Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Millifærsluþjóðfélagið

Millifærsluþjóðféalgið byggir á því að peningar eru teknir frá sumum til að láta aðra hafa. "Velviljaðir" stjórnmálamenn sem vilja slá sig til riddara fyrir vasklega framgöngu í þágu sérhagsmuna ákveðinna hópa leggja því til nýa skatta fyrir þá sem náðar njóta.

Almenn sátt varð eftir miðja síðustu öld um almennt velferðarkerfi sem byggðist á hjálp við þá sem virkilega þörf höfðu, til að tryggja þeim fæði, húsnæði, almenna heilsugæslu og menntun.  

Nú er velferðar- og millifærslukerfið komið í algjörar ógöngur. Grundvallarvelferðin verður oft útundan og fólk þarf að leita eftir matargjöfum frá hjálparstofnunum. Á sama tíma er flókið millifærslukerfi t.d. á stundum fyrir atvinnugreinar og þá sem betur mega sín í þjóðfélaginu.

Eftir því sem stjórnmálamenn föndra lengur við vinsældaleit með frekari ríkisafskiptum án heildarstefnu eða markmiða þá verður kerfið dýrara, flóknara og ómarkvissara. Sumir fá margfalt meira en aðrir þó þörfin sé hin sama.

Velferðarkerfi Vesturlanda er löngu orðið ósjálfbært en þjónar samt ekki nægjanlega vel þeim grundvallaratriðum sem þjóðfélagssáttinn um velferð byggir á. Þjóðirnar horfa fram á auknar lántökur,  ríkisgjaldþrot og hrun velferðarkerfisins innan fárra ára með sama áframhaldi.

Eitt mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að móta velferðarstefnu sem byggir á raunverulegri velferð fyrir þá sem á þurfa að halda og sem mestri takmörkun á millifærslum.  Það er forsenda minni ríkisútjgalda, skattalækkana og kemur í veg fyrir þjóðargjaldþrot.

Samband ungra Sjálfstæðismanna bendir réttilega á það að ástandið sé ekki björgulegt þegar hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins mælir fyrir auknum millifærslum, sem renni til sumra með aukinni skattheimtu á allan almenning. 

Unga fólkið í flokknum spyr með hvaða hætti og hvernig ætla menn að móta stefnu velferðar til framtíðar og  komast út úr þeim vanda sem millifærslurnar valda.

Smáskammtalækningar fyrir suma skapa ekki raunverulegt velferðarkerfi jöfnuðar með lágmarksskattheimtu, en samt afgangi á ríkisútgjöldum.


Lattelepjandi gáfumannafélagið

Silfur Egill Helgason lýsir því á netsíðu sinni hvernig hann vill hafa lattekaffið sem hann lepur við tilgreind tækifæri. Sjálfsagt talar hann þar fyrir munn fleiri úr lattelepjandi gáfumannafélaginu.

Ekkert er við það að athuga hvernig Egill Helgason vill hafa kaffið sitt eða aðrar neysluvörur og fólki kemur það ekkert við. En Egill er að amast við því  að íslenskir neytendur geti fengið aukna fjölbreytni. Egill er á móti því að hér komi Starbucks kaffihús og finnur því allt til foráttu.

Með sama hætti hlítur Egill að vera á móti fjölþjóðlegum keðjum eins og Kentucky Fried af því að hann vill hafa kjúklingavængina öðru vísi en þeir eru þar. Hvað þá að vera með Subway sem treðst inn á markað Hlölla báta sem framleiða ágætann skyndibita. Svo ekki sé talað um Dominos Pissur.

Starbuck hefur átt í erfiðleikum vegna skattamála og á það bendir Egill réttilega. Það er málefni sem íslensk skattayfirvöld verða að leysa. En meðal annarra orða hvað finnst Agli þá um Decode Genetics sem hefur starfað með íslenska erfðagreiningu hér á landi í rúman áratug og aldrei greitt tekjuskatta ekki frekar en fjölmörg önnur stórfyrirtæki. 

Er ekki eðlilegt að neytandinn ekki að fá að velja hvað hann vill án afskipta lattelepjara í 101 Reykjavík.


Öreigar

Við bankahrunið var fyrirsjáanlegt að verðbólga mundi aukast en verð á eignum standa í stað eða lækka. Ég gerði þá kröfu að neyðarlög yrðu sett, sem tæki verðtrygginguna úr sambandi. Jóhanna Sigurðardóttir og formaður ASÍ vildu það ekki. Þess vegna er stór hluti þjóðarinnar öreigar í dag.

Verðtryggingin étur upp eignir fólks. Verðtryggð lán á Íslandi eru dýrustu lán í heimi. Væri verðtrygging ekki til staðar yrði ekki unnt að koma henni á miðað við reglur um neytendavernd.

Allir stjórnmálaflokkar hafa í stefnuskrám sínum að afnema verðtryggingu. Samt gerir engin neitt.

Nú er komið í algjört óefni. Þá dettur skátaforingjanum frá Akranesi í hug að að lappa upp á kerfið með  því að setja verðbólguþak á verðtrygginguna. Hærra en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. 

Það verður fróðlegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins og þingmenn skýra það út fyrir Landsfundarfulltrúum í febrúar af hverju þeir sviku stefnu Sjálfstæðisflokksins um að afnám verðtryggingar á neytendalánum og færa niður höfuðstóla verðtryggðra lána.

Frá fátækt til bjargálna var vígorð Sjálfstæðismanna, þegar þjóðin átti færri kosti og var verr stödd. Nú hefur staðan breyst vegna verðtryggingarinnar. Tugir þúsunda hafa verið færðir í helsi fátæktar.  

ASÍ og stjórnmálaflokkarnir hafa svikið fólkið í landinu knúðir áfram af kór lífeyrisfurstana sem kyrja samstilltan verðtryggingarsöng sem leiðir til örbirgðar fólksins í landinu.

Öreigar Íslands munu hrista af sér hlekki örbirgðar með því að hætta að borga og flytja úr landi. Var það óskastaðan sem vormenn Íslands vildu að fengnu sjálfstæði þjóðarinnar?


Fimmföld verðhækkun??????

Frétt í sjónvarpi RÚV í gær vakti athygli. Sagt var frá því að dagvörur hefðu hækkað allt að  fimmfalt í verði miðað við Norðurlönd. Þetta var stórfrétt. Vöruverðshækkun veldur hækkun verðtryggðu lánanna. Af hverju var ekki búið að gera neitt í málinu af Samkeppnisstofnun og/eða ríkisstjórninni? Af hverju var ekki rætt við viðskiptaráðherra Steingrím J. vegna þessa okurs á neytendum?

En nei. Það var engin ástæða til að tala við Steingrím Þetta var í raun ekki frétt. Alveg ótrúleg ekki frétt.  Því miður voru vinnubrögðin á fréttastofu RÚV óviðunandi.

Þegar heimildir Nordic Statistic eru skoðaðar en þaðan hlítur þessi frétt að vera komin, þá sést að það er verið að fjalla um hækkun á 5 ára tímabili. Ekki er tekið inn í þessa útreikninga RÚV  gengishrun á Íslandi og gríðarlegar skattahækkanir á áfengi, tóbaki og bensíni.

Semsagt óvönduð ekki frétt. Fréttastofa RÚV ætti að gaumgæfa að það er af nógu að taka þar sem íslenskir neytendur þurfa að borga meira en neytendur í nágrannalöndum okkar. Umfjöllun um það þarf að vera meiri og vandaðri. Þá er ekki úr vegi að minnast stöðugt á dýrustu lán í heimi, sem íslenskir neytendur þurfa að bera.


Velsæld er vond

Umhverfisráðherra var í hópi 17.000 opinberra starfsmanna á loftslagsráðstefnunni í furstadæminu Qatar, þar sem samþykktar voru aðgerðir sem fela í sér nýja skatta og takmarka framkvæmdir. Að vísu ná samþykktir ráðstefnunar aðeins til 15% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum skv. upplýsingum ráðherrans í morgunútvarpinu.

Í viðtalinu sagði upptendraði umhverfisráðherrann í tengslum við þessa loftslagsráðstefnu,  að hún hefði móast gegn nýrri stóriðju í landinu. Atvinnulausir landsmenn hljóta að færa ráðherranum sérstakar þakkir fyrir það.

Einnig sagði ráðherrann gott að útblástur gróðurhúsalofttegunda hefði minnkað í kreppunni. Var á henni að skilja að það væri hið besta mál og við ættum að keppa að því að vera í viðvarandi kreppu. Þannig verður það raunar ef fólk eins og Svandís Svavarsdóttir halda áfram að stjórna landinu.

Athyglisvert var að heyra  frá umhverfisráðherranum að við heyrum undir lögsögu Evrópusambandsins í loftslagsmálum, en þar er rekin vitlausasta stefna sem um getur í þessum málaflokki. Ráðherrann sagði að losun í stóriðju og flugi væri alfarið á valdi Evrópusambandsins fyrir Ísland.

Evrópusambandið er eini hópur iðnríkja sem hafa með ákvörðunum sínum á ráðstefnunni í Qatar dæmt íbúa sína til að þola samdrátt og lakari lífskjör vegna pólitísku veðurfræðinnar. Einnig að dragast aftur úr öðrum þjóðum í iðnaði og annarri framleiðslu. Það er eðlilegt að ráðherra Vinstri grænna fagni að vera í þeim hópi.


17.000 ráðstefnugestir menga sem aldrei fyrr.

Forréttindaaðallinn sem þvælist ítrekað heimsálfa á milli  til að álykta um aukna skattheimtu og takmarkanir á athafnafrelsi einstaklinga á grundvelli pólitískrar veðurfræði hélt nýlega fund í furstadæminu Qatar.

Ráðstefnuna um meintar loftslagsbreytingar og hlýnun af mannavöldum sóttu 17.000 ráðstefnugestir og ráðstefnan stóð í 12 daga.

Ráðstefnugestum var flogið til Qatar og fluttir á milli loftkældra vistarvera í stærstu gerðum og eyðslufrekustu bifreiðum sem framleiddar eru. Hvergi sást við framkvæmd ráðstefnunar, fjölda þáttakenda, aðbúnaði þeirra eða hegðun að þeir teldu ástæðu til að takmarka útblástur koltvísýrings þegar forréttindastéttin  á í hlut.

Áætlað er að útblástur koltvísýrings vegna ráðstefnunnar og ráðstefnugesta hafi verið um 40 þúsund tonn og Qatar er með mestu eyðslu koltvísýrings á jörðinni á hvern íbúa. Sannkallaður súrrealismi í framkvæmd þessarar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir um 17 þúsund ríkisstarfsmenn.

Samþykkt var að leggja þungar byrðar á skattgreiðendur í Evrópu á grundvelli pólitísku veðurfræðinnar og takmarka framleiðslugetu álfunnar. Nú er að sjá hvort stjórnmálamenn í Evrópu samþykkja þetta rugl eða láta skattgreiðendur sína og efnahagslíf landa sinna blæða út vegna þessarar dýru vitleysu.

Bandaríkin,Indland, Japan, Kanada,  Kína og Rússland taka ekki  þátt í þessu rugli og munu ekki draga úr neinu hjá sér eða leggja á jaðrhlýnunarskatta.

Hvað skyldi sendinefnd Íslands hafa gert? Á síðustu ráðstefnu beitti hún sér fyrir kynbundinni nálgun að viðfangsefninu og samþykkti nú aðför að velferð og möguleikum að efnahagslegum bata Íslands.


Þegar býður þjóðarsómi þá á Ísland eina sál

Eftir Guðna Ágústsson og Jón Magnússon

 Nú verður þjóðin enn einu sinni að standa saman og sækja fram fyrir hagsmuni Íslands í órofa fylkingu til sigurs gegn óréttlætinu."

Í dag höldum við félagar áfram skrifum okkar um ákæru á hendur Bretlandi. Við byggjum skoðun okkar á þeim gífurlega skaða sem hryðjuverkalögin höfðu í för með sér gagnvart íslenskum hagsmunum, ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Jafnframt lýsti Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, yfir að Ísland væri gjald-þrota. Ennfremur var það ljóst á sama tíma og þessi aðför var gerð að Íslandi að bæði mannréttindasamtök og lögfræðingar, ekki síst í Bandaríkjunum, töldu að þessari árás yrði að hrinda. Hryðjuverkalög voru umdeild á sínum tíma, ekki síst af því að ýmsir töldu að löggjöfin yrði misnotuð og beitt í efnahagslegu stríði á milli þjóða. Jafnframt liggur fyrir að Alistar Darling og bresk stjórnvöld geta ekki varið gerðir sínar, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum.

Hvað hefur komið í ljós?

Förum nú yfir nokkur atriði í aðgerðum Bretanna. Jafnvel þó að hryðjuverkalögunum væri ekki beitt gagnvart Singer og Friedlander banka Kaupþings sem laut breskri lögsögu heldur Landsbankanum þá eyðilagði beiting þeirra starfsemi Singer og Friedlander á sama augnabliki.

Nýlokið er í Bretlandi rannsókn SFO, (stofnunar sem rannsakar alvarlega fjármálaglæpi m.a.) en sú rannsókn snéri að einstaklingum og kemur beitingu hryðjuverkalaganna ekki við. Í sumar sem leið lauk hins vegar máli breska fjármálaeftirlitsins gegn stjórnendum Singer Friedlander/Kaupþings og Singer Friedlander vegna brots á lausafjárreglum með lítilli sekt. Þær aðgerðir sem gripið var til gagnvart Singer og Friedlander voru því umfram meðalhóf og góða stjórnsýslu og bankinn borgaði til baka yfir 80% af kröfum, sem er athyglisvert í ljósi þess að honum var kippt úr sambandi fyrirvaralaust vegna aðgerða breskra stjórnvalda.

Ekkert hefur komið fram sem réttlætir aðgerðir Breta gagnvart Landsbanka Íslands. Engar fréttir sýna fram á stóra fjármagnsflutninga úr útibúinu í London hinum svokölluðu Icesave-reikningum.

Nú fjórum árum eftir að Bretar beittu Ísland og Landsbanka Íslands hryðjuverkalögum hefur ekkert komið fram sem réttlætir aðgerðir þeirra. Ekki neitt.

Alistair Darling ver fólskuverkið með réttarhöldum Alþingis

Það er hins vegar slæmt og sýnir hvað óvönduð vinnubrögð og pólitískar hefndarráðstafanir geta haft slæma hluti í för með sér að sá ráðherra í bresku ríkisstjórninni Alistair Darling sem ber mesta ábyrgð á því að hryðjuverkalögunum var beitt gagnvart Íslandi, skuli reyna að réttlæta þá aðgerð sína með því að vísa til rangra staðhæfinga og staðreyndavillna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um glæpi íslenskra bankamanna og þess að pólitískir andstæðingar Geirs H. Haarde töldu rétt að leggjast í hatursréttarhöld gagnvart honum, sem sköðuðu fyrst og fremst hagsmuni Íslands eins og berlega kemur fram í ályktunum og réttlætingu breska fjármálaráðherrans sem þarf að seilast þangað til fanga til að réttlæta fólskuverk sín gagnvart Íslandi.

Við höfðum sem þjóð ekkert til saka unnið

Staðreyndin er sú að við höfðum sem þjóð ekkert til saka unnið og vorum með ólögmætum hætti beitt hryðjuverkalögum af breskum stjórnvöldum.

Ítrekaðar beiðnir voru settar fram um að meta tjónið vegna þessa, en við því varð ekki orðið fyrr en á árinu 2011 eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hafði sótt það mál fast á Alþingi. Sú skýrsla um fjárhagslegt tjón Íslands er mjög takmörkuð og ljóst að ekki var aflað fullnægjandi upplýsinga við vinnslu þeirrar úttektar sem gerð var á tjóni Íslands vegna beitingar Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart Íslandi.

Við kröfðumst þess strax árið 2008 um leið og Bretar beittu hryðjuverkalögunum að hagsmuna Íslands yrði gætt í hvívetna og ekki yrði gengið til samninga við Breta um Icesave nema samið yrði jafnhliða um bætur til handa Íslandi vegna þess tjóns sem Bretar ollu á hagsmunum Íslands og Íslendinga.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur brást íslenskum hagsmunum

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur í engu gætt íslenskra hagsmuna varðandi það að sækja rétt okkar vegna ólögmætrar beitingar Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Ríkisstjórnin hefur látið ítrekaðar kröfur um það eins og vind um eyrun þjóta, lagði upp í samningaferli um Icesave án þess að halda á hagsmunum Íslands að nokkru leyti hvað þetta varðar.

Það mun lengi í minnum haft hversu dáðlaus ríkisstjórnin var við að gæta hagsmuna þjóðarinnar og með hvaða hætti hún samdi algjörlega af sér oftar en einu sinni og gætti ekki allra lagasjónarmiða varðandi rétt Íslands. Í þessu efni er ekki við embættismenn að sakast sem fóru fyrir samninganefndunum, það er hin pólitíska forysta sem réð ferðinni og hvernig lagt var upp með málið.

Stöndum saman Íslendingar

Það er hins vegar ekki tilgangur okkar með þessum skrifum að sækja að ríkisstjórninni eða efla flokkadrætti meðal landsmanna. Þvert á móti viljum við benda á nauðsyn þess að við stöndum saman um að vernda íslenska hagsmuni gagnvart erlendu valdi. Við viljum að Íslendingar allir sem einn skipi sér í þann flokk sem sækir með reisn réttlæti fyrir hönd þjóðarinnar.

Þannig að orð skáldsins verði enn einu sinni að veruleika: „Að þegar býður þjóðarsómi þá á Ísland eina sál.“

Ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi beitti Ísland hryðjuverkalögum til að draga athygli frá alvarlegri stöðu fjármálastofnana í Bretlandi og sótti að okkur í samræmi við hugsunarhátt nýlenduveldisins. Við þessu verðum við að bregðast þó að seint sé.

Við höfðum vonað að íslensk stjórnvöld mundu grípa til aðgerða en þar sem það hefur ekki verið gert þá beinum við því til ráðamanna íslensku þjóðarinnar að þeir bregðist nú strax við fyrir hagsmuni Íslands.

Við leggjum til að hver þingflokkur á Alþingi skipi einn mann í nefnd ásamt bestu sérfræðingum okkar, sem hafi það verkefni að undirbúa málsókn á hendur Bretum og sækja það mál á alþjóðlegum vettvangi og fylgja hagsmunum eftir í hvívetna.

Aðildarviðræður að Evrópusambandinu mega ekki verða til að spilla því að Ísland sæki rétt sinn í þessu efni.

Við höfum áður háð baráttu við Breta. Baráttu sem ávallt var byggð á grundvelli réttlætis og lífshagsmuna íslensku þjóðarinnar. Í hvert skipti sem við færðum út landhelgi okkar þurftum við að heyja baráttu við Breta, einu sinni fór því miður þannig að mannskaði varð af hernaðaraðgerðum Breta gagnvart okkur. En við létum ekki bugast þá og sóttum rétt okkar m.a. hjá NATO og Sameinuðu þjóðunum auk þess sem við slitum stjórnmálasambandi við Breta, bandalagsþjóð okkar í NATO vegna óréttlætanlegrar frekju þeirra og yfirgangs.

Nú verður þjóðin enn einu sinni að standa saman og sækja fram fyrir hagsmuni Íslands í órofa fylkingu til sigurs gegn óréttlætinu. Fyrir Ísland og íslenska hagsmuni. Við skorum á ríkisstjórn Íslands og Alþingi Íslendinga að ganga til þessara mikilvægu verka strax. Í þessu máli liggja ekki bara fjárhagslegir hagsmunir heldur og mannréttindi smáþjóðanna gegn offorsi og beitingu hryðjuverkalaga með ólögmætum hætti.

Guðni er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. – Jón er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.


Verndarar sjálftökuliðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður bendir á það í Morgunblaðsgrein í gær að laun slitastjórnarmanna hafi hækkað úr 16.000 krónur á klukkustund í 35.000 á 4 árum eða um tæpan helming. Þá bendir Guðlaugur Þór á það með glöggum hætti að slitastjórnir heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og ríkisvaldinu í lófa lagið að taka í taumana og stöðva sjálftöku slitastjórnarfólks,  ef vilji væri fyrir hendi.

Frá því í janúar 2010 og allt til þessa dags hefur þetta mál ítrekað komið til umræðu á Alþingi og jafnan hefur Steingrímur J. Sigfússon fordæmt sjálftöku slitastjórnanna og hvatt til aðgerða. Aðgerðirnar heyra raunar undir hann og hann getur haft frumkvæði í málinu en gerir það ekki eins og Guðlaugur Þór bendir réttilega á.

Í bloggfærslu 27.9.2012  http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1259678/

benti ég sérstaklega á þá svívirðu sem hér væri á ferðinni og hvernig þau Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og fyrr Gylfi Magnússon hefðu í raun gerst verndarar sjálftökuliðsins. Þau hefði látið undir höfuð leggjast að taka á málinu.

Enn viðgengst sjálftaka slitastjórna þar sem fólk hækkar laun sín að vild og beinir viðskiptum til eigin fyrirtækja án þess að eftirlitsaðilinn eða ráðherra láti sig málið varða nema með því að gelta á Alþingi.

"Alþýðuforingjarnir" Jóhanna og Steingrímur J. hafa því í verki gerst verndarar sjálftökuliðsins. Gott væri ef "alþýðuforingjarnir" hefðu bætt kjör fólksins í landinu með sama hætti og laun sjálftökuliðsins, en því miður njóta almennir sjálfstæðir atvinnurekendur og launþegar ekki sömu náðar.


Hvaða gjaldmiðill?

Steingrímur J. Sigfússon hefur sagt að íslenska krónan reynist okkur vel og á honum er að skilja að hún sé besti gjaldmiðill í heimi. Um hvaða krónu er hann  að tala?

Er hann að tala um krónuna sem notuð er til að borga fyrir vörur og þjónustu sem sveiflast upp og niður þrátt fyrir gjaldeyrishöf. Lækkaði t.d. um rúm 7% í síðasta mánuði gagnvart Evru og Dollar.

Eða verðtryggðu krónuna sem étur upp eignir alþýðufólks?  Verðtryggð lán eru verstu neytendalán í okkar heimshluta. Verðtryggða krónan stenst ekki reglur um lánasamninga til neytenda að Evrópurétti. 

Eða innflutningskrónu Más Seðlabankastjóra, sem gefur forréttindaaðlinum kost á að koma með gjaldeyri og breyta í íslenskar krónur á yfirverði?  Þannig verða hundrað milljónir að hundrað og tuttugu. Hækkun við landtöku. Flott kerfi fyrir forréttindaaðalinn og þá sem geta stöðugt látið peningana hringsóla og fá 20% álag í hvert skipti.

Hvernig ætla menn að reka réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag með svona kerfi?  

Var furða að spænski doktorinn í Evrópurétti spyrði hvers vegna fólk gerði ekki byltingu í landinu.  


Sækjum hundraða milljarða skaðabætur á hendur Bretum

"Beiting hryðjuverkalaganna var löglaus geðþóttaaðgerð ríkisstjórnar Gordons Brown gagnvart Íslandi þegar verst stóð á og því miður sóttu íslensk yfirvöld ekki rétt sinn."

Ísland hefur jafnan staðið sterkast þegar fólkið í landinu bregst þannig við erlendri ásókn, ágjöf og andbyr, að það stendur saman. Þetta er mikilvægast þegar að þjóðinni er sótt af stórþjóðum og þjóðréttindi sjálfstæðs fullvalda ríkis virt að vettugi. En þá er líka mikilvægt að eiga ríkisstjórn og stjórnmálamenn sem þora. Landhelgisbaráttan; og síðar Icesave-kúgunin þar sem alþýðu manna var ætlað að borga skuldir einkabanka og óreiðumanna var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang. Þessi úrslit eru merkilegir lýðræðissigrar, ekki bara okkar heldur alþýðu manna um allan heim. Stórt skref gegn ofurvaldi græðginnar og fjármagnsins. Heimssögulegur atburður eftir að ríkisstjórnin hafði látið Bretana kúga sig aftur og aftur.

 

Hryðjuverkaárásin á Ísland

Við töldum brýnt að þjóðin stæði saman í októberbyrjun árið 2008 gegn fólskulegri aðför breska stórveldisins, þegar ríkisstjórn Verkamannaflokksins breska ákvað að beita hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Hryðjuverkalögin voru sett á ríkisstjórn Íslands – Seðlabankann og héngu uppi í fjármálastofnunum heimsins í níu mánuði. Tilkynningin til umheimsins var í raun þessi að Bretland hafði sett Ísland, Íslendinga, á lista með hryðjuverkamönnum, Al-Kaída og talíbönum. Hér bjó hættuleg þjóð og umheiminum var tilkynnt það. Án allra andsvara af ráðamönnum Íslands sem lutu í gras, þar til forseti Íslands brást við og hóf gagnsókn.

Okkur var ljóst um leið og fréttir bárust af fólskubragði Breta, að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi þegar verst stóð á eftir fall tveggja stærstu viðskiptabanka þjóðarinnar, að þessi aðgerð mundi skaða orðstír þjóðarinnar og eyðileggja möguleika þeirra fjármálafyrirtækja sem enn störfuðu, enda féll þriðji stóri bankinn í kjölfar aðgerðanna. Auk þess var okkur ljóst að beiting hryðjuverkalaga frá fjármálalegu stórveldi eins og Bretlandi mundi einnig valda ómældu öðru fjárhagslegu tjóni vegna álitshnekkis þjóðarinnar, valda vantrú á íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum, sem mundi leiða til þess að fjölmörg viðskiptatækifæri mundu glatast auk þess sem við þyrftum að sæta verri viðskiptakjörum en ella.

Fólskubrögð breskra stjórnvalda gegn Íslandi og ekki síður fjölmiðlaupplýsingar frá Bretlandi ollu Íslandi verulegu fjárhagslegu tjóni. Inn- og útflytjendur lentu í því að samningum var kippt til baka. Krafist var staðgreiðslu. Erfiðleikar voru með bankaábyrgðir. Erfiðleikar í greiðslumiðlun jukust verulega. Ímyndartjónið gagnvart Íslandi varð gríðarlegt þegar verst stóð á.

 

Krafa um slit á stjórnmálasambandi við Bretland

Í þingræðu um þetta mál þ. 15. október 2008 sagði Guðni Ágústsson m.a.

„Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina og forsætisráðherrann sérstaklega fyrir það að hafa ekki þegar snúist af fullri hörku og ákært þegar breska forsætisráðherrann og bresku ríkisstjórnina fyrir fólskulega og hatramma árás á íslensku bankana í Bretlandi, á íslenska þjóð. Þeir beittu hryðjuverkalögum þegar þeir réðust inn í Landsbankann þar vegna Icesave-innlánsreikning-anna. Þeir réðust jafnframt inn í Kaupþingsbankann þar með sama hætti sem var breskur banki á EES-svæðinu í góðri stöðu og fullum rétti. Hryðjuverkalög eru fáheyrð aðferð gegn lítilli vinaþjóð.“

„Þessi fólska gerði það að verkum að íslenska ríkisstjórnin fékk alla bankana þrjá í fangið með þeim ofvöxnu fjárfestingum sem þeim tilheyrðu. Risavaxið verkefni. Allt benti til þess að Kaupþingsbankinn mundi standa af sér bankakreppuna.“

„Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota. Það gerði forsætisráðherra þeirra. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki.“

„Við verðum að sækja okkar rétt og sýna bresku ríkisstjórninni að drenglynd og heiðarleg þjóð ver mannorð sitt með kjafti og klóm. Við framsóknarmenn óttumst að ómarkviss og taugaveikluð vinnubrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda kunni að valda því að íslenska ríkið verði að taka á sig óbærilegar byrðar horft til framtíðar.“

Við sömu umræðu á Alþingi sagði Jón Magnússon m.a.

„Varðandi ummæli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, um aðgerðir Breta, um aðgerðir Gordons Browns, flokksbróður hæstv. iðnaðarráðherra, þá er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skyldu ekki hafa beitt sér af alefli og leitað allra færra leiða. Af hverju tókum við það ekki upp hjá Atlantshafsbandalaginu þegar bandalagsþjóð beitti hryðjuverkalögum gagnvart bandalagsþjóð sinni? Af hverju tókum við þetta ekki upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Af hverju slitum við ekki stjórnmálasambandi við Breta þegar þeir beittu okkur hryðjuverkalögum? Það var engin ástæða til að leggjast á hnén gagnvart Bretum.“

 

Ríkisstjórn Jóhönnu lagðist hundflöt fyrir Bretunum

Í viðræðum við ráðamenn og umræðum síðar fórum við ítrekað fram á það að stjórnmálasambandi við Breta yrði slitið og beiting þeirra á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi yrði tekin upp á öllum þeim fjölþjóðlega vettvangi sem við ættum aðgang að. Þá kröfðumst við þess að þegar í stað yrði reynt að meta tjónið sem Ísland, Íslendingar og íslenskir hagsmunir hefðu orðið fyrir vegna þessara löglausu fólskuverka Breta.

Þáverandi forsætisráðherra tók undir það með okkur að þessi fantatök Breta sköðuðu okkur og væru í raun óafsakanleg, en hann var ekki tilbúinn til að gera þær ráðstafanir sem við kröfðumst að yrðu gerðar til að tryggja hagsmuni Íslands.

Þó ríkisstjórn Geirs H. Haarde sýndi linkind gagnvart Bretum í málinu þá óraði okkur ekki fyrir að sú ríkisstjórn sem tæki við þá, eða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, mundi leggjast hundflöt niður fyrir Bretum og semja ítrekað um meinta Icesave-skuld án þess að halda á hagsmunum Íslands varðandi bótagreiðslur fyrir ólögmæta og bótaskylda aðför Breta að íslenskum hagsmunum.

 

Réttlæting Darlings á hryðjuverkalögunum er saknæm

Í bók sinni „Back from the brink“ sem kom út á síðasta ári segir þáverandi fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, frá samskiptum sínum við íslenska ráðamenn haustið 2008 og hvað það var sem að hans mati réttlætti beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi. Hann segir m.a. „Sem betur fer höfðum við vald til að beita afli ef aðgerðir Landsbanka Íslands og stjórnvalda væru líklegar til að valda efnahag Bretlands meiriháttar tjóni (be to the detriment of the UK economy). En þetta gat þýtt um 4,5 billjóna punda tap fyrir sparifjáreigendur í Bretlandi.“

Á öðrum stað í bókinni segir Darling að íslensku bankarnir hafi verið hlutfallslega lítill hluti vandans sem við var að glíma. Hann talar í því sambandi um Edge-reikningana sem hafi verið um 3 billjónir punda. Í því sambandi er það tekið úr samhengi að þeir reikningar voru í enskum banka og lutu regluverki Breta að öllu leyti og komu því þessu máli ekki við; og síðan Icesave-reikningana sem hafi verið um 4 billjónir punda eða nokkru lægri en sú fjárhæð sem hann nefnir sem réttlætingu þess að hryðjuverkalögunum var beitt gagnvart Íslandi.

Vandinn var hlutfallslega lítill, segir Darling en réttlætir beitingu hryðjuverkalaganna með því að hefði ekki komið til þessa hrottaskapar af hálfu Breta þá hefði enska efnahagskerfið orðið fyrir meiriháttar tjóni. Sem sé með því að slá litla Ísland rothögg bjargaði Stóra-Bretland sjálfu sér.

Þetta stenst síðan ekki þegar önnur ummæli í bók Darling eru skoðuð en hann talar á einum stað um kröfu breskra stjórnvalda um að 600 milljónir punda vantaði en ef sú fjárhæð yrði greidd þá yrði allt í lagi og bætti síðan við að hann hefði sagt viðkomandi íslenskum ráðherra að þetta væri lítill bjór fyrir Breta og því ekki annað að skilja en þetta mál skipti Breta harla litlu máli þó það skipti Ísland miklu máli.

 

Darling skýlir sér bak við óhæfuverk Alþingis

Hvergi í bók sinni færir Darling fram samtíma réttlætingu á beitingu hryðjuverkalaganna gagnvart Íslandi. En síðari tíma réttlæting hans er merkileg. Í bókinni sem er skrifuð árið 2011, eins og fyrr segir, þá er réttlætingin sú að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis komi margt fram sem hafi bent til glæpsamlegs atferlis íslenskra bankamanna og Alþingi hafi höfðað mál á hendur þáverandi forsætisráðherra Íslands.

Þessi réttlæting Darling er athyglisverð vegna þess að frá henni má gagnálykta sem svo að hann og félagi hans Gordon Brown hafi ekki haft nein haldbær rök eða ástæður fyrir beitingu hryðjuverkalaganna þegar þeim var beitt en sæki nú réttlætingu með því að vísa til galgopa-legrar umfjöllunar í Rannsóknarskýrslu Alþingis og þess óhæfuverks sem unnið var með því að ákæra Geir H. Haarde.

Samtímaréttlæting var engin. Enda er hún ekki til. Enn er lag og brýn krafa að kæra Bretland og munum við rekja það hér í blaðinu í annarri grein.

Guðni er fyrrv. formaður Framsóknarflokksins. Jón fyrrv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 4302
  • Frá upphafi: 2291321

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 3962
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband