Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Er það svo?

Í dag kom utanríkisráðherra lýðveldisins Íslands á framfæri mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar við stefnu Bandaríkjaforseta í innflytjendamálum. Af því tilefni tók utanríkisráðherra fram í nafni íslensku þjóðarinnar.

"Bandaríkin hafa ætíð og framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum."

Er það svo?

Eftir að Bandaríkin voru fullmótuð hefur það verið miklum takmörkunum háð að vera samþykktur af stjórnvöldum sem innflytjandi með full borgararéttindi. Þess vegna þurfti fólk t.d. að dveljast langdvölum á Ellis Island fyrir utan New York þangað til það gat sýnt fram á að það væri ekki haldið sjúkdómum og gæti séð fyrir sér sjálft. Bandaríkjamenn voru ekki að taka við ómegð eins og Evrópa þ.á.m. Ísland eru að gera í dag.

Á þessari öld hefur verið reynt að sporna við innflutningi fólks til Bandaríkjanna með ýmsu móti. M.a. hefur verið reist girðing og múr að hluta eftir landamærum Bandaríkjanna og Mexícó og á tíma Obama var þessi landamæravarsla aukin, en dugar ekki til og þess vegna segist Trump ætla að gera hana markvissa til að ætlunarverk Obama um að koma í veg fyrir innflytjendastraum frá Mexícó verði að veruleika.

Staðreyndin er sú að á þessari öld hafa Bandaríkin ekki framar flestum öðrum tekið opnum örmum á móti innflytjendum nema síður sé.

Annar hluti mótmæla utanríkisráðherra er við þeirri ákvörðun Bandaríkjaforseta, að veita ekki fé skattborgaranna til upplýsingagjafar um fóstureyðingar.  

Forsendur ríkisstjórnarinnar í nafni íslensku þjóðarinnar eru:  

"Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál".

Er það svo?

Hvar stendur það í íslensku stjórnarskránni að aðgengi að öruggum fóstureyðingum sé mannréttindamál. Er það að finna í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða Mannréttindasáttmála Evrópu eða Mannréttindalögum Íslands?

Það er eitt að hafa ákveðnar skoðanir. Annað að færa fram sanngirnisrök fyrir þeim. Síðan er spurning hvort þjóðríki  er að abbast upp á önnur ríki og stjórnvöld með þessar skoðanir.

En er það virkilega svo að íslenska ríkisstjórnin telji ástæðu til að hlutast til um það að öruggar fóstureyðingar verði leyfðar og styrktar af fé skattgreiðenda í öllum löndum heims?

Utanríkisráðherra má þá hafa sig allan við að senda mótmæli til þeirra 48 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna þar sem fóstureyðingar eru bannaðar. Í því sambandi er þá líka spurning af hverju beindi íslenska ríkisstjórin ekki mótmælum til þessara 48 ríkja í stað þess að vandræðast við Bandaríkjamenn út af mun minna tilefni?


Stjórn á landamærunum og ákvörðun Trump.

Bandaríkjaforseti hefur sent frá sér tilskipun sem takmarkar komu fólks frá Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Yemen til Bandaríkjanna í 90 daga og móttöku flóttamanna í 120 daga.

Í öllu því tilfinningalega umróti sem þessi ákvörðun hefur valdið þarf fólk ekki síst utanríkisráðherrar að átta sig á um hvað málið snýst og hvað er fordæmanlegt og hvað ekki.

Í fyrsta lagi þá er það óumdeilanlegur réttur frjáls og fullvalda ríkis að stjórna landamærum sínum og ákveða hverjir fái að koma inn í landið og hverjir ekki. Á þessum vettvangi hefur iðulega verið bent á það að lönd sem gefa þann rétt frá sér taka mjög mikla áhættu, sérstaklega varðandi öryggi eigin borgara eins og dæmin sanna í Þýskalandi og Frakklandi á síðasta ári.

Mörg Evrópuríki hafa nýtt þennan rétt sinn og lokað landamærum sínum fyrir ákveðnu fólki. Þannig bannaði Bretland hollenska stjórnmálamanninum Geert Wilders að koma til landsins vegna skoðanna sinna, en hefur nú fellt það niður. en Ýmsum öðrum er bannað að koma til Bretlands vegna skoðana sinna eins og t.d. rithöfundinum og fræðimanninum Robert Spencer sem er bandarískur ríkisborgari, en hefur þær skoðanir á Íslam að Bretar banna honum innkomu í landið. Stjórnmálamenn Vesturlanda þ.á.m utanríkisráðherra Íslands mætti hafa þetta í huga í pópúlískri herferð í anda rétttrúnaðarins. 

Í öðru lagi þá er þessi tilskipun Bandaríkjaforseta í samræmi við það sem hann lofaði kjósendum sínum að hann mundi gera yrði hann kosinn. Stjórnmála- og fréttaelítan er svo gegnsýrð af því viðhorfi að kosningaloforð þýði ekki neitt að þeim virðist koma á óvart að stjórnmálamaður sem nær kjöri skuli framkvæma það sem hann sagði í kosningabaráttunni að hann ætlaði að gera.

Í þriðja lagi þá er Evrópusambandið að gliðna ekki síst vegna hugmynda um opin landamæri fyrst á milli aðildarríkjanna og síðar vegna fáránlegrar stefnu í innflytjendamálum efir að fjöldafólksflutningar hófust frá sumum Asíu ríkjum,  Mið-Austurlöndum og Afríku. Í hópi þeirra sem þannig hafa komið til Evrópu hafa verið hættulegir hryðjuverkamenn eins og hryðjuverkin í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu sýndu svo ekki varð um villst.

Vegna opinna landamæra á milli Evrópuríkjanna áttu hryðjuverkamennirnir þeim mun auðveldar með að fara á milli landa sbr. þann sem framdi hryðjuverkið á jólamarkaðnum í Berlín nokkrum dögum fyrir jól.  Finnst einhverjum furða að stjórnmálamenn sem láta sér annt um öryggi borgara sinna vilji fara aðrar leiðir en ábyrgðarlausir stjórnmálaforingjar Evrópu?

Í fjórða lagi þá er það rangt að bannið beinist að Múslimum. Hefði svo verið þá tæki það líka til fjölmennustu ríkja múslima eins og Indónesíu, Egyptalands, Pakistan, Saudi Arabíu, Alsír og Marokkó svo dæmi séu nefnd. Staðreyndin sem þeim sést yfir sem hreykja sér hæst á fordæmingarhaug stjórnmála- og fjölmiðlaelítunnar er að tiskipun Trump beinist að þeim löndum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið í sérstakri hættu og sú röksemd er notuð í tilskipuninni, en ekki gegn Íslam.

Í fimmta lagi þá má ekki gleyma því að Bandaríkin eru réttarríki og þó að forseti Bandaríkjanna gefi út tilskipun þá verður hún að standast lög landsins og stjórnarskrá. Miðað við það sem ég hef lesið mér til þá er líklegt að tilskipun Bandaríkjaforseta sé andstæð ákvæðum innflytjendalaga frá 1965 sem bannar mismunun innflytjenda á grundvelli þjóðernis. Þar kemur hins vegar á móti að ekki er verið að banna fólki frá ofangreindum löndum að koma nema tímabundið, sem hugsanlega gæti verið innan þeirra marka sem bandarísku innflytjendalögin kveða á um. Þá er spurning hvort tilskipunin brjóti í bág við 1. og 5 gr. bandarísku stjórnarskrárinnar.

Telji Bandaríkjaforseti að nauðsyn beri til að takmarka meir en nú er möguleika innflytjenda og hælisleitenda til að koma til Bandaríkjanna þá er það hans ákvörðu sem hann hefur rétt til að taka. Ákvörðunina má gagnrýna út frá sjónarmiðum um nauðsyn þess að ríki heims taki sameiginlega af mannúðarástæðum á móti raunverulegum flóttamönnum sem eru í hættu heima fyrir. 

Því má ekki gleyma í því sambandi að kostnaður við hvern fóttamann sem tekið er á móti er svo mikill að aðstoða mætti a.m.k. tífallt fleiri til að lifa við mannsæmandi lífskjör á öruggum stöðum nálægt heimaslóðum en að flytja fólkið til Vesturlanda. Hjálpin mundi því nýtast mun betur og mannúðin taka á sig skilvirkari mynd með því að hjálpa fólki nálægt heimaslóð.

Málefni flóttafólks þarf virkilega  að ræða með raunsæum hætti, án upphrópanna og illyrða. Finna þarf ásættanlega lausn á fjölþjóðlegum vettvangi. Það verður að ræða af skynsemi og yfirvegun og vinna sig fram til lausnar sem tryggir sem mest öryggi borgara heimaríkis og mannsæmandi líf fyrir sem flesta.


Að byggja sitt eigið fangelsi.

Vilhjálmur Tell frelsishetja Svisslendinga, sem barðist við ofurefli einræðisafla. Sá sem sagan segir að hafi með lásboga skotið epli á höfði sonar síns, er sagður hafa sagt þegar hann var látinn vinna við byggingu fangelsis einræðisaflanna, að það væri hart að þurfa að byggja sitt eigið fangelsi.

Þessi saga kom mér í hug þegar ég hef ítrekað orðið vitni af skefjalausum áróðri fréttastofu RÚV, þöggun og rangfærslum.

Í hverjum einasta fréttatíma RÚV í gær frá kl. 7 að morgni til kl. 12 að kvöldi sem og í morgunfréttum í dag var hamrað á því að heimasíðu forseta Bandaríkjanna hefði verið breytt og nú væri ekki minnst á réttindi samkynhneigðra og vá vegna loftslagsbreytinga. Hins vegar var í engu getið hvaða áherslur hefðu komið í staðinn.

Þögn RÚV um áherslur Bandaríkjaforseta varð meira og meira æpandi eftir því sem sama fréttin um þær vondu breytingar á heimasíðu Trump skv. skilningi fréttastofu RÚV voru ítrekaðar oftar.

Þess var t.d. ekki getið í fréttum RÚV að eitt af fyrstu verkum Trump var að færa styttu af Winston Churchill aftur á viðhafnarstað í Hvíta húsinu. Obama hafði látið fjarlægja hana.

Frétastofa RÚV hefur ekki minnst á að helstu áhersluatriði Trump sem sett voru á nefnda heimasíðu forstetans heldur bara það sem er þar ekki en áhersluatriðin sem sett voru inn eru:

Að berjast við ISIL og sigra þau hermdarverkasamtök

Að skapa 25 milljón ný störf

Að minnka skattbyrði allra borgara

Að auka orkuframleiðslu Bandaríkjanna

Að endursemja um NAFTA

Að styrkja herinn (rebuild the military)

Að koma á öðru heilbrigðiskerfi en svonefndu Obamacare.

Vissulega má gagnrýna margt af þessu, en það er þó heiðarleg og hlutlæg fréttamennska að segja rétt frá og málefnalega um þá stefnu í stað þess að vera með einhliða neikvæðan áróður.

Áhersla Trump á rétt hins vinnandi fólks og nauðsynlegar takmarkanir á frelsi fjármagnsins til að eyðileggja störf fólksins er athyglisverð og eðlilslík því að ríkisstjórn Íslands mótaði þá stefnu, að vinna gegn því að fjármagnið geti á grundvelli rangláts kvótakerfis tekið vinnuna frá fólkinu að geðþótta.

Þá er gagnrýni Trump á NATO og utanríkisstefnu Obama réttmæt. Nauðsynlegt er að byggja brýr yfir til Rússa og skapa eðlileg samskipti og það þarf ekki að þýða neina undansláttarsemi heldur hitt að búa ekki til óvin fyrirfram eins og Óbama gerði með Assad,Mubarak, Al Sisi, Pútin o.fl.

Sú stefna Trump að ætla að draga úr frjálsum viðskiptum landa á milli er varhugaverð. Frjáls viðskipti hafa aukið velmegun í heiminum og fært hundruðir milljóna manna frá hungri til velmegunar. Á sama tíma hafa stjórnendur vestrænna ríkja ekki gætt að réttindum borgaranna en leyft fjármagnseigendum að fara sínu fram á kostnað hins almenna borgara.

Afturhaldið og vinstri pópúlisminn hafa gengið hönd í hönd fyrir sérréttindum hinna fáu á kostnað hagsmuna alls almennings.

Þessi mál hefði verið vert að RÚV hefði fjallað um og staðið fyrir málefnalegri umræðu í Kastljósi í stað þess að vera eingöngu með einhliða neikvæðar fréttir og vinstri sinnaða svonefnda sérfræðinga, sem geta ekki flokkast undir annað en skefjalausan áróður og innrætingu.

Vonandi bregst nýr menntamálaráðherra við þeirri áskorun að gera Fréttastofu RÚV að málefnalegri hlutlægri fréttastofu eins og lög um RÚV kveða á um. Við sem erum ekki vinstri pópúlistar eigum ekki að þurfa að greiða til þeirrar skoðanalegu dýflissu vinstri öfga sem fréttastofa RÚV hefur svo mikið dálæti á en gleymir á sama tíma því sem eru raunverulegar fréttir. 


Hræsnarar allra landa sameinist.

Óskilgreindur hópur kvenna ætlar að mótmæla á Arnarhóli niðurstöðu lýðræðislegra kosninga í Bandaríkjunum.

Mótmælakonurnar telja það brýnast í kvenfrelsismálum að láta Trump finna fyrir mótmælum og andúð vegna áratugs gamlla ummæla um konur, sem hann hefur beðist afsökunar á og eiginkona hans fordæmt. Hverju breyta þessi mótmæli. Engu. Þau eru ömurleg hræsni og þjóna ekki tilgangi í réttindabaráttu kvenna.

Mér til sárra leiðinda sé ég nafn fyrrverandi utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur tengd mótmælunum. ´Hingað til hef ég haft meira álit á henni en það að hún tæki þátt í þessu ómerkilega lýðskrumi, sem "fræðimaðurinn" Eiríkur Bergman kallar pópúlisma.

Vinstri öfga pópúlistinn Birgitta Jónsdóttir er að sjálfsögðu í forsvari. Við því mátti búast. Það er hins vegar illskiljanlegt að konur eins og t.d. Lilja og ýmsar aðrar sem þarna eru á skrá og eru bærar til að sjá hlutina af raunsæi og skynsemi skuli leggja nafns sitt við þessa ömurlegu hræsni.

Það er víða pottur brotinn hvað varðar réttindi kvenna. Konum er víða misboðið. Réttindi þeirra eru skert m.a. hefur Íslamska ríkið um árabil hneppt konur sigraðra trúarhópa og annarra andstæðinga sinna í kynlífsþrælkun, myrt og svívirt. Konur víða í löndum Íslams njóta mjög takmarkaðra réttinda og mun minni en karlar.

Ég hef ítrekað skorað á kvenréttindahreyfingar og samtök að taka undir með mér í baráttu gegn þeirri svívirðilegu kynlífsþrælkun og þrælasölu  kvenna, sem viðgengst í heiminum og er jafnvel að finna hér  á landi. Þar er barátta sem verður að taka og þeir sem unna réttlæti hvort heldur konur eða karlar þurfa að taka höndum saman um að uppræta. En ég hef hingað til ekki orðið þess var að kvennahreyfingar hér á landi hafi sinnt þessum réttindamálum kvenna.

Þær Arnarhólsstöllur hafa ekki haft neitt um undirokun og kynlífsþrælkun kvenna að segja undanfarin ár. Þær hafa ekki marsérað á Arnarhól. Jafnvel ekki boðað til þögulla mótmæla eða nokkurs gagnvart þessari svívirðu. Lilja Alfreðsdóttir sýndi þessum málum auk heldur engan áhuga meðan hún var utanríkisráðherra Íslands. Hvað kom eiginlega fyrir hana núna?

Þegar þetta háttalag mótmælakvenna gegn Bandaríkjaforseta er haft í huga og virt í skynrænu samhengi þá veður þessum mótmælum á Arnarhóli kl. 14 í dag ekki gefið annað heiti en: Ömurleg hræsni.

Mótmælakonurnar á Arnarhóli kl. 14 í dag eru hluti hóps vinstri öfga-kvenna- pópúlískra hreyfinga, sem í dag sameinast í hræsnisfullum aðgerðum á sama tíma og þær gera ekkert til að koma í veg fyrir raunverulegt misrétti sem konur eru beittar.

Vei yður hræsnarar.  


Hvað segir Trump forseti í innsetningarræðunni

Eftir rúmar 7 klukkustundir tekur Donald Trump við sem 45.forseti Bandaríkjanna. Allt venjulegt fólk óskar honum velfarnaðar í starfi. Velferð heimsbyggðarinnar hvort sem einhverjum líkar það betur eða verr er undir því komin að ofurveldið Bandaríkin gangi til góðs heima fyrir og í alþjóðamálum.

Í innsetningarræðu sinni mun Trump leggja áherslu á að draga úr ríkistúgjöldum og ég spái því að hann boði gamla stefnu ungra Sjálfstæðismanna um "Báknið burt", en það er stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngu gleymt því miður.

Trump hefur ekki haft þá skoðun að ríkisstjórnir leysi vandann og tekur þá sennilega í sama streng og Ronald Reagan sem sagði að ríkistjórnir væru vandamálið en ekki lausnin.

Trump mun líka fara inn á gildi þess að vera Bandaríkjamaður og hvaða áskoranir  það hefur í för með sér.

Trump hefur lofað að einbeita sér að því að bæta hag hinnar svokölluðu miðstéttar í Bandaríkjunum og mun vafalaust leggja fram helstu stefnumál sín hvað það varðar á eftir.

Það sem mér finnst einna forvitnilegast varðandi ræðu Trump er með hvaða hætti og hvernig hann leggur fram stefnu sína um niðurskurð ríkisútgjalda en ætla má miðað við fyrri yfirlýsingar að hann muni stefna að því að spara meira en 10 trilljónir dollara á næstu 10 árum.

Engin Bandaríkjaforseti hefur náð eins miklum árangri í að draga saman ríkisútgjöld og Demókratinn Harry S. Truman. Mesti blómatími í bandarísku efnahagslífi tók við í kjölfar þess. Vonandi verður það einnig raunin nú og Trump nái þessum árangri.

Á sama tíma og allt venjulegt fólk óskar nýjum Bandaríkjaforseta velfarnaðar megnar vinstri fjölmiðlaelítan ekki að sjá nokkuð jákvætt við forsetaskiptin og hamast við að finna allt hið neikvæða. Sú var raunin í morgunútvarpi RÚV á rás 2 í morgun þar sem frábær fréttamaður vestan hafs svaraði jákvætt spurningum neikvæðninnar hér heima fyrir,sem varð til þess að leitast var við af neikvæðninni að elta uppi eitthvað sem gæti verið neikvætt við embætistöku Donald Trump.  Ekki hlutlæg fréttamennska það nú sem fyrr.

Hvað svo sem því líður þá er alltaf spennandi að sjá hvernig nýjum forseta Bandaríkjanna farnast og þó að Donald Trump hafi fjarri því verið minn óskaforseti þá hefur hann fært fram mörg góð stefnumál og sett mál sem brenna á venjulegu fólki í forgang. Vonandi gengur honum allt í haginn við það góða sem hann hefur ætlað sér að gera.

 

 


Er þetta ekki í stjórnarsáttmálanum?

Nú hef ég hraðlesið stjórnarsáttmálann í tvígang og lýst svona og svona á afurðina. Í fyrra skiptið  las ég stjórnarsáttmálann og skipti í efnisflokka og sá að fyrir utan hefðbundin kyrrstöðuviðhorf í bankamálum, sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum sem og fleiri málaflokkum þá eru teknir inn í stjórnarsáttmálann nokkrir vinstri grænir sósíalískir  gullmolar um grænt hagkerfi og meira splæs o.s.frv.

Einnig einsetur ríkisstjórnin sér að fjölga innflytjendum sem mest hún getur og taka á móti fleiri flóttamönnum. Spurning var hvort áherslan á það skipti meira máli en á fjármál einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. Alla vega virðist svo vera í stjórnarsáttmálanum.

Umfjöllun um okurvextina og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim sé ég hvergi í stjórnarsáttmálanum. Þá sé ég ekki að vikið sé að verðtryggingu lána og staðið við þá marmiðssetningu sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf við myndun síðustu ríkisstjórnar.

Nú viðurkenni ég að vera nærsýnn og að flýta mér við yfirlesturinn. En getur einhver verið svo vænn að benda mér á hvar í stjórnarsáttmálanum er vikið að okurvöxtunum og verðtryggingunni í stjórnarsáttmálanum.

Það hlítur að hafa farið fram hjá mér því að jafn mikilvægt mál og verðtrygging og viðbrögð til að almenningur og fyrirtæki búi við sömu lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar hefði ég haldið að væri eitt það þjóðfélagslega mikilvægast.

En fyrsti dómur minn um stjórnarsáttmálann er að hann er eins og svissneskur ostur. Það eru fleiri holur á honum en matur.

 


Helv. Rússarnir

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og CIA hafa samið 50 bls. skýrslu um áhrif Rússa á bandaríska kjósendur. Obama og Hillary segja að Trump geti ekki hafa unnið nema með svindli. Obama bendir á Rússa og fékk ofangreindar stofnanir til að sanna þá hugdettu sína. 

Bandaríkjaforsetar hafa iðulega nýtt þessar merku stofnanir til að finna sönnunargögn og þær hafa gert vel og dyggilega og séu engin sönnunargögnin þá búa þær þau til.

Frægt var þegar Bill Clinton fékk skýrslu frá stofnunum og sprengdi í framhaldi af því upp reiðhjólageymslu í Súdan og sagðist með því hafa greitt Al Kaída mikið og óbætanlegt högg.

George W. Bush jr. fékk upplýsingar frá þessum merku stofnunum sem sýndu að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn. Þrátt fyrir að eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna segði það tómt bull sat Bus jr. og félagar við sinn keip og gerðu ólöglega innrás í Írak á grundvelli hinna tilbúnu sönnunargagna.

Obama fékk skýrslu frá þessum merku stofnunum fyrir nokkrum dögum og úr skýrslunni hefur verið lekið til fjölmiðla þó að Trump hafi ekki fengið að sjá neitt.

Skýrsluhöfundar segja, að ýmsir Rússar hafi fagnað kjöri Trump. Þá telja þeir að Rússar hafi fengið einhverja til að afhjúpa sannleikann um Demókrata og Hillary.

Fyrst eftir kjör Trump sögðu Demókratar að hann hefði unnið með svindli. Síðar fóru  þeir fram á endurtalningu. Þegar endurtalning leiddi til þess að Trump fékk fleiri atkvæði en Hillary færri þá var næst gripið til þess að Rússar hefðu falsað niðurstöðu kosninganna og hakkað sig inn í rafstýrðar atvkvæðavélar. Þegar upplýst var að svo gat ekki verið þá þarf að finna eitthvað nýtt. Obama hefur nú fundið örlagavaldinn. Rússar. Hann segir að rússneska þingið hafi fagnaði kjöri Trump- en ekki hafði það þýðingu fyrirfram eða hvað.  Af því sem lekið hefur til fjölmiðla þá segir Obama, CIA og þjóðaröryggisnefnd, að Rússar hafi hakkað sig inn í tölvur háttsettra Demókrata og fengu "fúlmennið" Assange og hans Wiki leaks til óhæfurverkana. Eðlilegt að þeim sárni að sannleikurinn um þá sé opinberaður.

Hvað ætli verði næst og skyldi Obama nýta þetta tækifæri til að setja viðskiptabann á Moldavíu.

Eða gæti verið að hann ætli sér að taka forseta Gambíu til fyriirmyndar og fara hvergi þ.20. janúar og segi eins og forseti Gambíu að hann verði áfram forseti af því að það sé ekkert að marka þessar kosninga.

 


Kaka eða faðmlag

Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa vakið athygli á því að það sé betra að fólk sem vill gera vel við samstarfsfólk sitt sýni því væntumþykju með faðmlagi eða með öðrum hætti innan siðrænna og viðurkenndra marka í stað þess að færa því kökur eða annað sætmeti,eftir komu frá útlöndum, á afmælum eða öðru tilefni.

Offita, áunnin sykursýki og vaxandi tannskemmdir eru verulegt og vaxandi heilbrigðisvandamál í Bretlandi. Þannig er það einnig hér. Nauðsynlegt er að vinna gegn sykurómenningunni.

Talið er að börn innbyrði að jafnmagni þriggja sykurmola með morgunkorninu sínu á hverjum morgni og sum mun meira. Sykur er nánast í allri tilbúinni fæðu og erfitt að varast hann. Það er heilbrigðismál að vinna gegn sykurneyslu.

Sykur er eins og hvert annað fíkniefni. Aukin sykurneysla kallar á meira magn af fíkniefninu sykri. Sykur kallar fram vellíðan hjá okkur sykurfíklunum og þess vegna sækjumst við í fíkniefnið, þrátt fyrir að vita að líkamlega er það bara vont fyrir okkur.

Á sama hátt og yfirvöld unnu gegn tóbaksreykingum ættu þau nú að setja sér markmið varðandi að draga úr sykur- og þess vegna saltneyslu þjóðarinnar. Það mundi auka vellíðan fólks þegar fram í sækir og draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér, en hann verður þá að eiga þess kost að geta valið ósykraða neysluvöru í stað sykraðrar eins og morgunkorn, brauð o.s.frv. Ef til vill mætti gera eins og með sígarettupakkana að setja varúðarmerki á neysluvörur þar sem sykurmagn er umfram ákveðið viðmið t.d:

VARÚÐ: Óhófleg sykurneysla er hættuleg heilsu þinni.


Pólitíska veðurfræðin

Það er nýlunda að flytjandi veðurfregna hvetji neytendur til að sniðganga vörur framleiddar í Kína. Þó ég sé honum efnislega sammála, þó á fleiri forsendum sé, þá orkar það tvímælis flytjandi veðurfrétta á RÚV setji þar fram hápólitísk sjónarmið.

Í sjálfu sér er þeim geðþekka flytjanda veðurfregna sem setti fram þessa skoðun vorkunn, af því að fréttastofa RÚV, stjórnendur krakkafrétta og Kastljóss hafa ekki hikað við að taka pólitíska afstöðu til ágreiningsmála og flytja einhliða fréttir. Sök veðurfræðingsins er því síst meiri eða alvarlegri en annarra sem við fréttaflutning starfa hjá RÚV.

Fréttir, líka veðurfréttir eiga að vera hlutlægar og án pólitískra palladóma eða sjónarmiða viðkomandi fréttaflytjanda til að tryggja hlutlægni, en hefur ekkert með rétt viðkomandi aðila til að vera brennandi í pólitíska andanum. En sá verður að koma því á framfæri á öðrum vettvangi.

Sniðganga á vörum frá einu landi er alvörumál. Vörur frá Kína eru almennt ódýrari en vörur framleiddar annarsstaðar. Gæði þeirra eru yfirleitt í lagi. Það er því ekki á grundvelli almennra neytendasjónarmiða sem hvatt verður til sniðgöngu.   

Pólitíska veðurfræðin, sem hefur gert loftslagshlýnun af mannavöldum að trúarsetningu horfir til þess, að Kína brennir kolum meir en nokkur annar. Indland er ekki langt undan  og hvað með Indónesíu? Eigi að sniðganga vörur frá Kína er eðlilegt að spurt sé hvort það eigi ekki að gilda um vörur frá löndum sem haga sér með svipuðum hætti?

Miðað við mínar upplýsingar og þekkingu, hafa Kínverjar farið fram af meiri óbilgirni gagnvart náttúrunni en nokkur önnur þjóð. Miðað við okkar vinnulöggjöf og réttindi launþega, þá eru vinnuaðstæður í Kína nær þrælabúðum vinnustöðum á Vesturlöndum.

Fólk á Vesturlöndum hefur horft á eigendur fyrirtækja brytja þau niður og flytja til Kína eða Indlands, þar sem réttindi verkafólks eru engin. Þau skammtímasjónarmið sem þar ráða eru seld því verði að stórir hópar launþega missa vinnu og þjóðfélög Vesturlanda tapa þegar heildarhagsmunir eru hafðir í huga.

Það er með eindæmum að verkalýðshreyfing Vesturlanda skuli ekki hafa brugðist við og mótmælt og mótmælt og mótmælt því að réttindi sem hún og framsýnir stjórnmálamenn hafa náð fyrir vinnandi stéttir skuli eyðilögð með því að taka fyrirtækin og flytja þau þangað sem réttindalaust fólk framleiðir það, sem þjálfað hörkuduglegt starfsfólk á Vesturlöndum gerði  áður og fékk greitt að verðleikum fyrir vinnu sína. Allt til að hámarka gróða fjármagnseigenda á kostnað hinna vinnandi stétta.

Verkalýðshreyfing Vesturlanda brást. Stjórnmálaflokkar brugðust og fjötruðu sig í hugmyndafræði heimsviðskipta þar sem frelsi fjármagnsins ræður öllu, en réttindi hins vinnandi manns gilda ekki. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn hafa verið helteknir af þessari heildarhugsun og hefðbundnir hægri flokkar hafa verið njörvaðir í 18.aldar sjónarmið um frelsi fjármagnsins. Svo finnst þessum aðilum skrýtið að það sem þeir kalla pópúlíska hægri flokka sem vilja gæta heildarhagsmuna vinnandi fólks skuli vaxa ásmegin. 

Fjármagnseigendur Vesturlanda sem hafa svikið vinnandi fólk á Vesturlöndum horfa á það án þess að blikna sem og stjórnmálamenn Vesturlanda að við framleiðslu Kína og annarra sambærilegra landa er farið á svig við flest það sem við á Vesturlöndum teljum skyldu okkar að gera til að varðveita náttúruna og umgangast hana með virðingu.

Það er svo merkilegt að hvorki stjórnmálamenn né verkalýðshreyfing hafa lyft litla fingri eða mótmælt því að fjármagnseigendur hafi fullt og óheft frelsi til að eyðileggja atvinnu milljóna fólks,lítilsvirða áunninn réttindi verkafólks og valda óafturkræfri mengun náttúrunnar.

Frelsi fjármagnsins hefur ráðið á kostnað hagsmuna vinnandi fólks. Vinstra fólk á Vesturlöndum hefur ekki sinnt hagsmunum hins vinnandi manns í framleiðslustörfum. Það er síðan undrandi yfir því að hinar vinnandi stéttir skuli yfirgefa hina sósíalísku alþjóðahyggju þrælabúðann. Hefðbundnir hægri flokkar hafa líka brugðist bundnir á klafa sérhagsmuna fjármagnsins hafa þeir litið framhjá heildarhagsmunum þjóðfélagsins til að trufla ekki gleðileik eyðileggingar fjármagnseigenda á áunnum réttindum verkafólks á Vesturlöndum og vestrænum gildum mannúðar og virðingar fyrir náttúrunni. 


2017

Gjöfult og gott ár 2016 kveður. Ár mikilla umskipta þar sem kom í ljós að vinstri- stjórnmála- háskóla- og fréttaelítan sem og elítu stjórnmálaflokkar í Evrópu átta sig ekki á því hver vandamál venjulegs fólks eru og standa svo gapandi af undrun yfir því að meirihluti kjósenda skuli hafa aðrar skoðanir en þau.

Brexit í Englandi og Sigur Donald Trump í USA var eitthvað sem engin bjóst við. Samt gerðist það og einungis vitifirrta vinstrið trúir því að Pútín forseti hafi ráðið öllu um hvernig fór. Því fólki væri nær að skoða að lífskjarabatinn hefur að mestu farið framhjá svokallaðri miðstétt og þeim sem lægst hafa launin, en skolað sér helst til ofurfjárfesta og þeirra sem þiggja allt sitt frá hinu opinbera sem launafólk eða sem gjafir frá skattgreiðendum

Furðuyfirlýsingar kanslara Þýskalands Angelu Merkel um þann ábata sem Þýskaland hafi af innflytjendastraumnum þar sem fleiri vinnandi hendur komi til að bæta lífskjörin í landinu stangast á við raunveruleikann, en samkvæmt nýjustu tölum eru eingöngu um 34 þúsund innflytjenda af um 1.2 milljónum innflytjenda sem komu til landsins árið 2015 í vinnu. Það þýðir að þýskir skattgreiðendur þurfa að fæða og klæða rúmlega milljón fleiri en þeir hefðu þurft að gera ef helstefna Angelu Merkel í innflytjendamálum hefði ekki komið til.

Búast má við að árið 2017 verði gott ár fyrir okkur, en það eru hættumerki eins og óhófleg styrking krónunnar, okur gagnvart útlendingum sem gæti drepið þá gullgæs sem aukin straumur ferðamanna er fyrir okkur. Jón Ásbergsson forstjóri Íslandsstofu sagði í fréttum fyrir nokkru að ríkið fengi nú um 60 milljarða af ferðamönnum á ári. Það munar um minna og það ætti ekki að vera ofrausn að eyrnamerkja þó ekki væri nema 5% af þeim hagnaði til að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum koma upp salernisaðstöðu og veita björgunarsveitum myndarlegan fjárstuðning í stað þess að láta þær nær eingöngu þrífast á flugeldasölu.

Donald Trump tekur við 20. janúar n.k. og fróðlegt verður að vita hvernig honum gengur. Fyrstu skref hans lofa meiru en ýmis ummæli hans í kosningabaráttunni gátu bent til. Það er þörf stefnubreytingar hjá USA. Utanríkisstefna þeirra er komin í þrot og saga tómra mistaka og brota á alþjóðalögum alla þessa öld.

Ár hanans byrjar skv. kínversku stjörnufræðinni og það hefu þá þýðingu sem þeir sem trúa á stjörnuspeki vita. Í byrjun febrúar á alþjóðadegi Hijapsins (höfuðfat sumra múslimskra kvenna) eru konur hvattar til að finna út hvernig það er að vera með slíkt handklæði á höfðinu.

Nýr forseti Frakklands verður kosinn á árinu. 10 ár verða liðin frá því að Steve Jobs kom fram með iPhoninn. Fimmtíu ár frá dauða Che Guevara. 100 ár frá byltingu kommúnista í Rússlandi og 500 ár frá því að Marteinn Lúther hóf andstöðu sína við Kaþólsku kirjuna sem leiddi til aðskilnaðar kaþólskra og mótmælenda.  Þannig er margs að minnast. En áskoranir framtíðarinnar eru margar.

Við fáum nýja ríkisstjórn í byrjun árs 2017 ef að líkum lætur. Ótrúlegt gauf hefur verið á þeim sem standa að stjórnarmyndunarviðræðum og ótrúlegt að það skuli taka fólk svona langan tíma að finna út úr því hvort það er samstarfsgrundvöllur eða ekki. Katrín Jakobsdóttir, sem hafði öll spil á hendinni eftir kosningarnar hefur spilað hvern afleikinn á fætur öðrum sem veldur því að öllum líkindum að VG verður utan stjórnar og heldur áfram eyðimerkurgöngu ásamt systurflokki sínum Pírötum.

Svo fremi stjórnmálamenn og lífeyrissjóðir valdi ekki meiri háttar búsifjum á árinu og ofurverðlagning hrekji ferðamenn ekki frá landinu þá verður árið 2017 með þeim bestu sem við höfum upplifað - að vísu með þeim fyrirvara að náttúruhamfarir setji ekki strik í reikninginn. Við eigum alla möguleika til að rísa til betri kjara og batnandi þjóðlífs ef við leyfum einstaklingunum að njóta aukins svigrúm og þúsund blómum framtaks þeirra áð blómstra. Mér finnst gaman að sjá hvernig íslenskir listamenn einkum í tónlist hafa haslað sér völl með framúrskarandi hætti. Þannig getum við náð árangri. En besta leiðin til þess er að ríkið hætti að styðja atvinnurekstur og leyfi öllum að sitja við sama borð.

Gleðilegt ár árið 2017 verður ef við leikum ekki af okkur.

Nú er kominn tími til að hlusta á Vínartónleikana í beinni svo ég segi:

Kæru vinir Gleðilegt ár 2017

Þið sem hafði horn í síðu minni og teljið ykkur vera óvini mína vil ég líka óska gleðilegs og farsæls nýs árs og geri mér grein fyrir því að ég bjó ykkur til því miður.

Lifið heil 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband