Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Formaður Framsóknarflokksins á móti greiðsluaðlögun.

Það er með ólíkindum með hvaða hætti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins veitist að þingflokki sínum þegar hann segist mótfallinn frumvörpum ríkisstjórnarinnar um greiðsluaðlögun.

Lög um greiðsluaðlögun er eitt helsta baráttumál neytenda til margra ára hvað varðar löggjöf til hagsbóta fyrir skuldsetta einstaklinga.  Hvað rekur formann Framsóknarflokksins til að taka afstöðu gegn þessum frumvörpum einmitt á sama degi og frumvarpið um greiðsluaðlögun varðandi veðskuldir á íbúðarhúsnæði var rætt á Alþingi.

Þingflokkur Framsóknarflokksins studdi frumvörpin um greiðsluaðlögun. Svo virðist því sem formaður Framsóknarflokksins taki afstöðu gegn helstu hagsmunamálum skuldsettra einstaklinga og fjölskyldna og gegn þeirri afstöðu sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað fyrir á Alþingi nú síðast varaformaður Framsóknarflokksins við umræður á Alþingi í dag.


mbl.is Greiðsluaðlögun stórhættuleg ein og sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra brýtur lög.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins og einn helsti áhrifamaður Framsóknar sagði í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gær að Steingrímur J. Sigfússon væri sekur um bókhaldssvindl. Bókhaldssvindl er  alvarlegt afbrot og það veit lögmaðurinn og þingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson.

Höskuldur Þórhallsson sem bæði er lögmaður og þingmaður veit að sú meginregla gildir í íslenskum rétti að hver maður skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. Með því að fullyrða að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sé sekur um bókhaldssvindl þá telur Höskuldur greinilega að sekt Steingríms sé sönnuð.

Dómsmálaráðherra fylgdist með umræðunum í gær og þess varð vart að hún lagði sérstaklega við hlustir þegar fram komu fullyrðingar um bókhaldssvindl fjármálaráðherra. Spurning er hvort dómsmálaráðherra fyrirskipar rannsókn á meintu bókhaldsmisferli fjármálaráðherra í kjölfar yfirlýsinga þingmanns Framsóknarflokksins.

Hvað sem öðru líður um yfirlýsingar þingmannsins þá starfar fjármálaráðherrann. Bókhaldssvindlarinn að mati Höskuldar Þórhallssonar þingmanns Framsóknarflokksins í boði Framsóknar.  Vildi Höskuldur Þórhallsson vera samkvæmur sjálfum sér ætti hann að leggja fram vantrausttillögu á Steingrím J. Sigfússon. Það er ekki hægt að hafa bókhaldssvindlara sem fjármálaráðherra í boði Framsóknar eða hvað? 


Orð Barack Obama um bankahrunið á Íslandi.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna er líklega sá maður sem hvað gerst þekkir til efnahagskreppunar í heiminum og hefur kynnt sér ítarlega ástæður bankahrunsins og hefur auk heldur aðgang að betri upplýsingum en nokkur annar lætur sér ekki til hugar koma að halda því fram að stjórnmálaandstæðingar hans beri ábyrgð á bankahruninu í Bandaríkjunum jafnvel þó það hafi gerst á þeirra vakt eins og margir hafa orðað það hér á landi.   

Bandaríkjaforseti bendir á hvað bankahrunið sé alvarlegt og alþjóðlegt vandamál vegna  þess hvernig fjármálastofnunum um allan heim var stjórnað undanfarin ár. Bankahrunið á sér langan aðdraganda og það veit Bandaríkjaforseti mæta vel.

Árið 2007 voru tæp 70% af útlánum bankanna í heiminum ónýt samkvæmt því sem virtasta greiningarfyrirtæki heims Standard og Poors heldur fram. Sjö krónur af hverjum tíu voru ónýtar, lánaðar til ónýtra verkefna, einstaklinga eða fyrirtækja. Þetta er ótrúlegt en sennilega rétt.

Svo virðist sem horfið hafi verið frá öllum eðlilegum gildum í bankastarfsemi fyrir mörgum árum og bönkunum í heiminum hafi verið stjórnað af fólki sem var sannfært um að verðmæti yrðu til með hækkuðu hlutabréfaverði  en áttuðu sig ekki á því að raunveruleg verðmæti verða ekki til nema með framleiðslu, dugnaði, hugviti og nýjungum. Þau vandamál sem eru að kristallast í bankakerfinu um allan heim hafa verið að þróast um nokkurra ára skeið.  

Bandaríkjaforseti veit að frjáls viðskipti skipta máli og eitt það heimskulegasta sem hægt væri að gera núna væri að reyna að byggja einhverja múra og verndarstefnu. Í ræðu sem hann hélt á fimmtudaginn varaði hann við því og benti á mikilvægi alþjóðlegra viðskipta. Í sömu ræðu benti hann á þá staðreynd að efnahagskerfi heimsins væru orðin svo samofin að vandamáli húseiganda í Flórída á að greiða húsnæðislánin sín yllu bankahruni á Íslandi. Obama lét sér ekki detta í hug að það hafi verið vegna stjórnarstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem þá var á Íslandi.

Obama horfir á þessu vandamál í víðu samhengi út frá raunveruleikanum. Hann er ekki að draga rangar ályktanir af gefnum forsendum eins og ítrekað er reynt að gera hér á landi.

Ástæður bankahrunsins hér eru alþjóðlegar og hefðu gerst óháð því hvaða ríkisstjórn var við völd eða hvaða stjórnmálaflokkar. Fáir hefðu getað orðað það betur en Barack Obama Bandaríkjaforseti.  


Hverjir bera ábyrgð á efnahagshruninu

Sú saga er sögð af þekktasta rannsóknarlögreglumanni allra tíma Sherlock Holmes að hann og Dr. Watson læknir vinur hans hafi einu sinni farið í útilegu og þar sem þeir eru í útilegunni að nóttu til snýr Holmes sér að félaga sínum og segir  “Segðu mér kæri vinur hvað þú sérð.”  Watson læknir lítur í kring um sig og upp fyrir sig þar sem hann liggur í svefnpokanum og segir “Ég sé milljónir af stjörnum.”  “Hvað segir það þér” spyr Sherlock Holmes. Watson læknir hugsar sig um og segir síðan. “Það segir mér að það séu milljónir sólkerfa og pláneta. Að Guð sé almáttugur og við erum  eins og sandkorn á ægistórri strönd.”  Þú ert nú meira fíflið Watson” sagði Sherlock Holmes þá við vin sinn. “Það segir þér ekkert annað en að það er búið að stela tjaldinu okkar.” Af sjálfu leiðir að Watson læknir hefði ekki getað séð upp í óravíddir geimsins þegar tjaldhimininn var yfir og honum átti strax að vera ljóst af hverju hann gat séð upp í himininn en hann fór á annað hugarflug sem hafði lítið með raunveruleikann að gera.  

Að mörgu leyti hefur mér fundist hinum innan sviga dáðríku fjölmiðlamönnunum og þeim svokölluðu sérfræðingum sem þeir hafa kallað til að fjalla um ástand þjóðmála hafa farnast eins og Watson lækni þegar þeir hafa fjallað um efnahagshrunið og ástæður þess að bankarnir hrundu. Aftur og aftur er klifað á því að efnahagshrunið stafi af því að ákveðnir stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi ekki staðið sig sem skildi. Því hefur jafnvel verið lætt inn að þetta sé að kenna gjörspilltum stjórnmálamönnum. En er það þannig vaxið?

Var ekki tjaldinu einfaldlega stolið og fjölmiðlamennirnir og stjórnmálafræðingarnir varast að benda á þjófinn eða þjófana. Reynt er að gera þá ábyrga sem var stolið frá og sagt að þeir hafi ekki læst útidyrunum nógu og vel eða verið of seinir til að slökkva þá ofurelda sem höfðu verið kveiktir.

Enginn minnist hins vegar á brennuvargana. Einn þingmaður vinur minn Ellert B. Schram orðaði það þannig í umræðum um stjórnarskrána á fimmtudaginn að kerfishrunið væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.  

Er það svo að bankahrunið hafi verið Sjálfstæðisflokknum að kenna? Er það svo að spilltir stjórnmálamenn hafi valdið því að bankarnir féllu. Var það vegna aðgerða Seðlabankans eða þess að Fjármálaeftirlitið sinnti ekki verkum sínum? Var samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar vanhæf og ber hún ábyrgðina eða er þetta e.t.v. afleiðing af rangri stjórnarstefnu undanfarinna ára og áratugs? 

Í umræðunni í fjölmiðlum og í þeim sérkennilega þætti Egils Helgasonar “Silfur Egils” eins og hann hefur þróast í vetur þá hefur ekki verið annað að skilja en að það séu stjórnmálamenn og  Seðlabankinn vegna þess að þar var lögfræðingur einn þriggja bankastjóra og Fjármálaeftirlitið sem í raun beri höfuðábyrgð á bankahruninu. En hafa verið færð einhver skynsamleg rök fyrir þessum staðhæfingum?

Eru þessar orðræður eitthvað annað en orð grunnhygginna fréttamanna og svokallaðra sérfræðinga sem reyna að slá pólitískar keilur, eða vita ef til vill ekki betur og nenna ekki að kynna sér staðreyndir en láta samt eins og þeir séu sérfræðingar. Mér finnst þessu fólki sem fer fram með þessa sleggjudóma farast eins og Watson lækni það sér ekki það einfalda í málinu. Tjaldinu var stolið.   

Hvaða einstaklingur hefur með fyrirtæki að gera sem skulda hundrað eða hundruði milljarða í öllum föllnu bönkunum. Mun hærri fjárhæð en svokallaðar Icesave ábyrgðir. Það er helsti ráðamaður Baugs. Skuldir Baugs og tengdra félaga við íslenskar banka- og lánastofnanir sem ekki fást greiddar nema tæpum þúsund milljörðum króna. Liggur þá ekki fyrir hver stal tjaldinu?

En af hverju tala fjölmiðlafræðingarnir ekki um Stjórnendur Baugs, Bakkavarar, FL Group/Stoðir og slíkra aðila. Það voru þeir sem stálu tjaldinu. Af hverju tala menn ekki um það með hvaða hætti lánastarfsemi bankanna var. Af hverju veitt voru hundraða milljarða lán sem engar tryggingar voru fyrir og engin vitræn glóra var að lána. Lán sem jafnvel voru andstæð öllum lánareglum.   

Þessir aðilar bera ábyrgðina á efnahagshruninu. Vondir bankamenn sem fylgdu ekki eðlilegum reglum í lánastarfsemi og vondir fjárfestar sem fjárfestu með glórulausum hætti. Ég hef í heiðri þá meginreglu siðaðs þjóðfélags að hver maður skuli talinn saklaus þar til sekt hans sé sönnuð. Þess vegna ætla ég ekki að kveða upp dóma á þessu stigi yfir einstaklingum en það er hins vegar alveg ljóst að það hefur verið farið á svig við bókhaldsreglur, lánareglur og ekki verður annað séð en um margháttaða svikastarfsemi hafi verið að ræða. Þeir sem það stunduðu bera á því ábyrgð og munu þurfa að svara til saka í fyllingu tímans. Það verða aðrir menn en stjórnmálamenn fyrrverandi Seðlabankastjórar eða stjórnarformaður og forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem það þurfa að gera. Það verða þeir sem stálu tjaldinu og það er sorglegt að helstu álitsgjafar íslensks samfélags skuli stöðugt klifa á því að það séu einhverjir aðrir en þeir sem svo augljóslega bera ábyrgð á því.  

Ég spyr aftur. Hvernig stendur á því að fjölmiðlamennirnir og aðrir spekingar skuli ekki horfa á staðreyndir varðandi bankahrunið og kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð. Þá sem stálu tjaldinu.  

Ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á efnahagshruninu? Ég svaraði vini mínum Ellert B. Schram á Alþingi sama dag og hann flutti sína ræðu og benti honum á að það væri gjörsamlega fráleitt að halda því fram að einhver stjórnmálaflokkur bæri ábyrgð á efnahagshruninu. Að halda því fram að það sé Sjálfstæðisflokkurinn eins og Ellert gerði er fráleitt enda þarf hann þá að finna þeim orðum sínum eðlilegan stað sem hann hefur ekki gert. Vissulega brá mönnum í vetur þegar bankahrunið varð og vafalaust eru margir alsaklausir sem kenna sjálfum sér um.

Geir H. Haarde fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í setningarræðu á Landsfundi að hann bæðist afsökunar á því að þegar bankarnir voru seldir hafi ekki verið dreift eignarhald á þeim. En hefði það nokkru breytt. Hefði bankahrunið ekki orðið þrátt fyrir það.  Ég held því fram að það hafi engu skipt þó að ríkið hefði staðið að sölu bankanna með öðrum hætti en gert var. Jafnvel þó að almenningshlutafélag hefði verið stofnað um Landsbankann eða Kaupþing eða báða.

Við skulum í því sambandi skoða hvernig fór með almenningshlutafélagið Baug. Stoðaði þar að hafa dreifða eignaraðild? Nei svo sannarlega ekki. Með fullri virðingu fyrir Geir H. Haarde og þessari afsökunarbeiðni hans þá gildir hún ekki um bankahrunið og hefur ekkert með það að gera. Ég skal hins vegar taka undir með honum að það hefði verið betra að standa með öðrum hætti að einkavæðingu bankanna. 

En hvað þá með fyrirtæki eins og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Það var heldur betur dreifð eignaraðild þar. Breytti það einhverju um lánastefnu Sparisjóðsins eða gengisleysi hans? Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var fyrir nokkru ein allra traustasta fjármálastofnun landsins. Stjórnendur SPRON tóku sömu helsóttina og bankamenn stóru viðskiptabankanna og dreifða eignaraðildin skipti ekki neinu máli. Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur ber enga ábyrgð á bankahruninu. Flokkurinn sem slíkur eða stefna hans hafði ekkert með það að gera.

Bankahrunið varð vegna þess að markaðslögmálunum var ekki fylgt og fjölþjóðlegar reglur voru notaðar til að varpa þeirri ábyrgð sem einstaklingar eiga að bera á eigin rekstri yfir á samfélagið. Ábyrgð stjórnenda banka og annarra fjármálafyrirtækja var ekki með þeim hætti sem hún á að vera. Það er alþjóðlegt vandamál og þess vegna er bankakreppan ekki séríslensk heldur alþjóðleg.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki ábyrgð á bankahruni í Írlandi, Englandi, Bandaríkjunum eða Ungverjalandi svo nokkur lönd séu nefnd. Í öllum þessum löndum hafa stærstu fjármálastofnanirnar fallið og ríkisvaldið hefur þurft að grípa inn í með ærnum tilkostnaði. Þeir sem halda því fram að bankahrunið verði að einhverju leyti eða öllu rakið til Sjálfstæðisflokksins verða þá að finna þeim orðum sínum stað.  Sú orðræða hefur farið fram í nákvæmlega hálft ár í dag.

Í dag er hálft ár liðið frá því að bankahrunið varð. Ekki einn einasti álitsfræðingur eða fjölmiðlamaður hefur fært nokkur gild rök að því að bankahrunið sé Sjálfstæðisflokknum eða einstökum forustumönnum hans að kenna. Þetta eru einfaldlega innantóm orð og rangar staðhæfingar. Það er með ólíkindum að þeir vinstri menn sem halda því fram að bankahrunið sé Sjálfstæðisflokknum að kenna skuli draga jafn rangar ályktanir og þeir gera af þeim gefnu forsendum sem fyrir hendi eru.


Aðgerðarhópur Vinstri grænna í baráttu fyrir ólöglega innflytjendur.

Aðgerðarhópur Vinstri grænna hefur gert þá kröfu að ólöglegum innflytjendum sé haldið í landinu sem lengst á kostnað íslenskra skattgreiðenda.  Á sunnudaginn fóru félagar í aðgerðarhópnum ásamt nokkrum félögum úr Borgarahreyfingunni að heimili dómsmálaráðherra til að knýja á um að ekki yrði farið að þeim reglum sem Ísland hefur í gildi varðandi ólöglega innflytjendur.  Að sjálfsögðu voru ríkisfjölmiðlarnir og aðrir fjölmiðlar með í för en þeir láta sig aldrei vanta þegar aðgerðarhópur Vinstri grænna grípur til aðgerða óháð því hversu smekklegar eða smekklausar þær eru.

Aðgerðarhópur  Vinstri grænna hefur allt of oft farið yfir eðlileg mörk. För hópsins að heimili dómsmálaráðherra á sunnudaginn er þessu fólki til skammar. Til hvers var farið? Til að knýja á um að dómsmálaráðherra tæki ákvörðun andstætt fjölþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Til að knýja á um að ólöglegir innflytjendur og hælisleitendur yrðu sem lengst á Íslandi á kostnað íslenskra skattborgara.

Mér er ljóst að Vinstri grænir vilja ekki hafa neinar hömlur á för fólks milli landa. Þeir geta haft þá skoðun en meiri hluti þjóðarinnar hefur aðra skoðun og hefur þess vegna sett sér ákveðnar lagareglur í samræmi við bandalagsþjóðir sínar í Evrópu. Vilja Vinstri grænir að við hættum í því samstarfi og lýsum yfir opnum landamærum.  Vill aðgerðarhópurinn það?

Þeir sem láta sér detta í hug að kjósa Vinstri græna í næstu Alþingiskosningum ættu að skoða vel stefnu þessa flokks og aðgerðir. Samræmast upphlaup aðgerðarhóps Vinstri grænna um opin landamæri fyrir alla innflytjendur t.d.  þínum skoðunum?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 90
  • Sl. viku: 2488
  • Frá upphafi: 2291471

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2264
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband