Leita í fréttum mbl.is

Brennuvargur gengur laus

(Flutt á Sögu 15.6. og birt á fréttavefnum  amx.is) 

Mig langar til að segja ykkur sögu sem er í sjálfu sér fáránleg en gæti samt hafa gerst.

Fyrir nokkru var kveikt í húsi við Laugaveginn og það fuðraði upp. Um var að ræða gamalt tréhús þannig að eldsmatur var mikill og það var ekki að sökum að spyrja. Nokkru síðar kviknaði í húsi við Bankastræti og það brann líka til kaldra kola. Daginn eftir kviknaði í húsi í Hafnarstræti og það brann til kaldra kola.

Eldsvoðar í Reykjavík eru næsta fátíðir og þetta var í fyrsta skipti síðan steinsteypuvæðing byggingariðnaðarins byrjaði sem að þvílíkir eldsvoðar höfðu átt sér stað og ollið jafnviðamiklu eignatjóni og um var að ræða. Því að til viðbótar við húsin sem kviknaði í þá eyðulögðust nærliggjandi hús sum að öllu leyti en önnur að hluta. Margir urðu því fyrir verulegu eignatjóni. Sumir misstu aleiguna. Þetta var hörmulegt og borgarstjórnin í Reykjavík kom saman til að ræða þessi alvarlegu tíðindi og með hvaða hætti mætti aðstoða þá sem höfðu orðið fyrir tjóni í þessum hræðilegu eldsvoðum.

Brunamálastofnun, eldvarnaeftirlit og slökkvulið komu að málinu og eftir nokkra rannsókn virtist þessum stofnunum sem eldsvoðarnir stöfuðu af því að það hefði verið kveikt í húsunum. Þá var það líka samdóma álit þessara stofnana að brunavörnum hefði verið áfátt. Ljóst var að eigendur sumra húsanna hefðu ekki gætt þess að fylgja byggingarreglugerð um brunavarnir. Þá kom í ljós að eitt húsið hafði verið á undanþágu þar sem brunamálastofnun hafði vakið athygli á nauðsynlegum úrbótum en ekkert hafði enn verið aðhafst vegna þess að sú stofnun Reykjavíkurborgar sem málið heyrði undir hafði gefið eigendunum heimild til að fresta þeim aðgerðum sem brunamálastofnun hafði talið nauðsynlegt að gripið yrði til hið fyrsta.

brennuvargur

Margir áttu um sárt að binda og höfðu orðið fyrir miklu eignatjóni. Mikil reiði greip því um sig meðal þeirra svo og þeirra sem sáu fram á að þeir mundu þurfa að bera hærri gjöld og líða fyrir það að svo gríðarlegt brunatjón hafði orðið. Reiðin magnaðist og mótmælt var við ráðhúsið dag eftir dag og þess krafist að borgarstjórn segði af sér þar sem hún væri vanhæf fyrir það að hafa heimilað undanþágu í einu tilviki og að öðru leyti ekki gætt þess að hafa nægjanlegan viðbúnað til að tryggja að eldur kviknaði ekki í húsum í Reykjavík. Því var haldið fram að reglur um brunavarnir væru ekki nægjanlega víðtækar og strangar og það væri á ábyrgð borgarstjórnar og þá hefðu borgaryfirvöld heimilað undanþágur sem hefðu orsakað það í einu tilviki að hús brann til grunna og nærliggjandi hús eyðilögðust alveg eða að hluta.

Þá töldu mótmælendur að yfirstjórn slökkviliðsins væri í molum. Ekki hefði verið gætt að því að endurnýja tæki. Það var skýlaus krafa mótmælenda að borgarstjórn færi frá og ný yrði kjörin sem tryggði það að ekki yrðu eldsvoðar aftur í Reykjavík.

Í nokkra stund reyndi borgarstjórinn að andæfa og benti á að eldsvoðinn hefði orðið vegna þess að kveikt var í húsunum en viðurkenndi að betur hefði mátt standa að brunavörnum og eðlilegt væri að herða mjög reglur um eldvarnir og brunamál. Mótmælendur ærðust alveg við þetta og söfnuðust saman daglega og höfðu uppi hróp og köll þannig að ekki var stundarfriður í Ráðhúsinu.

Svo fór að meirihluti borgarstjórnar splundraðist og nýr meirihluti var myndaður. Nýr borgarstjóri var valin kona að nafni Jóhanna, sem þekkt var fyrir að dreifa jólagjöfum á annarra kostnað jafnvel þó að ekki væru jól. Nýi meirihlutinn kom sér saman um að reka yfirmann slökkviliðsins, forstjóra Brunamálastofnunar og forstjóra eldvarnareftirlitsins. Nýi meirihlutinn sagði í samstarfssamningi að þeir sem bæru ábyrgð á þeim hræðilegu eldsvoðum sem hefðu orðið í Reykjavík yrðu að axla ábyrgð og nauðsynlegt væri að leita allra leiða til að koma í veg fyrir svona tjón í framtíðinni og tryggja það að þeir sem bæru ábyrgð á þessu tjóni yrðu látnir sæta ábyrgð.

Rannsóknarnefnd

Sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til að gera stjórnsýsluúttekt á ábyrgð embættismanna borgarinnar í sambandi við eldsvoðana en einnig var nefndinni falið að endurskoða þann lagaramma sem að ætti við varðandi brunarvarnir.

Mótmælendur færðu sig nú um set og mótmæltu við slökkviðstöðina og síðar hjá Brunamálastofnun og loks hjá Eldvarnareftirlitinu.

Slökkviliðsstjórinn var kallaður á fund borgarstjóra og sagðist borgarstjóri krefjast þess að hann segði af sér ásamt varaslökkviliðsstjóra og þeim varðstjórum sem voru á vakt þegar eldur kviknaði í húsunum þrem sem hér ræðir um. Slökkviliðsstjóri maldaði í móinn og sagðist hafa gert allt rétt. Slökkviðliðið hefði gætt þess að hafa nauðsynlegan viðbúnað og væri ágætlega tækjum búið og þá hefði slökkviðliðið verið komið á vettvang stuttu eftir útkall í öllum tilvikum þegar um þá bruna var að ræða sem hér ræðir um. Borgarstjóri sagði þá að margt benti nú til annars og þá hefði slökkviliðið ekki gætt að þeirri sjálfsögðu eftirlitsskyldu sem því bæri að sinna með húsum í miðborginni þegar eldarnir kviknuðu með þeim adrifaríku afleiðingum sem hinn nýi borgarstjóri ræddi í löngu máli við slökkviliðsstjóra að hefði átt sér stað og allt á ábyrgð stlökkviliðsins. Slökkviliðsstjórinn var vanur maður sem hafði marga fjöruna sopið og var ekki tilbúinn til að taka þessum ávirðingum jafnvel þó að borgarstjórinn setti þær fram.

Slökkviliðsstjórinn sagði allar þessar ávirðingar rangar. Hann og slökkviliðið hefðu að öllu leyti farið að reglum og staðið sig mjög vel. Slökkviliðið hefði í raun unnið þrekvirki og náð að koma í veg fyrir að allar fúaspýturnar í miðbænum brynnu til kaldra kola þrátt fyrir að norðaustanbál hefði verið allan tímann sem slökkviliðið barðist við eldinn. Þá sagði slökkviliðsstjóri að slökkviðliðið væri fáliðað og hann hefði ítrekað farið fram á það við borgaryfirvöld að fjölgað yrði í slökkviliðinu og það betur búið tækjum og búnaði. Í lokin sagði slökkviliðsstjóri að borgarstjóri yrði að hafa það hugfast að það sem í raun hefði valdið eldinum væri ekki slökkviliðinu að kenna. Í öllum tilvikum hefði verið kveikt í húsunum. Ljóst væri að hættulegir brennuvargar gengju lausir í borginni og brýnast væri að hafa hendur í hári þeirra. Slökkviliðsstjóri sagði að það væri alveg sama hvaða reglur yrðu settar meðan brennuvargarnir gengju lausir í borginni.

Þessi orðræða slökkviðliðsstjóra virtist ekki hafa önnur áhrif en þau að borgarstjóri æstist til muna titraði og greip um stóran blómavasa og sagði eldrauð bæði í kinnum og á hálsi svo langt sem niður var séð. Á ég að skilja orð þín svo að þú neitir að verða við tilmælum mínum um að segja af þér.

Slökkviliðsstjórinn sagðist ekki mundu segja af sér. Varð síðan fátt um kveðjur og strunsaði slökkviliðsstjórinn eins og kolsvart þrumuský til sín heima og lét ekki af símhringingum fyrr en hann hafði talað við helstu vini sína um þá ruglukolla sem tekið hefðu við stjórn borgarinnar og það óréttlæti sem ætti að sína sér og öðrum yfirmönnum í slökkviliðinu. Daginn eftir ræddi slökkviliðsstjóri við yfirmenn í slökkviliðinu sem voru honum sammála um að best væri að borgarstjórn bæri þá út ef það væri eindreginn vilji borgarstjórnar.

Borgarstjóri boðaði í skyndingu til borgarstjórnarfundar. Hann varð sá lengsti sem sögur fóru af og á endanum samþykkti nýi meirihlutinn að hvað svo sem það kostaði borgina þá skyldu yfirmenn í slökkviliðinu taka pokann sinn þar sem nauðsynlegt væri að fá hæft starfsfólk með sérþekkingu í slökkviliðið.

Fjölmiðlar tóku allir sem einn undir með meirihluta borgarstjórnar um að nauðsyn væri á að hæft fólk tæki við slökkviliðinu. Þá töldu fjölmiðlar að þar með ætti ekki að láta staðar numið heldur þyrftu yfirmenn Brunamálastofnunar og Eldvarnareftirlits líka að taka pokann sinn.

Svo fór eftir nokkuð stapp að slökkviliðsstjóri ásamt helstu yfirmönnum slökkviliðsins voru bornir út úr slökkvistöðinni en þegar til átti að taka fannst ekki slökkviliðsstjóri sem gæti tekið við á stundinni og var því fenginn fyrrum lögreglustjóri frá Lillehammer í Noregi til að taka við slökkviliðinu enda hafði sá getið sér gott orð fyrir frábæra stjórn á lögregluliðinu í Lillehammer þegar vetrar Olympíuleikarnir voru haldnir þar. Tekið var fram að þrátt fyrir að flest hús í Lillehammer væru úr timbri þá hefði engin eldsvoði orðið í Lillehammer þær vikur meðan Olympíuleikarnir stóðu. Raunar var um vetrarleikana að ræða og frostið í Lillehammer var á annan tug stiga alla daganna en það skiptir ekki máli í sjálfu sér því allir vita að eldur getur jú líka kviknað í frosti. Í því sambandi benti borgarstjórinn nýi sérstaklega á að þeir eldsvoðar sem um hafði verið að ræða hefðu jú allir kviknað í norðaustanbáli þegar hitastig var undir frostmarki. Þá var þess getið að uppgjafarlögreglustjórinn frá Lillehammer væri bara ráðinn til bráðabirgða meðan verið væri að leita að hæfum Íslendingi til að taka við starfi slökkviliðsstjóra í Reykjavík.

Mótmælendur ætluðu að ærast úr gleði yfir því að hafa komið fram kröfum sínum og komið því til leiðar að slökkviliðsstjórinn var látinn víkja og gamli löreglustjórinn skyldi vera tekinn við. Á næsta mótmælafundi talaði fundarboðandi um það hvað allt væri nú orðið með öðrum blæ eftir að nýja borgarstjórinn tók við og léti hendur standa fram úr ermum. Meira þyrfti þó að gera þar sem að forstjórar Eldvarnareftirlits og Brunamálastofnunar sætu enn en allir gætu séð að þessir menn væru ekki vanda sínum vaxnir og gætu ekki gegnt störfum áfram þar sem að þessar stofnanir hefðu átt að sjá um að eldvarnir væru í góðu lagi en það hefðu þær ekki verið. Þá hefðu þessar stofnanir gefið út margar yfirlýsingar um að eldvarnir væru í lagi sem síðar hefði komið á daginn að þær væru ekki. Ljóst væri því að yfirmenn þessara stofnana yrðu að fara.

Borgarstjórinn nýi var mótmælendum sammála enda átti hún starf sitt mótmælendunum að þakka. Ekki var eins örðugt að segja upp forstjórum Brunamálastofnunar og Eldvarnareftirlits og því var það gert næsta dag. Þeir mótmæltu að vísu á svipuðum forsendum og slökkviliðsstjórinn hafði gert áður og bentu sérstaklega á það eins og hann að kveikt hefði verið í húsunum sem um ræddi og breyttar reglugerðir, byggingarsamþykktir eða álagspróf breyttu engu um þau tilvik sem um ræðir.

Nýi borgarstjórinn leiður að hlusta á þusið

Nýi borgarstjórinn var nú orðinn næsta leiður á að hlusta á þetta þus og þessar sífelldu endurtekningar um að íkveikja hefði valdið þessum eldsvoðum og sagði þessum góðu forstjórum að vera ekki með þessar málalengingar heldur hypja sig hið fyrsta og hún skyldi tryggja þeim góða starfslokasamninga á kostnað Reykjavíkurborgar. Forstjórarnir sáu að ekki yrðu um þokað og gerðu því hinar ítrustu kröfur sem gengið var að á kostnað borgarbúa. Þeir héldu síðan á braut en störf þeirra voru auglýst laus til umsóknar.

Fjölmiðlafólkið réði sér ekki fyrir kæti og taldi sig hafa unnið sigur á spilltu kerfi óhæfra brunavarða og eftirlitsaðila með brunavörnum. Einráður digri sem stjórnaði víðkunnum spjallþætti um brunamál í sjónvarpi fór síðan mikinn og fékk til sín fjölda spekinga á helstu helgidögum þjóðkirkjunar og þeir bentu allir á með hvaða hætti þeir hefðu séð það fyrir að ógæfan mundi dynja yfir og fjöldi eldsvoða mundi valda óbætanlegu tjóni. Enginn kannaðist þó við að samspjallarar Einráðs digra hefðu nokkru sinni gert sérstakar athugasemdir við brunavarnir áður en eldsvoðarnir urðu. Það skipti í sjálfu sér ekki máli. Þessir spekingar höfðu greinilega vitað þetta allan tímann og þó þeim hefði e.t.v. láðst að gera nokkuð með þetta á sínum tíma þannig að sönnur mætti færa á það þá bentu þeir á að þeir hefðu iðulega rætt um þessi mál við vini sína á síðkvöldum í síma eða í partíum. Einn kallaði konuna sína til vitnis um að hann hefði verið venju fremur órór þær nætur sem að eldsvoðarnir voru og talað um að við hana að eitthvað hræðilegt væri að gerast og ljóst að það hlyti að vera slökkviliðinu að kenna.

Í útimótmælunum hafði komið fram kennarinn Gylfi sem krafðist þess að brunavarnir yrðu efldar með ákveðnum hætti sem hann rakti í löngu máli. Þá gerði hann þá kröfu að þeir sem höfðu orðið fyrir tjóni í eldsvoðunum fengju tjón sitt bætt að fullu. Borgarstjórinn nýi sá að það yrði happafengur að ráða þennan háskólakennara sem aðstoðarmann sinn og gerði það strax næsta dag og fól honum að hafa með þau mál að gera sem snertu eldsvoðana og með hvaða hætti ætti að bæta fólki það tjón sem það hefði orðið fyrir og mundi fyrirsjáanlega verða fyrir. Háskólakennarinn tók við embættinu lítillátur að vanda og sagði það vera mikinn heiður fyrir sig að fá að vera aðstoðarmaður borgarstjóra og hann mundi að sjálfsögðu sjá til þess að allir gætu orðið glaðir aftur þar sem hann hefði þau ráð undir rifi hverju sem hann hefði svo fjálglega talað um á útifundinum þar sem pólitískar ástir tókust með borgarstjóranum og aðstoðarmanninum nýráðna.

Fjölmiðlamenn og mótmælendur réðu sér ekki fyrir kæti. Nú voru hlutirnir komnir í eðlilegan farveg. Fjölmiðlamenn gættu þess nú að spyrja borgarstjóra og aðstoðarmann hans engra leiðinlegra spurninga og létu nægja að borgarstjórinn segði að málin væru í athugun og borgarstjórnarmeirihlutinn væri allur af vilja gerður að taka á málum og koma ábyrgð yfir þá sem bæru ábyrgð á því að stjórnsýslan hefði brugðist í þeim hræðilegum eldsvoðum sem orðið hefðu.

Dvergvaxið ofurmenni mætir

Sem pólitískan meðreiðarsvein hafði borgarstjórinn fengið dvergvaxið ofurmenni, Steingrím, sem hafði haft uppi óp og köll að borgarstjórninni um árabil og talað um nauðsyn þess að verklagi yrði breytt á víðtækan hátt og tekið tillit til sanngjarnra krafna minnihlutans. Dvergvaxna ofurmennið tók nú til við að aðstoða borgarstjórann og þess var ekki lengi að bíða að hann varð mun áhrifameiri en borgarstjórinn. Við allar erfiðar ákvarðanatökur kom dvergvaxna ofurmennið fram og gerði borgurum Reykjavíkur grein fyrir því með áunnum elegans sem honum einum var lagið að hlutirnir væru í raun allt annars eðlis en þeir hefðu verið hjá fyrri valdhöfum jafnvel þó að verið væri að gera það nákvæmlega sama. Þá tók hann einnig sérstaklega fram að jafnvel þó að verklagið í borgarstjórninni hefði ekkert breyst og minnihlutinn væri sniðgenginn mun meira en minni hluti hefði nokkru sinni verið sniðgenginn áður þá væri hér um allt annað að ræða. Fólkið hefði í raun komið að ráðningu núverandi meirihluta sem væri allt annað en um hafi verið að ræða með gamla meiri hlutann og þar sem að nýi meiri hlutinn væri í raun meiri hluti fólksins þá talaði fólkið í gegn um hann og nægjanlegt væri að hann tæki ákvarðanir á grundvelli þess sem fólkið hefði falið honum sérstakt umboð til að framkvæma.

Þegar í sérstakar nauðir rak þá sagði dvergvaxna ofurmennið að hann væri í raun mótfallinn því sem hann væri að gera en hinsvegar bundinn af því sem fyrri meiri hluti hefði verið búinn að gera og því gæti hann ekki annað en gert það sem fyrri meiri hlutinn hefði viljað gera. Þetta sagði dvergvaxna ofurmennið tárfellandi að væru hræðileg örlög en þeim örlögum yrði hann að sæta þar sem að hversu mótfallinn sem hann væri því að gera það sem hann væri að gera þá yrði hann samt að gera það. Í því sambandi tók dvergvaxna ofurmennið fram, en hann bar af öðru fólki fyrir málsnilld og víðtæka þekkingu í ritningunni og fjölmörgum öðrum fagurbókmenntum, að í raun væru örlög hans þau sömu og Páls postula. Postula Jesús Krists þegar hann hefði sagt:

„Vér vitum að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina. Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég. En ef ég nú gjöri einmitt það sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin sem í mér býr.“

Allir viðstaddir viknuðu en fögnuðu síðan gríðarlega þegar dvergvaxna ofurmennið lauk máli sínu með þessari tilvitnun í Rómverjabréf Páls postula og sáu að þar fór sannur spámaður sem ekki voru svik í.

Nokkru síðar komu upp eldsvoðar í borginni með þeim afleiðingum að hús brunnu og eignatjón varð. Það eignatjón varð þó ekki jafn mikið og í fyrri eldsvoðum. Ljóst var að kviknað hafði í þessum húsum af sömu ástæðu og þeim fyrri. Eldur hafði verið borinn að þeim eins og aðstoðarmaður borgarstjórans orðaði það en þar sem hann hafði verið háskólakennari þá notaði hann tungutak sem fólki var almennt framandi og venjulegt fólk hefði sagt að kveikt hefði verið í húsunum eins og átti sér stað þegar húsin brunnu sem ollu öllu uppistandinu. Einhver spurði aðstoðarmanninn hvort hann bæri enga ábyrgð á þessum eldsvoðum en hann sagðist ekki gera það þar sem hann væri nýtekinn við og í raun hefði hann ekkert getað gert þetta hefði allt verið á ábyrgð fyrri borgarstjórnar sem hefði ekki gætt þess að hafa gott slökkvilið eða nægjanlega gott regluverk sem umgjörð um eignir brorgaranna.

Einhver var svo óskammfeilinn að tala um það hvort ekki ætti að bæta fólki eignatjón sem það hefði orðið fyrir eins og aðstoðarmaðurinn hefði talað um að gert yrði á útifundinum þegar pólitískar ástir tókust með honum og nýja borgarstjóranum. Aðstoðarmaðurinn sagði að það hefði verið snúið út úr orðum sínum. Hann hefði í raun ekki sagt það sem hann sagði á útifundinum og þó hann hefði sagt það þá hefði það verið rangtúlkun og útúrsnúningur vegna þess að orð hans hefðu verið rifin úr eðlilegu samhengi og þegar málið væri skoðað í eðlilegu samhengi þá hefði hann í raun sagt allt annað. Síðan setti aðstoðarmaðurinn á langa tölu sem skýrði það nákvæmlega út fyrir fólki hvað það væri sem hann hefði í raun átt við með orðunum á útifundinum sem fólk hafði misskilið svo rækilega þegar það hlustaði á hann þar. Nú skyldi fólkið loks að það hafði ekki bara eignast tvo nýa afburðarmenn í stjórnsýslu borgarinnar heldur þrjá. Nýja borgarstjórann, dvergvaxna ofurmennið og aðstoðarmanninn fyrrum háskólakennarann sem nú hafði á örskömmum tíma lært alla klæki hinna tveggja.

Þetta var næsta ótrúlegt þar sem hann hafði aðeins verið í lýðskrumi í nokkra mánuði á meðan nýi borgarstjórinn og dvergvaxna ofurmennið höfðu haft atvinnu af lýðskrumi allt sitt líf.

Nú gat almenningur sofið rólegur

Nú gat almenningur í borginni sofið öruggur þar sem að ráðvandir, klókir stjórnendur höfðu tekið við. Stjórnmálamenn fólksins. Þeir breyttu að vísu ekki neinu en það skipti ef til vill ekki svo miklu máli þegar að var gáð.

litlastulkanmeðeldspyturnar 

Litla stúlkan með eldspýturnar sat í tröppunum á ráðhúsinu og hugsaði hvað það væri gott að eiga svona góða stjórnendur. Stjórnendur sem allt vissu og kæmust jafnan að hinni einu réttu niðurstöðu. Ég var satt að segja orðin hrædd um að þetta væri mér að kenna sagði litla stúlkan með eldspýturnar af því að ég seldi þeim sem kveiktu í húsunum eldspýturnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Fantafínn piztill.

Steingrímur Helgason, 15.6.2009 kl. 19:16

2 identicon

Góðar dæmisögur eru þeirrar náttúru að varpa skýrara ljósi á það sem okkur vantar skarpa sýn á. Þessi er af því tagi og góð lesning.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 07:55

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Bara ágætt ævintýri Jón. Kannski verður þú bara HoSiAndersen Íslendinga nú þegar þú ert í fríi frá því að hlusta á ofurmennisdverginn og borgarstjórann á öldurshúsinu við Ostervold.

Halldór Jónsson, 16.6.2009 kl. 23:46

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir. Steingrímur, Fimmta valdið og Halldór. Þetta er nú frumraun á óraunveruleikasviðinu Halldór. Óraunveruleikasviði sem er e.t.v. ekki óraunveruleiki heldur raunveruleikinn í óraunveruleikanum. Eins og Steinn Steinar hvað um hringinn.

Jón Magnússon, 17.6.2009 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 876
  • Frá upphafi: 2291642

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 774
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband