góðra greina Ragnars um efnahagsmál þar sem hann bendir á með glöggum hætti þau vandamál sem hafa orðið í hagstjórn síðustu ára.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar um stóriðju og efnahagsstefnu. Gott innlegg í umræðuna og hvaða veruleiki blasir við okkur í efnahags- og atvinnumálum að mati höfundar.

Síðast en ekki síst skrifar Gauti Kristmannsson dósent grein sem hann velur heitið Krónuskatturinn og fjallar um hvað það kostar okkur mikið að vera með krónuna sem gjaldmiðil. 

Morgunblaðið var virkilega hverrar krónu virði í dag og það vegna þess sem ólaunaðir dálkahöfundar blaðsins höfðu fram að færa. Það væri vel þess virði fyrir blaðið að fá þessa menn og fleiri til að skrifa greinar með reglulegu millibili.  Það er alltaf gaman að lesa greinar eftir fólk sem hefur mikið fram að færa og gerir það með greinagóðum hætti eins og þeir sem skrifa ofangreindar greinar.


Fasískar aðgerðir lögreglu?

Lögreglan gerði húsleit hjá ólöglegum innflytjendum í Reykjanesbæ í vikunni. Ekki liggur fyrir af hvaða ástæðum en af því sem upplýst hefur verið voru það fyllilega réttlætanlegar ástæður sem urðu  til þess að lögreglan greip til þessara aðgerða. Svo brá við að sumir úr þessum hópi gripu til mótmæla og kölluðu lögregluna öllum illum nöfnum. Athugið þetta eru ólöglegir innflytjendur þ.á.m. skilst mér að sé einn sem segist vera pólitískur flóttamaður frá Frakklandi.

Þessar aðgerðir lögreglu sýna að eftirlit með ólöglegum innflytjendum er allt of lítið. Fjöldi fólks kemur ólöglega inn í landið og getur síðan valsað um allt meðan útlendingastofa er að skoða málið og það tekur iðulega mánuði.  Er eðlilegt að fólk sem kemur ólöglega geti farið frjálst ferða sinna um landið eins og því lystir. Það er greinilega pottur rækilega mölbrotinn varðandi eftirlit og afgreiðslu mála sem varða ólöglega innflytjendur. Er öryggi borgaranna í lagi þegar svona er haldið á málum?

Mér er það með öllu óskiljanlegt að ákveðinn hópur fólks hér á landi tekur alltaf afstöðu með ólöglegum innflytjendum og virðist telja að það eigi að opna landið algjörlega. Það gleymist að ólöglegur innflytjandi er hér ekki á lögmætum forsendum. Spurning er hvort að einhver sjónarmið réttlæti að við skjótum skjólshúsi yfir viðkomandi en megin hluti þeirra sem kemur með þessum hætti og er á kostnað skattgreiðenda í Reykjanesbæ er ekki fólk sem á nokkurn rétt til veru hér á landi og á að vísa úr landi sem allra fyrst. 

Svo virðist þó sem sumt fólk en hafi gert  það að inntaki stjórnmálabaráttu sinnar að lögin séu brotin svo að þeir sem vilja ljúga og svíkja sig inn í landið fái að gera það óhindrað. Þeim hefur því miður gengið vel í þeirri iðju en er ekki tími til kominn að fara að lögum í þessu efni og framfylgja þeim þannig að ólöglegir innflytjendur séu hér ekki svo mánuðum skiptir.


Þorgerður ber ein ábyrgð á síðari Pekingferðinni.

Þorgerður KatrinFram kom í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í dag að hún tók ávkörðun um að fara aftur til Kína að horfa á úrslitaleikinn í handbolta ein og án samráðs við aðra ráðherra í ríkisstjórn. Á þeim tíma sem Þorgerður tók þessa ákvörðun var hún starfandi forsætisráðherra.

Þá liggur lika fyrir eftir svör ráðherra við fyrirspun minni að ekki var leitað ódýrra ferðaleiða eða gistingar. Ef til vill lítill kostur þegar fyrirvarinn var svona lítill en alla vega var ekki leitað eftir því. ´

Þá liggur fyrir að allur kostnaður við ferð Þorgerðar, eiginmanns hennar og ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins var greidd úr ríkissjóði.

Sumum finnst sjálfsagt eðlilegt að ráðherra íþróttamála taki geðþóttaákvörðun um að fara á mikilvægan handboltaleik af því að hana langar til að sjá handboltaleik. Spurningin er þá hvort það sé eðlilegt að skattgreiðendur greiði fyrir þessa löngun ráðherra og borgi auk heldur fyrir 2 aðra. Mér finnst það ekki. Ráðherrar sem og aðrir stjórnmálamenn eiga að gæta ráðdeildar og sparnaðar í meðferð opinbers fjár. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telur ekki skylt að gera það.

Forsætisráðherra Geir H. Haarde hvatti landmenn til þess í vor að spara og spara  og spara. Það tekur greinilega ekki til varaformanns Sjálfstæðisflokksins og varaforasætisráðherra. Vinur minn Höskuldur Höskuldsson mundi sennilega orða það svo að það væri bara skóflupakkið sem ætti að spara en ekki fyrirfólkið í stjórnarráðinu.


mbl.is Myndi taka þessa ákvörðun aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingunni sagt stríð á hendur.

John McCain valdi réttan meðframbjóðanda þar sem Sarah Palin fylkisstjóri í Alaska er. Með henni fær framboðið ferskleikablæ sem það þurfti svo nauðsynlega á að halda.

Athyglivert er að John McCain skuli segja spillingunni stríð á hendur og skuli taka það sérstaklega fram að þar sé flokkur hans ekki hvítskúraður.  Mikið þætti mér varið í Geir Haarde ef hann færi í sama ham hvað þetta varðar og John Mc Cain enda ekki vanþörf á þar sem sumir flokksmenn hans eru farnir að líta á ríkissjóð eins og akur sem megi taka úr að geðþótta.

Fyrir tæpu ári síðan þegar forkosningar Demókrata og Repúblikana voru að byrja þá skrifaði ég hér á bloggið mitt að mínir draumaframbjóðendur við forsetakosningarnar væru þeir Barrack Obama og John McCain. Báðir boðuðu þeir breytingar og hefðu eitthvað nýtt fram að færa. Á þeim tíma var Hillary Clinton líklegasti frambjóðandi Demókrata en sem betur fer tókst að koma í veg fyrir þá ógæfu að hún næði útnefningu. Margir voru taldir líklegri en John McCain en hann stendur nú þvert á alla spádóma uppi sem sigurvegari.

Fyrirfram hefði ég bókað auðveldan sigur Demókrata eftir ógæfu stjórn George W. Bush en John McCain hefur sýnt það aftur og aftur að hann er hið mesta ólíkindatól þegar kemur að því að vinna kosningar sem enginn bjóst við að hann myndi vinna.  Kosningabaráttan verður spennandi en alla vega þá eru bestu mennirnir sem í boði voru í kjöri.


mbl.is Sjálfstæður endurbótasinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1662
  • Frá upphafi: 2291552

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband