Leita í fréttum mbl.is

Besti flokkurinn

Enn mælist Besti flokkurinn með mikið fylgi. Þess eru dæmi að ný framboð hafi mælst með mikið fylgi í skoðanakönnunum nokkru fyrir kosningar en fylgið síðan hrunið af þeim. Nú virðist það vera að gerast miðað við síðustu könnun að Besti flokkurinn er ekki að tapa fylgi heldur bæta við sig.

Vinur minn einn skráði sig til heimilis í Reykjavík nokkru fyrir áramót til að geta kosið Besta flokkinn.  þessi maður er eldheitur hugsjónamaður og hefur iðulega staðið framarlega í baráttunni. Nú finnst honum allir stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist og það þurfi að veita þeim ráðningu. Spurning hvort flestir þeir sem ætla að kjósa Besta flokkinn hugsi svipað.

Verði það niðurstaðan að Besti flokkurinn verði stærsti eða meðal stærstu flokkanna í Reykjavík við þessar kosningar hvaða skilaboð eru kjósendur þá að senda.

Stjórnmál eru altaf rammasta alvara hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ef svo fer að grínflokkur nýtur trausts stórs hluta kjósenda umfram hefðbundna stjórnmálaflokka þá þurfa þeir sem vilja láta taka sig alvarlega í pólitík heldur  betur að skoða hlutina upp á nýtt.

Partýinu er nefnilega lokið alvaran verður að taka við. Það þó fyrr hefði verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að baki ölli gríni býr alvara og ég held að þegar til kastanna kemur þá muni "grínararnir" skilja á milli gamans og alvöru ... þótt ég voni innilega að hómrinn hverfi aldrei.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 22:27

2 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að þessu gríni fylgir að mörgu leyti rammasta alvara. Sérstaklega ef Besti flokkurinn fær góða kosningu

Jón Magnússon, 17.5.2010 kl. 23:30

3 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég skal segja þer hver skilaboðin eru Jón með því að kjósa Besta Flokkinn. ef þú kærir þig annað borð um það. Ef besti flokkurinn nær að stjórna borginni á þann hátt að hann klúðri í raun ekki neinu og haldi þannig á spilum að ekkert fari til andstkotans- þá er þessi flokkur búinn að sanna vanhæfi atvinnupólutíkusanna.

Ég treysti þessum flokki jafn vel og öðrum að stjórna þessari borg. Þarna eru menn sem eru ágætlega hæfir og í raun engu minna hæfari en fólk á öðrum listum .


T.d er Einar Örn Benidiktsson maðurinn á bak við sykurmolanna og smekkleysu svo dæmi sé tekið. 

Brynjar Jóhannsson, 18.5.2010 kl. 05:45

4 identicon

36% Reykvíkinga er tilbúið til að kjósa grínflokk í stað einhvers af fjórflokknum, ég myndi segja að það væri nokkuð mikil ádeila á þeirra störf. Er ánægð með það hugrakka fólk sem ætlar að veita Besta atkvæðið sitt það mun ég líka gera.

Margrét (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 07:05

5 Smámynd: Jón Magnússon

Það er ljóst Brynjar miðað við síðustu skoðanakönnun að það eru fleiri en þú sem treysta þessu fólki jafnvel betur en öðru stjórnmálafólki. Ég tek ekki afstöðu til einstaklinga á listunum Brynjar. Það er margt ágætisfólk á öllum listum.  Þá er spurningin hvað flokkurinn stendur fyrir og af hverju hann varð til. Mér er nær að halda að stærsti hluti kjósenda Besta flokksins hafi ekki kynnt sér stefnuskrá flokksins.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 12:31

6 Smámynd: Jón Magnússon

Það hefur hver sína skoðun á því Margrét en ég er sammála þér um að gangi það eftir að Besti flokkurinn fái mikið fylgi þá þurfa hefðbundnir stjórnmálaflokkar að hugsa sig alvarlega um.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 12:32

7 Smámynd: Dingli

Svo sannarlega þurfa hefðbundnir stjórnmálaflokkar að hugsa sig alvarlega um. Ástæða fylgis Besta, er krafan um NÝJA hugsun og fjórflokkurinn virðist ófær um að komast upp úr drulluförunum.

Dingli, 18.5.2010 kl. 14:38

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þór Saari alþingismaður tók til máls um Besta flokkinn á dag á Alþingi.

Niðurstaða hans í þeirri ræðu mun hafa verið á þann veg að ef umrætt framboð fái atkvæðafylgi í hlutfalli við skoðanakannanir þá séu það merkileg skilaboð inn í stjónmálaumræðu á Íslandi.

Ég er sammála málshefjandanum Þór Saari. Og þessi skilaboð eru merkilegust í ljósi þeirrar umræðu sem nú er að þokast í átt til angistar hjá mörgum þátttakendum á þessum vettvangi þjóðmálaumræðunnar.

Þessi skilaboð eru afar greinileg og niðurstaðan er ánægjuleg. Þau staðfesta það að loksins er íslenska þjóðin að átta sig á því að hættulegasta valdið er stjórnvald hinna svonefndu: "Reyndu stjórnmálamanna."

Æ fleirum verður það nú ljóst að það voru ekki bandarískir "vafningar" sem ollu hruni íslensks efnahagskerfis og meira að segja ekki hruni hins alþjóðlega hagkerfis.

Það voru einfaldlega heimskir, spilltir og umfram allt reyndir stjórnmálamenn sem þar áttu alla sök.

Mikið óskaplega er glaður yfir þessum vísbendingum um aukinn þroska og aukinn kjark reykvískra kjósenda sem ég sé í þessari nýju skoðanakönnun. Ég ætla að leyfa mér þá bjartsýni að þessi þróun á fylgi Besta flokksins sé ennþá að aukast. 

Árni Gunnarsson, 18.5.2010 kl. 16:15

9 Smámynd: Jón Magnússon

En Dingli er Besti flokkurinn með nýja hugsun eða nýja nálgun að þjóðmálunum?

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 17:05

10 Smámynd: Jón Magnússon

Ég átta mig ekki á því Árni af hverju Besti flokkurinn er til umræðu á Alþingi í sjálfu sér er ekki sérstök ástæða til að ræða hann á þeim vettvangi alla vega ekki að sinni. Kjósendur senda engin skilaboð fyrr en talið hefur verið upp úr kjörkössunum.  En fari svo sem skoðanakönnun segir þá yrðu það stórmerki í pólitíkinni.

Mér hefur alltaf verið ljóst Árni að það voru ekki bandarískir vafningar sem ollu hruni bankanna hér. Þeir höfðu að vísu sín áhrif en þá fyrst og fremst til að flýta fyrir hruninu. Það er hins vegar sérstakt Árni af þar sem þú ert það glöggur maður að þú skulir halda því fram að hrunið sé fyrst og fremst reyndum stjórnmálamönnum að kenna.  Þannig er það ekki og við höfum m.a. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem segir okkur það. Við höfum erlenda sérfræðinga sem segja okkur það sama.

Þeir sem ollu hruninu hér voru stjórnendur og eigendur bankanna ásamt ábyrgðarlausum fjárfestum. Það er niðurstaðan og við eigum að tala út frá staðreyndum í þessu efni.  

Það sem nú blasir hins vegar við er aðgerðarlaus ríkisstjórn sem hefur setið á málum í rúmt ár. Aukið atvinnuleysi. Aukinn vandi skuldara. Verri afkoma fjölmargra og algjört úrræðaleysi í æðstu stjórn landsins. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að fólk spyrji hvort svonefndir "reyndir stjórnmálamenn" geti eitthvað eða ekki.  

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 17:18

11 identicon

Ótrúlega margir hafa sagt við mig að þeir ætli "að sjálfsögðu" að mæta á kjörstað og annað hvort skila auðu eða kjósa Besta Flokkinn.

Hversvegna spyr ég þá og svarið er "Við þurfum að gera eitthvað".

Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér?

P.S." Þeir sem ollu hruninu hér voru stjórendur og eigendur bankanna ásamt ábyrgðarlausum fjárfestum ".

Vorum við kjósendur virkilega svo illa stödd að okkar kjörnu fulltrúar á þingi og í ríkisstjórn fylgdust ekki með hvað var að gerast í bankakerfinu og gerðu ekkert til að verja þjóðina hugsanlegum afleiðingum ofþennslu bankakerfisins?

Agla (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 18:32

12 Smámynd: Dingli

Sæll Jón.

JÁ, Besti er með nýja nálgun. Hún er sú, að gott og skynsamt fólk sem ekki er ræktað sem aligrísir á flokksbúunum, geti ekki síður en flokksdýrin bætt hag og mannlíf borgarinnar. 

Nýtt fólk, sem ekki er bundið á klafa sérhagsmunagæslu staðnaðar valdaklíku fjórflokksins, mun hafa víðsýni sem búrdýrin hafa ekki, þar sem líf aligrísa snýst fyrst og fremst um að ryðja sér braut að fóðurrennunni, allt annað er aukaatriði. 

Án þess að skilgreina hugsun sína kannski akkúrat svona, er grunnur þess mikla fylgis er Besti mælist nú með, sérstaklega hjá ungafólkinu, á þessum nótum.

Dingli, 18.5.2010 kl. 19:56

13 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Ég og fleiri einstaklingar hafa í langan tíma REYNT að upplýsa forystu Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn þess að fara í naflaskoðun, en það er eins og þeir vilji bara ekki hlusta á "Heilbrigða skynsemi", því miður.  En eins og þú réttilega segir um þennan einstakling: " Nú finnst honum allir stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist og það þurfi að veita þeim ráðningu. Ef svo fer að grínflokkur nýtur trausts stórs hluta kjósenda umfram hefðbundna stjórnmálaflokka þá þurfa þeir sem vilja láta taka sig alvarlega í pólitík heldur  betur að skoða hlutina upp á nýtt."  Yfirburðir Besta Flokksins eru gríðarlega STERK skilaboð til fjórflokkanna - í raun eru við kjósendur að gefa þeim RAUÐA spjaldið - út af með atvinnustjórnmálamennina og inn á með hugsjónarfólkið sem horfið er - aðila eins og t.d. ÞIG..!

kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 18.5.2010 kl. 20:41

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við skulum halda því til haga sem snýr að stjórnmálamönnum og þeirri ábyrgð sem þeirra starfi fylgir Jón.

Það er ævinlega ökumaður sem veldur slysinu en að sjálfsögðu bíllinn sem drepur barnið sem fyrir honum verður.

Það eru stjórnmálamenn sem setja lögin og það eru stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á þeim leikreglum sem fylgja lögunum og síðan eru það stjórnmálamenn sem skipa eftirlitsstofnanir.

Og það eru stjórnmálamenn sem eiga að tryggja það að eftirlitsstofnanir vinni vinnuna sína. Ekki síst er það mikilvægt þegar bæði erlendir og innlendir fagmenn eru farnir að senda stjórnmálamönnum viðvaranir.

Það var mikilvæg stjórnsýslustofnun sem var lögð niður af Davíð Oddssyni og þessi stofnun hét Þjóðhagsstofnun.

Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að sú aðgerð hafi meðal annars þátt þátt í því hvernig fór. Þannig skildi ég í það minnsta Pál Hreinsson í kynningu hans á skýrslunni.

Nú er það svo með okkur Jón að hvorugur okkar er umtalsverður auli svona í almennum skilningi. Við ættum ekki að þurfa að takast svo mikið á um þessa ógæfu sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Ég tel mig þar að auki hafa verið viðstaddan stjórnsýslu okkar á þeim tíma sem örlög þjóðarinnar voru ráðin í þessu efni.

Breskur banki bauðst til að aðstoða við koma Seðlabankanum til aðstoðar með ráðgjöf en fékk ekki svar.

Boðin var fram aðstoð við að koma Icesave undir breska lögsögu ef ég hef skilið málið en því var ekki sinnt. Hundruð milljarða voru tekin út úr Seðlabankanum í óráðsrugli til að hindra hrunið og hurfu sporlaust í ránshítir bankanna.

Stjórnvöld höfðu ekki kjark til að stöðva vitfirrta ránastarfsemina af ótta við "run" á bankana en bruðgðu á það ráð að verða áróðurstæki fyrir starfsemina með yfirlýsingum um trausta eiginfjárstöðu bankanna og traustan Seðlabanka.

Hverjum bjargaði þessi varkárni Jón?

Hefði ekki verið betra að bjarga fólkinu sem rænt var þúsundum milljarða í trausti þess að íslensk stjórnvöld væru heiðarleg og bæru virðingu fyrir sannleikanum og virðingu fyrir örlögum fólks umfram fésýslustofnanir?

Eftir hrunið var það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar og Alþingis að setja bráðabirgðalög til að tryggja innistæður "íslenskra" sparifjáreigenda með nærri 2000 milljarða skuldbindingu ríkissjóðs- skattgreiðenda. Skuldir hinna sem blekktir höfðu verið til að kaupa hluti í bönkunum og blekktir til lántöku langt umfram eignir og greiðslugetu á heilli mannsævi voru seldar til innheimtu hjá nýjum bönkum með aðrar kennitölur.

Kannski eru þessir 2000 milljarðar ekki bara tölur til að rífast um- og þó! Nú ærast hægri menn á Íslandi vegna skattastefnu vinstri manna og fella það undir mannvonsku að hækka skatta á fólkinu!

Ég hef staðið framarlega í hópi þeirra sem talað hafa hátt og ógætilega um heimsku vinstri manna. Ég á alltaf von á að heimskur maður vitkist. En ég er hættur að leyfa mér að vona að hægri menn skilji hvað siðlegir viðskiptahættir eru hættulegir fólki.

Ég er á móti því að menn sem hafa haslað sér völl á pólitískum umræðuvettvangi fari að skrifa söguna með eigin söguskýringum 

Og hræðilegustu martraðir sem ég fæ eru bundnar hættunni af reyndum stjórnmálamönnum.

Guð forði þessari þjóð frá þeim voða í lengstu lög!

Árni Gunnarsson, 18.5.2010 kl. 22:11

15 Smámynd: Jón Magnússon

Agla því miður þá sá engin bankahrunið fyrir. Það voru margir sem vöruðu við ýmsum hlutum þar á meðal varaði ég við ofþenslunni haustið 2007 og talaði um að það væri kreppa í aðsigi en þá vildi engin hlusta á það og talað var um svartagallsraus.  Það var vitað af lausafjárvanda bankana að hluta sennilega vorið 2008 en þá vissi engin hvað þeir voru baneitraðir. Því hafði verið haldið vandlega leyndu og það sem nú er að koma í ljós er að gríðarleg misferli voru í gangi til að gefa ranga mynd af stöðu bankanna.

Það er aldrei hægt að kenna slökkvuliðinu um að kveikt sé í.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 23:36

16 Smámynd: Jón Magnússon

Dingli þessar alhæfingar hjá þér eiga ekki við nema örfáa. Megin hluti þess fólks sem tekur þátt í pólitík hvort heldur í fjórflokknum eða öðrum gerir það af hugsjónaástæðum og nýtur ekki neins vegna þessa. Hins vegar eru alltaf margir sem koma óorði á pólitíkina eins og ýmislegt annað og fólk á þá að benda á það.  Það t.d. liggur fyrir að í sveitarstjórnum hefur viðgengist óhóflegt bruðl í formi ofurlauna og hlunninda í mörgum tilvikum og þar hafa allir flokkar illu heilli tekið þátt. Slíkt á að fordæma en það er ekki þar með sagt að það sé allt ónýtt og allir gjörspilltir þannig er það ekki.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 23:39

17 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Jakob. Það er vafalaust rétt hjá þér að fjórflokkurinn hefur ekki verið tilbúinn til að horfa alvarlega í spegilinn öðruvísi en með þeim hætti að spyrja hver á landi er flottastur og vera með svarið tilbúið fyrirfram.  Siðvæðing íslenskra stjórnmála er nauðsyn og sú siðvæðing ætti að byrja í grasrót flokkanna.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 23:41

18 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Árni við erum í meginatriðum sammála.

Ég vil benda þér á að ég hef talað um mannúðlega markaðshyggju og talaði um nauðsyn þess að víkja frá græðgisvæðingunni og óheftri græðgisvæðingu með ákveðnum aðgerðum gagnvart ofurlaunum og bönkunum. Það var meir en tveim árum fyrir hrun. Við bentum á vanda fjármálamarkaðarins og ofhitnun efnahagskerfisins strax 2007 en þá var ítrekað reynt að hlægja það í hel og þá helst af fjölmiðlafólki og háskólaspekingar sendir fram á vígvöllinn meira og minna kostaðir af bönkunum til að segja að þetta væru úrtölur og stæðist ekki.

En ástandið var þannig að meira að segja við setningu neyðarleganna þá töldu nánast allir að það væri hægt að bjarga Kaupþingi. Af hverju af því að fólk vissi ekki betur. Fólk vissi ekki hvað bankinn var eitraður. Þetta var 6. október 2008. Við setningu neyðarlaganna þá spurði ég afhverju Kaupþing og fékk þau svör að sá banki mundi bjarga sér. Annað kom í ljós nokkrum dögum seinna, en jafnvel á þessum tíma vissu menn ekki betur.

Þetta með 2000 milljarðanna Árni er vissulega umhugsunarvert þó það komi Besta flokknum ekkert við. Hver tók löglega ákvörðun um þessa ráðstöfun ríkisfjármuna? Ekki Alþingi.  Hver þá? Var e.t.v. ekki tekin lögleg ákvörðun í málinu? Mér er nær að halda að svo hafi ekki verið. Þetta er raunar mikilvægt að skoða það er hárrétt hjá þér.

Jón Magnússon, 18.5.2010 kl. 23:49

19 Smámynd: Dingli

Sæl Jón, ég er í raun sammála þér í svarinu sem þú beindir til mín.

Það sem ég skrifaði var stílfærð skynjun mín á hugsunarhætti þess mikla fjölda ungs fólks sem ætlarað kjósa Besta. Ég hef töluvert umgengist ungmenni um tvítugt undanfarið og fylgi Besta í þeim hóp virðist vera langt yfir 50%(auðvitað ónákvæm ágiskun.) Flokks-grísir og aliendurnar við tjörnina, ásamt mörgu öðru, er algengur talsmáti. Því rippaði ég þetta ýkt upp fyrir plebbana svo þeir meikuðu fílinginn.

Dingli, 19.5.2010 kl. 00:50

20 identicon

Hvað segir þú Jón, eru margir HUGSJÓNAMENN á alþingi Íslendinga þessa stundina eða undanfarin ár ??

Ég man eftir tveim, báðir undir fána VG, báðir urðu ráherrar, annar þeirra klæddist sauðsgæru og hinn sagði af sér.

s.s EINN..

63-1 = 62 

Hlutföllin eru ekki beint hugsjón eða heiðarleika í hag !

Reyndar alfarið byggt á minni skoðun og skekkjumörk ca 2-3 þingmenn.

runar (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 16:06

21 Smámynd: Jón Magnússon

Jæja Dingli það er á mörkunum að ég skilji þetta síðasta hjá þér en ég get skilið að unga fólkið í landinu sé vonsvikið og telji þetta réttu leiðina. Því miður er ekki verið að gefa ungur fólki framtíðarsýn í pólitík í dag.

Jón Magnússon, 20.5.2010 kl. 17:26

22 Smámynd: Jón Magnússon

Já það er nú þannig Rúnar að það hafa verið margir hugsjónamenn á Alþingi á öllum tímum og mun fleiri en þú sérð með þínum gleraugum og það í öllum flokkum.  Hvað sem hver segir þá hefur Alþingi almennt verið skipað góðu og grandvöru fólki. Þar er að sjálfsögðu líka misjafn sauður en það breytir ekki ofangreindri staðreynd.

Jón Magnússon, 20.5.2010 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 442
  • Sl. sólarhring: 690
  • Sl. viku: 2828
  • Frá upphafi: 2294379

Annað

  • Innlit í dag: 411
  • Innlit sl. viku: 2578
  • Gestir í dag: 398
  • IP-tölur í dag: 387

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband