Leita í fréttum mbl.is

Að hafa stefnu eða hafa ekki stefnu

Ríkisstjórnin hefur þá stefnu í sóttvarnarmálum, að samþykkja tillögur sóttvarnarlæknis með fyrirvara um samþykki landsstjórans Kára Stefánssonar.

Engin heildarstefna hefur verið mörkuð af ríkisstjórninni um viðbrögð við Covid fárinu, en eina viðmiðið sem sett hefur verið fram er að heilbrigðiskerfið ráði við álagið. 

Enginn ágreiningur er um að gæta skuli öryggis til að tryggja sem bestan árangur í baráttunni við Covidið, en spurningin er hvað er nauðsynlegt að gera hverju sinni og hvenær er farið yfir mörkin.

Æskilegt hefði verið að ríkisstjórn gerði borgurunum grein fyrir því hvað þurfi til að koma til að gripið sé til mismunandi ráðstafana. Ekkert slíkt hefur verið gert og nú þegar fyrir liggur að toppnum var náð nokkru áður en hertar reglur voru síðast settar á og fjöldi smita á niðurleið, þá skal ekki slakað á og borgurunum gert að norpa fyrir utan verslanir í vetrarkulda, af því að sóttvarnarlæknir telur enga ástæðu til að bregðast við breyttum aðstæðum fyrr en tími hertra aðgerða er fullnaður í desember n.k. 

Sé eingöngu tekið mið af ráðleggingum sóttvarnarlæknis gegnum tíðina, þá er ljóst, að sá tími er kominn, sem rétt væri að létta verulega af hömlum á frelsi fólks svo sem fjölda í verslunum og kaffihúsum svo dæmi séu tekin. En valdtökumennirnir vilja ekki afsala sér kyrkingartökunum á þjóðlífinu jafnvel þó að forsenda aðgerðanna sé löngu liðin hjá. Hinir hlýðnu jarma í kór, að fara beri að hinum vísindalegu tillögum sóttvarnarlæknis, þó þær séu aðrar nú en oft áður við sömu aðstæður. Vísind á bakvið aðgerðirnar liggja því fjarri því ljós fyrir eða eru til staðar yfirhöfuð.

Ríkisstjórnin bregst að sjálfsögðu ekki við vegna þess, að hún hefur enga stefnu nema þá að ráðum hinna nýju valdsmanna, sóttvarnarlæknis og Kára verði hlýtt, þó þeir séu ekki lýðkjörnir til að taka slíkar ákvarðanir einhliða. Þægindunum við að vera ábyrgðarlaus vill ríkisstjórnin ekki afsala sér. 

Nú berast fréttir af bóluefnum sem eiga að ráða niðurlögum Covid. Það er að sjálfsögðu af hinu góða. En svo virðist, sem það hafi hleypt nýjum móði í frelsissviptingarfurstana um að gefa nú hvergi eftir í að skerða frelsi borgarana þar til að stór hópur hefur verið bólusettur. Í annan stað þá er kominn upp sú krafa, að lýðinn skuli bólusetja með góðu eða illu. Þannig hafa nokkur flugfélög tilkynnt, að þau muni ekki fljúga með aðra en Covid bólusetta farþega í framtíðinni. 

Þegar fjöldahræðsla grípur um sig eins og í þessu tilviki, þar sem fræðimenn, ríkisstjórn og fjölmiðlar leggjast á eitt um að mynda hana, þá eiga þeir erfitt uppdráttar, sem tala um einstaklingsfrelsi, meðalhóf og krefjast þess, að rök séu færð fyrir einstökum aðgerðum ríkisstjórna og heilbrigðisyfirvalda. Þeir eru hraktir og smáðir eins og þjóðníðingurinn í samnefndu leikverki Íbsens forðum.

En samt sem áður verður að fara að leikreglum lýðræðisríkis og virða þær reglur sem fara verður eftir varðandi réttindi borgaranna. Þó veruleg áhöld séu um að það hafi verið gert í Cóvíd viðbrögðunum, þá er hægt að stoppa upp í þau göt, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um breytingar á sóttvarnarlögum, þar sem vegið er að rétti fólksins í landinu og réttindi þess skert. Það verður þó ekki sagt annað um ríkisstjórnina en að hún hafi þó fundið fjölina sína að þessu leyti og miði við að ríkisstjórnir í framtíðinni búi við sama öryggi ábyrgðarleysis og stefnuleysis og ríkisstjórnin fylgir. 


Bloggfærslur 24. nóvember 2020

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1007
  • Sl. sólarhring: 1310
  • Sl. viku: 6652
  • Frá upphafi: 2277290

Annað

  • Innlit í dag: 944
  • Innlit sl. viku: 6182
  • Gestir í dag: 890
  • IP-tölur í dag: 866

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband