Leita í fréttum mbl.is

Þingmaður segir af sér

Þingkonan Theódóra S. Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku frá og með næstu áramótum, vegna þess hvað hún telur þingstörfin ómarkviss, hafi litla þýðingu og þingið sé eins og málstofa án takmarks eða tilgangs.

Fyrst svo er af hverju segir Theódóra ekki af sér nú þegar. Af hverju bíða til áramóta í málsstofunni við að sinna ómarkvissum störfum sem hafa litla þýðingu?

Gagnrýni Theódóru á vissulega fullan rétt á sér. Í tæpan áratug hefur Alþingi haldið sjálfu sér í gíslingu. Með aðkomu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar að landsstjórninni varð erfiðara en áður, að semja um mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu sérstaklega vegna frekju og yfirgangs Jóhönnu Sigurðardóttur og sporgöngufólks hennar.

Frá þeim tíma hafa hlutirnir þróast í þá átt að þinginu er haldið í gíslingu meginhluta þingtímans eða þangað til nokkrir dagar lifa fram að þingfrestun fyrir áramót og síðar að vori. 

Að hluta til er þetta þingforsetum Alingis að kenna, sem hafa ekki haft eðlilega stjórn á umræðum. 

Meginástæðan er hins vegar sú að stjórnmálaforingjar flokkana hafa ekki myndað nýtan samstarfsvettvang. Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá snúast stjórnmál í lýðræðisríki jafnan um að ná ásættanlegum málamiðlunum.

Málþóf sem er alvarlegur plagsiður á Alþingi Íslands, er nánast óþekkt á þjóðþingum hinna Norðurlandanna. Í Danmörku þar sem minnihlutastjórnir eru algengari en meirihlutastjórnir koma stjórnmálaleiðtogar saman áður en þing hefst og semja í meginatriðum um þingstörfin og framgang mála. Við slíkar aðstæður eru þingstörf og þingmennska mun meir gefandi en hér á landi og hafa meiri þýðingu fyrir land og þjóð sem og þingmenn. 

Annar hlutur sem Theódóra nefnir er frumkvæðisskortur Alþingis. Það er alvarlegt mál og kom glöggt í ljós í Hruninu. Þá áttu Alþingismenn þess ekki kost að koma að málum eða eiga frumkvæði vegna þess að stjórnkerfið eins og það hefur þróast er stjórnkerfi framkvæmdavaldsins. 

Stefnumótun og umræður um meginatriði eru fátíð á Alþingi og einstakir þingmenn hafa lítið svigrúm til að koma áfram einstökum málum og skiptir þá ekki máli hversu góð mál það eru og til hvaða framfara þau horfa. Alræði framkvæmdavalshafa þ.e. ríkisstjórnar ræður og mál fást ekki tekin á dagskrá eða um þau fjallað í nefndum nema ráðherra leyfi og á þessu eru fáar undantekningar. 

Það sem þarf til að koma er aukin virðing Alþingis fyrir sjálfu sér sem stjórnvaldi. Virðing sem felst í því að Alþingi tekur frumkvæði og skoðar mál ítarlega jafnvel áður en þau eru send til úrvinnslu í stjórnarráðinu. Það gerist hins vegar allt of oft, að málum er dengt inn á þing í rétt fyrir þinghlé og þau afgreidd í snarhasti nánast umræðu- og skoðunarlaust og reynast síðan meingölluð þegar til á að taka. 

Aukin virðing Alþingis fyrir sjálfu sér felst m.a. í því að taka tillit til þess sem hver einstakur þingmaður hefur fram að færa og þeim málum sem hann flytur. Þá bera fjölmiðlar mikla ábyrgð, en eins og ég hef ítrekað bent á, þá hefur þetta svokallaða fimmta vald í lýðræðisríkinu Íslandi verið versta brotalöm lýðræðísins í landinu. 

Þegar fjölmiðlar greina frá umræðum á Alþingi eða því sem þar er að gerast, þá beinist athygli þeirra sérstaklega að fyrirspurnum til ráðherra og því þegar einstakur þingmaður viðhefur rótarlegt, groddarlegt eða dónalegt orðbragð. Fjölmiðlar sinna ekki og greina ekki frá því sem dugmiklir þingmenn hafa fram að færa, fólk sem undirbýr frumvörp og ber þau fram eftir að hafa lagt í málin mikla vinnu. 

Alþingismenn eru á kjósendamarkaði og það er mikilvægt fyrir þá að fá athygli og þeir beina því kröftum sínum að því sem vekur athygli fjölmiðlafólks. Þess vegna er fáránleikinn oft í fyrirrúmi í stað stefnufesti, málafylgju og vel unninna þingmála.

En það skiptir máli að Alþingi vinni vinnuna sína með sóma og ástundi vandað löggjafarstarf og sé miðstöð stefnumótunar í þjóðmálum. Þess vegna verður að koma Alþingi frá þeim ömurleika sem hefur heltekið þingið og til meiri virðingar. Þar verða allir að leggjast á eitt. Forseti Alþingis, Fjölmiðlafólk, einstakir þingmenn og forustufólk þingflokka, sem verða að láta það eftir sér að haga sér eins og þroskað stjórnmálafólk en láta vera að fara fram eins og óþekkir krakkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þetta er réttmæt gagnrýni, Jón.  Aðalatriðið er og á að vera að Alþingi er löggjafarþing, hvorki meira né minna. 

Kolbrún Hilmars, 26.8.2017 kl. 18:00

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög eftirtektarverð, vel rökstudd og afar fræðandi grein.

Mátt til með að birta eitthvað þessu líkt í Mogganum, nafni. Það gæti þokað málum eitthvað áfram, ekki er vanþörf á.

Jón Valur Jensson, 27.8.2017 kl. 01:12

3 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir nafni.

Jón Magnússon, 27.8.2017 kl. 08:41

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ef hún segði af sér núna strax, tapr hún stórum hluta af eftirlaunum sem þingmaður. Snýst allt um pening.

Varðandi alþingi, þá er það löngu búið að tapa virðingu hjá þjóðinni, enda orðin stofnun sérhagsmuna afla og fjöldskyldu.

Langt síðan alþingi vann og gerði eithvað sem þjóðina skipti máli.

Sigurður Kristján Hjaltested, 27.8.2017 kl. 12:06

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Samþykkt.

Bæti svo við því undrunarefni,hvers vegna í ósköpunum það er ennþá

látið viðgangast að fremur fáar - og næstum alltaf sömu

fjölskyldurnar eru látnar velja bestu bitana handa sér þegar arði 

auðlindanna er skipt og sömuleiðis þegar ríkiseignir eru seldar.

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 359
  • Sl. sólarhring: 1031
  • Sl. viku: 6103
  • Frá upphafi: 2277854

Annað

  • Innlit í dag: 341
  • Innlit sl. viku: 5647
  • Gestir í dag: 336
  • IP-tölur í dag: 329

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband