Leita í fréttum mbl.is

Atlagan að stjórnarskránni IV.

Þ. 25.1.2011 komst 6 manna dómur Hæstaréttar að neðangreindri niðurstöðu: 

Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.

Ályktarorð:

Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.

Hvað er gert í lýðræðisríkjum þegar æðsti dómstóll landsins ákvarðar kosningar ógildar.  Annmarkarnir sem voru á framkvæmd kosninganna eru lagfærðir og síðan er kosið aftur. Aðrar leiðir eru ekki tækar.

30 þingmenn á Alþingi ákváðu hins vegar að fara aðra leið. Þeir ákváðu að fara leið valdbeitingarinnar og hafna því að hlíta ákvörðun Hæstaréttar. Þess vegna var lögð fram þingsályktunartillaga um stjórnlagaráð. Athugi orðalagið stjórnlagaráð af því að kosningar til stjórnlagaþings voru ógildar.  Allir sem kosnir höfðu verið ógildri kosningu voru skipaðir í ráðið.  Þannig var stjórnlagaráðið fætt í veikleika og lögleysu og reis aldrei upp til styrkleika enda ekki von til þess miðað við það hvernig til þess var stofnað.

Þeir sem reyna að afsaka þessa ólýðræðislegu aðferðarfræði 30 þingmanna á Alþingi hafa gjarnan á orði að það sé ekkert að marka Hæstarétt og þessi ákvörðun Hæstaréttar sé röng. Þannig hafa m.a. fulltrúar í ólögmæta stjórnlagaráðinu talað. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr eða eru sáttir eða ósáttir þá er Hæstiréttur æðsti dómstóll landsins og það ber að fara að niðurstöðum hans. Það hefur enginn rétt til að taka sér það vald sem Hæstarétti er falið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. En það vald tóku samt 30 alþingismenn með þessum hætti og þeir sem settust í stjórnlagaráðið. Stjórnarskrárliðar með siðferðiskennd reyndu að afsaka sig með sama hætti og þeir sem reyna að afsaka vísvitandi kaup á þýfi. Hinir tóku glaðir og án athugasemda það sem að þeim var rétt.

Afurðin sem ólögmæta stjórnlagaráðið skilaði af sér er síðan eins og við mátti búast. Settar eru iðulega fram tillögur sem eru nánast eins og óskalisti í stjórnmálaályktun. Slík afurð er ekki tæk til að verða grunnur að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að segja NEI við þeirri spurningu hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar varðandi nýja stjórnarskrá.

Þá eru í tillögunum endalausir leppar þar sem kveðið er á um það að ákveðin atriði skulí ákveðin í lögum. Skoðum nokkur dæmi til byrjunar:

Dæmi: 106 gr. Nálægðarregla:

"Á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum." 

Skoðum núverandi ákvæði stjórnarskrár:

" Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða." 

Hvort er betra?  Var einhver ástæða til að krukka í þessu?

Annað dæmi: 3.gr. Yfirráðasvæði: "Íslenskt landssvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin í lögum. " Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði. Ekki neina. Skiptir máli hvort þetta er í stjórnarskrá eða ekki?

Þriðja dæmið 17.gr. Frelsi menningar og mennta: "Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista."  Hvaða efnisinntak hefur þetta ákvæði. Skiptir það máli í þróuðu lýðræðisríki? Að sjálfsögðu ekki. Er ekki nú þegar tryggt í lögum frelsi vísindas, fræða og lista?

Þannig eru fjölmörg dæmi sem sýna vel að arftakar Thomas Jefferson Bandaríkjaforseta voru víðsfjarri störfum stjórnlagaráðsins enda þess ekki að vænta miðað við hvernig til var stofnað. Sá merki maður hefði aldrei samþykkt þá lögleysu sem meðferð þessa máls er hvað þá annað sem ekkert erindi á í stjórnarskrá og er beinlínis skaðlegt fyrir stjórnarfar í einu landi.

Þess vegna er mikilvægt að segja NEI.

Annað er ávísun á stjórnskipulega óreiðu eins og  Forseti lýðveldisins hefur bent á með góðum og glöggum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála Jón!

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 17.10.2012 kl. 00:28

2 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir það Baldvin.

Jón Magnússon, 17.10.2012 kl. 00:50

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt tryggt sé nú í lögum frelsi vísinda, fræða og lista getur Alþingi hvenær sem er numið þau lög úr gildi, þannig að engin lög fjalli um þetta.

Með því að stjórnarskrárbinda tilvist slíkra laga er verið að tryggja að það þurfi samþykki þjóðarinnar til þess að fella þetta niður.

Skrýtið er að sjá þá skoðun að það skipti engu hvert og hvernig íslenskt yfirráðasvæði sé. Hjá öðrum þjóðum skiptir slíkt máli.

Ef skipan stjórnlagaráðs var andstæð lögum, af hverju var hún þá ekki kærð? Af því að aðferðin var sú sama og hafði verið notuð aftur og aftur með litlum árangri í 67 ár, að Alþingi skipaði nefndir til að endurskoða stjórnarskrána og hafði til þess fullan rétt.

Hæstiréttur úrskurðaði að stjórnlagaþingkosningarnar væru ógildar vegna hnökra sem voru mun minni en koma upp í kosningum víða um lönd en véfengdi ekki úrslit þeirra.

Í þýskalandi úrskurðaði stjórnlagadómstóllinn þar að framkvæmd kosninga í áratugi hefði ekki staðist kröfur, en úrskurðaði þó kosningarnar ekki ógildar, heldur krafðist lagfæringa og gaf til þess frest.

Ísland er eina landið á Vesturlöndum þar sem kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar. Samt er framkvæmd kosninga víða erlendis þannig að íslenskir hæstaréttardómarar hefði líkast fallið í öngvit í áfalli við að sjá það.

En um þetta er óþarfi að fjasa, - Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins og úrskurðir hans standa, og ég er sammála því að best hefði farið á því að endurtaka stjórnlagaþingkosningarnar eftir hinum ofurströngu kröfum réttarins og láta ekki kurr um kostnað vegna þess standa í vegi fyrir nýjum kosningum.

Ómar Ragnarsson, 17.10.2012 kl. 03:23

4 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu átti að endurtaka kosninguna Ómar. Maður eins og þú átt ekki að fjasa svona um Hæstarétt. Niðurstaða hans var ótvíræð og hann gildir og þá verða menn að fara eftir því í stað þess að fara á svig við dóminn eins og gert var. Það finnst mér hræðleg aðgerð og ekki gott að fólk skuli hafa tekið sæti í stjórnlagaráði á þeim forsendum.

Miðað við sömu röksemdir Ómar varðandi listirnar þá þurfa öll lög að vera í stjórnarskrá vegna þess að hugsanlega verði þau afnumin.  Aðalatriðið er þetta: Stjórnarskrá á að vera góð og einföld mannréttindafyrirlýsing, vörn hins veika fyrir ríkisvaldinu og hinum sterka og umgjörð um stjórnskipunina. Ekkert annað.  Þess vegna tala ég um fjas í tillögum stjórnlagaráðs.

Jón Magnússon, 17.10.2012 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 234
  • Sl. sólarhring: 1147
  • Sl. viku: 5879
  • Frá upphafi: 2276517

Annað

  • Innlit í dag: 220
  • Innlit sl. viku: 5458
  • Gestir í dag: 217
  • IP-tölur í dag: 217

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband