Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefði Ólafur Thors fyrrverandi forsætisráðherra gert?

Í allri þeirri orrahríð sem verið hefur vegna köpuryrða nokkurra drukkinna þingmanna á Klausturbar með víðtækri fordæmingu og kröfu um afsögn þeirra sem viðstaddir voru hvort heldur þeir voru sekir um eitthvað eða ekki datt mér í hug saga af Ólafi Thors fyrrum forsætisráðherra. Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið og er tvímælalaust farsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar á síðustu öld. 

Ungur róttækur maður var kjörinn á þing og hataðist út í Ólaf Thors meir en nokkurn annan því að í huga unga þingmannsins var Ólafur Thors talsmaður og fulltrúi auðvaldsins og andstæðingur verkalýðsins. 

Í fyrstu þingveislu fyrsta vetrar kjörtímabilsins varð ungi þingmaðurinn víðáttu drukkinn og hellti sér yfir meintan óvin sinn Ólaf Thors með heitingum,frýjunarorðum og hótunum. Viðstaddir sáu og heyrðu hvað fram fór. 

Morguninn eftir vaknaði ungi þingmaðurinn í herbergi sínu á Hótel Borg, en í þann tíð bjuggu utanbæjarþingmenn iðulega þar. Hann var uppfullur af skömm yfir framferði sínu og vissi að hann hefði orðið sér til mikillar skammar. Hann velti fyrir sér mitt í öllum timburmönnunum hvað hann ætti að gera og komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að segja af sér þingmennsku og fara aftur til sín heima með skottið á milli lappana. Leið nú dagurinn í einveru og þungum þönkum. Engin talaði við hann eða reyndi að setja sig í samband. 

Unga þingmanninum auðnaðist lítt að sofa aðfaranótt mánudagsins en sofnaði undir morgun og vaknaði seint og fór þá að undirbúa afsögn sína og leið svo fram að hádegi. Hann heyrði ekki í neinum, sem hann teldi að segði sína sögu um stöðu hans. Í hádeginu var barið að dyrum og ungi þingmaðurinn fór til dyra og varð bæði undrandi og nokkuð skelkaður þegar hann sá að fyrir utan stóð engin annar en óvinurinn sjálfur Ólafur Thors.

Ólafur falaðist eftir að fá að koma inn og var það auðsótt mál. Ungi þingmaðurinn byrjaði á að biðja Ólaf fyrirgefningar og fór að afsaka sig og sagði að hann gerði sér grein fyrir því að hann hefði skandalíserað þvílíkt að það væri ekkert annað í stöðunni fyrir sig en að segja af sér.

Ólafur Thors horfði á hann og sagði hvað er eiginlega að þér ungi maður. Láttu þetta ekki hvarfla að þér. Eins og það geti ekki komið fyrir unga menn að fá sér of mikið neðan í því og segja einhver vanhugsuð orð og vitleysu. Ekki erfi ég það við þig og drífðu þig nú í fötin og komdu síðan með mér út á Alþingi og við skulum labba saman inn í þingsalinn rétt eftir að þingfundur hefst og ég á undan og þegar við erum komnir inn í þingsalinn þá klappar þú á öxlina á mér og ég sný mér við og við klappa þér á öxlina og síðan skiptumst við á orðum þannig að allir sjái að við erum vinir og þá stendur ekkert eftir af þessu rugli í þér í þingveislunni. 

Þeir gengu síðan saman í þingsal og allt gekk eftir svo sem Ólafur hafði fyrirlagt. Ungi þingmaðurinn átti síðan farsælan þingferil og varð síðar ráðherra. 

Þennan unga mann hefði Ólafur Thors getað eyðilagt ef hann hefði viljað. En Ólafur var mannkostamaður og sem ráðherra og valdamaður í þjóðfélaginu taldi hann sér að sjálfsögðu ekki ógnað þó að ungur þingmaður í fyllirýi væri að veitast að sér með orðum sem allir máttu vita að engin innistæða væri fyrir. 

Einhvernveginn virðist nú sem tímar fyrirgefningar og umburðarlyndis séu liðnir í íslensku samfélagi og hver og einn reynir að slá pólitískar keilur vegna vanhugsaðra óhæfuorða tveggja þingmanna á Klausturbar og krefjast þess að allir sem viðstaddir voru orðræðu þeirra segi af sér þingmennsku.

Mér er sem ég sjái Ólaf Thors upplifa þessa orðræðu. Af framangreindri sögu mætti e.t.v. ráða að honum hefði brugðið við að sjá hvers konar fólk situr á Alþingi í dag og hvernig þjóðfélagið hefur þróast.


Bloggfærslur 7. desember 2018

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 51
  • Sl. sólarhring: 853
  • Sl. viku: 2437
  • Frá upphafi: 2293988

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 2217
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband