Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Ítrekað lögbrot umboðsmanns Alþingis

Umboðsmaður Alþingis hefur það hlutverk að gæta þess að stjórnsýslan fari að lögum, starfi samkvæmt vönduðum stjórnsýsluháttum og siðareglum.  Umboðsmanni ber að gefa Alþingi og almenningi árlega skýrslu um starfsemi sína, og segir í lögum um umboðsmann nr. 85/1997 að skýrsluna skuli „prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert“.

Í byrjun þessa mánaðar var fundur í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem nýútkomin skýrsla Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, fyrir árið 2011 var kynnt.  Þetta var um tveimur mánuðum eftir lögbundin tíma.  Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2010 kom einnig töluvert eftir lögbundinn tíma.  Þannig hefur umboðsmaður ítrekað brotið lög sem um störf hans gilda.  

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður, hefur í fjölmiðlum borið því við að stofnunin sé fáliðuð og verkefnin hafi aukist.  Sjálfsagt geta flestar stofnanir ríkisins sagt sömu sögu.  Umboðsmaður sjálfur hefur dæmt slík viðhorf léttvæg og ekki sparað stóru orðin þegar stjórnsýslustofnanir brjóta gegn lögbundnum frestum.  Þannig sagði hann t.d í einu máli :

„Þegar löggjafinn hefur bundið afgreiðslufresti í lög ber stjórnvöldum að haga skipulagi í störfum sínum og meðferð mála með þeim hætti að tryggt sé að þessir frestir séu haldnir“.

Það er illt í efni þegar eftirlitsaðili stjórnsýslunnar brýtur ítrekað lög.   Umboðsmaður Alþingis getur ekki gert minni kröfur til sjálfs sín en hann gerir til þeirra sem eftirlit hans beinist að – þá glatar embættið trúverðugleika og athugasemdir þess missa marks.

Nú er spurningin hvernig Alþingi  tekur á ítrekuðu lögbroti undirstofnunar sinnar, einkum í ljósi atlögunnar að Ríkisendurskoðun.  Alþingismenn hafa viðhaft stór ummæli um reglufestu, ábyrgð og aðhald í stjórnsýslunni.  Starfsemi umboðsmanns er á ábyrgð Alþingis. Nú reynir á hvort að þingmönnum er alvara eða hvort undirstofnun þingsins kemst upp með lögbrot og slæma stjórnsýslu áminningarlaust?

(Grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag 13.11.2012.)


Virðisaukaskattur og vægar refsingar?

Skattrannsóknarstjóri talaði um það í fréttum á Stöð 2 í kvöld að refsingar við virðisaukaskattsbrotum væri of vægar og vildi nýta frekari heimildir til að þyngja refsingar við slíkum brotum.

Þeir sem búa í vernduðu starfsumhverfi eins og skattrannsóknarstjóri og sívaxandi hópur kerfisfólks í stjórnsýslunni átta sig iðulega lítið á því hvað það er að tala um. Ég vona að það eigi ekki við skattrannsóknarstjóra en fannst örla á takmörkuðum skilningi á vandamálinu.

Enginn mælir bót skipulagri glæpastarfsemi að þessu leyti eða undanskotum í auðgunartilgangi. En það er bara önnur hliðin á krónunni.

Ein vitlausustu lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi eru ákvæði í lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda sem kveða á um að þeir sem greiða ekki þessi gjöld eða of seint skuli greiða fésekt allt að tífaldri skattafjárhæðinni og aldrei lægri en tvöfaldri skattafjárhæðinni sem undan var dregin eða greidd of seint.

Þetta þýðir að dómstólar hafa ekkert svigrúm vegna mismunandi aðstæðna. Tvöfalt skal það vera. Það þýðir að litli atvinnurekandinn sem er of seinn að greiða virðisaukaskattinn vegna tímabundinna erfiðleika, en greiðir hann síðar nokkrum mánuðum síðar kann að vera dæmdur til að greiða helmingi hærri upphæð og það hefur iðulega leitt til gjaldþrots viðkomandi einstaklings eða fyrirtækis.

Algengast er að einstaklingar sem eru ákærðir vegna þessara brota hafi verið að reyna að reka fyrirtækin sín áfram án þess að forsendur væru fyrir því. Áttu að sjálfsögðu að hætta þegar erfiðleikarnir byrjuðu. En því miður þá er það reglan frekar en undantekningin að atvinnurekendur ströggla með von um betri tíð og greiða fyrst laun og annað til að halda rekstrinum áfram en skilja þá venjulega sjálfa sig og ríkið útundan. Þeir sem fara verst út úr þessum röngu ákvörðunum eru þeir sem síðan eru ákærðir og gerð refsing sem veldur því að þeir geta aldrei risið á fætur aftur. Gjaldþrota það sem eftir. Löggjöfin gefur nánast ekkert svigrúm.

Jafnvel þó að úr hafi ræst fyrir fyrirtækið og skatturinn hafi verið greiddur þá dugar það ekki til. Tvöfaldan skatt skal greiða að lágmarki og hana nú af því að greitt var of seint.

Þriðja atriðið sem getur komið til er m.a. að viðkomandi hafi misst tökin á búinu og bókhaldið ekki verið fært, en fyrir liggur að af útgefnum reikningum hafi stórar fjárhæðir ekki verið greiddar. Undanskotið er því í raun ekkert. Bókhaldslegt en ekki raunverulegt.

Skattrannsóknarstjóri ætti frekar að huga að því að gera löggjöfina skynsamlegri en að kalla eftir því að þeir sem hafa misst atvinnu sína, fyrirtækin sín og alla peningana sína og eru gjaldþrota það sem eftir er ævinnar þurfi auk þess að vinna lengri tíma í samfélagsþjónustu.

Hvenær er þá fullrefsað?

Hvaða refsing bíður svo þeirra sem misfara með opinbert fé?


Árni Páll veldur Jóhönnu vonbrigðum.

Árni Páll Árnason hefur ekki verið eftirlæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Ljóst hefur verið að hann ætti ekki sérstaklega upp á pallborðið hjá forsætisráðherra og þess vegna situr hann ekki í ríkisstjórn þrátt fyrir að vera fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar í  Suðvesturkjördæmi fjölmennasta kjördæmi landsins.

Jóhanna tók Katrínu Júlíusdóttur fram yfir Árna Pál sem ráðherra og geymdi m.a. embætti fjármálaráðherra fyrir hana meðan hún var í barneignarfríi. Jóhanna gekk þá framhjá Árna Páli og fékk óreyndan þingmann flokksins úr Suðurkjördæmi til að setjast í þetta mikilvægasta ráðherraembætti á eftir forsætisráðherraembættið.

Þessar tilfæringar Jóhönnu varðandi ríkisstjórnina voru allar vel hugsaðar í valdabaráttunni innan flokksins. Þannig ætlaði Jóhanna að sjá til þess að óreyndi þingmaðurinn Oddný G. Harðardóttir gæti með ráðherrasetu náð þeirri stöðu að velta Björgvini Sigurðssyni úr sessi sem efsta manni á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.  Í samræmi við áætlun Jóhönnu þá hefur Oddný nú lýst því yfir að hún sækist eftir því að leiða listann í Suðurkjördæmi. 

Með sigri í prófkjöri Samfylkingarinnar á laugardaginn kom í ljós að tök Jóhönnu á Samfylkingunni eru ekki eins sterk og áður  og ekki tókst að velta Árna Páli úr sessi jafnvel þó að óskabarn Jóhönnu, sem er raunar hin mætasta kona,  sækti að honum. Sigur Árna Páls er því mikil vonbrigði fyrir Jóhönnu og þá sem eru lengst til vinstri í Samfylkingunni. 

Með sigrinum vann Árni Páll Árnason góðan áfangasigur í baráttunni um það að verða næsti formaður flokksins.  Ástæða er til að óska Árni Páli til hamingju með sigurinn, sem kom nokkuð á óvart miðað við hvað hatrammlega hefur verið að honum sótt á mörgum vígstöðvum.


Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi styrkja flokkinn að því leyti að þau endurspegla málefnalega breidd í flokknum.  Formaður flokksins fékk þó ekki viðunandi kosningu. Hann er þó ekki fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins sem þarf að sæta slíkum örlögum.

Afgerandi stuðningur við Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem hefur verið stefnufastur og skeleggur þingmaður og stuðningsmaður aðildarviðræðna við Evrópusambandið sýnir að kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins telja rétt að slíkar skoðanir eigi heima í Sjálfstæðisflokknum. 

Jón Gunnarsson er duglegur þingmaður og málefnalegur. Ég var aldrei í vafa um að hann mundi njóta þeirra verka. Spurningin var hvort hann mundi ná öðru sæti eins og hann sóttist eftir eða því þriðja.

Sigurvegarinn í prófkjörinu er nýliðinn Vilhjálmur Bjarnason. Stuðningur við hann kemur ekki á óvart. Við sem þekkjum Vilhjálm vitum að hann er skemmtilegur maður og skoðanafastur. Hann hefur látið þjóðmál til sín taka þó það hafi ekki verið í flokksstarfi í Sjálfstæðisflokknum.  Jákvæði kynning í spurningaþáttum í sjónvarpi kynnti hann og nafn hans var þekkt af góðum, skemmtilegum og vitsmunalegum tilþrifum.  Vilhjálmur eyddi nánast engum peningum í prófkjörsbaráttuna og fór gegn formanni flokksins þó það væri allt kurteislega gert. 

Elín Hirst nýtur langra starfa sem fréttamaður á RÚV. Elín Hirst er hins vegar ekki ókunn störfum Sjálfstæðisflokksins þó hún hafi ekki beitt sér með virkum hætti undanfarin ár. Slíkt samræmdist ekki stöðu hennar sem fréttamaður á sínum tíma. Elín tók þátt í störfum flokksins í ungliðahreyfingunni og skilaði á sínum tíma róttækum hugmyndum um nauðsyn endurskipulagningar flokksins.

Persónulega vonaði ég að Óli Björn Kárason fengi meiri stuðning. Óli Björn hafur verið virkur í pólitískri stefnumótun hægri manna. Óli Björn má þó vel við una þar sem hann kom seint inn í baráttuna og rak hana ekki af miklum þunga eða eyddi í hana fjármunum sem máli skipta.

Miðað við skoðanakannanir má ætla að þau sem lentu í 6 efstu sætunum í prófkjörinu nái kjöri á Alþingi næsta vor. Allt eru þetta góðir fulltrúar og traust fólk, en stóra vandamálið er hins vegar að engin í þessum hópi hefur áhuga á mikilvægasta velferðarmálinu sem er afnám verðtryggingarinnar.  Ég vona að þau athugi að það mál kann að skipta sköpum um fylgi eða fylgisleysi Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum.


Prófkjör og pólitík

Því miður er svo komið að fáir nýir frambjóðendur í prófkjörum flokkana hafa kveðið sér hljóðs í þjóðmálum svo eftir hafi verið tekið áður en þeir tilkynntu framboð sitt.  Þetta á þó ekki við um þá alla og sumir hafa iðulega vakið athygli fyrir skarpskyggni og stefnufestu.´

Óli Björn Kárason er einn þeirra manna sem þarf á stuðningi að halda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á morgun laugardag. Óli Björn hefur ítrekað tekið til máls og verið góður málsvari markaðskerfisins og traustur í málefnalegri baráttu á hægri vængnum.  Óli Björn hefur gefið út bækur um pólitík m.a. eina í miðjum prófkjörsslagnum.

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn gæti þess að velja frambjóðendur þannig að þeir endurspegli þann breiða hóp fólks sem styðja Sjálfstæðisflokksins. Þar mega einstrengisleg sjónarmið og viðhorf ekki ráða för. 

Kjósendur í prófkjörum verða að gæta þess að þeirra er ábyrgðin. Vilji þeir auka virðingu Alþingis þá verða þeir að velja þann hóp sem líklegastur er til að skila bestu vinnunni og auka virðingu og vitsmuni á Alþingi.


Vesalings prófessorinn.

Sumir róttækir vinstri menn eru svo illa haldnir af mannfyrirlitningu gagnvart  þeim sem eru á öndverðum meiði við þá í pólitík að þeir mega ekki heyra af mannkostum þeirra án þess að hreyta í þá ónotum. Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands er einn þessara manna.

Í gær benti ég á bók sem fyrrum lífvörður Margaret Thatcher skrifaðu um hana og þær fallegu lýsingar sem hann gaf af henni sem umhyggjusamri og góðri konu. Konu sem hugsaði vel um starfsfólkið sitt.

Þetta var of mikið fyrir Stefán Ólafsson sem í blindu ofstæki hefur fundið út að skrif mín um Margaret Thatcher stafi af meiriháttar plotti frjálshyggjumanna. Auk þess sem fátækt barna sé sópað undir teppið. Þau tilþrif prófessorsins eru þess eðlis að ég hlakka til að svara honum hvað það varðar. Ég mun gera það fljótlega með grein í Morgunblaðinu.

Prófessorinn finnur það út í sínum tryllta pólitíska hugarheimi að ég sé að hippavæða frjálshyggjuna með þessum skrifum og kasta sauðagærunni yfir gráðuga fjárglæfrafólkið sem í mér og öðru markaðshyggjufólki búi. Mig skorti hugmyndaflug til að átta mig á þessu alheimsplotti mínu, sem Stefán Ólafsson telur sig hafa afhjúpað.

Af tilliti til andlegrar og pólitískrar heilsu Stefáns Ólafssonar prófessors mun ég láta hjá líða um stund að benda á hvað Ronald Reagan var einstaklega vænn maður og vandaður til munns og handa.


Bretar hafa gert innrás í 90% landa í heiminum.

Könnun sem hefur verið gerð sýnir að Bretar hafa einhvern tímann ráðist inn í 90% allra landa í heiminum eða um 180 lönd.  Af um 200 löndum þá hafa aðeins 22 sloppið frá því að Bretar gerðu innrás í landið. Þar á meðal eru lönd eins og Tajikistan, Guatemala og Luxembourg.

Í bók sinni "Öll lönd sem við höfum einhverntímann ráðist inn í: Og þau fáu sem við náðum ekki til". gerir Stuart Laycock grein fyrir hernaðarstefnu Breta og hvað mikilvirkir þeir hafa verið. En af því að við erum á breska fréttasvæðinu þá er okkur stöðugt talin trú um að þetta sé ein besta og friðsamasta  menningarþjóð veraldar.

Á meðal landanna sem Bretar hafa gert innrás í er Ísland en Bretar gerðu innrás í Ísland árið 1940. Spurning er líka hvernig á að túlka valdatöku Jörundar sem fékk viðurnefnið hundadagakonungur

Bretar hafa oftast gert innrás í Frakkland og farið með hernaði á hendur Frökkum margfalt oftar en nokkur önnur nágrannaþjóð Frakka þ.á.m. Þjóðverjar.

Athyglisverðar staðreyndir.

Athyglisverðar upplýsingar.  Var einhver að tala um að Bretar væru friðelskandi og sanngjarnir?


Umhyggjusama járnfrúin

Margaret Thatcher fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands er einn merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar. Hún barðist m.a. fyrir lækkun skatta, minni ríkisútgöldum og ríkið eyddi ekki um efni fram. Meðan hún var við völd sóttu vinstri menn í Bretlandi og víðar hart að henni. Hún varð tákn baráttunnar gegn vinstri öfgunum sem því miður hafa tekið völdin víða í Evrópu og stefna hverju þjóðfélaginu á fætur öðru í gjaldþrot.

Margaret Thatcher sagði oft "The problem with socialism is that in the end you run out of other peoples money".

Myndin sem búin var til af Margaret Thatcher af vinstri mönnum var sú að hún væri hörð, ósveigjanleg og frek. Þessi afskræmda mynd var að verulegu leyti tekin upp í kvikmyndina sem átti að vera um hana, en sýndi aðallega gamla konu sem þjáðist af elliglöpum.

Þessi mynd af Margaret Thatcher er röng. Fólk sem var í nánu samneyti við hana lýsir henni sem umhyggjusamri og tilfinningaríkri konu. 

Í bók sem Barry Stevens fyrrum lífvörður hennar skrifar kemur fram að Thatcher sýndi fólki sem vann hjá henni mikla umhyggju og gerði margt sem fáum hefði dottið í hug að forsætisráðherra Breta mundi nokkrum sinnum gera. Bókarhöfundur lýsir því að Thatcher hafi m.a. sjálf gætt þess að starfsfólkið fengi að drekka og borða og ekki vílað fyrir sér að fara á fjórar fætur til að hreinsa hundaskít af skóm lífvarðar sem varð fyrir því óhappi að stíga á slíkt rétt fyrir utan Downing stræti 10.

Lýsing lífvarðarins sem var ekki stuðningsmaður Thtacher í upphafi á því hvað hún lét sér umhugað um starfsliðið hefði það eins gott og unnt var þegar þau þurftu að vera með henni á hátíðisdögum er mjög athyglisverð. Enda segir Barry Stevens að hún hafi sýnt starfsliðinu svo mikla móðurlega umhyggju að hann hefði ekki hikað við að standa í skotlínunni til að vernda hana ef á þyrfti að halda.

Oft er dregin upp röng mynd af þeim einstaklingum sem vinna iðulega vanþakklátt starf í þágu fjöldans. Það á við um Margaret Thatcher og marga aðra stjórnmálamenn sem skara fram úr og láta ekki feykja sér til eftir því hvernig fjöldinn hrópar hverju sinni og vindurinn blæs.

Gera þarf nýja og raunsanna kvikmynd um Margaret Thatcher. Draga þarf fram hvað hún kom mörgu góðu til leiðar og leiddi Bretland út úr kreppu og stjórnleysi.


Prófkjör og verðtrygging

Ég þakka öllum þeim sem hafa hvatt mig til að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna komandi Alþingiskosninga. Niðurstaða mín varð samt sú að gera það ekki af ýmsum ástæðum.

Þessi ákvörðun breytir engu um pólitískan áhuga, skoðanir, áherslur eða baráttu fyrir réttlátu þjóðfélagi.

Mikilvægasta réttlætismálið er að fá réttlát, sanngörn og eðlileg lánakjör fyrir fólk og fyrirtæki. Mikilvægast í því sambandi er að afnema verðtrygginguna af lánum til neytenda.

Lausastök í efnahagsmálum þjóðarinnar sem valda m.a. hárri verðbólgu stafa ekki síst af því hvað auðvelt er vegna verðtryggingarinnar að velta óstjórninni yfir á almenning í landinu.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti án mótatkvæða að afnema verðtryggingu á netyendalánum. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur haft þessa ályktun að engu. Þessi afstaða þingflokksins hefur valdið mér vonbrigðum.

Miðað við það hvernig mál skipast í störfum á  Alþingi og þingflokka tel ég auðveldara að sinni að berjast fyrir þessu réttlætismáli utan þingflokksins en innan hans.


Peningastjórn eða óstjórn Seðlabankans

Krónan hefur fallið mikið gagnvart erlendum gjaldmiðlum undanfarið. Yfirlýsingar Seðlabankastjóra eru ekki þess eðlis að þær skýri hvað um er að ræða eða við hverju megi búast.

Með gjaldeyrishöftunum og þeirri peningastefnu sem mótuð var af Seðlabankastjóra og ríkisstjórn var við það miðað að halda genginu þokkalega stöðugu og verðbólgu innan ákveðinna marka. Hvorugt hefur gengið eftir.  Spurning er þá hvað er framundan?

Á sínum tíma mótaði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri þá stefnu í íslenskum gengismálum sem átti eftir að verða þjóðinni mjög dýrkeypt, þegar hann seldi stjórnvöldum og stjórnum Seðlabanka hugmyndina um flotkrónuna. 

Ef til vill er það ein mesta kaldhæðnin sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur sýnt að ráða Má Guðmundsson sem Seðlabankastjóra til að láta hann dansa í rústum misheppnaðrar kenningar hans sjálfs um stjórn gengismála.

Mér datt í hug þegar ég hlustaði á Má Guðmundsson í Silfri Egils um daginn það sem vitur maður sagði um hagfræðinga. "Fólk gerir grín að þeim sem trúa á stjörnuspár, en gerir síðan áætlanir og trúir því sem hagfræðingar segja."


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 509
  • Sl. sólarhring: 1239
  • Sl. viku: 2039
  • Frá upphafi: 2293507

Annað

  • Innlit í dag: 465
  • Innlit sl. viku: 1856
  • Gestir í dag: 455
  • IP-tölur í dag: 445

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband