Leita í fréttum mbl.is

Skilyrðislaus uppgjöf eða nýir tímar?

Jón Baldvin Hannibalsson segir í grein sem hann nefnir “Skilyrðislaus uppgjöf” að undirritaður hafi loks ratað heim í Sjálfstæðisflokkinn og gleymd sé öll gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn út af gjafakvótanum og annarri kerfislægri spillingu og öðru sem hann rekur með þeim hætti sem aflaði honum slíks fylgis sem formanns Alþýðuflokksins að hann fann þann kost vænstan að Alþýðuflokkurinn yrði lagður í dvala og eingöngu tekin úr múmíuhulstrinu þegar fyrrum foringinn þarf að tala.  

Það er rétt að ég hef verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn þau 18 ár sem ég hef verið utan hans. Ég taldi óráð að krónan yrði látin fljóta og nauðsyn að marka aðra peningamálastefnu. Ég var og er á móti gjafakvótakerfinu og tel forgangsatriði að vextir og lánakjör í landinu verði með sama hætti og í nágrannalöndum okkar svo nokkuð sé talið. Jón Baldvin veltir fyrir sér hvort Jón Magnússon sé að umbuna “íhaldinu” eða hvort aumingjagæska hans sé komin á svo hátt stig að hann telj eðlilegt að rétta fram sáttfúsa hjálparhönd.  Til skýringar fyrir nafna minn  þá er  hvorki um umbun eða aumingjagæsku að ræða.  

Ég met það svo að nýir tímar séu komnir í Sjálfstæðisflokknum. Ný kynslóð og forusta er að taka við. Hún hefur aðrar áherslur og ég vil taka þátt í þeirri vegferð með henni að beina Sjálfstæðisflokknum á þá braut að hann verði á nýjan leik flokkur allra stétta og starfi í þeim anda mannúðlegrar markaðshyggju sem gerði flokkinn að stórum víðsýnum fjöldaflokki.  

Sumir segja að kjósendur hafi gullfiskaminni, slíkt á varla við um Jón Baldvin. Það er  því merkilegt að maðurinn sem barðist harðast fyrir sameiningu vinstri manna, guðfaðir Samfylkingarinnar, þar sem  Alþýðuflokksmenn, Kommar og Konulistinn runnu saman að mestu leyti, skuli ekki muna að hann lagði áherslu á að með slíkri sameiningu næðu vinstri menn að vera stjórnmálaafl sem væri einhvers megnugt í íslenskum stjórnmálum. Með sama hætti greini ég það nú  þegar vinstri menn boða aukna þjóðnýtingu, aukna skattheimtu og upplausn ríkir í þjóðfélaginu,  að þá beri brýna nauðsyn til að við sem hægra megin erum í stjórnmálum sameinumst um að styrkja Sjálfstæðisflokkinn sem brjótvörn frjásrar atvinnustarfsemi, lýðræðis og allsherjarreglu í landinu.

 

Birt í Fréttablaðinu 24.febrúar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja, det er nu det. Ég held nú að Jón Baldvin vilji þér vel, les ekki annað úr skrifum hans. Gaman væri ef þið báðir kæmust á þing eftir kosningarnar.

Loks ertu genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á ný, enda hef ég leynt og ljóst bent þér á það í bloggsvörum mínum hér að þar ættir þú að vera, eins og í gamla daga.

Það á nú eftir að koma í ljós hvernig Sjálfstæðisflokkurinn aktar að loknum kosningum og með nýja menn í forgrunni. Ég á erfitt með að skilja þau ítök sem Davíð á í flokknum og það verður ekki fyrr en þeim kafla líkur að flokkurinn fær tækifæri til að taka upp nýja og betri aðferðafræði, þannig að aftur verði borin virðing fyrir Sjálfstæðisflokknum ,,sem brjótvörn frjálsrar atvinnustarfsemi, lýðræðis og allsherjarreglu" svo notuð séu þín orð.

Vonandi lætur þú að þér kveða á þann hátt að svo geti orðið. Ég vil síður sjá þig stíga sama dans eins og hinir hafa verið að gera allt of lengi.Gangi þér vel í þágu lands og þjóðar!

Nökkvi (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 19:24

2 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Nú hefur þessi gagnrýni verið í báðar áttir.  Jón hefur ekki bara gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnt Jón Magnússon.  Þegar Jón fór að gera sérstaklega út á fordóma gegn innflytjendum fyirr síðustu kosningar kom gagnrýnin á það ekki síst frá Sjálfstæðisflokknum, sem talaði um að Jón væri að fiska í gruggugu vatni þjóðernishyggjunnar.

Jón Kristófer Arnarson, 25.2.2009 kl. 21:06

3 Smámynd: Jón Magnússon

Það er merkilegt Jón Kristófer að halda því fram að ég hafi verið með fordóma gegn innflytjendum.  Það hef ég aldrei verið. Ég varaði við því að of mikið af innflytjendum kæmi hingað á stuttum tíma og rakti hvaða afleiðingar það mundi hafa m.a. tímbundin þensla. Allt hefur það komið í ljós að var rétt. Ég vil benda þér á að ég tók alltaf fram að við værum skuldbundin þeim sem hingað væru komnir og þeir ættu að njóta allra mannréttinda og það mætti ekki mismuna fólki.  Það var snúið út úr því að ég sagði ekki vilja fá hingað öfgaíslamista.

Jón Magnússon, 25.2.2009 kl. 22:47

4 identicon

Já, það var snúið út úr þessu eins og snúið er út úr ýmsum hlutum í pólitískum og spilltum tilgangi.  Man vel eftir þessari umræðu og þessu sem Jón Magnússon sagði og segist hafa sagt, þ.m.t. að það mætti ekki mismuna fólki.  Það er óþolandi ef fólk ber mann rangri sök vegna þess að þeim líkar ekki pólistísk stefna hans, eða gamall flokkur eða nýr flokkur hans. 

EE elle (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 23:01

5 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Þarna voru tvær fullyrðingar hjá mér og báðar réttar.  Hin fyrri var að Jón Magnússon hefði gert sérstaklega út á fordóma í garð innflytjenda fyrir síðustu kosningar og hin síðari að sá flokkur sem gagnrýndi það mest var Sjálfstæðisflokkurinn.

Sættum við okkur við það er okkur sama um að fimmti hver íslendingur árið 2020 tali ekki íslensku? Þekki ekki sögu þjóðarinnar? Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og íslendinga.

Þetta var m.a. það sem Sjálfstæðisflokkurinn taldi vera fiskirí í gruggugu vatni þjóðernishyggju.  Augljóslega er verið að ala þarna á fordómum gegn innflytjendum með tilhæfulausum hræðsluáróðri.  Vel má vera rétt hjá Jóni að það hafi ekki verið meiningin en viðbrögðin létu ekki á sér standa og í kjölfar umrædds pistils, sem þessi málsgrein er úr, jókst fordómafull umræða í þjóðfélaginu gegn þessum hópi, í réttu hlutfalli við vaxandi fylgi Frjálslynda flokkinn fyrst á eftir.

Það má segja Jóni til hróss að hann hefur nú í seinni tíð látið af þessum ljóta leik.  Reyndar talað á stundum þvert á það sem hann lét frá sér fara í aðdraganda síðustu kosninga.  Þá var frjálsa flæðið svokallaða mesta ógn sem íslensk þjóð hafði staðið frammi fyrir.  Nú hefur Jón tekið viðsnúning í þeim efnum og talar jafnvel um aðild að ESB.  Enda auðvitað komið á daginn að það var alvarlegri ógn sem við stóðum frammi fyrir en tímabundin fjölgun erlends verkafólks.

Jón hafði því rangt fyrir sér og er maður að meiru fyrir að hafa áttað sig á því.  En engu að síður og einmitt þess vegna skuldar hann afsökunarbeiðni til þess fjölda fólks sem varð illilega fyrir barðinu á vaxandi fordómum í kjölfar greinarinnar Ísland fyrir Íslendinga og þeirrar fordómafullu og tilhæfulausu umræðu sem spannst í kjölfarið á vettvangi Frjálslynda flokksins

Jón Kristófer Arnarson, 26.2.2009 kl. 08:54

6 identicon

Jón Kristófer, ég virði sjónarmið þitt og sögu að ofan.  Kannski misskildi ég þig fyrst.

EE elle (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 467
  • Frá upphafi: 2291843

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 416
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband