Leita í fréttum mbl.is

Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar, afhenti utanríkisráðherra Litháen lítið letters bréf um slit aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið hafa margir velt fyrir sér hvort sú aðferð sé lögformlega rétt,lýðræðisleg, þingræðisleg eða jafnvel ekkert af þessu.

Í 7.mgr 45.gr. þingskaparlaga 55/1991 segir: "Forsætisráðherra leggur í október á hverju ári fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar auk yfirlits um framkvæmd þingsályktana sl.þrjú ár nema lögin kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Nefndin getur lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslu ráðherra, ef hún telur ástæðu til, gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni."

Af þessu ákvæði þingsskaparlaga verður ekki ráðið en að einstakir ráðherrar eða ríkisstjórn geti einhliða og án atbeina meirihluta Alþingis fellt úr gildi þingsályktun sem Alþingi hefur samþykkt. Alla vega yrði þá að gera það með þeim formlega hætti sem 7.mgr. 45.gr. þingskaparlaga kveður á um. Ríkisstjórn hefur enga stjórnskipulega heimild til að fella úr gildi þingsályktunartillögu og það dugar ekki að laumast úr landi með lítið letters bréf og ímynda sér að þar með hafi ríkisstjórnin hnekkt þingsályktun.  Sú aðgerð er stjórnskipulega marklaus.

Aðferð ríkisstjórnarinnar í málinu er því stjórnskipulega röng. Auk heldur er hún ólýðræðisleg. Hún er ekki þingræðisleg og getur leitt til þess að bolabrögðum verði beitt í auknum mæli í íslenskum stjórnmálum. En hvað brýnast var nú að leiða stjórnmálin út úr þeim farvegi og  í þann sem tíðkast með þróuðum lýðræðisríkjum.

Afstaða til Evrópusambandsins skiptir ekki máli í þessu sambandi.

                        

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

 Kæri nafni.

Ég taldi líka að forsetinn ætti að fara varlega með neitunarvaldið þegar hann hafnaði fjölmiðlalögum. Hver eru viðurlögin? Hér á Íslandi virðist ekki vera spurning hvað sé rétt heldur hvað komast menn upp með. Það er erfitt að bera þannig Íslendinga seman við siðaðar þjóðir. 

Viðurlög þingsins eru að sjálfsögðu þau að lýsa yfir vantrausti á einstaka ráðherra eða ríkisstjórnina í heild. Góður meirihluti á þingi getur þannig komist upp með ýmislegt. Ekki er vænlegur kostur að draga menn fyrir Landsdóm. Það er á fleiri stöðum en á Grikklandi sem tiltekt myndi ekki saka mikið. 

Jón Sigurgeirsson , 16.3.2015 kl. 21:05

2 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér kæri nafni.  Það má aldrei gleyma því að lýðræðið er ekki virkt ef það er einræði meirihlutans og minni hlutinn hefur ekkert um málin eða framkvæmdina að segja. Ég hef áhyggjur af svona aðferðum sem mér finnast andlýðræðislegar. Ég gagnrýndi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hart fyrir ólýðræðisleg tilþrif á sínum tíma og þessi bréfasending kom því eins og köld vatnsgusa frá þeim sem síst skyldi.

Svo er það einstakt með forsætisráðherra að hann bullar út í eitt og skilur ekki að þingsályktunartillaga Alþingis er jafngild eftir sem áður þó skipt sé um ríkisstjórn.

Jón Magnússon, 16.3.2015 kl. 23:46

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir þessa faglegu greiningu og álit.

Wilhelm Emilsson, 17.3.2015 kl. 05:17

4 identicon

Kæri Jón

Útskýrðu fyrir mér af hverju þú heldur að ríkisstjórnin sé að reyna að fella einhverja þingsályktun úr gildi?

Hvaða refsing fyligir því fyrir ríkistjórn/ráðherra að hunsa þingsályktun?

Richard Ulfarsson (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 07:14

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Wilhelm.

Jón Magnússon, 17.3.2015 kl. 09:25

6 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er ekkert að halda Richard það liggur í augum uppi hvað er verið að gera.

Ef ráðherra fremur sem ráðherra brot sem heyrir undir Landsdóm þá getur hann unnið til refsingar. Í íslenskri réttarframkvæmd hafa ráðherrar ekki verið kallaðir til ábyrgðar þó þeir hafi gerst sekir um ólögmæta aðferð við gerð stjórnarathafnar eða valdníðslu svo dæmi séu tekin. Jafnvel ekki þó að einstakir borgarar hafi þurft að líða fyrir ólögmætar aðgerðir ráðherra. Eitt besta dæmið í því sambandi er þegar aðgerðir Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra voru dæmdar sem valdníðsla í Hæstarétti. Þá var hann aldrei látinn sæta persónulegri refsiábyrgð vegna þess þó að einstaklingar hefðu beðið mikið fjárhagstjón og jafnvel þurft að sitja í fangelsi vegna valdníðslu ráðherra.  Það mætti heldur betur styrkja vernd borgaranna gagnvart framkvæmdavaldinu hvað þetta varðar Richard.

Jón Magnússon, 17.3.2015 kl. 09:32

7 identicon

Þingsáluktunartillagan sjálf innifelur þá fyrirvara að þingmennirnir sem að henni stóðu (fyrst og fremst hugsað fyrir þingmenn VG) geti hvenær sem er slitið viðræðunum. Þá eru í ályktuninni skilyrði sem nú þegar er ljóst að muni ekki verða uppfyllt.  Skrýtið að þingmenn fyrri meirihluta hafi getað hvenær sem er slitið viðræðunum en nýr meirihluti geti það ekki.  Hefur þú Jón skoðað hvað margar þingsályktunartillögur eru í fullu gildi ef túlkun þín stenst. Þær eru nokkrar sem hafa verið samþykktar frá 1944. Þessi túlkun þín Jón getur engan vegin staðist enda á skjön við álit flestra stjórnskipunarfræðinga. Slík tillaga getur engöngu verið bindandi fyrir nýtt þing og nýja stjórn ef hún buggir á gildandi lögum eða sjórnarskrá.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 10:15

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð grein, finnst þetta vera rökrétt niðurstaða (tek fram að ég er ekki löglærður og reyni því að lesa það sem lögfræðingar/lögmenn segja um málið, sem reyndar hefur verið misvísandi.) Því er gott að fá þitt álit.

Lokasetningin er algert lykilatriði í þessu: Afstaða til Evrópusambandsins skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Ég verð þó að segja að ég á mjög erfitt með að skilja þetta upphlaup stjórnarinnar. Nú liggur það alveg ljóst fyrir að stjórn SDG er algerlega andvíg aðild Íslands að ESB og það vita forráðamenn sambandsins (væntanlega.)

Hvað var þá Gunnar Bragi (og þar með stjórnin) að reyna að gera? Voru þeir að reyna að tryggja að Ísland myndi aldrei aftur geta sótt um aðild að ESB? Ef svo er, þá er núverandi stjórn að binda hendur næstu stjórna(r) sem er einmitt það sem þeir vilja ekki að þingsályktunartillaga 2009 geri. Ég þarf ekki að taka fram að næstu stjórnir geta verið með allt aðra afstöðu til ESB.

Af hverju er ekki nóg að það liggi fyrir að stjórnin vill ekki halda áfram viðræðum, að þær séu "í salti?" Eru þeir að reyna að eyðileggja þá vinnu sem búið er að vinna? Geta þeir breytt því sem búið er að ræða við ESB og þeim niðurstöðum sem þó liggja fyrir úr þeirri vinnu?

Ég sé enga aðra leið til þess en að finna upp tímavél, fara aftur í tímann og breyta fortíðinni, þannig að engin viðræðuvinna verði unnin á árunum 2009-2013. Miðað við raunsæiss-stuðulinn á loforðum Framsóknarflokksins hingað til, kæmi það mér reyndar ekki á óvart að þeir tækju upp á því að lofa því í næstu að finna upp tímavél og breyta fortíðinni.

Theódór Norðkvist, 17.3.2015 kl. 10:55

9 Smámynd: Jón Magnússon

Gátu þeir slitið viðræðunum hvenær sem var Stefán? Ég held ekki og setti stórt spurningamerki við það þegar sagt var nokkru fyrir síðustu kosningar að viðræðum væri frestað. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki haft sjálfdæmi í því en hefði þurft að bera það undir Alþingi miðað við þingskaparlögin. Ég er ekki með kenningu Stefán. Ég er að benda á ákveðna grein í þingskaparlögum og benda á hvað hún þýðir. Það vill svo til að fjölmargir löglærðir hafa tekið undir með mér og sagt skrýtið að prófessorarnir sem fréttastofurnar töluðu við skuli ekki hafa bent á þingskaparlögin í þessu sambandi og t.d. hvernig staðið er að málum í Danmörku sem fordæmi hvað þetta varðar.

Jón Magnússon, 17.3.2015 kl. 23:52

10 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er fyrst og fremst að ræða um málið miðað við lög sem gilda um þingsályktunartillögur og meðferð þeirra Theódór. Ég er ekki að fjalla um Evrópusambandið eða samningaviðræður heldur aðferðarfræði og lög.

Jón Magnússon, 17.3.2015 kl. 23:54

11 identicon

Já þingsályktunartiillagan sjálf fól það í sér að hægt væri að slíta viðræðunum hvenær sem er þannig það var ekki á skjön við tillöguna að slíta viðræðunum.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 18.3.2015 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 2291622

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 755
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband