Leita í fréttum mbl.is

Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Illa hefur gengið að ráða við C-19 veiruna í þessari nýju árás hennar á þjóðina. Þrátt fyrir aðgerðir og hertar aðgerðir, gengur lítið því miður. Þegar svo háttar til hættir fólki til að grípa til örþrifaráða að ástæðulausu.

Nú er þannig komið fyrir sóttvarnaryfirvöldum, af því að illa hefur gengið, að þau telja skyldu sína að finna upp á einhverju nýju til að banna, til að sýnast vera að gera eitthvað merkilegt. Grípi sóttvarnaryfirvöld til þess, þá eru þau í leið að viðurkenna, að þau hafi ekki gert rétta hluti síðast þegar þau takmörkuðu frelsi borgaranna. 

Af gefnu tilefni talaði RÚV við landstjórann, Kára Stefánsson í Kastljósi í gær, en jafnan er talað við hann þegar býður þjóðarsómi. Kári lýsti þörf á víðtækum aðgerðum og hertum m.a. að lokað yrði öllum verslunum nema matvöruverslunum. Í sjálfu sér er það ekkert vitlausara en að banna fólki að fara til rakara eða á hárgreiðslustofu. En vitlaust samt.

Getur verið að uppspretta smita sé í járnvöruverslunum, rafmagnsverslunum eða fataverslunum? Svarið er nei. Sama á raunar við um rakara- og hárgreiðslustofur. Hvaða rök eru þá fyrir því að loka þeirri starfsemi?

Úr því sem komið er, þá verður ekki við það unað lengur, að sóttvarnaryfirvöld grípi til víðtækra lokana og frelsisskerðingar borgaranna með ástimplun dáðlausrar ríkisstjórnar, nema færð séu rök fyrir nauðsyn og tilgangi. Hingað til hefur þess ekki þurft og þessir aðilar hafa farið sínu fram vitandi, að óttinn sem hefur gripið um sig í þjóðfélaginu leiðir til þess, að fáir og jafnvel engir spyrja spurninga hversu vitlausar svo sem aðgerðirnar eru. 

En nú er komið að vatnaskilum. Þjóðfélagið þolir ekki frekari frelsisskerðingar og takmarkanir, hvað þá þegar engin rök hníga að því að þau skipti máli eins og er um almenna mannlega starfsemi svo fremi fólk gæti að fjarlægðarmörkum og almennu hreinlæti. 

Aðalatriðið er að fólk passi sig og fari eftir almennum sóttvarnarreglum, en fái að lifa í frjálsu samfélagi, þar sem múrar og girðingar eru ekki settar um venjulegt líf borgaranna.

Því til viðbótar má leiða líkur að því að þessi faraldur muni réna innan skamms án frekari frelsisskerðinga og jafnvel þó að ýmsum takmörkunum yrði aflétt svo sem banni við að strákar og stelpur fái að spila fótbolta. Þess vegna er komið að ríkisstjórninni að standa í lappirnar en halda ekki áfram að eyðileggja efnahagslíf og velmegun þjóðarinnar til langframa.

Erfiðasti hjallinn er að komast í gegnum hópsýkingar á hjúkrunar- og öldrunarstofnunum, sem ekki tókst að koma í veg fyrir þrátt fyrir allar ráðstafanirnar. Þær eru staðreynd og við þeim verður ekkert gert núna annað en að hlúa sem best að þeim veiku og öldruðu sem smituðust á þessum stofnunum. En að öðru leyti og í framhaldi af því má ætla að smitum fækki verulega.

En í slíkum tilvikum, þegar sótt er í rénun eða við það að komast á það stig, þá skiptir heldur betur máli fyrir sóttvarnaryfirvöld að herða á ráðstöfunum til að geta sagt eins og Jón sterki forðum í Skugga Sveini, Matthíasar Jochumsonar.

"Sáuð þið hvernig ég tók hann." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sammála þér um þetta.  Svo virðist sem nú eigi að fara að hengja bakara fyrir smið.  Vandamálið er Landsspítalinn.  Hann hafði ekki eftirlit með heilsufari starfsfólks síns með skipulögðum skimunum gagnvart C-19, og hann sendi skjólstæðinga sína frá sér, jafnvel í aðra landsfjórðunga, óskimaða. Þá er eftir sóttvarnaryfirvöldum að loka bókabúðum, tuskubúðum og öllu, sem nöfnum tjáir að nefna.  Þetta er óhæfa. 

Óánægja grefur um sig í þjóðfélaginu með furðutiltektir.  Dæmi er sú ákvörðun Landlæknis að banna valkvæðar aðgerðir í Orkuhúsinu.  Bannið er illa ígrundað og vitnar hreinlega um dómgreindarleysi.  Það mun svo sannarlega skapa fleiri vandamál en það leysir.  

Stjórnvöld reikna í fjárhagsáætlunum sínum með 0,9 M erlendum ferðamönnum til landsins 2021.  Það er alveg útilokað með núverandi skimunarfyrirkomulagi á landamærunum.  Það vantar stefnumörkun. 

Bjarni Jónsson, 29.10.2020 kl. 11:06

2 identicon


    Sæll Jón.


Nú er það ljóst að kórónaveiran
fer í manngreinarálit, virðist fara eftir ákveðinni röð,
rétt eins og hún væri forrituð en viðbrögð
við henni fara eftir hreinum pólitískum línum;
hægri snú og opna eða loka. (halt!)

Það virðist því enginn enn hafa fundið lausnina
og útlít fyrir að menn verði að þreyja þorrann og góuna
í þeirri von að það passi til við þessi mánaðaheiti að fornu fari og bóluefni komi fram í síðasta lagi í febrúar.

Er mönnum ekki vorkunnarlaust að gera það eða
kannast einhver við að það hafi hjálpað fólki í
veikindum að segjast þreytt á stöðunni?

"Því til viðbótar má leiða líkur að því að þessi faraldur muni réna innan skamms án frekari frelsisskerðinga..."

Hvað hefur þú fyrir þér í þessari fullyrðingu þinni?

Ég held að enginn að loknum þessum faraldri muni
berja sér á brjóst heldur fari það frekar sem segir
í Hávamálum: "Heilir hildar til, Heilir hildi frá, Koma þeir heilir hvaðan." (komast þeir heilir heim sem komast þrátt fyrir fórnir)

Húsari. (IP-tala skráð) 29.10.2020 kl. 12:15

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Bjarni. Þessar athugasemdir þínar eru athyglisverðar og sýna hvað við erum á rangri leið í umræðunni og með aðgerðir. 

Jón Magnússon, 29.10.2020 kl. 18:09

5 Smámynd: Jón Magnússon

Því miður eru kynslóðirnar sem nú lifa Húsari meira fyrir að láta sér líða vel án þess að taka áhættu eða láta sér verða kalt. 

Jón Magnússon, 29.10.2020 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 917
  • Sl. viku: 2391
  • Frá upphafi: 2293942

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2172
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband