Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Evrópusambandið og þjóðarviljinn.

Ég er fylgjandi því að lýðræðið sé sem beinast þannig að meiihluti kjósenda geti ráðið því hvaða ákvörðun er tekin hverju sinni.  Við ættum að taka reglur um þjóðaratkvæði í Sviss til fyrirmyndar. Þar geta kjósendur fellt löggjöf úr gildi eða komið á nýrri löggjöf með þjóðaratkvæðagreiðslum og það er tiltölulega auðvelt að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mál. Svisslendingar hafa haft þennan vísi að beinu lýðræði í meir en hundarð ár og í öllum tilvikum þar sem þingmeirihluti og þjóð hefur greint á hefur það sýnt sig í ljósi sögunnar að þjóðin hafði rétt fyrir sér.

Nú er deilt um það hvort að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort farið skuli í aðildarviðræður að Evrópusambandinu.  Þar er um stórt skref að ræða sem ég hefði viljað að hefði verið stigið fyrir löngu. En það er eðlilegt að þjóðin fái að segja hug sinn í málinu og ákveðið verði að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið sem allra fyrst þannig að aðildarviðræður verði þá þegar í haust samþykki meiri hluti þjóðarinnar það sem mér þykir raunar næsta víst miðað við niðurstöður í skoðanakönnunum undanfarið.

Samninganefnd Íslands yrði með betra og sterkara veganesti hefði hún ótvíræðan stuðning þjóðarinnar á bakvið sig í málinu.

Það sem mér finnst skrýtið í þessu máli nú er samt það að þeir sem eru á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið knýja nú harðast á um þjóðaratkvæðagreiðslu og virðast þá ekki átta sig á því að mun fleiri munu greiða atkvæði með aðildarviðræðum en líklegir eru til að samþykkja aðild eftir aðildarviðræður. En það að greiða atkvæði með aðildarviðræðum hefur áhrif með þeim hætti að margir sem það gera munu veigra sér við að greiða atkvæði með öðrum hætti þegar samningurinn liggur fyrir.

Eftir að hafa heyrt af umræðum á Alþingi í dag um þetta mál þá datt mér í hug sagan af því þegar Þórbergur Þórðarson kom fyrir Drottinn allsherjar og gerði honum grein fyrir því af hverju hann ætti heima í himnaríki en ekki helvíti og Drottinn allsherjar sagði við breytum skipulaginu. Með sama hætti hefði Össur utanríkis átt að segja við breytum skipulaginu, þetta er hið mesta þjóðráð og eykur líkur okkar á aðild.


Var Höskuldur Þórhallsson alþingismaður kúgaður.

Það er athyglivert að Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins beinir því til forseta Alþingis að forseti hlutist til um að þingmenn verið ekki kúgaðir til að taka afstöðu eftir því sem orð þingmannsins verða best  skilin þvert á vilja sinn.

Höskuldur vísar í því sambandi til þess að þingfundi hefði verið frestað um einn dag á síðasta þingi vegna afstöðu sem hann tók í Seðlabankamálinu svokallaða. Daginn eftir hafði þingmaðurinn gert upp hug sinn í samræmi við flokkslínuna og línu ríkisstjórnarinnar um að samþykkja skyldi frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á Seðlabankalögum. Spurning er hvort Höskuldur er að vísa þarna til þess að hann hafi í raun verið kúgaður til að taka þessa afstöðu þvert gegn vilja sínum. Þá er spurning hvað gat forseti gert í því?

Forseti Alþingis hefur ákveðin völd en þingmenn hafa stjórnarskrárvarinn rétt og skyldur til að taka afstöðu í samræmi við sannfæringu sína. Geri þeir það ekki þá eiga þeir það við sjálfa sig og forseti Alþingis hefur ekkert með það að gera. Bæði Ásmundur Daðason VG og Höskuldur Þórhallsson Framsókn verða að átta sig á því að þeir eru kjörnir á Alþingi sem einstaklingar og bera ábyrgð sem slíkir en forseti Alþingis hefur ekkert með það að gera hvernig þeir fara með stjórnarskrárvarin réttindi sín.

En það sem eftir stendur eftir þessa orðræðu Ásmundar Daðasonar VG er að hann hefur sjálfur svipt sig málfrelsi á Alþingi vegna þess að einhver hefur sagt við hann að afstaða hans gæti leitt til stjórnarslita. Sé svo þá er eðlilegt að hvetja manninn til að tala sem mest ef það má verða til að ríkisstjórnin falli.

Spurningin sem snýr að Höskuldi Þórhallssyni er hins vegar hver kúgaði hann, hvenær og hvernig og til hvers við meðferð Seðlabankafrumvarpsins í febrúar og mars s.l.  Tók hann ekki ákvarðanir í samræmi svið sannfæringu sína og samvisku? Var þingmaðurinn að vísa til þess?


mbl.is Hefði þýtt stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki ofboðið?

Mér er ofboðið að heyra að "fjármálasnillingar" þjóðarinnar sem náðu tangarhaldi á Sjóvá-Almennum tryggingum skuli hafa notað þetta áður stönduga og vel rekna fyrirtæki sem seðlaprentun fyrir sjálfa sig til að fara á flug í fráleitum áhættufjárfestingum í Asíu og víðar.

Miðað við þá fjárfestingu sem helst hefur verið  sagt frá þá velti ég því fyrir mér hvort þessir fjárfestar og sérfræðingar þeirra fylgist ekki með og hafi ekki lesið varnaðarorð um fasteignabóluna þegar þeir ákváðu að fjárfesta í fasteignum í Asíu. Hvaða fjármálasérfræði og þekking lá að baki þessum fjárfestingum? Mér er nær að halda að það hafi ekki verið mikið vit eða þekking sem lá þar á bakvið því miður.

Enn einu sinni leggur ríkið einkafyrirtæki til gríðarlega fjármuni 16 milljarða í þessu tilviki,  vegna óreiðustjórnar einkafyrirtækis.  Mér finnst það rangt. Þeir sem eiga og reka einkafyrirtæki eiga að bera ábyrgðina en ekki skattgreiðendur.   Hvað er athugavert við það að fyrirtæki sem eru komin í þrot fari í gjaldþrotameðferð? 

Það er ljóst að það verður að gera grundvallarbreytingar á löggjöf þjóðarinnar til að tryggja það að skattgreiðendum komi einkafyrirtæki ekki við og beri ekki ábyrgð á þeim sem þar starfa. Hugmyndafræði markaðshyggjunnar byggist á því að þeir sem eiga og reka fyrirtæki taki áhættuna en geti ekki látið aðra borga áhættuna fyrir sig þegar illa gengur. 

Mér er nánast orða vant að sjá að helstu "fjármálasnillingar" þjóðarinnar hafa verið hinir verstu fáráðar og anað út í glórulausar fjárfestingar hver á fætur öðrum á ábyrgð þjóðarinnar.


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdabarátta í Vinstri grænum.

Nú gægist valdabarátta og ósætti í fyrsta sinn upp á yfirborðiði í Vinstri Grænum.  Steingrímur J. Sigfússon hefur í raun lagt allt að veði varðandi Icesave málið. Steingrímur fékk gamlan pólitískan vopnabróður til að leiða samninganefndina, föður umhverfisráðherra.  Steingrímur hefur mælt með samþykkt samningsins og gengið hvað harðast fram fyrir skjöldu í málinu. Samningurinn hefur auk heldur verið samþykktur af ríkisstjórninni.

Þá er sérkennilegt að nokkrir þingmenn VG þar á meðal heilbrigðisráðherra skuli koma ítrekað í bakið á formanni sínum. Næsta ljóst er að nái málið ekki meirihluta á þinginu að þá er ríkisstjórnin fallin og staða Steingríms J. Sigfússonar sem formanns VG verulega veik eða jafnvel ómöguleg og sennilega ekki annað fyrir hann en segja af sér. Þetta vita þeir liðsmenn hans í þingflokki VG sem hafa slett í góm og látið í veðri vaka að þeir muni ekki greiða atkvæði með málinu.

Sérkennilegust er samt afstaða Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra sem fer með þeim hætti sem hann hefur lýst gegn samþykkt ríkisstjórnarinnar og alls staðar í vestrænum lýðræðisríkjum mundi ráðherra sem er á öndverðum meiði við stefnu ríkisstjórnar segja af sér. Það að fara fram með þeim hætti sem Ögmundur gerir er því nokkuð sérkennilegt og í anda þess sem Indíánar Norður Ameríku sögðu um suma menn að þeir töluðu með klofinni tungu.


mbl.is Ekkert mál of snúið fyrir þjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10% atvinnuleysi.

Nýar tölur frá Vinnumálastofnun sýna að um einn af hverjum 10 er atvinnulaus. Svona mikið atvinnuleysi um mitt sumar er skelfilegt. Það bendir til þess að atvinnuleysi verði mun meira þegar kemur fram á haust og vetur.

Aðgeðir ríkisstjórnarinnar miða að því að leggja hærri skatta á fólk og fyrirtæki en það er til þess fallið að auka enn á atvinnuleysið í landinu.

Eitt af því sem ekki fæst upplýst í þessum tölum er hvað margir útlendingar eru í hópi þeirra sem eru atvinnulausir? Blaðamaður hélt því fram við mig að það væru um 10 þúsund manns eða um helmingur þeirra sem skráðir eru atvinnulausir.

Það væri mjög upplýsandi að fá að vita hvort stór hluti þeirra sem skráðir eru atvinnulausir í landinu er erlent starfsfólk sem hefur verið hér í stuttan tíma.  Sé svo þá sýnir það að fullyrðingar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru rangar þegar þeir sögðu á sínum tíma að ekki skipti máli þó að erlent vinnuafl streymdi inn í landið þar sem það mundi fara þegar minnna yrði um atvinnu.

Það er og verður að vera forgangsatriði að gefa atvinnulífinu svigrúm og möguleika og nú reynir meira á ríkisstjórn í þeim efnum en nokkru sinni fyrr.


mbl.is Tæplega 17 þúsund án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 569
  • Sl. sólarhring: 903
  • Sl. viku: 6313
  • Frá upphafi: 2278064

Annað

  • Innlit í dag: 518
  • Innlit sl. viku: 5824
  • Gestir í dag: 497
  • IP-tölur í dag: 483

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband