Leita í fréttum mbl.is

Tuddameldað í Brussel

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti iðulega hausinn undir sig eins og naut sem ætlar að stangast á við einhvern og kom þannig málum fram, en endaði með að setja allt í hnút. Afleiðing varð nánast óstarfhæft Alþingi og leiðinlegri bragur yfir þeirri stofnun en áður.

Nú hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tekið þennan ósið upp eftir stjórn Jóhönnu og virða þing og þjóð að vettugi en fara sínu fram hvað sem öðru líður.

Það er kallað að tuddamelda í spili þegar leikmaður fer sínu fram án þess að spyrja samleikendur sína að einu eða neinu. Þannig fór utanríkisráðherra að í gær þegar hann ákvað að slíta aðildarviðræðum að ESB í Brussel.

Ólíklegt er þó annað en að ráðherrann hafi haft í farteskinu samþykki ríkisstjórnarinnar en af ummælum eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins var það ekki borið undir þingflokk þess stjórnarflokks og ekki undir utanríkismálanefnd þó meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum eig að bera undir þá nefnd.

Aðildarviðræðurnar hafa aldrei verið annað en sýndarmennska. Það sem ræða þarf ef við viljum vita hvort þess er kostur að Ísland geti gengið í Evrópusambandið er fiskveiðar og landbúnaður. Annað er nánast allt um samið með EES aðildinni. Aldrei var tæpt á þeim málum þau ár sem aðildarviðræður stóðu. Það var því aldrei nein alvara í aðildarviðræðunum. 

Þó aðildarviðræðurnar hafi ekki þvælst fyrir neinum og sér í lagi ekki ríkisstjórn sem er andvíg aðild, er samt mikilvægt að virða lýðræðislegar reglur og umgangast pólitíska andstæðinga af virðingu. Þess vegna hefði verið betra að fara með málið í gegn um þingið, en allra best að leggja það undir dóm þjóðarinnar. 

Miðað við það sem á undan var gengið var eðlilegt að leggja málið undir dóm þjóðarinnar enda málið það mikið rætt að einfalt hefði verið fyrir fólk að mynda sér skoðun á málinu. En tuddameldingar utanríkisráðherra og virðingarleysi fyrir pólitískum andstæðingum og jafnvel einstaka stjórnarþingmönnum kunna ekki góðri lukku að stýra.

Það er aldrei skynsamlegt fyrir ríkisstjórn að fara í bardaga sem hún þarf ekki að fara í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjóðaratkvæði segir þú. Það átti náttúrulega að setja þá spurningu fyrir þjóðina, hvort hún vildi fara inn í ESB, áður en umsóknin var send til Brüssel. Mikill meirihluti hefði sagt nei. Hver vill líka fara inn í þennan klúbb núna, þegar allt er í upplausn og uppnámi þar inni og framtíðin með öllu óviss. Eins og einhver sagði, þá fer maður ekki inn í brennandi hús, þar sem allt er að hruni komið. Allt í lagi með að tala um þetta á Alþingi, en þegar stjórnarandstaðan hagar sér eins og hún gerir þar, þá er engin skemmtun að ætla að fara með svona mál þar í gegn, þegar Össur er líka búinn að hóta eldi og brennisteini, ef það yrði gert, og þjóðaratkvæði um slit er út í bláinn. Hvað átti Gunnar Bragi þá að gera? Hann hefði nú hins vegar getað rætt þetta bæði við Birgi, og eins Sigmund og Bjarna, og sagt þeim frá þessu a.m.k., látið þá vita, hvað til stæði, þótt ekki sé það annað. Það hefði verið kurteisara. Satt er það, en ríkisstjórnin var komin í ómögulega stöðu með þetta, eins og stjórnarandstaðan, og sérstaklega Össur og Árni Páll hafa hagað sér og stillt þeim sífellt upp við vegg í þessum efnum og verið frekir og yfirgangssamir í þessum efnum. Maður spyr bara, hvað þeir menn haldi eiginlega, að þeir séu, og hvort þeir séu ekki búnir að átta sig á því heldur, að þeir séu ekki í ríkisstjórn lengur og hafa þar af leiðandi engin völd. Það er bara fagnaðarefni fyrir okkur andstæðinga ESB-aðildar, að það skuli vera komin hreyfing á málin, og sé verið að jarða þetta umsóknarrugl, sem þjóðin var aldrei spurð, hvort hún vildi að yrði send til kommissaranna í Brüssel. Betra seint en aldrei.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 10:59

2 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. En þar eð stjórnarskráin segir jafnframt að  forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt er það utanríkisráðherra í þessu tilfelli. Samningar við önnur ríki, gerð þeirra og framkvæmd er þannig á hendi utanríkisráðherra. Afturköllun var því innan valdheimilda hans og hefði betur fyrr verið gerð.

Rétt er að halda samhliða forsetakosningum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem skýrt verður spurt um vilja til að ganga í ESB og hvort þjóðin heimili valdframsal yfir landhelgi og gerð samninga um sameiginlega fiskistofna til ESB. Annars verður okkur lætt inn þegar síst varir.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 13.3.2015 kl. 16:36

3 identicon

Hér skrifar annar sjálfstæðismaður sem eðlilega er búinn að fá nóg af vinnubrögðum forystmanna flokksins:

http://vinaminni.blog.is/blog/vinaminni/entry/1656626/

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 19:22

4 Smámynd: Jón Magnússon

Guðbjörg ég hef engu við að bæta það sem ég segi í færslunni minni og finnst þetta klaufalegt.

Jón Magnússon, 14.3.2015 kl. 17:04

5 Smámynd: Jón Magnússon

Eigum við nú ekki að fá allt upp á borðið fyrst Einar varðandi hvað er í boði og hvað það kostar að fara í klúbbinn. Ég sé ekki ástæðu til að greiða atkvæði um aðild fyrr. En spurninguna um hvort halda ætti viðræðunum áfram eða ekki var búið að tala um að yrði lagt fyrir þjóðina.

Jón Magnússon, 14.3.2015 kl. 17:06

6 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er eitthvað sem er nýlunda Bergur og vonandi í síðasta skipti.

Jón Magnússon, 14.3.2015 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 1661
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1490
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband