Leita í fréttum mbl.is

Það sem þú mátt ekki heyra

Hefur þú heyrt það nýjasta um Hunter son Joe Biden forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum?

Sennilega ekki vegna þess að netmiðlar þ.á.m. fésbók hafa komið í veg fyrir birtingu umfjöllunar um Hunter.

Sérkennilegt að Fésbók skuli taka sér slíkt ritstjórnarvald, þegar um er að ræða frétt, sem ótvírætt á erindi til almennings. Hér er ekki verið að ræða um kynþáttafordóma, kynjamisrétti eða annað sem bannfært hefur verið af samfélagsmiðlum. Það er sögð saga af manni sem er og/eða hefur verið eiturlyfjaneytandi og hefur þegið gríðarlega fjármuni frá vafasömu úkraínsku orkufyrirtæki án þess að gera neitt annað en að sitja í stjórn félagsins að nafninu til og vera sonur föðrur síns. 

Sú staðreynd, að maðurinn sem verið er að fjalla um skuli vera sonur forsetaframbjóðandans Joe Biden skiptir hér öllu máli þar sem fésbók hefur ekki bannað umfjöllun um eiturlyfjafíkn eða fjármálaskandala. Fréttin skaðar að sjálfsögðu Joe Biden vegna þess að hún sýnir þá spillingarveröld sem hann hrærist í sem þáttakandi og aðstandandi.

Með því að banna frétt, sem á erindi til almennings og er ekki röng, tekur fésbók sér ritstjórnarvald, sem hlítur að kalla á að settar verði ákveðnari reglur um netmiðla, sem m.a. takmarka rétt þeirra til að útiloka almennar umræður sem eiga erindi við almenning. 

Hvað sem líður stuðningi eða andstöðu við einstaka forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum, þá er hér of langt gengið í ritskoðun og afstöðutöku með einum frambjóðanda og á móti hinum og það í forsetakosningum í sjálfum Bandaríkjunum.

Fróðlegt verður að sjá hvort að ljósvakamiðlar á Íslandi, RÚV og Stöð 2 telja þetta fréttnæmt eða ekki. Ef til vill eru bara neikvæðar fréttir af Trump þess virði að þessir fréttmiðlar telji þær eiga erindi við almenning.


Er eitthvað að gerast í Kína?

Kínaveiran Covid 19, sem byrjaði í Wuhan héraði í lok ársins 2019 hefur leitt til fjölda dauðsfalla, atvinnuleysis, samdráttar og hættu á efnahagslegri kreppu á flestum stöðum í heiminum nema í Kína og Austurlöndum fjær. 

Hvernig skyldi ástandið vera í Kína? Það þarf að grafa eftir fréttum þaðan, vegna þess að helstu fjölmiðlar veraldar segja sömu fréttir og endurtaka hver eftir öðrum og Kína hefur ekki verið til umfjöllunar svo nokkru nemi í langan tíma.

En er eitthvað að frétta frá Kína?

Er það frétt, að í landinu þar sem Kórónuveiran kom upp, skuli engin sérstök vandamál vera í gangi hvað hana varðar? Dánartíðni er um 3 á hverja milljón íbúa eða svipað og hjá okkur, á sama tíma og dánartíðni í Bretlandi er um 630 á hverja milljón íbúa og 660 í Bandaríkjunum og 116 í Þýskalandi.

Efnahagslífið í Kína virðist vera búið að ná fullum styrkleika. Fjöldi flugferða er um 90% af því sem þær voru á sama tíma í fyrra og meiri fjöldi fólks fer á ýmsar skemmtanir núna eins og t.d. bíó en áður.

Síðan er alltaf spurningin hvað mikið er hægt að treysta tölulegum upplýsingum frá einræðisríkjum eins og Kína. Allavega mundi Kína ekki geta dulið það fyrir heiminum, ef veiran geisaði af hörku í landinu og þúsundir væru á sjúkrahúsum eða dánir.

Kína er einræðisríki og þar leyfist ekki nema ákveðin umræða og ákveðin hegðun. Í síðustu viku handtóku yfirvöld móður veirufræðings sem var handtekinn fyrir löngu og heldur því fram, að Covid 19 hafi verið búin til á tilraunastofu. Þetta má ekki segja. Skrýtnu tilvikin í upphafi veiruárásarinnar voru fjölmörg m.a. dularfullt dauðsfall læknis sem hafði varað við málinu og þá hurfu aðilar, sem höfðu haft ákveðnar meiningar. Eitthvað er, sem kínversk yfirvöld vilja ekki að rætt sé um. En Vesturlönd geta ekki samþykkt, að ekki fari fram fullkomin rannsókn á tilurð veirunnar og með hvaða hætti kínversk yfirvöld komu fram í upphafi faraldursins, þegar þeir dreifðu veirunni til alheimsins á sama tíma og þeir takmörkuðu ferðir innanlands í Kína. Þá verður að fara fram ítarleg rannsókn á því hvort að veiran var búin til í tilraunastofu t.d. í Kína eða ekki.

Ef til vill er það fréttnæmasta frá Kína það sem áður er getið um, að veiran er ekki að hrjá þá, þjóðarframleiðslan er nánast sú sama og hún var fyrir veiru og samgöngur eru með hefðbundnum hætti. 

Það er ýmislegt fleira sem þarfnast skoðunar varðandi veiruna m.a. af hverju hún leggst mun léttar á þjóðir Austurlanda fjær en annarsstaðar. Er fólk þar með virkt mótefni eða er eitthvað annað sem getur skýrt það? Þar kæmi e.t.v. líka til skoðunar hvort að veiran hafi verið útbúin þannig, hafi hún orðið til á tilraunastofu.

 


Hvar eru karlarnir?

Í gær var fjallað um geymslu svonefndra menningarverðmæta og malbik í þættinum Kveikur í Ríkissjónvarpinu.

Við umfjöllun um geymslumálin kom á óvart gríðarlegt magn efnis og hluta ríkisvaldinu er ætlað að varðveita. Þrátt fyrir að þátturinn ætti að sýna fram á hve illa væri staðið að geymslumálum, þá kom raunar á óvart hvað vel er staðið að þessum málum víðast hvar miðað við það óhemju magn sem um ræðir. 

Annað sem kom á óvart er af hverju allt það efni sem hægt er að míkrófilma sé ekki míkrófilmað og varðveitt eingöngu með þeim hætti og öðru fargað sem ekki teljast mikilvægir minnisvarðar íslenskrar listar og menningar. 

Í þriðja lagi þá var eingöngu talað við konur enda þær allsstaðar í stjórnunarstöðum á safna og listmunasviðinu.

Þegar fjallað var um malbikið og gæði þess í síðara umfjöllunarefnis Kveiks, var vegamálastjóri, sem er kona líka til andsvara.

Það er ánægjuefni að konur sæki fram og gegni forustu- og stjórnunarhlutverki á sem flestum sviðum í þjóðfélaginu til jafns við karla. Þegar svo er komið að konur hafa haslað sér völl sem stjórnendur til jafns við karla,er þá réttlætanlegt að hafa lög um jafnstöðu kynjana með þeim hætti, að við mat á því hvort ráða skuli konu eða karl til starfa, þurfi sérstaklega að réttlæta það að karlinn var valinn umfram konuna. Sú viðmiðun, sem t.d. réði niðurstöðu í kærumáli gegn Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, á engan rétt á sér lengur og stuðlar frekar að óréttlæti en réttlæti. Við erum á allt öðrum stað en þegar lögin voru samþykkt.

Hinn "kúgaði minnihlutahópur" konur hefur sem betur fer sótt fram og tími er til kominn að af-fórnarlambavæða þennan "kúgaða minnihlutahóp" og viðurkenna að það er ekki um neina lagalega kúgun að ræða gagnvart konum. Við erum fyrst og fremst einstaklingar og það á að velja fólk til starfa vegna hæfileika hvort sem er í pólitík eða öðrum störfum en ekki kynferði. Gamla viðmiðunin á við þjóðfélag sem er ekki lengur til staðar. 


Blessun ríkishyggjunnar

Mörgum brá í brún þegar þeir hlýddu á tilvitnanir og innskot frá fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og hagfræðilegum sérfræðingi Háskólans í Reykjavík í ráðgjöf til stjórnvalda allt frá því fyrir bankakreppuna 2008. Þeir voru allir þeirrar skoðunar, að aukin ríkisafskipti, skuldasöfnun hins opinbera og eftir því sem ég gat best skilið peningaprentun og gengisfellingu væri það, sem helst gæti orðið til bjargar í þeim efnahagsþrengingum sem framundan væri vegna sóttvarnaraðgerða ríkisvaldsins.

Eftir því sem best verður greint hefur fjármunum verið sturtað úr ríkissjóði á þessu ári, sumt til skynsamlegra ráðstafana, en annað er óafsakanlegt bruðl og eyðslusemi á peningum skattgreiðenda. Meiningin mun vera að skrúfa enn hraustlegar frá eyðslukrana ríkisvaldsins og eyða peningum, sem ekki eru til.

Stjórnarandstaðan hefur ekkert annað til málanna að leggja, en að heimta að ríkið eyði ennþá meira af peningum, sem ekki eru til. En sameignilega virðist stjórn og stjórnarandstaða vera sammála um að þetta reddist allt þegar hagkerfið dafnar á nýjan leik og vex með þeim störfum sem ríkið ætlar að búa til þ.á.m. í hinu svonnefnda "græna hagkerfi" sem aldrei hefur verið rekið öðruvísi en með gríðarlegu tapi. 

Óneitanlega var sú hugsun áleitin, að nú væri komið nýtt afbrigði af fjármálaviti sem einkenndi ráðstafanir í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008.

Ekki sakar að spurt sé í þessum tryllta dansi stjórnmálaelítunnar og meginhluta fréttaelítunnar í kringum tálsýn gullkálfs ríkishyggjunar, hvenær ríkisvaldið hafi nokkru sinni, nokkurs staðar verið þess megnugt að skapa fjölda arðvænlegra starfa til frambúðar.

Þá ekki síður, hvort reynsla þeirra þjóða, sem hafa á síðustu áratugum vikið ríkishyggunni til hliðar og leyst hundruð milljóna manna úr fátækt og frá hungurvofunni með því að virkja einstaklingsframtakið sé ekki fordæmi sem ástæða sé til að taka mark á.

Þvert á þá stefnu sem nú er boðuð væri skynsamlegra að skera alla óþarfa fitu utan af ríkisbákninu og rúmlega það. Með því að lækka skatta á fólk og fyrirtæki væri líka lagður grundvöllur að því, að einstaklingarnir hefðu möguleika á að virkja sköpunarkraft sinn og dugnað og breyta því í arðvænlegan rekstur sjálfum sér og öðrum til góðs.

Aukin ríkishyggja og ríkisafskipti munu eingöngu leiða til þess að fyrirsjáanleg kreppa verður langvinnari, dýpri og alvarlegri en hún yrði væri einkaframtakið virkjað til góðra hluta. Síðan verður að horfast í augu við það, að seðlaprentun og áframhaldandi ábyrgðarleysi í launamálum ekki síst stjórnmálastéttarinnar og embættismannaaðalsins, sem hefur leitt til þess að launakjör eru gjörsamlega úr takti við þann raunveruleika sem við búum við í dag er eingöngu ávísun á gengisfellingar í smærri eða stærri skrefum og óðaverðbólgu í kjölfarið, sem er óhjákvæmileg ef ríkishyggjan fær að tröllríða öllu í landinu.

Þetta eru því miður einföld efnahagsleg sannindi sem gilda alltaf, en hefur iðulega verið vikið til hliðar alltaf með skelfilegum afleiðinum síðast í aðdraganda bankahrunsins árið 2008.

Er ástæða til að endurtaka það með mun verri og skelfilegri afleiðingum?

 


Veirustríðið

Þá er hafin ný leiftursókn gegn C-19 veirunni. Veirutríóið með Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni í broddi fylkingar hefur mælt fyrir um róttækar lokunaraðgerðir sem koma sér illa fyrir fólk og fyrirtæki, en vonandi verða þær til þess á skömmum tíma að koma þjóðfélaginu á nýjan leik í þokkalegt andlegt og líkamlegt jafnvægi. 

Þórólfur Guðnason hefur staðið sig vel í þessari baráttu raunar eins og aðrir í veirutríóinu, þó oft orki tvímælis hvað skuli gera hverju sinni. Hann viðurkennir, að þekking á sjúkdómnum sé takmörkuð og hefur ítrekað tekið fram, að hann sem sóttvarnarlæknir geti ekki lagt annað til, en það sem hann hefur gert. Dáðlaus ríkisstjórn hefur hinsvegar komið sér hjá að taka pólitískar ákvarðanir varðandi viðbrögð við faraldrinum og stimplað allt sem Þórólfur hefur sagt og ert eins og Guð hafi sagt það og þar verði engu um þokað. 

Skortur á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnmálaafla, sýnir því miður þá staðreynd, að nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er við völd í landinu kemur sér hjá að taka ákvarðanir og telur hag sínum best borgið með því að skýla sér á bak við sérfræðina, en geta staðið og þóst ábyrgðarlaus til hliðar. Þetta kemur svo rammt fram á öllum sviðum þjóðmálanna, að margir telja, að það væri ódýrara að gefa þessu fólki sem á að stjórna frí, en fela sérfræðingum og forriturum tölvulíkana það vald, sem það fer með hvort sem er. Önnur leið er að skipta um stjórnmálastétt og ætlast til þess af henni, að hún geti tekið ákvarðanir út frá heildarhagsmunum að teknu tilliti til misvísandi skoðana sérfræðinga. 

Ný leiftursókn gegn veirunni er hafin og vonandi gengur hún vel. Vonandi rennur hún ekki út í sandinn eins og síðari leiftursókn þriðja ríkisins í síðari heimstyrjöld því þá eins og nú má ætla, að það verði ekki þrek, vilji eða fjármunir til að fara í þá þriðju ef þessi bregst. 

Enn sem komið er skv. opinberum tölum hafa aðeins 0.85% þjóðarinnar veikst af þessari veiru, en 99.15% þjóðarinnar hafa verið svo gæfusamir, að hafa enn sem komið er losnað við það. Þegar upp verður staðið að aflokinni þessari leiftursókn má ætla miðað við spálíkön, að aðeins um 1% þjóðarinnar hafi þá tekið sóttina. Áleitna spurningin er þá, hvað er unnið við leifursóknina ef nánast öll þjóðin eða 99% getur enn smitast og hvernig verður veirunni haldið í skefjum, en Þórólfur og fleiri segja að hún sé komin til að vera. 

Eins og í sögu H.G. Wells um innrásina frá Mars kann þó að vera ástæða til bjartsýni, en þar komu sýklarnir mannkyninu til bjargar. Þekking á sjúkdómnum og viðbrögðum við honum vex og hvað svo sem öllum hræðsluáróðri líður þá er veiran heima og annarsstaðar í Evrópu auðveldari viðfangs og vægari en var í upphafi.

Hvort sem okkur þykja þessar ráðstafanir réttar eða rangar, þá erum við hér og þurfum sameiginlega að taka á til að lágmarka tjónið.   

 

 


Hvað er vitlegt að gera?

Flestir telja það ávísun á galgopahátt að fara til Spánar vegna þess hve mikið er um Covid smit. En er það svo?

Hér í Valencia skíri og Costa Blanca svæðinu er töluvert minna  um smit en heima á Íslandi. Samt sem áður er engin skimun á landamærunum hvað þá síðari skimun og sóttkví á milli. Flest smit hér eru eins og heima vegna skemmtanahalds um helgar. 

Nánast engin smit greinast í síðari skimun en samt ætlar ríkisstjórnin að framlengja þessu argans bulli til 1. desember. Hvað kostar það fólk að þurfa að hanga heima eftir að það kemur heim í næstum því viku vegna þessa endemis rugls ríkisstjórnarinnar. Hvað skyldu nú margir hafa greinst við síðari skimun og eru það svo margir að það réttlæti þessar aðgerðir? Af hverju spyrja fréttamenn aldrei um það. Hvað kostar þetta margar tapaðar vinnustundir og leiðind án nokkurs vitlegs tilefnis. 

Í kvöldfréttum kom fram, að sóttvarnarlæknir ætlar sér að auka á frelsisskerðingar fólks án þess að það sé skoðað hvaðan smitin koma. Þau koma ekki frá líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslustofum eða áhorfendum á íþróttaviðburðum. Meginhluti smitana koma vegna skemmtanahalds í Reykjavík um helgar. Er þá ekki nauðsyn að skoða það en láta aðra mannlega starfsemi í friði. Hvað þá að halda ekki áfram einhverju sem er algjör óþarfi eins og tvöföld skimun á landamærunum - já og þú þarft að borga fyrir þetta rugl. 


Covid varnir

Í dag flaug ég í fyrsta skipti erlendis eftir að Covid fór að sliga heimsbyggðina. Yfirvöld segja fólki hvernig það eigi að hegða sér frá morgni til kvölds. Hamingjan öll og heillin felst í því að hlýða þríeykinu að ógleymdum landsstjóranum. Sem tekur í lurginn á sóttvarnarlækni eða ráðherrum eins og dreissugur kennari þegar svo ber undir. 

Í flugstöðinni í Keflavík virtist allt vera steriliserað og reglubundið drundi í hátölurum áskorun um að virða tveggja metra fjarlægð og hafa grímur. Ekki var annað að sjá, en að fólk hlýddi þessu. Þegar út í flugvélina var komið þá var hefðbundið millibil um 40 cm. á milli fólks. Grímuskyldunni var almennt fylgt þó einstaka maður togaði grímuna vel niður fyrir nefið. En ég spyr af hverju tveggja metra reglu í flugstöðinni en 40 c.m. fjarlægðarmörk á 3-5 klukkustunda flugleiðum?

Þegar ég ætlað að setja handfarangur upp í handarangursgeymsluna kom gustug flugfreyja aðvífandi og sagði að þetta mætti alls ekki gera. Af hverju spurði ég. Af því að það veldur smiti sagði flugfreyjan með áminningarsvip eins og þetta væri eitthvað sem allir ættu að vita. Hvernig getur staðið á því segir ég. Það skiptir ekki máli sagði hún þetta eru fyrirmæli frá landlækni. Þá vitum við það. Á sama tíma sá ég fólk framar í vélinni vera að troða aragrúa af farangri upp í farangursgeysmsluna og spurði því. Af hverju fá þau að gera þetta? Af því sagði flugfreyjan eins og hún væri að tala við vanvita. "Þau eru við neyðarútgang og geta ekki haft farangurinn á gólfinu. "Er þá minni eða önnur smithætta í farangursrýmum við neyðarútganga en í öðrum rýmum" spurði ég og hef ekki enn fengið svar.

Við komuna þurfti að skila rafrænum upplýsingum, sem gekk fljótt og auðveldlega fyrir sig og síðan gátu allir farið sína leið. Engin skimun og sóttkví í 5-6 daga og síðan önnur skimun. Ég sagði takk fyrir við unga manninn sem taldi upplýsingar mínar fullnægjandi og hann sagði "Velkominn til Spánar!" með þeirri hlýju og einlægni sem iðulega er einkennandi í samskiptum fólks hér í landi, þar sem fólk er ekki upptekið við að yfirgnæfa norðanáttina vetur, sumar, vor og haust. Þegar ég sagði vini mínum frá þessu, þá tók hann andköf og sagði það er þessvegna sem smit eru svona algeng á Spáni 

Það er auðvelt að hrapa að niðurstöðu þegar hræðsluógnin er það eina sem er gjaldgengt í umræðunni. Hér á Costa Blanca svæðinu eru smit minni en víðast hvar á Spáni og álíka mikil og á Íslandi þrátt fyrir að fólk sé boðið velkomið og þurfi ekki að fara í tvöfalda skimun á landamærunum.

Í stórmarkaðnum er skylda að vera með grímu og spritta sig í bak og fyrir og ekki má taka aðra innkaupavagna en þá sem búið er að sótthreinsa. Ég fékk ekki að fara inn í verslunina fyrr en lögmæt sprittun hafði farið fram, en eftir það var allt eins og venjulega nema grímurnar huldu andlit fólks sem sprangaði um í stuttbuxum og bolgopum þannig að vel mátti ímynda sér vöxt og atgervi hvers og eins á meðan nefið var hulið. 

Ég velti því í framhaldi fyrir mér hvort David Allen hefði haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um að ef konum væri gert að hylja nefið umfram aðra líkamsparta, þá kæmi að því að karlmönnum þætti þetta mest spennandi hlutur kvennlíkamans, sem þeir yrðu að fá að sjá umfram allt annað. 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Okt. 2020
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 393
  • Sl. sólarhring: 1007
  • Sl. viku: 6137
  • Frá upphafi: 2277888

Annað

  • Innlit í dag: 367
  • Innlit sl. viku: 5673
  • Gestir í dag: 360
  • IP-tölur í dag: 352

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband