Leita í fréttum mbl.is

Afnám verðtryggingar er óhjákvæmileg.

Sama dag og neyðarlögin svonefndu voru sett átti ríkisstjórin að leggja fram lagafrumvarp um tímabundið afnám verðtryggingar.  Frysting eins og Gylfi Magnússon leggur til er í sjálfu sér betra en ekkert en það er ekki nóg. Það er ekki ásættanlegt að þegar þjóðin genur í gegn um efnahagshrun að þá sé ekki tekin upp ný vinnubrögð til að við getum sameiginlega unnið okkur út úr vandanum. Eins og nú horfir verður þúsundum fjölskyldna steypt í skuldaklafa sem fólk ræður ekki við.

Seðlabankastjóri talaði um að þjóðfélagið ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna.  Í gær samþykkti meirihluti Alþingis að ábyrgjast erlendar innistæður íslensku bankanna. Hugsanlega þurfa íslenskir skattgreiðendur að greiða hundruðir milljarða vegna þessa.  Þegar þetta er haft í huga má ekki setja í forgang að hugsa um möguleika reiðufólks sem hefur alltaf staðið í skilum en gert sínar fjárfestingar á grundvelli allt annarra skilyrða en nú ´ríkja.

Er það ekki tilvinnandi fyrir framtíð þjóðfélagsins að hugsa um hagsmuni fólks svo það geti sjálft átt þak yfir höfuðið. Hvað varð að stefnu Sjálfstæðisflokksins um "eign handa öllum".  "Frá fátækt til bjargálna".  Er ekki einmitt nú mikilvægt að fylgja slíkri stefnu eftir.


mbl.is Frysting jafnvel óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Diesel

Auðvitað á að fella niður verðtryggingu. Ef ekki núna, þá strax

Diesel, 6.12.2008 kl. 18:44

2 identicon

Af hverju sjá þetta allir aðrir en þeir sem ráða, ég er alveg hætt að botna í þessu öllu saman og sérstaklega þegar enginn hagfræðinur segir það sama.

Mercury (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 18:55

3 Smámynd: Skattborgari

Góður pistill hjá þér Jón.

Ég sé lánin hjá mér þjóta upp um hver mánaðamót á sama tíma og verðið á íbúðinni hjá mér lækkar um yfir 40% samkvæmt spám.  Ég heyri alltaf talað um að þetta sé dýrt en hvað ætli það muni kosta þjóðfélagið að gera þetta ekki þegar fullt af fólki verður gjaldþrota og mun hugsanlega flýja land? 

Kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 6.12.2008 kl. 19:30

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Mjög góður pistill hjá þér Jón, þetta er málið, það eru örlög okkar sem höfum alltaf staðið í skilum sem eru á dagskrá núna.

Gunnar Skúli Ármannsson, 6.12.2008 kl. 20:48

5 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

hvað með lífeyrissjóðinn minn ? týnist hann ekki ?

Jón Snæbjörnsson, 6.12.2008 kl. 20:49

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Hver er óreiðumaður og hver er ekki óreiðumaður? Hver er skilamaður og hver er vanskilamaður? Er sá sem neitar að borga af láni með 4% vöxtum með kr. 100.000.- greiðslu á mánuði, sem er 20-30% af tekjum hans og hefur verið, og afborgunin er skyndilega orðin 2-300.000.- á mánuði, óskilamaður?

Nei hann/hún er ekki vanskilamaður né óreiðumaður.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.12.2008 kl. 21:16

7 identicon

Það þykir nú ljóst að samningarnir vegna Icesave stóðust ekki lög hvorki Íslands né ESB eftir allt saman. Þá er kveðið á um þetta í skýrslu Franska Seðlabankans frá árinu 2000.

Frakkar sem fóru fyrir samninganefndinni fyrir hönd ESB vissu þetta allan tíman en þvinguðu engu að síður fram samninga með bolahætti.

Ríkisábyrgð á bara ekki við í þessu en hvort menn hafa kraft í málareksturinn kemur í ljós.

Nýr gjaldmiðill inn í kerfið í febrúar 2009 breytir hér allri okkar stöðu. Vextir verða eðlilegir og um leið og tekst að stýra peningamagni í umferð hérna mun verðbólgan hjaðna svo um munar.

þá hættir verðtryggingin að bíta okkur í rassinn í samræmi við lægri verðbólgu.

Ég hef tekið eftir því að ýmsir aðilar eru búnir að vera að taka upp okkar rök í Dollar Strax varðandi verðtrygginguna. Þetta gerir Samfylkingin sem dæmi með því að skipta út Nýr gjaldmiðill fyrir aðild að ESB.

Á ég að trúa því að en finnist fólk sem skilur ekki muninn á

Upptöku gjaldmiðils

Aðild að ESB

?

sandkassi (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 21:46

8 identicon

Í hvaða veruleika lifir fólk sem heldur að það sé hægt að halda áfram að nota þessa krónu? Hvernig verður tilfinningin að búa áfram í íbúð þegar lánið er orðið mun hærra en virði og jafnvel fasteignamati þess? Allt eigið fé sem þurfti að spara til þess að getað keypt húsnæðið fuðrað upp!

Það er ekki hægt að hafa það þannig að lántakandi sé einn um að taka áhættuna.

Dæmi: heimsmarkaðsverð á oliu eða eithvað annað hækkar og þá hækkar verðbólgan og þá hækkar húsnæðislánið - hverslags rugl er þetta?

booboo (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 22:23

9 identicon

Hvenær ætlar xF að fara að berjast fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu? Það heyrist ekkert frá ykkur lengur um þetta mikilvæga málefni!!! Það heyrirst ekkert frá ykkur á Alþingi, hvað er að gerast! Þið eigið að vera að hamast stanslaust á þessu máli, vinna að því að koma veiðum heim í byggðirnar aftur!

Kalli (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 22:41

10 Smámynd: Jón Á Grétarsson

"Seðlabankastjóri talaði um að þjóðfélagið ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna. "

Verðtryggingin þekkist ekki meðal siðaðra þjóða.  Í hvaða öðru landi er verðtrygging?  Veit það einhver?  Verðtryggingin á örugglega eftir að steypa fjölskyldununum og fyrirtækjunum í gjaldþrot fyrr en varir.

Afnemum verðtrygginguna strax !

Jón Á Grétarsson, 7.12.2008 kl. 00:41

11 identicon

Sæll Jón,

Ég er búinn að spyrja nokkra spekinga að því af hverju við getum ekki sett á verðstöðvun rétt eins og neyðarlög um banka og fleira. Ef það væri gert væri engin verbólga á meðan og engin lán myndu hækka umfram þá vexti sem lánin bera. Hvað stendur í veginum fyrir því að gera það. Það er enginn sem hefur svarað þessu til þessa. Eins og þú veist þá byggist verðbólga á verðbreytingum og þeir innlendu þættir sem eru i körfunni sem mælir verðbólgu hreyfast ekki

Benedikt (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 00:42

12 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Nú eru aðstæður til þess að taka þennan flækjudraug úr sambandi sem verðtryggingin er í okkar fjármálaumhverfi, ef ekki nú þá veit ég ekki hvenær.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.12.2008 kl. 00:56

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þúsundir manna á Austurvelli taka kröfuglega undir kröfur FF um afnám verðtryggingar og kvóta.

Sigurður Þórðarson, 7.12.2008 kl. 02:36

14 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það er verðbólgan sem virkar eins og sinueldur, í dag brenna upp eigur þeirra sem skulda, en ef verðtryggingin er afnumin þá breiðist eldurinn út og lífeyrissjóðir og sparnaðurinn brennur upp.

Held að endurskoðun þeirra lána sem fólk tók sé eina leiðin, engin lánveitandi er tilbúin til að gefa eftir meira en sýna ávöxtun að hluta.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 7.12.2008 kl. 11:15

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Íbúðalánasjóður skuldar 625 milljarða verðtryggt, innlendum og erlendum fjárfestum (þ.á.m. lífeyrissjóðum).  Ertu að leggja til að ÍLS hætti að greiða verðbætur á útistandandi lán, þ.e. að þeir efni ekki lánasamninga sína?  Nú spyr ég lögmanninn hvort það stenst skv. almennum samningsrétti og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár?

Ertu bara að tala um að afnema verðtryggingu af nýjum lánum eða líka þeim sem fyrir eru?

Ég held að þetta sé bara lýðskrum, til að slá ryki í augu fólks.  Það er ekki hægt að taka mark á þessu nema að útfærðar konkret tillögur fylgi um nákvæmlega hvernig eigi að gera þetta.  Þá fyrst er eitthvað til að ræða um.  Skora á Jón að leggja þær fram.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 14:37

16 identicon

Ég held að Jón vilji bara bæta hér lífskjörin. Til þess að afnema megi verðtrygginguna þá þarf fyrst að laga efnahagsástandið. Það þarf að ná niður verðbólgunni og síðast þegar að ég vissi þá var Jón með hugmyndir um upptöku nýs gjaldmiðils.

Það er nú rétta leiðin til að ná niður verðbólgu. Síðan má afnema verðtryggingu.

Ég fæ ekki betur séð en að Jón Magnússon sé á réttri leið.

sandkassi (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 14:47

17 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ekki tímabundið heldur strax og að eilífu.

Miðbæjaríhaldið

Las bullið í Mogga frá einum höfunda Ólafslaga.  Sá talaði um Stjórnarskrárvarða ,,Eign"  í þessum samningum.

Hvað með okkur hin, sem þurftum að missa VÍSITÖLUTRYGGÐ LAUN, voru það ekki líka ,,Stjórnarskrárvarin EIGN????????

Bjarni Kjartansson, 7.12.2008 kl. 14:58

18 Smámynd: Kreppa Alkadóttir.

Lesið þetta http://www.agnarfreyr.com/?p=404 Þarna getið þið kynnt ykkur hvernig verðtryggingin virkar og af hverju það er ekki hægt að afnema hana bara einn, tveir og þrír!

þurfa stjórnmálamenn eins og þú ekki að kynna sér málin til hlýtar, hvernig vilt þú fara að þessu?
Finnst það afdala vinnubrögð að kasta fram svona kröfum en hafa engar áætlun um hvernig á að fara að þessari vinnu lýðskrum.is

Kreppa Alkadóttir., 7.12.2008 kl. 15:12

19 identicon

„Þegar þetta er haft í huga má ekki setja í forgang að hugsa um möguleika reiðufólks sem hefur alltaf staðið í skilum en gert sínar fjárfestingar á grundvelli allt annarra skilyrða en nú ´ríkja.“  Segir háttvirtur 10 þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suðurs.

 

Hér er með öðrum orðum lagt til að ráðast á sparifé gamla fólksins og lífeyrisréttinda og brenna það upp. Hvers á það fólk að gjalda sem hefur verið ráðdeildarsamt, ef það á ekki að fá sömu verðmæti til baka sem það lagði inn í banka með örlitlum vöxtum?

Ég held að það þurfi frekar að athuga og gefa gaum vaxtamuninum hjá bönkunum.

 

En það er skiljanlegt að þingmaðurinn telji auðvelt að höfða til atkvæðafylgis þeirra sem skulda mikið núna. Þar er mikið atkvæðafylgi laust og á floti.

 

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 15:16

20 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Verðtryggingin sem slík er ekki alslæm.  Hún tryggir að lánið sem Pétur tekur hjá Páli fylgi raunvirði - fyrir báða.

Við aðstæður eins og nú eru má hins vegar spyrja;  þegar almenningur allur er að tapa sparifénu (í sjóðum og hlutabréfum) og jafnvel eignarhluta sínum í íbúðarhúsnæðinu,  hví ættu þá peningaeigendur/lánveitendur að sleppa betur en aðrir?  Og þá á ég bara við sumir, því venjulegir sparifjáreigendur eru ekki verðtryggðir.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið tilnefndir sem aðalandstæðingar þess að fella niður verðtrygginguna - er þá ekki boltinn hjá þeim?

Kolbrún Hilmars, 7.12.2008 kl. 16:45

21 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég hef alltaf verið andstæðingur "verðtryggingar" alveg frá byrjun þeirrar hugmyndar. Það eina sem hún hefur tryggt er afleit banka og eignastýring því menn hafa haft "örugga" ávöxtun og hirt minna um stöðugleika efnahagslífsin því "verðtryggingin" minnkar ekki verðbólguna heldur tryggir að fjármagnseigendur finni ekki fyrir henni. Maður hélt að bankamenn myndu vita að ef verðbólga færi hér úr böndunum myndi nákvæmlega þetta gerast. Þegar verðfall á eignum rýrnar á móti snarhækkandi höfuðstól skulda þá er grunninum undan "Verðtryggingu" kippt. Það er einmitt þessi höfuðstóll sem getur baktryggt skuldirnar en ekki einhver óútfyllt ávísunarvísitala.Á endanum verður alltaf spurt hvaða eignir liggja að baki fjármagninu. Ef það þýðir að höfuðstóll Íbúðalánasjóðs eru verðfallnar þá er best aðgera eitthvað í málinu núna. Það kemur að skuldardögunum þrátt fyrir "verðtryggingarákvæði" samninga. Það er rétt athugað að við verðum að sjá einhverja áætlun hverning hægt sé að koma lánakerfinu útúr verðtryggingarskrúfunni. Upptaka Evru er eina leiðin í sjónmáli sem þýðir innganga í ESB. En fyrr trúi ég á jólasveininn en að íslenskir stjórnmálamenn velji raunhæfa leið fram yfir reddingar.

Gísli Ingvarsson, 7.12.2008 kl. 18:37

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hvað með okkur hin, sem þurftum að missa VÍSITÖLUTRYGGÐ LAUN, voru það ekki líka ,,Stjórnarskrárvarin EIGN????????

Um hvað er Bjarni að tala?  Þessi spurning gengur ekki upp málfræðilega, hvað þá málefnalega.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 18:56

23 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef lán eiga að vera verðtryggð, af hverju mega laun ekki vera það líka?

Theódór Norðkvist, 7.12.2008 kl. 20:17

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Laun voru vísitölutryggð á tímabili í kring um 1982 og það leiddi til 130% verðbólgu, enda verða þá víxlhækkanir launa og verðlags þar sem hvort bítur í skottið á hinu.

En laun eru til lengdar litið verðtryggð og rúmlega það, það má t.d. skoða þróun launavísitölu í samanburði við vísitölu neysluverðs aftur í tímann til að sjá þróunina.  Vissulega myndast misgengi á köflum, eftir því hvernig árar í þjóðarbúinu: þegar vel árar hækka laun hraðar en verðlag, en öfugt í kreppum.  Ekkert nýtt undir sólinni þar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.12.2008 kl. 20:31

25 identicon

Verðtrygging þarf ekkert að vera. Mjög víða er hún ekki notuð. Við þurfum að fá sterka hagstjórn hér, þá er vel hægt að fella niður verðtrygginguna ef að menn vilja fara þá leið.

Ég er hræddur um að endalausar tilvitnannir í íslenska fjármálasögu hafi lítið vægi nú orðið nema í þá veru að sanna fáránleika þess að notast við gjaldmiðil sem takmörkuð eftirspurn/engin er eftir.

Sagan hefur því ekkert kennt okkur.

sandkassi (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 20:43

26 Smámynd: Jón Magnússon

Kalli þú spyrð hvenær ætlar XF að fara að berjast fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu.  Af því að þú segir að það heyrist ekkert frá okkur á þingi þá er það ekki rétt. Við höfum lagt fram í vetur a.m.k. þrjú mál sem varða fiskveiðistjórnina og kvótann. Eitt um innlaust kvótans  og annað um að farið verði eftir niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um breytingar á fikveiðistjórnarkerfinu svo ég nefni þessi mál í dæmaskyni. Þú getur síðan farið inn á þingvefinn Kalli eða komið til mín og fengið allar upplýsingar um þau þingmál sem við höfum flutt. 

Ég er sammála því að það heyrist ekki nógu mikið í okkur. Það mætti sannarlega vera meira. En ekki saka mig um það þar sem ég hygg að það séu fáir sem fylgja málum fastar eftir á þingi þá sérstaklega um kvótann og verðtrygginguna.  En gjörðu svo vel þú veist hvar mig er að finna og hafðu endilega samband.

Jón Magnússon, 7.12.2008 kl. 23:46

27 Smámynd: Jón Magnússon

Benedikt ég tek undir með þér að það er að sjálfsögðu jafnauðvelt að setja neyðarlög um verðbæturnar og það að þjóðnýta helstu viðskiptabanka landsins.

Jón Magnússon, 7.12.2008 kl. 23:48

28 Smámynd: Jón Magnússon

Vilhjálmur þú getur kallað andstöðu mína við verðtryggingu lýðskrum eða hvað annað sem þú vilt. Ég hef haldið því fram í meir en áratug að verðtrygginguna þyrfti að afnema og fólkið í landinu þyrfti að búa við sambærileg lánakjör og fólk gerir í okkar heimshluta t.d. á Norðurlöndunum. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um það sem hefur verið vel tekið í af ýmsum m.a. viðskiptaráðherra en ekki af Seðlabankanum. 

Ég hef aldrei talað um að þetta yrði gert á einni nóttu. Við búum hins vegar við þær aðstæður í dag að verð á fasteignum fellur mikið en lánin hækka og hækka. Það þýðir að eignir fólks brenna upp og það stefnir í óefni af því að það skapast misvægi á markaðnum milli eigna og skulda. Afleiðingin með sama áframhaldi verður að fólk hættir að borga og þá verða eignir lífeyrissjóða og annarra lánadrottna ekki mikils virði.

Í ástandi eins og nú ríkir er jafnvitlaust að láta verðtrygginguna æða áfram óbundna eins og ætla að vísitölubinda launin. Allir sjá að það gengur ekki. En hitt vísitölubinding lánanna við þessar aðstæður er ekkert gáfulegra. Það leiðir til fjöldagjaldþrota.  

Ég hef alltaf lagt áherslu á að við hefðum gjaldmiðil sem við getum treyst í langtíma og skammtíma viðskiptum líka lánaviðskiptum. Gervigjaldmiðill verðtryggingar leiðir til misvægis sem aldrei er hægt að leiðrétta. Óeðlileg uppsöfnunaráhrif í mikilli verðbólgu eru ekki í samræmi við neinar aðrar hagstærðir eða eignamyndun í þjóðfélaginu.

Jón Magnússon, 7.12.2008 kl. 23:56

29 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Gunnar. Það er ótrúlegt að stjórnvöld skuli ætla sér að leggja af stað eina ferðina enn með flotkrónuna sem hefur kostað okkur svo mikið og gert óprútnum fjárplógsmönnum auðvelt að næla sér í milljarða á kostnað þjóðarinnar.  Það þarf að vinna að því að fá alvörumynt strax. Ég er sammála þér í því þó ég hafi vissar efafsemdir um dollar.

Jón Magnússon, 7.12.2008 kl. 23:58

30 Smámynd: Jón Magnússon

Bjarni minn Kjartansson. Nú erum við sko sammála.

Jón Magnússon, 7.12.2008 kl. 23:58

31 identicon

"Hver er óreiðumaður og hver er ekki óreiðumaður? Hver er skilamaður og hver er vanskilamaður?"

Að þessu er spurt hér ofar. 

Svar: Það verður að miðast við daginn fyrir hrun bankanna og íslensku þjóðarinnar eða þar um bil. En það þarf lika að taka tillit til þess hvort þú hefur yfirleitt verið borgunamaður fyrir þínum lánum til lengri tíma litið.  Þetta er ekki flókið reikinngsdæmi, ef út í það er farið.

Hvað skuldar þú 1 okt  2008??  og hvað hafðir þú í laun, ??? hvað þarftu að lágmarki til framfærslu???. Meira segja hagfræðingarnir  ættu að geta gert það, þó þeir hafi ekki gert það hingað til.   En sennilegast væri það þó marktækari útreikningur ef rétt og slétt húsmóðir framkvæmdi þessa útreikinga.

(IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 00:27

32 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Förum aðeins yfir afleiðingarnar af því að frysta verðtryggingu í eitt ár miðað við 16% verðbólgu á því tímabili.

Eftir því, sem ég kemst næst er þessi aðgerð er talin valda 9% lækkun á eignasafni lífeyrissjóðanna til viðbótar við það tap, sem orðið hefur vegna hruns á verðmæti hlutabréfa þeirra. Það veldur því að í apríl þurfa lífeyrissjóðirnir að lækka greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega um 9% nema hjá lífeyrissjóðum ríkisins og sveitafélaga. Þar þurfa ríkið og sveitafélögin að hækka  mótframjlag sitt í lífeyrissjóði starfsmanna sinna. Þar kemur umtalsverður kostnaður fyrir ríkið og seitafélögin.

Til viðbótar við þetta kemru það, sem ég sagði áðan um tap bæði ríkis og sveitafélaga á tekjuskatti þeirra lífeyrisþega, sem fá lægri greiðslur. Síðan þarf TR að greiða hærri greiðslur í tekjutengdar bætur auk þess, sem sveitafélögin þurfa annað hvort að lækka tekjumörk varðandi afslátt á fasteignagjöldum elli- og örorkulífeyrisþega eða lenda í meira tekjutapi en nú er vegna þeirra liða.

Ríkið mun verða fyrir skattatapi vegna lægri fjármagnstekna eigenda vetðtryggðra bankareikninga.

Þessi aðgerð mun rýra verulega eigið fé nýju bankanna og því þarf ríkissjóður að leggja þeim til mun meira eigin fé en annars. Nú er talið að ríkissjóður þurfi að leggja bönkunnum til um 385 milljarða kr. í eigin fé en ef eignir þeirra eru rýrðar þarf eiginfjárframlag ríkisins að hækka, sem því nemur. Þetta mun þó ekki auka vænt söluverð bankanna þegar þeir verða seldir því þarna er aðeins verið að bæta þeim tap af þessum aðgerðum ef af þeim verður.

Sparisjóðirnir munu líka tapa miklu fé og það gæti jafnvel orðið til þess að einhverjir þeirra verði gjaldþrota. Er e3kki komið nóg af gjaldþrotum bankastofnanna hér á landi? Þeir sparisjóðir, sem þó lifa þetta af munu verða fyrir mikilli lækkun á eigin fé og munu þar af leiðandi vera verr í stakk búnir en ella til að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs á sínu starfssvæði og þar með verður minni stoð í þeim til að eyða því atvinnuleysi, sem stefnir í að verði hér á landi.

Krafan um frystingu verðtryggingar er því í raun krafa um að lífeyrisþegar, skattgreiðendur, eigindur verðtryggðra bankareikninga og stofnfjáreigendur sparisjóða greiði hluta húsnæðislána fyrir lántaka. Þetta er ekkert annað en flutningur á fé úr einum vasa í annan. Ekki held ég að lífeyrisþegar séu með rýmri fjárráð að meðaltali heldur en húsnæðiseigendur. Það er þröngt í búi hjá mörgum þeirra. 

Frysting vísitölu í eitt ár mun lækka greiðslubyrði húsnæðislána minna en greiðslujöfnunarvísitalan, sem þegar er búið að koma á. Hækkun vaxtabóta getur gert mun meira fyrir þá, sem eru í greiðsluerfiðleikum heldur en frysting lána fyrir aðeins brot af þeim kostnaði, sem frystingin kostar. Staðreyndin er nefnilega sú að meginþoirri húsnæðiseigenda ræður við greiðslur lána sinna þó vissulega taki sú hækkun í hjá mörgum þeirra þannig að það þarf að spara eitthvað á móti.

Til viðbótar við þetta mun slík frysting leiða til hærri vaxta á húsnæðislánum í framtíðinni. Það stafar af því að lánveitendur munu taka einn áhættuþátt til viðbótar inn í mat sitt á því hversu háa vexti þeir eigi að krefjast af húsnæðislánum hér á landi. Það er sá áhættuþáttur að við kreppu ákvekði stjórnvöld með lagasetningu að lántakar þurfi ekki að greiða allt lánið eins og um var samið. Jafnvel þó stjórnvöld geri þetta aldrei aftur þá munu væntanlega líða áratugir áður en fagfjárfestar fara almennt að treysta því að þetta verði aldrei gert aftur. Í því efni breytir engu þó við tökum upp Evrur því bæði innlendir og erlendir bankar, sem myndu lána húsnæðislán myndu gera ráð fyrir þeim möguleika að íslensk stjórnvöld hegði sér með þessum hætti á greiðslutíma lánanna.

Þessi hækkun vaxta af húsnæðislánum í framtíðinni mun síðan verða til þess að lækka húsnæðisverð og þar með tapa húseigendur allavega að hluta til ávinningi sínum af lækkun höfustóls lánanna.

Einnig má benda á að sú mikla skuldaaukning ríkissjóðs, sem af þessu hlýst mun leiða til enn meiri  lækkunar á lánshæfismati ríkissjóðs en þegar er orðið, sem síðan lækkar verðmæti íslenskra ríkisskuldabréfa með tapi fyrir eigendur þeirra og einnig mun það gera okkur enn erfiðara en ella að ná okkur upp úr kreppunni því ríkissjóður hefur þá minni möguleika á að setja aukið fé í hagkerfið með auknum framkvæmdum. Í skýrslu IMF í tengslum við lánsumsókn okkar kemur fram að ekkert megi út af bera varðandi fjármál ríkissjóðs ef við Íslendingar eigum að geta greitt þau lán, sem við erum að taka núna.

Þessi krafa um frystingu vegðtrygginga húsnæðislána er því út í hött. Það væri algert glapræði að gera þetta. Þessi krafa er ekkert annað en popúlismi enda er það popúlistaflokkurinn, Frjálsyndi flokkurinn, sem er eini flokkurinn með þetta á stefnuskrá sinni. Ég ætla rétt að vona að minn flokkur, Samfylkingin, fari ekki niður á það plan.

Sigurður M Grétarsson, 8.12.2008 kl. 13:11

33 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þú fyrirgefur Jón, en mér finnst þú slá úr og í.  Þú viðurkennir að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu á einni nóttu en samt segirðu að vísitölutenging "við núverandi aðstæður" sé "ekki gáfuleg".  Það er einmitt við núverandi aðstæður sem reynir á vísitölutrygginguna og hún skiptir raunverulegu máli fyrir lánveitendur (ÍLS, lífeyrissjóði, banka, fjárfesta).  Ef hún er tekin af þegar verðbólgan segir til sín þá mætti alveg eins sleppa henni.

Vandinn er verðbólgan, og ástæðan fyrir verðbólgunni er óstöðugleiki krónunnar og misheppnuð peningamálastefna Seðlabankans.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.12.2008 kl. 15:40

34 Smámynd: Theódór Norðkvist

Annaðhvort þarf að afnema verðtryggingu eða verðtryggja laun líka.

Theódór Norðkvist, 8.12.2008 kl. 16:56

35 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ef við getum tryggt að verðbólga hér á landi næstu 30 ár verði á bilinu 0% til  6% segjum að meðaltali 5,0%  . Þá gætu öll veðlán borið fasta vexti 7,5% og engar meiri verbólgu bætur, næst 30 árin.

Júlíus Björnsson, 8.12.2008 kl. 23:21

36 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Júlíus, hvernig á að tryggja þetta? Ég veit um eina lausn, sem nánast gerir það. Við göngum í Evrópusambandið og tökum upp Evru.

Sigurður M Grétarsson, 9.12.2008 kl. 06:21

37 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sigurður ég vel Dollar Strax að hætti Ekvador. Eftir 10 ár má svo skoða ESB.

Hinsvegar ef sterk stjórn væri við völd gæti hún gert áætlun um að halda  verðbólgu næstu árin yndir 7%. Á þeirri  forsendu væri afar eðlilegt að skipta um lánaform strax. Hætta þessari sundurliðun: færa verðbólguna fram í tímann.

Júlíus Björnsson, 9.12.2008 kl. 14:23

38 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það skiptir ekki máli hvort stjórnvöld geta haldið verðbólgu undir 7%. Það, sem skiptur máli í því sambandi er hvort fagfjárfestar á markaði hafi trú á því að stjórnvöld geti það út lánstíma húsnæðislána. Það eru væntanlega ansi mörg ár í að þeir hafi trú á að íslensk stjórnvöld geti það með íslenska krónu, sem gjaldmiðil sama hver verður við stjórnvölin.

Þar af leiðandi munu raunvextir óverðtryggðra lána vera hærri en verðtryggðra lána vegna áhættumats fagfjárfesta á öryggi óverðtryggðra lána.

Sigurður M Grétarsson, 9.12.2008 kl. 17:03

39 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sigurður, tengist það því nokkuð að afborganir íslenskra íbúðalána eru í Íslenskum krónum sem fagfjárfestar bera saman við gengi alvöru gjaldmiðla: svo Dollars eða Evru?

Júlíus Björnsson, 9.12.2008 kl. 18:29

40 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Að sjálfsögðu gerir það það. Láinveitendur hér á landi hafa verið tilbúnir til að lána óverðtryggð lán með lægri vöxtum í erlendum myntum en þeir hafa veið tilbúnir til að lána í íslenskum krónum. Það stafar af því að þá er verið að lána í stöðugri myntum og gengisáhættan öll á lántaka.

Sigurður M Grétarsson, 10.12.2008 kl. 09:34

41 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sem sagt það er óbeint búið að veðsetja grunn Íslands húsnæði fjölskyldanna.  Hvað fá heimilinn í staðinn? Hverjir hafa matað krókinn á þessum gullfótar skuldabréfum? 

Júlíus Björnsson, 10.12.2008 kl. 12:57

42 identicon

Ég er ánægður með Jón að vera að tala um norska krónu, næst þarf ég að ná honum af ESB lestinni.

Varðandi verðtryggingu lána þá brustu nú forsendur fyrir henni í tilfelli bankana þegar þeir ákváðu að haga sínum rekstri þannig að þeir sjálfir lögðu efnahag landsins í rúst. Þeim sjálfum er því um að kenna.

Verðtryggingin á því engan rétt á sér í dag. Hér er ein gestaþraut fyrir mannskapinn;

Hvað halda menn að þeir sem fá nú bankana upp í skuld muni fá þá með miklum afföllum? Vill einhver giska? ,,,,

Ætli afföllin muni ekki nema verðtryggingu lána og gott betur.

sandkassi (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 13:35

43 Smámynd: Júlíus Björnsson

Til að trygga best verð væri best að selja alla bankanna sem einn banka: T.D. sem Gamli Íslandsbanki. Erlendir alvöru fjárfestar  40% Ríkið 10 % og um 330.000- hlutir til handa Íslendingum. 1 hlutur per einstakling. Innheimtist af Tollstjóra. Ósóttir hlutir ganga til Ríkisins til endursölu.

Júlíus Björnsson, 10.12.2008 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 555
  • Sl. sólarhring: 646
  • Sl. viku: 2941
  • Frá upphafi: 2294492

Annað

  • Innlit í dag: 517
  • Innlit sl. viku: 2684
  • Gestir í dag: 493
  • IP-tölur í dag: 478

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband