Leita í fréttum mbl.is

Þegar hægrið tapaði glórunni í pólitískum tepruskap

Enn á ný hriktir í stoðum hræðslubandalags sósíalista og kristilegra demókrata í Þýskalandi. Þessir flokkar voru lengi taldir höfuðandstæðingar í þýskum stjórnmálum. Í dag standa þeir fyrir pólitískt moð án annars tilgangs eða takmarks en að vera við völd.

Stjórnmálaleiðtoginn Mitterand í Frakklandi áttaði sig á því að hægrið væri haldið þvílíkum tepruskap gagnvart þjóðlegum flokkum, að eðlilegt væri að styðja við bakið á þjóðlegu flokkunum, til að koma í veg fyrir að hægri menn mynduðu ríkisstjórn í Frakklandi. Sú áætlun hans tókst. Franska þjóðfylkingin fékk aukið fylgi en aðrir hægri flokkar neituðu að starfa með henni vegna pólitísks tepruskapar.

Sama hefur gerst víðar eins og lengi vel í Danmörku og Noregi og nú í Svíþjóð.

Þar sem hinir svokölluðu hægri pópúlistaflokkar, sem er raunar rangnefni vegna þess að þeir eru einu flokkarnir sem hafa ákveðna stefnu og fara gegn meginstraumnum, hafa komist í ríkisstjórn t.d. í Noregi, Danmörku og á Ítalíu þá hafa þeir verið ábyrgir í stjórn landsins og komið því til leiðar m.a. að smá skynsemi hefur komist að varðandi það að stemma stigu við óheft aðstreymi ólöglegra innflytjenda, sem hefur orðið löndum þeirra til góðs meðan það hefur varað.

Nú hriktir í stoðum hræðslubandalags Þýskalands og formaður Kristilegra demókrata hefur sagt af sér þar sem hún réð ekki lengur við að halda aftur af hluta flokksmanna sinna, sem vildu taka skynsamlega ákvörðun og vinna með hægri flokknum AfD (alternative für Deutschland). Sósíalistar hótuðu stjórnarslitum og Angela Merkel þorði ekki annað en að ómerkja ákvarðanir um samstarf við AfD.  

Þessum pólitíska tepruskap hægri manna í álfunni, sem hefur leitt sósíalista til meiri áhrifa en fylgi þeirra segir til um verður að linna annað leiðir til mikils ófarnaðar sbr. Svíþjóð.

Hægri flokkarnir í Svíþjóð hafa neitað að vinna með Svíþjóðardemókrötum, þjóðlegum hægri flokki. Afleiðingin er sú að ríkisstjórn sósíalista situr við völd annað kjörtímabilið í röð. Afleiðingarnar eru þær m.a. að Svíþjóð er orðið eitt hættulegasta landið í Evrópu. Innflytjendastefna sósíalistanna hefur leitt til þess, að á hverjum degi er kveikt í fjölda bíla, sprengingar og skotárásir eru daglegt brauð og Svíþjóð trónir á toppnum yfir fjölda nauðgana. Um þetta má að sjálfsögðu ekki tala þar sem teprugangurinn ber skynsemina og ofurliði.  

Engin líkindi eru til að önnur pólitísk þróun verði hér á landi en annarsstaðar í Evrópu. Alla vega bendir ekkert til þess, að Sjálfstæðisflokki líði illa í stjórnarsamstarfi við Vinstri græna, sem reyna að koma í veg fyrir að hagkvæmni einkaframtaksins m.a. í heilbrigðismálum fái að njóta sín og stuðla að því að fremsta megni að galopna landamærin þannig að þróunin megi verða svipuð hér á landi og í Svíþjóð. 

 


Hvað skyldi kokkurinn heita

Formaður Viðreisnar lagði til, að gerð yrði skýrsla fyrir Alþingi þar sem borin yrðu saman auðlindagjöld hér á landi og úthlutun veiðiréttinda og stjórnarhætti í Namibíu. Björn Bjarnason gerir þessum ruglanda góð skil í færslu sem hann nefnir "Lýðskrum í skýslubeiðni á Alþingi"

Formaður Viðreisnar vill útreikning á óasmanburðarhæfum hlutum og nota á við það reikningskúnstir og mismunandi gögn sem gerir það að verkum að mér datt í hug saga af samskiptum listmálarans Jóhannesar Kjarval og stærðfræðingsins Ólafs Daníelssonar þegar þeir hittust niður við höfn í Reykjavík. 

Kjarval sagði. Mig langar til að leggja fyrir þig eina spurningu af því að þú ert stærðfræðingur. Jæja hver er hún sagði Ólafur. Já það siglir skip til Ameríku, segir Kjarval. Skipið er 2000 smálestir að stærð og er statt á 64 gráðu norðurbreiddar, en skipstjórinn er fertugur að aldri. Nú hvað er það svo sem þig langar til að vita spyr Ólafur.  Ja mig langar til að vita hvað kokkurinn á skipinu mundi heita sagði Kjarval. 

Líklegt er að þeir sem þurfa að vinna skýrsluna fyrir Alþingi skv. uppleggi formanns Viðreisnar lendi  í álíka hremmingum og Ólafur Daníelsson við að svara svona kúnstugum samanburði og Þorgerður Katrín vill fá upplýsingar um  og Ólafur Daníelsson forðum við að svara spurningunni um það hvað kokkurinn á skipinu héti skv. uppleggi Kjarval. 


Dómstóllinn heilagi.

Svo virðist sem fréttastofa RÚV telji Mannréttindadómstól Evrópu vera heilaga stofnun og taka beri öllu sem frá þeim dómstól kemur eins og Guð hafi sagt það. Í fréttatíma í gær var fyrrum dómsmálaráðherra gagnrýndur og eltir upp aðilar til að gagnrýna ummæli hennar um skipan dómsins og málsmeðferð.

Er það virkilega svo að ekki megi anda á þessa stofnun. Er hún og á hún að vera hafin yfir alla gagnrýni?

Vissulega er margt skrýtið sem komið hefur frá Mannréttindadómstólnum undanfarin ár, sem er gagnrýni vert og langt því frá, að slík helgi umvefji þessa stofnun, að ekki megi anda á hana.

Fréttastofu RÚV og þeim fræðimönnum í lögfræði sem vísað er til datt ekki í hug að benda á þau sérkennilegu vinnubrögð dómstólsins, að hlusta á málflutning í febrúar 2020 og ætla að kveða upp dóm um næstu áramót eða jafnvel síðar 10 mánuðum eða lengur frá því að málflutningur fór fram. Ætla má, að málflutningur aðila verði dómurum í fersku minni þegar svo langur tími líður frá málflutningi til dómsuppkvaðningar. 

Hér á landi þykir það ótækt, að meira en nokkrar vikur líði frá málflutningi þangað til dómur er uppkveðinn. Af hverju skyldi sú regla vera sett? Til að tryggja að ekki líði of langur tími frá flutningi máls til dóms, þannig að dómari eða dómarar hafi efnisatriði málflutnings aðila í huga við undirbúning dóms. 

Þessi langi tími sem líður frá málflutningi til dómsuppsögu er gagnrýni verður og tæpast í samræmi við 1.mgr. 6. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu, sem dómurinn heyrir undir, þar sem kveðið er á um það að ráða beri málum til lykta innan hæfilegs tíma. Í íslenskum rétti mundi það ekki teljast hæfilegur tími frá málflutningi til dómsuppsögu að 10 mánuðir eða rúmt ár liði frá málflutningi til dómsuppsögu. 

Á undanförnum árum hefur þessi dómur í auknum mæli dæmt með þeim hætti, að svo virðist á stundum, að dómurinn sé frekar í pólitík heldur en lögfræði. Sem dæmi um það má nefna, að Mannréttindadómstóllinn féllst á það, að kennari í Austurríki þyrfti að sæta refsingu fyrir að segja sannleikann um Múhameð, en dómstóllinn taldi að á grundvelli hugsanlegs þjóðfélagslegs óróa væri rétt að kennarinn greiddi sektina. Með þessum dómi féllst Mannréttindadómstóll Evrópu á að skerða bæri tjáningarfrelsi, ef hætta væri á því að ofbeldisöfl sættu sig ekki við að sannleikanum væri borinn vitni.

Fleiri dæmi mætti nefna eins og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í október 2001 þar sem dómurinn taldi að allir ættu rétt á góðum nætursvefni. Jamie Whyte gerir þennann dóm að sérstöku umfjöllunarefni í bók sinni "Crimes against logic" og segist ætla að fara í mál við börn sín þegar þau hafi efnast  og krefjast skaðabóta fyrir, að þau hefðu ítrekað brotið gegn mannréttindum hans með því að trufla svefn hans á nóttunni. Sömu kröfu gætu flestir foreldrar gert til barna sinna.

Er dómstóll sem hagar störfum sínum og fellir dóma með þeim hætti sem hér er bent á, hafinn yfir gagnrýni og ber fremur að trúa á hann en Guð almáttugann?   


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Feb. 2020
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 889
  • Sl. sólarhring: 1339
  • Sl. viku: 6534
  • Frá upphafi: 2277172

Annað

  • Innlit í dag: 832
  • Innlit sl. viku: 6070
  • Gestir í dag: 794
  • IP-tölur í dag: 775

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband