Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Bensín er nauðsynjavara.

Ríkisstjórnin virðist ekki skilja að bensín og aðrar olíuvörur eru nauðsynjavörur. Fólk þarf að komast á milli staða vinnu sinnar vegna og vegna t.d. hagsmuna barna sinna.

Ofurskattar eru lagðir á bensín og olíuvörur og laust fyrir miðnætti 28. maí hækkaði ríkisstjórnin enn skatta á bensíni.

Þessir auknu skattar bensín og olíuvörur leggjast þungt á láglaunaheimili sem verða að nota bíl vegna vinnu og til að tryggja öryggi barnanna. Það gleymist iðulega hjá stjórnvöldum að töluvert stór hluti innanbæjaraksturs er vegna þess að foreldrar aka ungum börnum sínum t.d. í skóla, á dagheimili, á námskeið og til að sinna áhugamálum.   Hætt er við að slys á börnum mundu verða margfalt fleiri ef foreldrar gerðu þetta ekki.

Af hverju ekki að leggja frekar niður sendiráð t.d. í Suður Afríku og Japan? Eða er nauðsynlegt að hafa sendiráð í Helsinki eða Stokkhólmi? 

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að forgangsraða? Ætlar hún að forgangsraða fyrir fólk eða forréttindaaðalinn?


Fáránleiki skattheimtu og verðtryggingar.

steingrimurjRíkisstjórnin hefur fengið samþykkt á Alþingi að aukna skattheimtu á áfengi og bensín.  Ekki í fyrsta skipti sem þessi leið er valin þegar úrræðalitlar ríkisstjórnir þora ekki að spara í ríkisrekstrinum. 

Hér á landi er svona skattahækkun svívirðileg atlaga að borgurunum. Skattahækkunin hækkar nefnilega verðtryggð lán. Skattahækkunin níðist á fólki í hvert skipti þegar það kaupir áfengi eða bensín og í hvert skipti þegar það borgar af veðrtryggðu lánunum sínum.

Venjulegt húsnæðislán hækkar við þessa skattahækun ríkisstjórnarinnar um 100 þúsund krónur og síðan leggjast vextir ofan á  og endalausar viðbótarverðbætur.  Sýnir eitt með öðru hversu fáránleg veðrtryggingin er og ósanngjörn.

Verðtrygginguna verður að afnema.

Íslensk stjórnvöld verða að búa samfélaginu samskonar umgjörð í lánamálum og almenningur nýtur í þessum heimshluta.  Annarsstaðar í Evrópu lækkar verðbólga lánin. Hér hækkar hún þau og hækkar eftir einhverju því djöfullegasta kerfi sem fundið hefur verið upp gagnvart lántakendum. Það er því engin furða að íslensk heimili skulu vera hvað skuldsettustu heimili í veröldinni.

Það verður að afnema verðtrygginguna. Það er ekkert annað í boði. Krafan er að við búum við sambærileg lánakjör og eru í okkar heimhluta.  Við getum ekki ætlast til að eignafólkið leggi þær skuldabyrðar á þorra þjóðarinnar sem útilokað er að standa undir nema sem skuldaþrælar meira og minna alla ævi.

 


Að sjálfsögðu blöskrar sænsku hjálparhellunni Mats Josefsson.

Mats Josefsson var fenginn til að aðstoða okkur við að vinna okkur út úr efnahagsvandanum í kjölfar efnahagshrunsins í byrjun október.  Ummæli hans nú verða ekki séð í öðru ljósi en því að honum blöskri algjörlega viðbrögði stjórnvalda við þeim vanda sem við er að glíma og stefnu og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Eftir efnahagshrunið í október var mikilvægt að ná sem víðtækastri samstöðu. Vandinn var þess eðlis og er.  Ég taldi á þeim tíma og lagði til að mynduð yrði þjóðstjórn.

 Ljóst var að bregðast varð strax við vanda lántakenda í vísitölukerfi við þessar aðstæður. Það þurfti að taka vísitöluna úr sambandi og endurskoða peningamálastefnuna m.a. þannig að hætt væri við sjálfstæðan gjalmiðil en tekin upp fjölþjóðlegur gjaldmiðill.  Móta þurfti atvinnumálastefnu til skemmri og lengri tíma og móta samræmda afstöðu vegna bankahrunsins.

En ekkert af þessu var gert og þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi staðið sig vel við að halda greiðslulínum opnum eftir hrunið og tekist það sem er kraftaverk í sjálfu sér þá gerðist ekkert á stjórnarheimilinu í þáverandi ríkisstjórn vegna þess að Samfylkingarmenn hvikuðu og settu fram fráleitar kröfur miðað við þau vandamál sem fyrir hendi voru. Þeirra kröfur voru Ísland í EVrópusambandið og ráðherraskipti. Hluti Samfylkingarinnar fór í stjórnarandstöðu og hóf að grafa undan þáverandi ríkisstjórn m.a. tveir ráðherrar í síðustu ríkisstjórn. Kröfunni um þjóðstjórn var algerlega hafnað.

Eftir að draumastjórn Össurar Skarphéðinssonar guðföður ríkisstjórnarinnar hafði verið mynduð af Vinstri grænum og Samfylkingunni í kjölfar ofbeldis sem aðilar m.a. nokkrir þihgmenn þessara flokka studdu og voru í sambandi við mótmælendur varðandi skipulag aðgerða um árás á lýðræðislega kjörið Alþingi og ríkisstjórn, þá hófst tímabil mannfórnanna þar sem þeim sem helst höfðu komið í veg fyrir öngþveiti í kjölfar bankahrunsins og mótað vitrænar viðreisnaraðgerðir var sagt upp störfum. 

Að frátöldum mannfórnum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ekkert markvert verið gert annað en mistök sbr. aðgerðir gagnvart Sraumi Bruðarás og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.  Í öllum vandanum sem fylgdi bankahruninu var knúið á um stjórnarslit, upplausn og nýjar kosningar.  Nú uppskera Samfylkingi og Vinstri grænir væntanlega eins og þeir hafa sáð.

En vandi þjóðarinnar er sá að ríkisstjórnin er aðgerða- og verklaus og slíkt gengur ekki við aðstæður eins og núna. Er það nokkur furða að Mats Josefsson og ýmsum öðrum sem kallaðir hafa verið til að aðstoða okkur blöskri á því hverskonar pólitík er rekin af upplausnaröflunum sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands.


Nú hvika allir.

Það var ánægjulegt að sjá að forsætisnefnd þingsins skyldi hafa afnumið aðstoðarmannakerfi fyrir landsbyggðarþingmenn. Þetta fyrirkomulag var fráleitt frá upphafi. Það á því ekki að leggja það niður tímabundið af fjárhagsástæðum eins og forsætisnefnd lætur í veðri vaka að gera eigi. Það á að afnema þetta kerfi og ekkert meira með það.

Ég er stoltur af því að hafa verið eini þingmaðurinn á síðasta þingi sem barðist gegn þessu kerfi og fannst það vera óþarft. Þá var það alveg fráleitt að skipta þingmönnum í mismunandi hópa eftir því hvort þeir voru svonefndir landsbyggðarþingmenn eða ekki.

Bretar hafa heldur betur brennt sig á því að heimila landsbyggðarþingmönnum á breska þinginu að vera á beit í buddu almennings. Sem betur fer er ekki sama kerfið hér en það þarf samt betra eftirlit með kostnaðargreiðslum til þingmanna hér á landi.

Nú þegar sú sjálfsagða aðgerð hefur verið boðuð að afnema aðstoðarmannakefi landsbyggðarþingmanna þá er rétt að Alþingi taki strax næsta skref og lækki styrki til stjórnmálaflokka í samræmi við lækkun sem verður að gera á framlögum á fjárlögum.


mbl.is Aðstoðarmannakerfið afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkanir í Bretlandi. Hækkanir á Íslandi. Hvað veldur?

Ísland hefur búið við eitt sérstakasta efnahagskerfi síðustu ára. Verðtrygging og gjaldmiðill sem enginn treystir eru verstu orsakavaldar þeirra vandamála sem venjulegt fólk þarf að búa við á Íslandi í dag. 

Fyrir nokkru benti ég á það sérkenni íslenska veruleikans að matarverð hefði hækkað síðustu mánuði um 20-30% það er með ólíkindum að slík hækkun skuli hafa orðið í kjölfar bankahruns og launalækkunar hjá almenningi. Ríkisstjórn sem leyfir slíku að gerast án þess að grafast fyrir um hvað valdi þessu sérkennilega þróunarferli á samdráttartímum og bregst við er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu.

Bretland hefur gengið í gegn um svipaða hluti og við í sínu efnahagslífi m.a. bankahrun og gengisfall pundsins. Það mætti því ætla að það væru sambærilegir hlutir að gerast í efnahagslífinu hér og í Bretlandi og þess vegna hef ég fylgst vel með þróuninni þar. Fyrir nokkru kom fram að verðhjöðnun hefi verið mikil í Bretlandi undanfarna mánuði og munar þar mest um að íbúðarverð hefur lækkað verulega og vextir á veðlánum hafa lækkað m.a. vegna ákvörðunar Englandsbanka að lækka stýrivexti.

En það er fleira sem hefur lækkað í Bretlandi síðustu mánuði og þar má nefna m.a. að matarverð hefur lækkað, verð á rafmagni hefur líka lækkað svo dæmi séu nefnd. 

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það vægast sagt nokkuð sérsakt að matarverð skuli lækka í Bretlandi á sama tíma og það hækkar á Íslandi um 20-30%. Kann einhver skýringar á því?

Miðað við aðstæður í þóðarbúinu hjá okkur þá ætti matarverð að lækka og hafa lækkað verulega en þess í stað hækkar það út úr öllu samhengi. Ríkisstjórn sem lætur slíkt gerast er ekki að vinna vinnuna sína. Alla vega ekki rétt.

Fólk á Íslandi getur ekki og á ekki að sætta sig við að búa við allt önnur skilyrði en fólk gerir  annarssaðar í okkar heimshluta.  Eins og nú háttar til þá er ekki hægt að láta verðtrygginguna brenna upp eignir fólksins og láta matvælaverð hækka og hækka meðan launin lækka og lækka.

Hefur ríkisstjórnin virkilega engin úrræði til hjálpar heimilinum í landinu? 


Mætti e.t.v. selja sendiráð?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ræðu að leita yrði allra leiða til að draga úr útgjöldum ríkisins hvort sem okkur líkaði betur eða verr.  Þetta er alveg rétt hjá Jóhönnu og hefði farið betur hefði ríkisstjórnin byrjað markvissan niðurskurð ríkisútgjalda strax og Jóhanna tók við sem forsætisráðherra en það var þá og enn er tími alvörunnar.

Í gær var sagt frá því í frétt Morgunblaðsins að selja ætti sendiráð Íslands í París. Ég var mjög glaður þegar ég sá það og hugsaði með mér að loksins væri ríkisstjórnin að gera eitthvað rétt og meiri sparnaður hlyti að fylgja á eftir í þessum útþanda utanríkisþjónustugeira. En nei. Það átti að selja sendiráðið og kaupa nýtt og minna sennilega af því að það eru erfiðir tímar.  Þetta kom eins og köld vatnsgusa framan í mig. Á virkilega ekki að gera meira en þetta. Fjölmennasta sendiráð Íslands er jú í klukkutíma fjarlægð frá París. Þarf að vera sendiráð í París?

Að sjálfsögðu er þetta sendiráðabix gjörsamlega úrelt og allt of dýrt. Við höfum ekki lengur efni á því að haga okkur eins og kjánar og vera með sendiráð út um allar koppagrundir. Nú er mál til að spara í æðstu lögum embættismannakerfisins. Svo ég rifji það upp er ekki kominn tími til þess ágæti forsætisráðherra að leggja niður meir en helming íslenskra sendiráða erlendis og afnema aðstoðarmannakerfi þingmanna svo lítið eitt sé nefnt.

Forsætisráðherra og ríkisstjórnin verður ekki trúverðug meðan niðurskurður ríkisútgjalda bitnar í engu á forréttindaaðlinum í stjórnkerfinu.


mbl.is Leita verður allra leiða til að draga úr kostnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vöruverð hækkar. Lífskjör versna.

Það er skelfilegt  að heyra að matarverð skuli hafa hækkað á bílinu 20-30% í lágvöruverðsverslunum. Matarverð á Íslandi hefur verið með því hæsta í heimi. Á tímum lækkandi launa, vaxandi atvinnuleysis og lakari lífskjara þjóðarinnar hefur það verið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að vinna sem mest að lágu vöruverði.

Mér er ljóst að lækkun krónunar hefur þýðingu hvað varðar hækkun á matarkörfunni en það skýrir ekki allan þennan mun því að stór hluti af innkaupakörfunni er innlend framleiðsla.

Verslunarumhverfi á Íslandi er mjög dýrt og vöruverð almennt er mjög dýrt. Við erum með flesta verslunarfermetra á íbúa  og við erum með lengsta opnunartíma í heimi. Vissulega þjónusta en það þarf að borga fyrir allt. Meira að segja lágvöruverðsverslanirnar eru með óeðlilega langan opnunartíma.

Það á að vera eitt af helstu forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar að ná matarverði niður og ég bíð spenntur eftir því að heyra hvað Jóhanna Sigurðardóttir segir um það í kvöld í stefnuskrárumræðunum. Matarverð skiptir mjög miklu um almenna velferð og hefur þýðingu hvað varðar verðtrygginguna. Ég trúi ekki  öðru en að  velferðarforsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir geri landsmönnum góða grein fyrir til hvaða aðgerða verður gripið til að tryggja fólkinu lí landinu sambærilegt matarverð og er í nágrannalöndum okkar.


mbl.is Matarverð hefur hækkað um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að breyta reglum um lífeyrissjóði.

Með lögum um lífeyrissjóði eru allir landsmenn skyldaðir til að greiða 12,5% af launum sínum í lífeyrissjóð. Þeir ráða því ekki í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða og þeir fá ekki að velja sér lífeyrissparnað þó þeir fái hærri ávöxtun og betri kjör en ríkisskyldaða lífeyrissjóðinn. Ekki nóg með það ef einstaklingur sem greitt hefur í lífeyrissjóð alla ævi deyr áður en kemur til töku lífeyris þá fá erfingjarnir ekki peningana hans til baka.  Það væri hægt að hafa kerfið miklu betra og bjóða upp á meira einstaklingsfrelsi. En frelsisskerðing einstaklinga í lífeyriskerfinu í þessum þvingaða sparnaði er óásættanleg.

Með þvingunarlögunum um að allir skyldu greiða 12.5% af laununum sínum í lífeyrissjóði gætti ríkisvaldið ekki að því að tryggja lífeyrisþegum að þeir fengju peningana sína til baka. Það er undir stjórnendum lífeyrissjóðanna komið hvernig með þá er farið og hinn almenni lífeyrisþegi hefur ekkert um að að segja eða með það að gera. Lýðræðisskorturinn við stjórn lífeyrissjóðanna er óþolandi.

Nú liggur fyrir þegar stjórnandi Lífeyrissjóðs Verslunarmana lætur af störfum að eigin ósk að hann hefur verið á ofurlaunum og ofurfríðindum á kostnað þess fólks sem greiðir í lífeyrissjóðinn sem forustumenn verkalýðshreyfingarinnar segja að séu að greiða í lífeyrissjóðinn sinn en í raun er fólk að greiða í lífeyrissjóðinni þeirra. Þannig er það. Fólkið bara borgar en stjórnendurnir, valdsmennirnir, gera það sem þeim sýnist innan allt of rúmra marka frá ríkisvaldinu.

Það er óásættanlegt  fyrst á annað borð er verið með þetta kerfi þvingaðs sparnaðar að það séu ekki víðtækar hömlur á því með hvaða hætti stjórnendur lífeyrissjóða mega fara fram og hvaða ofurlaun þeim er heimilt að skammta sér.

Nú liggur fyrir að í mörgum tilvikum eru launþegar búnir að tapa miklu af lífeyri sínum vegna óábyrgra fjárfestinga stjórnenda sjóðanna. Hver bætir fólkinu það tap. Ríkisvaldið setur lög sem skyldar alla til að borga en kemur ekki við hvort að fólkið fær þennan þvingaða sparnað endurgreiddan.

En það skortir ekkert á að lífeyrissjóðirnir innheimti vangoldin lifeyri með allri þeirri hörku sem löglegi innheimtumarkaðurinn heimilar.

Ísland er eina landið þar sem að hús lífeyrisþega getur hugsanlega verið boðið upp ofan af honum til þess að honum geti hugsanlega liðið vel í ellinni ef hann lifir til þess tíma og stjórnendur sjóðanna eru ekki búnir að fordjarfa peningunum með röngum ákvörðunum og ofurlaunum sér til handa.  Getur þetta virkilega verið ásættanlegt kerfi.

Fyrst ríkið er að skylda fólk til að greiða með þessum hætti þá verður það annað hvort að stjórna þessum þvingunarsparnaði og tryggja fólki endurgreiðslu eða veita fólki fullt frelsi til að ávaxta peningana sína í lífeyrissjóðum eða sambærilegum sjóðum sem uppfylla nauðsynlegar kröfur. Einnig að tryggja að fólk geti fært peningana sína á milli sjóða og hafi áhrif á stjórn þeirra. Það eru lágmarkskröfur í lýðræðisríki.


Matseðill frá Lýðheilsustofnun?

Nú ætlar Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra að leggja á sykurskatt til verndar tannheilsu barna. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt að ráðherra forræðishyggjunnar skuli leggja slíkt til. Síðan er spurning hvort það eru margir sammála honum um að þetta sé besta leiðin eða hvort eðlilegra sé að einstaklingarnir ráði því sjálfir hvað þeir borða.

Á undanförnum árum hafa komið fram ótal tillögur á Alþingi um bann við ákveðnum matvælum og/eða skattheimtu. Stundum dettur mér í hug að ákveðinn hópur stjórnmálamanna telji heppilegast að borgararnir fái sendan matseðilinn fyrir vikuna frá Lýðheilsustofnun að viðlögðum sektum ef ekki er borðað í samræmi við það.

En hvar er þá persónu- og einstaklingsfrelsið?


Hvar eru sparnaðarleiðir ríkisstjórnarinnar?

Ég lag stjórnarsáttmálann með mikilli athygli og fannst margt gott eins og er almennt í stjórnarsáttmálum því að þeir eru að hluta til jákvæð markmiðssetning.  Stjórnarsáttmálinn var þó einkar athygliverður fyrir það sem ekki stendur í honum.

Alvarlegasti vandi sem blasir við er með hvaða hætti á að spara í ríkisrekstrinum og ná niður hallarekstri ríkissjóðs. Þar vantar hundrað milljarða. Við slíkar aðstæður hefði mátt búast við að stjórnarflokkarnir settu niður málefnasamning sem fæli í sér ábyrga stjórn ríkisfjármála þar sem tekið væri fram hvað ætti að gera til að spara í ríkisfjármálum og hvort og þá hvaða nýja skatta ætti að leggja á landsmenn. En þennan kafla vantaði alveg. Að vísu voru almennt orðaðar yfirlýsingar um alvarlegt ástand en ekkert sem hönd á festi um það með hvaða hætti á að vinna úr þeim málum og vinna sig út úr vandanum. Þar fékk ríkisstjórnin fyrstu falleinkunina.

Hvað á að spara? Það verður fróðlegt að sjá hvort ríkisstjórnin hefur dug í sér til að afnema aðstoðarmannakerfi þingmanna. Til að leggja niður meirihluta sendiráða og skera okkur stakk eftir vexti hvað utanríkisþjónustuna varðar það þarf altént ekki að aðstoða útrásarvíkinga eins og á árum áður. Á að lækka framlög til stjórnmálaflokka eins og lagt var til á síðasta þingi og á að taka almennt á bruðli og sóun í ríkisrekstrinum. Því miður sýnist mér miðað við stjórnarsáttmálann að ekki sé von á slíku.

Sýnir ríkisstjórnin ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum eins og útlit virðist fyrir miðað við stjórnarsáttmálann  þá er hætt við að Ísland tapi raunverulegu fullveldi sínu en slíkt má aldrei verða fyrr verður að koma þessari ríkisstjórn frá.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband