Leita í fréttum mbl.is

Veirustríðið

Þá er hafin ný leiftursókn gegn C-19 veirunni. Veirutríóið með Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni í broddi fylkingar hefur mælt fyrir um róttækar lokunaraðgerðir sem koma sér illa fyrir fólk og fyrirtæki, en vonandi verða þær til þess á skömmum tíma að koma þjóðfélaginu á nýjan leik í þokkalegt andlegt og líkamlegt jafnvægi. 

Þórólfur Guðnason hefur staðið sig vel í þessari baráttu raunar eins og aðrir í veirutríóinu, þó oft orki tvímælis hvað skuli gera hverju sinni. Hann viðurkennir, að þekking á sjúkdómnum sé takmörkuð og hefur ítrekað tekið fram, að hann sem sóttvarnarlæknir geti ekki lagt annað til, en það sem hann hefur gert. Dáðlaus ríkisstjórn hefur hinsvegar komið sér hjá að taka pólitískar ákvarðanir varðandi viðbrögð við faraldrinum og stimplað allt sem Þórólfur hefur sagt og ert eins og Guð hafi sagt það og þar verði engu um þokað. 

Skortur á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnmálaafla, sýnir því miður þá staðreynd, að nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er við völd í landinu kemur sér hjá að taka ákvarðanir og telur hag sínum best borgið með því að skýla sér á bak við sérfræðina, en geta staðið og þóst ábyrgðarlaus til hliðar. Þetta kemur svo rammt fram á öllum sviðum þjóðmálanna, að margir telja, að það væri ódýrara að gefa þessu fólki sem á að stjórna frí, en fela sérfræðingum og forriturum tölvulíkana það vald, sem það fer með hvort sem er. Önnur leið er að skipta um stjórnmálastétt og ætlast til þess af henni, að hún geti tekið ákvarðanir út frá heildarhagsmunum að teknu tilliti til misvísandi skoðana sérfræðinga. 

Ný leiftursókn gegn veirunni er hafin og vonandi gengur hún vel. Vonandi rennur hún ekki út í sandinn eins og síðari leiftursókn þriðja ríkisins í síðari heimstyrjöld því þá eins og nú má ætla, að það verði ekki þrek, vilji eða fjármunir til að fara í þá þriðju ef þessi bregst. 

Enn sem komið er skv. opinberum tölum hafa aðeins 0.85% þjóðarinnar veikst af þessari veiru, en 99.15% þjóðarinnar hafa verið svo gæfusamir, að hafa enn sem komið er losnað við það. Þegar upp verður staðið að aflokinni þessari leiftursókn má ætla miðað við spálíkön, að aðeins um 1% þjóðarinnar hafi þá tekið sóttina. Áleitna spurningin er þá, hvað er unnið við leifursóknina ef nánast öll þjóðin eða 99% getur enn smitast og hvernig verður veirunni haldið í skefjum, en Þórólfur og fleiri segja að hún sé komin til að vera. 

Eins og í sögu H.G. Wells um innrásina frá Mars kann þó að vera ástæða til bjartsýni, en þar komu sýklarnir mannkyninu til bjargar. Þekking á sjúkdómnum og viðbrögðum við honum vex og hvað svo sem öllum hræðsluáróðri líður þá er veiran heima og annarsstaðar í Evrópu auðveldari viðfangs og vægari en var í upphafi.

Hvort sem okkur þykja þessar ráðstafanir réttar eða rangar, þá erum við hér og þurfum sameiginlega að taka á til að lágmarka tjónið.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er einmitt mergurinn málsins, hvað tekur við.  Núverandi útgönguhömlur á höfuðborgarsvæðinu eru engin lausn.  Hver bylgjan mun reka aðra, þar til hjarðónæmi myndast, annaðhvort við bólusetningu eða með fjölda sýkinga.  Enginn veit, hvenær nothæft bóluefni kemur.  Það getur tekið nokkur ár, hugsanlega kemur það eftir 1 ár.  Það er ekki hægt að reka hér fálmkennda sóttvarnarstefnu í nokkur ár á kostnað framtíðarinnar (skuldasöfnun).  Um 10 % íbúa jarðar er nú talinn hafa öðlazt ónæmi við C-19, en hérlendis er staðan innan við 2 %.  Það er slæm staða. 

Bjarni Jónsson, 7.10.2020 kl. 10:22

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, leiftursóknirnar eru athygliverðar, og eins og fæstir hafi velt fyrir sér muninum á því að vinna orrustu og að vinna stríð. Ég verð að viðurkenna að ég vonast til þess að leiftursóknin gangi sem allra verst, því eina raunhæfa markmiðið í þessu öllu er að veiran dreifi sér og þannig myndist hjarðónæmi. Hún má bara ekki dreifa sér of hratt og það er nauðsynlegt að margfalda afkastagetu heilbrigðiskerfisins um leið. Þar vantar gríðarlega mikið upp á. 

Leiftursóknirnar eru að mínu mati bæði alveg tilgangslausar og einfaldlega skaðlegar.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.10.2020 kl. 11:58

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Leiftursókn?

Þessu lýkur í fyrsta lagi í júní 2021

Verður hugsað til "Leiftursókn gegn verðbólgu" sem fljótlega var umorðað í "leiftursókn gegn lífskjörum" sem á líka við núna

Grímur Kjartansson, 7.10.2020 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 1697
  • Frá upphafi: 2291587

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1523
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband