Leita í fréttum mbl.is

Samsæriskenningar og staðreyndir

Þegar ákvarðanir eru teknar og þeir sem hlut eiga að máli eða hagsmuna  að gæta er ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna þá er réttur brotinn á þeim einstaklingi. Þess vegna stenst ekki  málatilbúnaður innanríkisráðherra, að réttur hafi ekki verið brotinn á neinum við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Réttur var því brotinn á öllum frambjóðendum til sjórnlagaþings. Talning fór ekki fram opinberlega og frambjóðendur áttu þess ekki kost að gæta hagsmuna sinna.

Taka verður með í reikninginn að vafaatkvæði voru gríðarlega mörg og við mat á þeim gat skipt máli að gæslumenn hagsmuna frambjóðenda gætu komið sjónarmiðum sínum að varðandi mat á þeim og gildi. Þessi réttur var brotinn á frambjóðendum.

Ákvörðun Landskjörstjórnar að víkja frá reglum kosningalaga hvað varðar þennan ótvíræða rétt frambjóðenda sýnist mér vega þyngst þegar Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings.

Þegar frambjóðandi hefur ekki haft möguleika á að gæta hagsmuna sinna svo sem hann á rétt á og vafaatkvæði og úrskurðaratriði skipta þúsundum þá er ekki hægt að halda því fram að réttur hafi ekki verið brotinn á einum eða neinum. Réttur var brotinn á öllum frambjóðendum. Það er aðalatriðið í málinu.

Verðlaunablaðamaðurinn Jóhann Hauksson sem hefur komið með fleiri samsæriskenningar og oftar hallað réttu máli en góðu hófi gegnir er búinn að finna út eitt allsherjarsamsæri Hæstaréttar í skrifum sínum í DV í dag og lætur að því liggja að hagsmuna- vina og fjölskyldutengsl ráði niðurstöðunni í þessu máli. Semsagt að Hæstiréttur hafi hallað réttu máli að því er virðist vegna þess að hagsmunirnir voru svo miklir.

Þarna er líka höfð uppi rakalaus og röng orðræða. Í fyrsta lagi voru hagsmunirnir nánast engir vegna þess að stjórnlagaþingið hafði engin völd. Í öðru lagi þá snérist úrlausnarefni Hæstaréttar ekki um fiskveiðistjórnina eða náttúruauðlindir heldur ákvæði kosningalaga. Í þriðja lagi þá er ekki á það sýnt fram á með lagalegum rökum að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið röng.  Það er þó mergurinn málsins í þessu máli.

Niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir og hún verður ekki véfengd,  þannig að viðfangsefnið er að bregðast við. Það gera menn í lýðræðislegu þjóðfélagi með því að kjósa aftur og gæta þá að grundvallarréttindum frambjóðenda, hvers eins og einasta, annað gengur ekki í lýðfrjálsu landi.

Alþingi væri sómi að því að taka sem fyrst ákvörðun um nýjar kosningar eða þá að setja stjórnlagaþingsmálið í annan farveg.

Forsætisráðherra hefði boðað formenn allra stjórnmálaflokka til fundar við sig í stjórnarráðinu á miðvikudagskvöldið ef hún hefði verið vandanum vaxin,  til að freista þess að ná samkomulagi um framhald málsins og klára það í gær, í stað þess að Alþingi skyldi efna til  makalausrar umræðu um ekki neitt í gær. Svo virðist sem þjóðinni  hafi verið megn skapraun að þeim málflutningi sem þar var hafður uppi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er fínn pistill hjá þér nafni og sýnir vel á hversu lágu plani ríkisstjórn landsins er í sínum málflutningi.

Mig minnir að vafaatkvæði hafi verið 13-15%, það ætti að vera nóg til að breyta úrslitum kosninganna að einhverju leiti.

Svo er hún snargalin þessi umræða um hugarfar hæstaréttadómara, ég man ekki betur en að allir hafi dásamað Pál Hreinsson upp til skýjanna fyrir mikla og sterka réttlætiskennd þegar hann vann að rannsóknarskýrslunni frægu.

Ekki er hægt að segja, þótt tilgangurinn sé ekki að ræða þessa skýrslu hér, að hann hafi tekið málstað sjálfstæðismanna þar og varla hefur Páll breytt um karakter mikið á örfáum mánuðum.

Þessi sami Páll var einmitt einn af dómurunum sem dæmdi í máli stjórnlagaþingsins og nú er hann allt í einu farinn að tala fyrir hagsmunum sjálfstæðismanna, þetta gengur ekki upp.

Svo man ég til þess að vinstri menn hafi gagnrýnt sjálfstæðismenn fyrir að tala niður til hæstaréttar varðandi álit hans.

Ögmundur hefur gert það nákvæmlega sama ásamt öðrum stjórnarliðum, þótt hann segist una niðurstöðunni.

Hvað getur hann annað en unað niðurstöðunni, hæstiréttur hefur jú dómsvaldið á sinni könnu og Ögmundur neyðist til að lúta því.

Þessi dómur er frábær og vel rökstuddur að öllu leiti, enginn hefur komið með haldbær rök sem styðja annað.

Jón Ríkharðsson, 28.1.2011 kl. 10:09

2 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Nú er ég ekki lögfróður maður, en getur hæstiréttur og þeir sem þar sitja kært blaðamann eins og Jóhann um meiðyrði og rógburð ?

Vissulega eru tengsl nokkura manna sem sitja á Hæstarétti við sjálfstæðisflokkinn ef menn rýna vel í hlutina. Jón Steinar fer þar fremst í flokki. Heppilegra í framtíðinni er að pólitísk ráðning sé ekki í svona stöður.

En það sem vekur mig til umhugsunar er það hvers vegna fólk gefa sér það fyrir fram hvað eigi að koma út úr   stjórnlagaþinginu.

Forsetisráðherra öskrar að íhaldið sé skíthrætt við stjórnlagaþing, bíddu afhverju ætti einhver stjórnmálaflokkur að vera hræddur við stjórnlagaþing ? Hvað heldur hún að komi út úr því ? Er búið að ákveða fyrirfram hvaða mál á að leggja áherslu á  stjórnlagaþinginu ?

Getur ekki alveg eins komið út úr stjórnlagaþingi að það eigi ekki að breyta núverandi stjórnarskrá ?

Afherju eru allir sem eru spenntir fyrir stjórnlagaþinginu vissir um að þingið komist að niðurstöðu sem hentar þeirra skoðunum?

Átti þingið ekki að vera þverskurðu þjóðarinnar ?  

Ég er kannski svona einfaldur en ég var allavegana ekki búinn að sjá fyrir mér niðurstöðu stjórnlagaþings, þarna var komið saman fólk sem samkvæmt sínum yfirlýsingum var ekki sammála hvernig skildi fara með stjórnarskrá Íslands. Td er Þorvaldur Gylfasson og Inga Lind ekki sammála og hver er að segja hvor skoðunin yrði niðurstaða stjórnlagaþingsins átti ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu ?

Nú er ég ekki að taka eina skoðun fram yfir aðra, finnst samt merkilegt að forsetisráðherra þjóðarinnar geti komist að því án þess að þing fari fram að niðurstaða þess þings skuli vera eitthvað neikvæt fyrir "íhaldið" gefum okkur það að fólk sem tengist Sjálfstæðisflokknum sé "íhaldið" þá sé ég eftir 2 mín rannsóknarvinnu að Inga Lind og Pawel eru fólk sem gæti verið "íhaldið" og eflaust leynast fleiri í þessum 25 manna hópi. Hvað með þeirra sjónarmið , ef það stangast á við Þorvald Gylfa , eða getur verið að niðurstaða stjórnlagaþings eigi að vera skoðanir Þorvaldar ? 

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 28.1.2011 kl. 11:10

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Jón,

Reyndar öfugt við þig er ég sammála Jóni Steinari Gunnlaugssyni um að mjög mikilvægt sé að deila opinberlega á dómarana þegar tilefni gefast til þess.

Við eigum tvenn almenn lög um kosningar. Önnur eru þau sem vísað er til í lögum um Stjórnlagaþing þ.e. lög um Alþingiskonsingar en hin eru lög um kosningar til sveitarstjórnar.

Um grundvallar atriði virðast þau tjá samhljóma afstöðu löggjafans. Í báðum kemur fram að ekki skuli ógilda kosningu þrátt fyrir annmarka nema sýnt sé að þeir hafi breytt úrslitum.

Lögin um kosninga til Alþingis sem Stjórnlagaþingslögin vísa til virðast þó alls ekki gera ráð fyrir að kosningar sé ógiltar í heilu lagi heldur aðeins kosning einstakra manna og janfvel lista. — En ekki kosningar í heilulagi.

120 gr laga um kosningar til alþingis er það svona orðað:

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda“

en svona í 94. gr laga um kosningar til Sveitstjórna:

„Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Við margskonar brotum á báðum lögunum liggja sektarákvæði, þ.e. gert er ráð fyrir að jafnvel alvarleg brot geti átt sér stað án ógildingar kosninga en við liggi aðrar refsingar þeirra sem ekki fóru að lögum.

Um umboðsmenn og áhrif á úrskurð vafaatkvæða.

Þar sem í lögum er gert ráð fyrir að kjörseðlar séu innsiglaðir og varðveittir allt þar til eftir að lokaúrskurður liggur fyrir, var hæstarétti í lófa lagið að láta endurtelja vafaatkvæði að viðstöddum umboðsmönnum frambjóðenda ef rétturinn taldi að úrskurður vafatkvæða án fulltrúa frambjóðenda hefði breytt úrslitum.

Margt mátti setja útá frmakvæmd þessarra kosninga og það gerði ég strax í aðdraganda þeirra en ég get ekki séð að Hæstiréttur hafi haft téttlætanlegt tilefni og jafnvel ekki einu sinni umboð til að taka í heild kosningarnar af kjósendum og hinum kjörnu og ógilda í reynd þann skýra vilja löggjafans, að halda stjórnlagþing, og gera þannig vankannta við kosningarnar að stórfelldu tjóni sem komast mátti hjá með öðrum hætti.

Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2011 kl. 11:53

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er alveg rétt Jón Ríkharðsson það voru um 15% vafaatkvæði og ákvörðun um þau og túlkun varðandi þau hlýtur að hafa haft áhrif, annað kemur varla til greina. Þá koma líka til ýmis önnur atriði sem skipta máli við talningu og frágang. Ég hef sjálfur verið fulltrúi lista oftar en einu sinni og veit hvað mörg vafaatriði koma upp við talningu sem verður að skera úr um og þekki það hvaða þýðingu það hefur að listi hafi málsvara á vettvangi. 

Þessi leikur sem Ögmundur og Jóhann Hauksson verðlaunablaðamaður og fleiri eru að leika er það sem engilsaxar kalla "foul play", sem við gætum nefnt viltlaust gefið og þeir hamast og rembast eins og rjúpan við staurinn við að auka flækjustigið í málinu í stað þess að snúa ábyrgðinni þangað sem hún á heima og taka síðan ákvörðun um að leysa málið. Jóhanna hefði sýnt mannsbrag ef hún hefði einu sinni í sinni forsætisráðherratíð náð því að ná samkomulagi í ágreiningsmáli sem máli skiptir með samkomulagi.

Jón Magnússon, 28.1.2011 kl. 12:10

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Þröstur. Það er alveg rétt að Hæstaréttardómarar hafa ýmis tengsl, en þeir eru almennt skipaðir vegna hæfileika sinna sem dómarar. Jón Steinar Gunnlaugsson Hæstaréttardómari sem menn hafa sérstaklega nefnt í þessu sambandi var tvímælalaust hæfasti umsækjandinn þegar hann sótti um stöðu Hæstarréttardómara. Þess vegna var hann skipaður. Ef gengið hefði verið framhjá honum við það tækifæri þá hefði hann goldið þess að vera Sjálfstæðismaður og fáir eru sennilega á því máli að menn eigi að gjalda fyrir stjórnmálaskoðunar sinnar þannig að þeim sé synjað um embætti eða einhver tekinn framfyrir sem er ekki eins hæfur.

Það er alveg rétt hjá þér að það er með ólíkindum að Jóhanna og sporgönguliðar hennar skuli nú hlaupa upp og halda því fam að eitthvað hafi verið frá þeim tekið eða ákveðin niðurstaða, sem ekki lá fyrir, hefðið verið eyðilögð og Hæstiréttur hafi eyðilagt það. Jafnvel á grundvelli annarlegra hvata. Það er slæmt þegar ráðamenn hella slíkri olíu á eld vantrausts og upplausnar í þjóðfélaginu.  Já og það sjálfur ráðherrann sem málið heyrir undir og ber hina stjórnskipulegu ábyrgð á mistökunum við framkvæmd kosninganna.

Það er síðan líka alveg rétt hjá þér að við vorum ekki búin að sjá einn eða neinn meiri- eða minnihluta á stjórnlagaþingi. Þetta er gagnslaus orðræða og vond.   Við þurfum lausnir en ekki aukið flækjustig.

Jón Magnússon, 28.1.2011 kl. 12:19

6 Smámynd: Jón Magnússon

Helgi ég er ekki að segja það að dómarar eða dómstólar eigi að vera ósnertanlegir eða hafnir yfir gagnrýni. Það verður þá að vera á málefnalegum grundvelli en ekki með því að hafa uppi aðdróttanir og ímyndaðar ávirðingar. Ég þú og Jón Steinar erum því sammála um það atriði Helgi þannig að það sé á hreinu. Það þýðir hins vegar ekki að deila við dómarann þegar hann er búinn að dæma en það má gagnrýna dóminn til að ná fram breytingum í framtíðinni.

Allt er síðan satt og rétt sem þú bendir á Helgi varðandi lögin og margt fleira, en ég tel að það hafi verið brotinn rétturá frambjóðendum og talaði um það við 3 frambjóðendur strax, hvort þeir hefðu ekki fulltrúa og fannst það með ólíkindum að ekki skyldi vera boðið upp á það með einum eða öðrum hætti. Ég held að það brot á kosningalögunum hafi vegið þyngst í þessu máli ásamt því að atkvæði voru rekjanleg þar sem seðlar voru númeraðir og ekki stokkaðir upp til að rugla röðinni.

Jón Magnússon, 28.1.2011 kl. 12:25

7 Smámynd: Þórður Einarsson

Sæll Jón.

Það vakna margar spurningar svona eftirá.Var stjórnin búin að leggja línur fyrir þingið?  Er eðlilegt að skipta þingmönnum í yfir og undirmenn?Var búið að skipa Þorvald Gylfason forseta þingsins fyrirfram ? Voru viðbrögð Jóhönnu og Ögmundar vegna þess að eitthvað sem stjórnin hafði ákveðið var sett í hættu?Öll viðbrögð minna á gamla Sovétið.

Þórður Einarsson, 28.1.2011 kl. 17:02

8 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Jón  þettað er frábær pistill

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 28.1.2011 kl. 17:03

9 Smámynd: Jón Magnússon

Ég veit það ekki Þórður. Við skulum ekki vera áð búa til kenningar um það sem aldrei er hægt að upplýsa.  Hins vegar er það alveg rétt hjá þér að maður spyr sig eðlilega þegar þessi gríðarlegu sárindi Jóhönnu birtast með jafn ógæfulegum hætti og var í fyrstu þingumræðunni um málið.

Jón Magnússon, 28.1.2011 kl. 23:16

10 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Guðmundur.

Jón Magnússon, 28.1.2011 kl. 23:16

11 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Takk Jón fyrir góða og málefnalega umræðu fyrr og nú. Synd að draga Hæstarétt niður á þetta plan.

Manni finnst eins og hópur stjórnmálamanna, blaðamanna og fleiri séu markvist að reyna að eitra þjóðfélagið með hatursfullum skrifum og ummælum í garð atvinnulífs og ýmissa manna. Fremst í flokki forsætisráðherra sem þó ætti ferkar að leita eftir sátt og samstöðu.

Þorsteinn Sverrisson, 30.1.2011 kl. 16:56

12 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Þorsteinn. Þetta er alveg rétt hjá þér. Manni sýnist sem ákveðnir aðilar í pólitík, háskólasamfélaginu og þó sérstaklega áákveðnum fjölmiðlum séu endalaust í hatursherferðum með dylgjum og rógburði.

Jón Magnússon, 30.1.2011 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 872
  • Frá upphafi: 2291638

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 771
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband