Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

Er frostlögur í tannkreminu þínu?

Tannkrem er nauðsynlegt til tannhirðu. Colgate tannkrem hefur mesta markaðshlutdeild hér á landi og viðurkennd gæðavara.

Framleiðendur Colgate tannkrems er annt um orðstí sinn. Þess vegna skiptir máli að gæði framleiðslunnar séu ótvíræð.  Það er hagsmunamál framleiðenda neysluvara að enginn vafi leiki á gæðum vörunnar. Annars hrynur salan.

Undanfarið hafa landsmenn verið uppteknir við að ræða um gallaða sílikonpúða og iðnaðarsalt sem notað hefur verið við matvælaframleiðslu. Fyrir nokkru var líka vakin athygli á að áburður sem hefði verið notaður hér innihéldi meira af ákveðnum eiturefnum en heimilt væri.

Nú hefur komið í ljós að tannkrem sem merkt er sem Colgate og framleitt í Suður Afríku, er ólöglegt og getur verið hættulegt. Í tannkreminu er m.a. frostlögur. 

Þegar svona gerist gagnrýna menn eftirlitsaðila, sem fólk telur að eigi að tryggja öryggi sitt. Slíkt allsherjar öryggi er ekki til og getur ekki orðið til. Kaupmaðurinn sem selur vörur og framleiðendur verða að gæta að því hvers konar vörur þeir eru að selja og hvers konar efni eru notuð til framleiðslunnar.  Ábyrgðin er þeirra og verður ekki frá þeim tekin. Neytendur verða alltaf að vera á verði og skoða vel hvað það er sem við kaupum.

Merkjavörur eru ekki endilega tryggingað fyrir gæðum vöru. Merkið getur verið falsað.

Myndbandið hér á eftir sýnir hvað kaupmenn gera í Bandaríkjunum þegar svona kemur upp. 

http://www.youtube.com/watch?v=MMPvHb68aNo


Þórólfur hér og Þórólfur þar

Nóbelsskáldið hitti naglann á höfuðið þegar hann lýsti umræðuhefð  íslendinga.

Það er nöturlegt að fylgjast með því hvað sumir hagsmunaaðilar, talsmenn bændasamtakanna þessa daganna, hafa takmarkaða þekkingu á mál- og skoðanafrelsi.

Þórólfur Matthíasson prófessor hefur í nokkrum greinum vakið athygli á styrkjum til sauðfjárræktar og segir upplýsingar sínar komnar frá Bændasamtökunum. Talsmenn bænda hafa hreytt fúkyrðum í Þórólf og reitt til höggs gegn starfsfélögum hans, en ekki sýnt fram á að Þórólfur fari nokkursstaðar með rangt mál.  Þetta geta tæpast talist ásættanleg vinnubrögð í lýðræðisþjóðfélagi.

Hvort sem okkur likar betur eða verr þá er sauðakjöt dýrt í framleiðslu. Framleiðslan er óhagkvæm og dýr. Flest sauðfjárbú eru of lítil. Ríkisstyrkir eru of miklir. Verð til neytenda er of hátt. Bændur hafa ekki viðunandi kjör. Er þetta ekki mergur málsins?

Viðfangsefnið er þá, hvernig verður komið á betri framleiðsluháttum sem stuðla að hagkvæmni, betri afkomu, lækkuðu vöruverði og minni styrkja. Af hverju ekki að ræða þetta í alvöru. Bændur eiga ekki lögvarinn rétt til þess að skattgreiðendur borgi endalaust framleiðslustyrki.

Ég vorkenni Þórólfi Matthíassyni að vera í þessari orrahríð. Fyrir 30 árum skrifaði ég framsækna grein í Morgunblaðið, þar sem sagði m.a. "Búum þarf að fækka og þau þurfa að stækka."  Talsmenn bændasamtakanna á þeim tíma ærðust  og ég stóð í  látlausum ritdeilum  við hvern tindátann úr Bændahöllinni  á fætur öðrum. Þeir voru sendir fram með skipulegum hætti. 

Þessi orð voru rétt eins og komið hefur á daginn. Með sama hætti sýnist mér að Þórólfur Matthíasson prófessor hafi rökin sín megin i málflutningi sínum um sauðfjárbúskapinn.

Talsmenn bænda eiga því að taka á málflutningi Þórólfs af karlmennsku ef þeir telja hann rangan og sýna fram á það með rökum í stað þess að fara í lúalegt stríð gegn einstaklingi sem setur fram skoðun.


Níðst á neytendum

Neytendum á Íslandi er bannað að gera hagkvæm innkaup vegna löglausra stjórnvaldstilskipana.  Það þýðir hærra verð á mat og hækkar verðtryggð húsnæðislán. Jóni Bjarnasyni ráðherra er alveg sama um það vegna þess að hann er staðráðinn í að standa vörð um hagsmuni hina fáu á kostnað almennings.

Meðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lætur ráðherrann fara sínu fram þá ber öll ríkisstjórnin ábyrgð á árás Jóns Bjarnasonar á neytendur og lífskjörin í landinu. Ríkisstjórnin ber líka öll ábyrgð á því að ekki skuli farið að lögum en valdheimildum sem Umboðsmaður Alþingis segir að standist ekki lög skuli beitt gegn hagsmunum fólksins í landinu.

Brýnasta hagsmunamál fólks er að brugðist sé við hækkandi verðbólgu. Það verður m.a. gert með viðskiptafrelsi þannig að fólk geti keypt ódýrt. Það verður líka m.a.gert með því að ríkisstjórnin aflétti órétmætum neyslusköttum. 

Af hverju stendur Norræna velferðarstjórnin ekki með neytendum?  Er það Norræn velferðarstjórn sem stendur með framleiðendum og fjármagnseigendum á kostnað neytenda? 

Á hinum Norðurlöndunum standa stjórnvöld vörð um hagsmuni neytenda. Hér níðast stjórnvöld á neytendum. 

 


Heillastjarna Halldórs Ásgrímssonar

Heillastjarna Halldórs Ásgrímssonar svíkur hann ekki þessa daganna.

Fyrir nokkrum dögum síðan gjaf Landsbankinn honum og fjölskyldu hans milljarða með því að fella niður milljarðaskuldir fyrirtækis þeirra.  Það vakti sérstaka athygli við þessa gjöf til Halldórs að ASÍ forustan hafði ekkert við hana að athuga og hvorki sú forusta né bankarnir töldu að þessi rausnarlega gjöf til Halldórs og fjölskyldu skipti þjóðhagslega nokkru máli.  Þar gegnir raunar öðru máli en með 20 milljón króna skuld Valdimars Viðarssonar verkamanns sem verður ásamt fjölskyldu sinni sviptur eignum sínum og íverustað enda gæti skuldaniðurfelling hjá honum riðið hagkerfinu á slig og eyðilagt grundvöll og stöðu lífeyrissjóðanna.

Í gær var Halldór endurráðinn sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs án þess að hafa nokkra þá kosti sem mæla með honum til áframhaldandi starfa þar að einum undanskildum, sem hefur þó almennt ekki nema neikvæð áhrif við starfsráðningar.

Óneitanlega var það athygliverð stund að sjá Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Norðurlandaráðsráðherra, trítla upp í ræðustól á Alþingi og afneita allri ábyrgð á endurráðningu Halldórs þó að hún geti engum öðrum um kennt, ekki einu sinni starfsfólki Alþingis. Katrín ber nefnilega fulla ábyrgð á endurráðningu Halldórs. Hún hafði með málið að gera og hún ber ábyrgðina.

Heillastjarna Halldórs bregst  ekki hvað sem á dynur. Maðurinn sem kom á kvótakerfinu, laug að þjóðinni um staðfestu við að stunda hvalveiðar á sama tíma og hann samþykkti að hætta þeim. Var svo dáðríkur stjórnmálamaður að Framsóknarflokkurinn nánast þurkaðist út þegar hann gafst upp sem formaður eftir snautlegustu dvöl í forsætisráðuneytinu sem nokkur maður hefur hingað til átt þar. 

Nú fær Halldór endurráðningu frá ríkinu á vettvangi Norðurlanda og tvo milljarða til viðbótar frá vinstri stjórninni sem kennir sig við jafnaðarmennsku þó hann hafi aldrei verið til þurftar flokki sínum og þjóð. 


Neytendur gúrkur og grænmeti

Grænmetisframleiðendur héldu kröfugerðarfund við Alþingishúsið um daginn. Þeir vilja að rafmagnsverð til þeirra verði lækkað. Í sjálfu sér ágætt mál nema að því leyti að þá hækkar rafmagnsreikningurinn hjá okkur hinum. Landbúnaðarráðherra mælti með því enda skóflupakkið eins og Höskuldur vinur minn Höskuldsson nefnir meðgjafarlausa íslendinga ekki of gott til að borga.

Flest viljum við borða íslenskt og auka íslenska framleiðslu. Vörurnar verða þá að vera samkeppnisfærar.  Í búðinni áðan sá ég verð  á hollenskum tómötum kr. 239 kr. kg en íslenska kr. 399 eða 160 kr. dýrara kíló af íslenskum. Ég sá líka að íslenskar gúrkur voru mun dýrari en gúrkur frá Spáni. Hvað þá með blómin og kálið?

Hátt verð hækkar vísitölubundnu lánin. Gengi krónunnar er óeðlilega lágt og þá eiga íslenskir framleiðendur að geta boðið neytendum jafndýrar eða ódýrari vörur en þær erlendu.  Annars verður þessi framleiðsla of dýr fyrir okkur.  Í fyrsta lagi að borga hærra verð fyrir vöruna. Í öðru lagi að borga hærra verð fyrir rafmagnið. Í  þriðja lagi að borga af hærri verðtryggðum lánum.


Er forseta Íslands allt leyfilegt?

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson er um margt góður og verðugur þjóðarleiðtogi. Miklu skiptir að forsetaembættið njóti virðingar og á það falli ekki skuggi. Þess vegna hafa samskipti forsetans við ákveðna einstaklinga orkað tvímælis.  Forsetinn er ekki prívatpersóna og verður því að neita sér um ýmislegt vegna virðingar embættisins og hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Mér brá því nokkuð þegar ég sá í dag  forsíðufrétt í Fréttablaðinu með mynd af þeim Dorrit Moussaieff og Mörthu Stewart þar sem sagt er frá því að "bandaríski lífstílsfrömuðurinn Martha Stewart" sé stödd hér á landi og hafi snætt humar með forsetahjónunum á veitingastað á Eyrarbakka í gærkvöldi. 

Martha StewartMartha Stewart var dæmd í fimm mánaða fangelsi árið 2004 fyrir að ljúga að yfirvöldum varðandi viðskipti fyrirtækis síns og innherjaviðskipti. Af þeim sökum fékk hún ekki að koma til Bretlands að sögn breska blaðsins Daily Telegraph. Hægt er að komast inn á fréttina hér. 

Mér finnst ólíklegt að nokkur annar þjóðhöfðingi í norðanverðri Evrópu hefði tekið á móti Mörthu Stewart og boðið henni út að borða. 

Er það viðeigandi að forseti Íslands geri það? 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 91
  • Sl. viku: 1707
  • Frá upphafi: 2296267

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1580
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband