Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Boðað til þingrofs

Upplýst hefur verið að nokkrir stjórnmálamenn þ.á.m. ráðherrar eigi og/eða hafi átt reikninga í aflandsfélögum staðsettum í skattaskjólum eins og Tortóla. Fjarri fer því að þáttaka þessa fólks í Hrunadansinum sem náði hámarki í lok árs 2008 sé því til álitsauka.

Þetta fólk býr ekki við þann raunveruleika sem meginhluti íslensku þjóðarinnar býr við. Einn ráðherra Framsóknarflokksins orðaði það enda svo að það væri erfitt að eiga peninga á Íslandi. Hingað til hefur meginþorri þjóðarinnar talið það vera öllu erfiðara að eiga ekki peninga á Íslandi.

Í framhaldi af upplýsingum um eignarráð forustufólks í stjórnmálum og/eða umgengni við reikninga á Tortóla hófst hefðbundin lögfræðileg vörn alþingismannsins Brynjars Níelssonar undir vígorðinu "Þau brutu ekki lög".

En pólitík snýst ekki fyrst og fremst um það hvort stjórnmálamaður brýtur lög heldur hvort hann eða hún er verðug trausts.

Í því sambandi má spyrja af hverju þurfti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að segja af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hafði hún brotið einhver lög? Fjarri fór því. Samt var hún knúin til að segja af sér sem varaformaður. Gilda önnur lögmál fyrir þá ráðamenn sem nú hafa komið fram sem þáttakendur í Hrunadansinum?

Þegar neyðin er stærst er hjálpin stundum næst. Stjórnarandstaðan lætur hjá líða að bregðast málefnalega við þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir um Tortóla og annarra skattaskjóls ævintýra nokkurra forustumanna í pólitík og telur að það sem helst megi verða til varnar vorum sóma að þing verði rofið. Af hverju. Brutu þingmenn almennt af sér? Er ekki vandinn einstaklingsbundinn og á þá ekki að taka á því. Skiptir þá ekki máli að þeir sem bera ábyrgð verði látnir sæta ábyrgð en ekki einhverjir sem hafa ekkert með málið að gera?

Sjálfskipaður eða skipaður hvort sem er Foringi Pírata Birgitta Jónsdóttir segir "þess vegna datt okkur í hug að boða til þingrofs" Allir forustumenn stjórnarandstöðunar taka undir með Birgittu og segjast ætla að boða til þingrofs.

Boða hvað? Hefur stjórnarandstaðan eitthvað með þingrof að gera? Samkvæmt 24.gr. stjórnarskrárinnar getur forseti rofið Alþingi. Samkvæmt 13.gr. stjórnarskrárinnar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt. Þingrofsrétturinn er því í raun í höndum forsætisráðherra. Það er því afglapalegt þegar stjórnarandstaðan bregst þannig við upplýsingum um Hrunadans einstakra ráðamanna að hún ætli að boða til þingrofs, sem henni kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera.

Stjórnarandstaðan getur hins vegar lagt fram vantraust á ríkisstjórn og/eða einstaka ráðherra. Það gæti verið málefnalegt ef tilefni er til. Samt sem áður ber að varast  að hrapa að ákvörðunum hvað það varðar og leita allra upplýsinga um mál áður en ýtt er úr vör til mikilvægra aðgerða.

Vanhæfni stjórnarandsstöðunnar er eitt. Þáttaka einstaklinga í áhrifastöðum í Hrunadansinum fyrr og síðar er svo annað.

Því miður leiðir hvorttveggja til enn minnkandi trausts almennings á forustufólki íslenskra stjórnmála.  


Þetta er ekki okkur að kenna

Í grein sem blaðamaðurinn og rithöfundurinn Douglas Murray skrifaði fyrir nokkru bendir hann á nauðsyn þess að við hættum að bullukollast með það í framhaldi af hverri hryðjuverkaárás Íslamista, hvað við höfum gert rangt. Dæmi um slíkar ritsmíðar hér á landi eru t.d. skrif Styrmis Gunnarssonar í Mbl á laugardaginn og skrif Egils Helgasonar á bloggsíðu sinni.

Í grein Murrays segir hann m.a.

"Hvað þurfum við oft að biðjast afsökunar áður en við horfumst í augu við staðreyndir. Hvað þurfum við að fara í gegn um margar ruglumræður. Af hverju spyrjum við í Vestrinu allra vitlausu spurninganna í hvert skipti sem Íslamistar fremja hryðjuverk, spurningar sem allar eru mótaðar af sömu rökleysunni um að þetta sé með einhverjum hætti okkur að kenna.

Því miður er alltaf fólk sem er viljugt til að villa um fyrir okkur. Fyrir utan Bhutan er Belgía það land í veröldinni sem hlutast minnst til um málefni annarra ríkja (þá fann fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins tilefni til að víkja til aðgerða í Belgíska Kongó á næstliðinni öld svo vitlaust sem það nú var)

Aðrir segja að hryðjuverkamenn sprengi upp lestir, fremji fjöldamorð með því að skjóta fólk niður á kaffihúsum vegna þess að þeir njóti ekki borgaralegra réttinda,séu útskúfaðir og hafi fá atvinnutækifæri. Þetta er einkar athyglisverð röksemd þegar það er haft í huga að það er met atvinnuleysi í Suður Evrópu einmitt núna og engin borg hefur fengið heimsókn af atvinnulausum ítölskum kaþólikka með sjálfsmorðssprengjuvesti. Þetta snýst um fátækt segir sjálfsásökunarfólkið. Samt sem áður þá hefur engin frá fátækustu hlutum Glasgow framkvæmt jafn órökrétta aðgerði og hryðjuverkamenn Íslamista gera.

Ef við gætum bara fundið þeim betri staði til að búa á þá mundi þeim ganga betur að aðlagast segir sjálfsásökunarfólkið. Hvílík firra.  Fyrr í þessum mánuði var ég í Hollandi og heimsótti múslimahverfi m.a. það sem Mohamed Bouyeri bjó í þegar hann myrti Theo van Gogh 2004 fyrir að gera kvikmynd sem gagnrýndi Íslam. Þessi litla Marokkó var ekki Mayfair, en samt miklu huggulegri en flest hverfi í Bretlandi. Við erum orðin gjörsamlega galin ef við kennum ófullnægjandi félagslegu húsnæði um fjöldamorð á samborgurum okkar.

Síðan er því haldið fram að við höfum ekki gert nóg til að aðlaga fólk. En hópar innflytjenda vilja nánast alltaf búa saman. Sumir múslimar í Bretlandi vilja búa í eigin þjóðfélagi með eigið kerfi og eigin lög og venjur. Ef til vill vilja þeir ekki búa með okkur af því að við erum rasistar- er lokaröksemd sjálfásökunarfólksins. En staðreyndin er nú semt sú að því er öfugt farið það erum ekki við sem erum rasistarnir.

Skotlandsmálaráðherra Breta Nicola Sturgeon sagði að hryðjuverkin í Brussel hefðu ekkert með Íslam að gera og fór síðan að stærstu Moskunni í Glasgow þar sem hún flutti hefðbundna ræðu og fordæmdi kreddur og fordóma og var með því að vísa til "Íslamophóbíu". ' Í gær var síðan Imaminn í þessari sömu Mosku í fréttum. Afhverju? Af því að hann lofaði Íslamskan hryðjuverkamann Mumtaz Qadri sem var hengdur í síðasta mánuði í Pakistan fyrir að myrða Salman Taseer- fylkisstjóra, sem var andstæðingur laga um guðlast. Immaminn í Glasgow sagði m.a.

""Ég get ekki leynt sársauka mínum í dag. Sönnum Múslima var refsað fyrir að gera það sem þjóðfélagið hefði átt að gera"".

Vissi Skotlandsmálaráðherrann um þessa róttæku afstöðu Immamsins. Vissulega ekki. En eins og flest stjórnmálafólk og fjölmiðlafólk þá skortir hana þekkingu til spyrja réttu spurninganna og það sem er enn þá meira ófyrirgefanlegt- svo virðist sem hun vilji ekki vita þetta.  Vegna þess að ef hún og aðrir í hópi sjálfsásökunarfólksins mundu spyrja réttu spurninganna þá gætu þau fengið svör sem þau kæra sig ekki um.

Svo furðulegt sem það nú er þá er Íslömsk öfgastefna til orðin vegna Íslamskrar öfgastefnu. Eins og Frakkland, Belgía og mörg önnur þjóðfélög hafa nú fengið að kynnast, þeim mun fjölmennari sem  Múslimar eru þeim mun meiri vandi vegna Íslamskrar öfgastefnu. Ekki vegna þess að flestir múslimar séu hryðjuverkafólk. Augljóslega ekki. En vegna þess að lítill minnihluti verður hlutfallslega stærri eftir því sem samfélagið er fjölmennara. Það sem skiptir máli er fjöldinn, möguleiki til að felast og hvers konar tegund af Íslam er um að ræða.

Þetta veldur hræðilegu vandamáli í Evrópu sem við verðum einhvern tímann að horfast í augu við. En í millitíðinni er miklu þægilegra að kenna um, eina fólkinu sem við erum að blekkja. Okkur sjálfum"


Gleðilega upprisuhátíð

Gleðilega upprisuhátíð.

Í Hebreabréfinu 12.2-3. segir:

 

"Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnunar trúarinnar. Vegna gleði þeirrar er beið hans, leið hann þolinmóður á krossi, mat smán einskis og hefur nú sest til hægri handar hásæti Guðs. Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast."

Guð gefi ykkur öllum góðan dag og gleðilega upprisuhátíð.


Kristni-Fordómar-Fjölmenning-Einmenning

Upprisuhátíðin fer í hönd og í tilefni þess setti vinsæll verslunareigandi,Asad Shah,sem er múslimi 40 ára að aldri og fæddur í Pakistan, eftirfarandi kveðju frá sér á Feisbók.

"Til minnar elskuðu kristnu þjóðar

Föstudagurinn langi og gleðilega upprisuhátíð til minnar elskuðu kristnu þjóðar. Við skulum feta í raunveruleg fótspor okkar elskaða heilaga Jesús Krists og njóta velgengni í báðum heimum."

(Good Friday and a very Happy Easter, to my beloved Christian nation. Let´s follow the real footstep of beloved holy Jesus Christ and get the real success in both world)

Þessi ummæli voru umfram það sem íslamistarnir gátu þolað.  Ráðist var á Asad Shah og hann drepinn með því að troða á og sparka í höfuð hans.

Íslamistarnir þola ekki fjölmenningu. Þeir þola ekki að það sé talað vel eða hlýlega um kristni og kristið fólk, eða Búddatrúar, Hindúa o.s.frv.

Menning Íslamistanna er ekki fjölmenning. Hún er einmenning. Undansláttarfólkið sem myndar fimmtu herdeildina innan borgarmúra kristinna samfélaga og ver Íslamistanna með fjölbreyttum hætti, ætti að gaumgæfa það.  

 


Eru blondínur ekki heimskar eftir allt saman?

Blondínur eru alls ekki heimskar eins og haldið hefur verið fram og sagt er frá í óteljandi skrýtlum. Skv könnun sem birt var í blaðinu Economics Bulletin kemur fram að blondínur mældust með hæstu greindavísitöluna þegar mælt var eftir  háralit. Blondínur voru líka oftar í hærra settum störfum en konur með annan háralit.

Sama gildir um karlmenn. Ljóshærði karlmaðurinn kom heldur betur út í könnuninni gáfnalega en við sem höfum annan háralit.

Þegar könnunin er skoðuð betur sést raunar að sáralítill munur er á gáfnafari fólks eftir háralit og munurinn innan skekkjumarka. Gildi könnunaninnar er því takmarkað umfram það að hrekja þá vitleysu að ljóshærðar konur eða karlar séu miður gefin andlega en þeir sem hafa annan háralit.

Það verður greinilega að endurskoða ljóskubrandarana.

 


Móðgun við bandalagsríki

Eftir að hafa hlustað á kvöldfréttir RÚV í gær þá var mér meira en nóg boðið. Ríkis fréttastofan á Íslandi kallar ríkisstjórnir fjögurra bandalagsríkja okkar í EES og NATO, öfga- og fasistastjórnir. Við skulum vona að fólk erlendis sé eins og hér almennt hætt að taka mark á fréttaflutningi RÚV.

Stjórnmálaflokkurinn AfD (Alternativ für Deutschland)sem vann afgerandi kosningasigur í Þýskalandi í gær er kallaður öfgaflokkur af fréttastofu RÚV.

Ég kynnti mér hvernig fréttamiðlar í okkar heimshluta skýra frá þessum hlutum. Af virtum dagblöðum og fréttamiðlum á Norðurlöndunum, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum er hvergi að finna að AfD sé kallaður öfgaflokkur. Þá er hvergi að finna að þessir fréttamiðlar leyfi sér að kalla ríkisstjórnir Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands öfgafullar fasistastjórnir eins og RÚV gerir.

Hvað AfD varðar þá eru þeir í fréttum dagsins kallaðir "hægri pópúlistar", flokkur á móti innflytjendastefnu Merkel, "langt til hægri" Í vinstra blaðinu Politiken eru þeir kallaðir "fremedfjendsk parti, islam og invandringskritiske" en í öðrum virtum fréttamiðlum á Norðurlöndum eru þeir kallaðir hægri pópúlistar. Hvergi kemur fyrir orðið öfgar eða "extremism" Ég kannaði ekki skúmaskotafjölmiðla kommúnista eða þeirra líka en e.t.v. er þar að finna sama fréttamat og hjá RÚV.

Stjórnendur RÚV verða að átta sig á að þeir bera ábyrgð á fréttaflutningi stofnunarinnar. Fréttir eiga að hvera hlutlægar og sannar. Fréttamaðurinn sem ber ábyrgð á fréttinni um fasísku öfgastjórnirnar í Póllandi, Slóvakíu, Tékklandi og Ungverjalandi er ekki starfi sínu vaxinn og það er stjórnandi fréttaútsendingarinnar ekki heldur.

Hvað svo með að móðga fjórar lýðræðisþjóðir bandalagsþjóðir Íslands. Er það bara allt í lagi að bullukollast með stjórnarfar í þeim löndum eins og fréttamenn RÚV og stertimennið Eiríkur Bergman gerðu í gærkvöldi. Varðar það engum viðurlögum innan RÚV eða eiganda þess,að standa sig ekki í starfi og segja hlustendum ósatt eða hagræða sannleikanum í fréttatímum?


Öfgaflokkar við völd

Í dag fara fram kosningar í nokkrum sambandsríkjum Þýskalands. Viðbúið þykir að sigurvegari kosninganna verði flokkur sem er andsnúinn innflytjendastefnu Angelu Merkel. Af því tilefni mátti sjá einstæðan fréttaflutning í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld., sem birti þá frétt í seinni hluta fréttatímans en aðra óviðkomandi fréttaskýringu fyrr í fréttatímanum

Önnur frétt Rúv í kvöld,sem var frekar fréttaskýring en frétt, var að öfgaflokkar væru við völd víða í Evrópu og þeir væru að sækja í sig veðrið. Fréttastofan fékk hefðbundinn viðmælanda vinstri "öfga"? manninn Eirík Bergman kennara til að uppfræða þjóðina um að nú væri um afturhvarf til fasískari stjórnarhátta að ræða víða í Evrópu.

Mat fréttastofu RÚV á því hvar fasísku öfgaflokkarnir eru við völd er í Póllandi, Slóvakíu, Tékklandi og Ungverjalandi.

Hvað er öfgaflokkur? Fróðlegt væri, að fréttastofa RÚV skýrði hvað felst í því heiti. Það væri líka einkar fróðlegt að Eiríkur Bergman útskýrði í hverju þeir fasísku stjórnarhættir felast sem eru í gangi að hans mati í ríkjunum fjórum a.m.k.

Svo virðist að allir sem eru á móti opnum landamærum séu hægri öfgafólk og fasistar miðað við skilgreiningu fréttastofu RÚV. Sú skilgreining er ekki notuð nema af fréttamiðlum í Evrópu sem þykja vera yst á vinstri kantinum í pólitík. Ætti e.t.v.að tala um öfgar í því sambandi? Já og öfgafréttastofu RÚV? Væri það við hæfi? 


Frjálslyndu fasistarnir

"Frjálslyndu fasistarnir" sem ég kýs aða kalla svo eru langt frá því að vera frjálslyndir, en telja sig vera það öðrum fremur. Þau eru til vinstri í pólitík skv. hefðbundinni skilgreiningu. Þetta fólk er sannfært um ágæti eigin skoðana og þolir illa að því sé andmælt. Það telur sig hafa rétt á að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu ef hún er þeim ekki að skapi

Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur fólks hefur í frammi háreysti, köll eða önnur ólæti sem koma í veg fyrir að annar einstaklingur geti tjáð sig þá er það atlaga að tjáningarfrelsinu. Ekki skiptir máli hvort viðkomandi finnst skoðanir þess sem árás er gerð á óþolandi, rangar eða meiðandi.

Í nótt kom hópur fólks í veg fyrir að Donald Trump gæti tjáð sig. Það var atlaga að tjáningarfrelsinu hornsteini lýðræðislegs samfélags, óháð því hvað fólki finnst um skoðanir Trump.

Trump hefur sett fram digurbarkalegar yfirlýsingar, sem oft hafa verið meiðandi. Hann hefur samt rétt til að setja þær skoðanir fram. Það er löglegra yfirvalda að gera ráðstafanir til að gera hann ábyrgan orða sinna, fari hann yfir mörk eðlilegrar tjáningar í lýðræðisríki. Það skiptir frjálslyndu fasistana, sem gera atlögu að tjáningarfrelsinu engu máli.

Í Evrópu reyna frjálslyndu fasistarnir ítrekað oft með miklu ofbeldi og líkamsmeiðingum að koma í veg fyrir að ákveðnar skoðanir fái að heyrast. Þau sækja að öllum sem mótmæla stefnu um opin landamæri og krefjast þess að innflytjendur aðlagist þeim þjóðfélögum sem þeir búa í. Þessir frjálslyndu fasistar, sem fara hamförum gegn ofbeldi í orði eru þeir sem oftast beita því eða hóta að gera það í raunveruleikanum sbr. höfund "Illsku", Eirík Örn Norðdahl.

Frjálslyndu fasistarnir eru nánast þeir einu í Evrópu og Norður Ameríku, sem fara fram með ofbeldi til að koma í veg fyrir að pólitískir andstæðingar þeirra fái að tjá sig eða hafa í frammi friðsöm mótmæli. 

Í því sambandi er athyglisvert að þeir hópar sem fjölmiðlar og vinstri háskólaelítan kallar "hægri öfgamenn", "þjóðernisofstækissinna" eða "pópúlista", sem séu hættulegir lýðræðinu gera sig almennt ekki seka um að leysa upp eða koma í veg fyrir eðlilega umræðu andstæðinga sinna í þróuðum lýðræðisríkjum. Það eru frjálslyndu fasistarnir sem sama fjölmiðlafólk og háskólaelíta kallar "aðgerðarsinna" já jafnvel "lýðræðissinna" sem beitir þessum andlýðræðislegu aðgerðum.

Fjölmiðlar og vinstri háskólaelítan ætti hins vegar að staldra við og spyrja sig þeirrar spurningar hvort að svona ofbeldi sé líklegt til að skila sér í betri og hófstilltari umræðu. Er ekki líklegra að þeir sem verða fyrir ofbeldinu fari að beita sömu aðferðum til að geta komið skoðunum sínum á framfæri. Sagan segir okkur það alla vega.


Ber Reykjavíkurborg enga ábyrgð á ónýtum götum í borginni?

Leiðari Fréttablaðsins er oft athyglisverður einkum þar sem fyrrum borgarstjóri Jón Gnarr er í fleti fyrir aftan ritstjórana í stjórnunarstöðu á 365 miðlum.

Í leiðara blaðsins í dag er fjallað um hryllilegt ástand gatna í borginni, ástand sem aldrei hefur verið verra og kemst leiðarahöfundur að þeirri niðurstöðu að um sé að kenna eftirfarandi atriðum fyrst og fremst:  1.Nagladekk 2.Veðrið 3. Ferðamenn 4.Ríkið.

Nagladekk hafa verið við lýði í áratugi í Reykjavík og veðrið hefur iðulega verið ámóta erfitt fyrir göturnar. Þá verður ekki séð að ferðamennirnir spæni upp götur eða hvernig á að skýra bágt ástand gatna þar sem engin tengdur ferðamönnum fer um. Þá telur leiðarahöfundur að ríkið forgangsraði með röngum hætti og Vegagerðin standi sig ekki sem veghaldari.

Til að kóróna þessa makalausu ritsmíð leiðarahöfundar er tíundað að borgin hafi lagt aukið fé til viðgerðar gatna í borginni.

Niðurstaða leiðarahöfundar er því sú að þeir fjórir þættir sem fyrr eru nefndir séu orsakavaldur en stjórnendur Reykjavíkur hafi hins vegar staðið sig einstaklega vel.

Eitt sinn var borgartjóri í Reykjavík, sem hét Geir Hallgrímsson síðar formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann setti fram þá stefnu að malbika skyldi allar götur í Reykjavík. Vinstri menn hæddust að þessu og töluðu um ómerkilegt áróðursbragð því þetta væri ekki hægt. Vissulega hefðu þeir ekki getað gert það, en í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar laust eftir miðja síðustu öld urðu vegir í Reykjavík malbikaðir og greiðfærir.

Um sama leitið og vegir í Reykjavík urðu greiðfærir og malbikaðir var Gambíu veitt sjálfstæði frá Bretum. Til voru nokkrir vegir í Gambíu sem Bretar höfðu malbikað. Síðan leið hálf öld og þeir sem koma til Gambíu gætu allt eins haldið að þeir væru að aka Hverfisgötuna í Reykjavík vegna þess að á malbikuðu vegunum í Gambíu eru álíka mörg göt í malbikinu og á Hverfisgötunni í miðbæ Reykjavíkur. Götin á götunum í Gambíu eru vegna þess að viðhald skortir. Það sama gildir í Reykjavík og gerði alla borgarstjóratíð Jóns Gnarr og nú Dags B.Eggertssonar og af sömu ástæðu eru göt á götum í Reykjavík og í Gambíu.

Í stað þess metnaðar og framsýni sem Geir Hallgrímsson sýndi og síðar Davíð Oddsson hafa setið við stjórnvölinn borgarstjórar sem hafa áhuga á að gera allt annað við göturnar í Reykjavík, en gera þær greiðfærar. Aldrei hefur það verið verra en síðustu tvö kjörtímabil.

En það er náttúrulega ferðamönnunum, veðrinu, nagladekkjunum og ríkinu að kenna en ekki borgarstjóranum núverandi eða fyrrverandi eftir því sem leiðari Fréttablaðsins segir.

Sjálfur Göbbels áróðursmálaráðherra Hitlers hefði ekki getað gert betur en leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag við að afvegaleiða umræðuna og afsaka þá sem ábyrgð bera á Holuhrauninu í Reykjavík.

 


Grínið og hatursumræðan

Í gær birti Fréttablaðið "grínmynd" af Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni mitt í hópi kuflklæddra KuKluxKlan manna. Hvað hafði Ásmundur til unnið til að öðlast þessa vafasömu upphefð. Hann hafi hvatt til þess að fram færu málefnalegar umræður um flóttamannavandamálið og ólöglega hælisleitendur.

Í Fréttablaðinu fyrir borgarstjórnarkosningar var frambjóðandi Framsóknarflokksins í fyrsta sæti sett í KuKluxKlan búning.Hvað hafði hún til unnið til að öðlast þá vafasömu upphefði. Hún hafði hvatt til umræðu og endurupptöku lóðaúthlutunar fyrir Mosku í Reykjavík

Stefna Fréttablaðsins í málefnum erlends aðkomufólks er ljós. Blaðið vill opin landamæri og skopteiknarinn teiknar í samræmi við það og leiðarar blaðsins og fastir pennar eru valdir í samræmi við þá skoðun útgefenda blaðsins.

Þessi skopmynd segir því miður þá sorglegu sögu að fjölmiðlaelítan og vinstri sinnaða háskólaelítan er ekki tilbúin til að samþykkja hlutlægar umræður um innflytjendamál. Hver sá sem um það fjallar og krefst þess, að hertar reglur varðandi ólöglega innflytjendur og flóttamenn, sem ekki eru flóttamenn og uppfylla ekki skilyrði samþykkta Sameinuðu þjóðanna um málið, taki gildi skal skotinn á færi - ekki með málefnalegri umræðu af því að þá mundi þessar elítur tapa umræðunni, heldur með háði, spotti og hatursummælum.

Skyldi lögregluforinginn sem á að fylgjast með hatursglæpum hafa skoðað þetta?

Óneitanlega var síðan eftirtektarvert að sjá að jafnvel á vefsvæðinu vísir.is þrátt fyrir einhliða áróður Fréttablaðsins og blaðamanna vísir.is, fyrir opnum landamærum tóku tæp 80% þeirra sem tjáðu sig afstöðu með hertum reglum um innflytjenda- og flóttamannamál. Það sýnir betur en mörg orð að fjölmiðlaelítan og vinstri sinnaða háskólaelítan er orðin viðskila við fólkið í landinu.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 112
  • Sl. sólarhring: 197
  • Sl. viku: 4702
  • Frá upphafi: 2267846

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 4342
  • Gestir í dag: 103
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband