Leita í fréttum mbl.is

Svik á svik ofan í meira en 100 ár.

Í lok fyrri heimstyrjaldar árið 1918 lagði þáverandi Bandaríkjaforseti Woodrow Wilson fram nokkur grundvallaratriði, sem hann talaði um að væru ófrávíkjanleg varðandi friðarsamninga. Meðal þeirra var að tryggja þjóðum og þjóðarbrotum landa sem Bandamenn höfðu tekið sjálfstæði og þjóðernisleg viðurkenning. 

Heimsveldi Ottómana riðaði til falls. Bandamenn náðu yfirráðum á öllu landi frá Súesskurði til landamæra núverandi Tyrklands. Stærsta þjóðin á þessu svæði fyrir utan Araba voru Kúrdar. Miðað við tillögur Wilson áttu Kúrdar að fá yfirráð yfir eigin landi og sjálfstæði í nýju landi Kúrdistan. 

Samt fór svo að gömlu heimsveldin Frakkland og Bretland náðu sínu fram og ákváðu að skipta á milli sín því landi sem tekið var frá gamla Ottómanveldinu. Þeir teiknuðu upp landamæri að eigin geðþótta og komu  til valda stríðsherrum, sem voru þeim þóknanlegir. Kúrdar voru sviknir af Vesturlöndum og þeir dreifðust á milli Íran, Írak,Sýrland og Tyrklands í kjölfar friðarsamninganna.

Þetta voru fyrstu svik Vesturlanda við Kúrda. Þessi stolta þjóð þurfti enn einu sinni að sætta sig við að þeir áttu enga vini nema fjöllin, þar sem þeir gátu leynst fyrir vígasveitum óvinveittra stjórnvalda. 

Enn sviku Vesturlöndin Kúrda ítrekað og þau svik urðu síðan öllum augljós fyrir og í kjölfar Flóastríðsins sem háð var til að koma aftur til valda gjörspilltri furstafjölskyldu í Kúvæt. Saddam Hussein hefndi sín þá sem fyrr á Kúrdum vegna stuðnings þeirra við Vesturlönd og beitti hernum af öllu afli gegn þeim m.a. með ítrekuðum eiturvopnaárásum. Vesturlönd gerðu ekkert fyrr en að lokum að þeir bönnuðu flug herflugvéla Saddams Hussein yfir landsvæði Kúrda. Þá höfðu mörg þúsund þeirra fallið í valinn. 

Nú hafa Kúrdar um nokkurra ára skeið barist hetjulegri baráttu gegn vígaveitum ISIS. Nú síðast við hlið Bandaríkjamanna, þar sem Kúrdar hafa beitt mannafla, en Bandaríkjamenn lagt til nokkurn hóp hermanna og nýjustu og bestu vopnin sem völ hefur verið á. Kúrdar eru taldir hafa misst um ellefuþúsund hermenn og herkonur í þessum átökum á meðan mannfall annarra hefur verið mjög takmarkað. 

Á sama tíma sat Erdogan Tyrkjasoldán beggja megin borðsins í samskiptum við ÍSIS og vígamenn á leið til þeirra áttu greiða leið í gegnum Tyrkland og olíuviðskipti við ISIS liða voru arðvænleg fyrir Tyrki á sínum tíma.

Ef til vill muna einhverjir enn eftir Kúrdíska þorpinu Kobane, sem sveitir ÍSIS sátu um mánuðum saman, en þorpið er við landamæri Tyrklands. Tyrkir komu í veg fyrir að nokkur aðstoð bærist lengi vel og tálmuðu för herfólks Kúrda til að gæta þess að fólkið þeirra í Kobane yrði ekki drepið eða selt í þrældóm þessvegna kynlífsánauð.

Nú þegar fullnaðarsigur Kúrda með aðstoð Bandaríkjanna er í augsýn lætur Trump Bandaríkjaforseti undan kröfu Erdógans Tyrkjasoldáns um að hann megi ráðast á þessa bandamenn Bandaríkjanna þannig að enn á ný mundu Bandaríkjamenn og Vesturlönd svíkja þjóð, sem á rétt til sjálfstæðis, fullveldis.

Erdógan fer ekki leynt með það að hann ætli að ráðast á vopnabræður Bandaríkjanna í stríðinu við ÍSIS og Trump ákvað í gær að auðvelda honum leikinn með því að draga hersveitir sínar frá líklegum átakasvæðum. Hann hefur að vísu dregið nokkuð í land núna eftir hatrammar árásir m.a. eigin flokksmanna á þessar fólskulegu aðgerðir hans. Þessi afstaða Trump er ömurleg og eitthvað annað en búast hefði mátt við eftir réttmæta gagnrýni hans á forvera sinn Barrack Obama vegna aulagangs hans í baráttunni við ISIS. 

Fullnaðarsigur á ÍSIS er ekki í höfn og Bandaríkjamenn og Kúrdar eiga enn verk fyrir höndum. Þar til viðbótar eru á annan tug þúsunda vígamanna ÍSIS í haldi Kúrda, hvað verður um þá þegar Kúrdar eiga hendur sínar að verja fyrir Tyrkjum. 

Hvað gera svo hin aumu Evrópulönd í málinu. Koma þau Kúrudum til hjálpar í orði eða verki? Nei heldur betur ekki. Þau halda áfram aðildarviðræðum við Tyrki um aðild þeirra að Evrópusambandinu. Þeir borga þeim milljarða á milljarða Evrur ofan til að hann passi upp á það sem Evrópubúar eiga sjálfir að passa upp á, að svonefndir flóttamenn flæði ekki yfir landamæri Tyrklands inn í Evrópu. 

Evrópa gerði ekkert meðan vígamenn landa þeirra flyktust til liðs við ÍSIS og ríkisstjórnir í Evrópu horfðu upp á hvernig mannréttindi voru fótum troðin. Kirkjur voru brenndar og kristnum söfnuðum var eitt og ráðist var á Yasida og Kúrda. Fjöldamorð voru framin og konur seldar í kynlífsánauð þar sem almennir uppboðsmarkaðir á konum sem kynlífsþrælum voru haldnir á svæðum ÍSIS. Kristnir söfnuðir þjóðkirkna Vesturlanda höfðu enga döngun í sér til að krefjast verndar fyrir trúbræður sína hvað þá að sína þeim einhvern samhug. Þeim kom það ekki við vegna þess að kristnir söfnuðir Vesturlanda voru uppteknir við vinstri sinnaða félagslega boðun og höfðu hvorki tíma til að sinna heimatrúboði né til að gæta hagsmuna kristins fólks í heiminum. 

Nú standa þessir aumu leiðtogar Vesturveldanna frammi fyrir því að horfa upp á árás bandamanns síns Tyrkja á fólk sem á að hafa fengið frelsi og sjálfstæði fyrir löngu. Evrópuráðið mun halda áfram aðildarviðræðum við Tyrki og halda áfram að fylla í ríkiskassann til að halda þeim góðum af því að ráðamenn í vesturhluta Evrópu eru rofnir úr öllum tengslum við menningarlega og siðfræðilega hvað þá kristna arfleifð álfunnar. 

Trump veldur stuðningsmönnum sínum sem og mörgum öðrum algjörum vonbrigðum og sýnir með þeirri gjörð að svíkja bandamenn sína Kúrda, að honum er ekki treystandi. Kúrdarnir sem fögnuðu kjöri Trump eftir ömurlega stjórn Obama klóra sér nú í höfðinu og velta fyrir sér hvort Trump sé sama pissudúkkan og leiðtogar Vestur-Evrópu sem og Obama áður. 

Er virkilega ekkert eftir af siðrænni og kristilegri réttlætiskennd hjá þjóðum Evrópu og Bandaríkjanna og baráttuanda fyrir réttlæti, svo þær í eitt skipti fyrir öll klári það verk sem átti að klárast með friðarsamningunum fyrir einni öld. Þannig að Kúrdíska þjóðin fái sjálfstæði í eigin fullvalda ríki og tryggingu fyrir því að ríki þeirra muni njóta verndar gagnvart árásargjörnum nágrönnum.


Bloggfærslur 8. október 2019

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 51
  • Sl. sólarhring: 1203
  • Sl. viku: 5795
  • Frá upphafi: 2277546

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 5357
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband