Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2024

Ofurjarðskjálfti pólitískrar heimsku

Dálkahöfundurinn Ambrose Evans Pritschard hjá DT, segir um aðgerðir Evrópusambandsins(ES) í landbúnaði, að á Richter skala þá sé erfitt að finna nokkuð í líkingu við þá pólitísku heimsku, sem reglur ES í landbúnaði feli í sér.

Bændur í Frakklandi mótæla stefnu ES og sama gera bændur í Belgíu og Spænskir bændur eru taldir líklegir til að fylgja í fótspor þeirra. 

Hækkun á gjöldum á díselolíu til bænda var neistinn sem kveikti bálið að þessu sinni. Einn talsmaður franskra bænda sagði að vandamálin hafi verið valin og skipulögð af ES andstætt almennri skynsemi (common sense)og gegn hagsmunum bænda. Öllum varnaðarorðum hafi verið ýtt til hliðar.

Tekjur bænda í Frakklandi hafa dregist mikið saman og fyrirskipanir ES um að draga úr notkun á skordýraeitri um 50% og tilbúnum áburði um 20% og breyta framleiðslunni þannig að 25% séu lífræn í nafni grænna gilda er framtíð, sem að franskir bændur sjá að þeir geta ekki ráðið við. Með þessu regluverki eru völdin tekin frá þjóðríkjum og ráðstjórnin í Brussel tekur öll völd í sínar hendur. 

Ráðstjórnin í Brussel hefur að þessu sinni gengið allt of langt. Bændur í Hollandi buðu fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og náðu að verða stærsti stjórnmálaflokkur Hollands vegna andstöðu sinnar við fyrirskipanir frá Brussel. Hollenskur landbúnaður er einn sá besti í heimi, en það átti að endurtaka mistökin frá Sri Lanka og banna þeim að nota tilbúin áburð og loka 11.200 bændabýlum (þvingunarráðstöfun)og gera 17.600 bændum til viðbótar að draga úr framleiðslu um þriðjung. Allir sáu að þetta gat aldrei gengið upp - Nema ráðstjórnin í Brussel. Nú tala menn um Nexit í vegna þess hve þeim fjölgar hratt í Hollandi,sem vilja segja sig úr ES.

Í lok greinar sinnar segir Pritschart að best sé að láta kosin þjóðþing og ríkisstjórnir sjá um þessa hluti í stað teknókratana í ES, sem séu einangraðir frá almennri skynsemi og pólitískri ábyrgð, en það sé ekki hægt að víkja þeim frá og það sé mjög erfitt að breyta lagabálkum upp á 180 þúsund blaðsíður. Þessvegna geti stofnunin (ES) haldið áfram rangri stefnu í langan tíma áður en það springur. 

Það er dapurlegt að horfa upp á þessa einræðistilburði ólýðræðislegrar yfirstjórnar ES og þennan skynsemisskort, sem veldur því að Evrópa er stöðugt að dragast aftur úr öðrum. 

Hvaða erindi á Ísland í þennan klúbb ráðstjórnar og einræði, þar sem allt gengur út á að draga úr fullveldi aðildarríkjanna og að sama skapi draga valdið til Brussel á öllum sviðum.

Við þessar aðstæður er dapurlegt að íslenskir stjórnmálamenn telji það helst mega verða til varnar sínum sóma að lögfesta reglur varðandi bókun 35, sem veitir regluverki ES forgang umfram lög samþykkt á Alþingi. 

 


Hvað kemur okkur við?

Áratugum saman hefur þursaveldið Íran, ástundað þjóðarmorð á minnihlutahópum í landinu m.a. trúarbragðahópa, þar sem Bahaiar hafa heldur betur fengið fyrir ferðina, en Gyðingar og kristnir eru flúnir eftir ítrekaðar ofsóknir. 

Klerkastjórn þursaveldisins lætur sér ekki nægja að myrða fólk vegna þess að það hefur aðrar trúarskoðanir en Múhammeðstrú, baráttan gegn mannréttindum snýr líka að eigin borgurum. 

Fyrir rúmu ári var kona um tvítugt handtekin og misþyrmt svo hroðalega, að hún dó. Sök hennar var að hylja ekki hár sitt á almannafæri. Í kjölfar þess brutust út víðtæk mótmæli gegn þursunum sem stjóra Íran, en Siðgæðislögreglan og herinn brugðust við af hörku og hundeltu og drápu unga fólkið sem stóð fyrir mótmælunum. 

Þúsundir á þúsundir ungs fólks var drepið fyrir það eitt að velja frelsið en hafna helsinu. Þessi mótmæli stóðu mánuðum saman fyrir tæpum tveim árum síðan. Af tilviljun var ég staddur í London þegar landflótta Íranir stóðu fyrir mótmælagöngu og sá þá betur þann hrylling sem um er að ræða. Klerkastjórnin hikar ekki við að drepa börn allt niður í 12 ára fyrir það eitt að samsama sig ekki að öllu leyti með því sem þeim er skipað af siðgæðislögreglunni. 

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju RÚV sá ekki ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á aðferðum þessa villimannaríkis, sem voru í stríði við eigin borgara og engin ekki einu sinni svonefnd kvennréttindafélög sáu ástæðu til að mótmæla eða aðrir sem að venju lýsa skoðun sinni með þeim hætti. 

Það var engin mótmælaganga í Reykjavík vegna barnamorðana í Íran. Þar sem um morð á eigin þegnum er að ræða. 

Það skýtur nokkuð skökku við, að engin skuli sjá ástæðu til að mótmæla morðum án dóms og laga í Íran eða hvetja til refsiaðgerða m.a. að fólk kaupi ekki íranskar vörur, á sama tíma og sjálfskipaðir handhafar réttlætisins láta ekki af því að mótmæla varnarviðbrögðum Ísrael eftir hræðilegustu hermdarverkaárás, sem unnin hefur verið í núinu, þannig að það tekur jafnvel út yfir það sem Ísis gerði. 

Samanburður á viðbrögðum við morðin í Íran á eigin borgurum og mannfalli í hernaði í Ísrael er sláandi svo ekki sé meira sagt. 


Lausatökin eru víða

Í Kastljósi í gærkveldi, þar sem Birgir Þórarinsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fór á kostum, kom fram að Ísland sendir marga og mikla styrki eftirlitslaust í meinta mannúðar aðstoð á Gasa svæðinu. 

Tvo milljarða hafa stjórnmálamenn tekið af íslenskum  skattgreiðendum til að greiða til einhverra móttakenda á Gasa. Þessa peninga greiðum við væntanlega Hamas og e.t.v. Al Fatah og þurfum að taka þá að láni. Að Ísland skuli greiða mest allra miðað við fólksfjölda í þessa  meintu mannúðaraðstoð, sýnir bruðl og óráðssíu stjórnmálastéttarinnar, sem verður að stöðva.

Íran hefur sent gríðarlega fjármuni til Hamas samtakanna undanfarinn ár í því skyni, að þeir drepi sem flesta Ísraelsmenn. Íranir viðurkenna sjálfir að greiða um 17 milljarða íslenskra króna á ári í þessu skyni. Sumir halda því fram, að stuðningur Íran við Hamas sé líklega nær 170 milljörðum. 

Íran lagði á ráðin með Hamas um hryðjuverkin í Ísrael 7. október og fjármagnar Hamas, Hissbollah, Houti sem og ýmsar aðrar hryðjuverkasveitir sem hafa það meginmarkmið að strika Ísrael út af landakortinu og drepa alla Gyðinga. Er ekki rétt að þeir takist á herðar afleiðinga gerða sinna og taki við hælisleitendum frá Gasa og sinni nauðsynlegri mannúðaraðstoð. 

Stóra spurningin er samt af hverju er Ísland að greiða mest allra hlutfallslega. Já meira en vellríku ólíuríkin í Arabíu.

Hver ber eiginlega ábyrgð á þessu? 

 

 


Margt er skrýtið og þarf ekki kýrhaus til

Í huga vinstri skólaspekiaðals Vesturlanda er sannleikurinn það sem þeim finnst að hann eigi að vera. Orð þýða það, sem þau ákveða hverju sinni. Það sem sagt er vera árás eða móðgun þegar þú segir það gæti verið skynsamlegt og jafnvel framúrstefnulegt og djarft, þegar þau segja það.

Skólaspekiaðallinn segir að tungumál, venjur og siðir séu tæki forréttindastéttarinnar til að ráðast á þá sem minna mega sín og tryggja völd forréttindahópa og feðraveldis. Þessvegna er mikilvægt að sækja að tungumálinu t.d. með því að færa það yfir í kynlaust tungumál en enþá betra að taka upp transmál eins og Ölgerð Egils Skallgrímssonar er að gera í dyggðaflöggun sinni fyrir fáránleikann.

Tungumálið er tæki kúgaranna, yfirstéttarinnar og þessvegna verður að aðlaga það að stjórnleysishugmyndafræði ný vinstrisins. Orð eru rædd og merking þeirra þangað til skólaspekingarnir komast að þeirri niðurstöðu að þau þýði ekki neitt og nota verði önnur orð. Eða skilgreining sé ekki tæk eins og orðið „kona“. Þessi hugmyndafræði fórnalambavæðingar og réttar til að móðgast og sjá ofsóknaraðila í hverju horni, sér þetta fólk hvert sem litið er, jafnvel þó það sjálft tilheyri forréttindaaðli háskólasamfélagsins þar sem vinnuskylda er nánast engin eins og í íslenskum háskólum og á fréttastofu RÚV.

Skrautlegasta dæmið um fórnarlamb skv. nýju hugmyndafræðinni, er Harry prins, sem hefur komið sér undan öllum skyldum. Hann á 34 milljón dollara höll (um 5 og hálfur milljarður íslenskra króna), þar sem hann býr og flýgur heimsálfa á milli í einkaþotum, á sama tíma og hann grætur yfir hamfarahlýnun og að almenningur skuli fljúga í áætlunarflugi, en lítur á sig sem fórnarlamb sem sé illa sett fjárhagslega og fjölskylda hans sé vond við hann, þó hann hafi sjálfur lokað dyrunum á eftir sér.

Ýmsir sem tilheyra þessum hópi og sveipa um sig kufli fræðimennskunnar , búa til allt aðra atburðarás en þá raunverulegu og bæta jafnvel inn í frásögnina persónum, sem voru ekki til, í því skyni að aðlaga söguna að eigin hugmyndafræði.

Svo er fólk undrandi að háskólanemar útskrifist úr háskólum með brenglaða heimsmynd um sögu þjóðar sinnar og heimsins. Á nýmálinu er þetta ekki að ljúga, heldur aðlaga þjóðfélagið að nauðsynlegri umbreytingu til þess að ná fram markmiðum hinna kúguðu gagnvart valdastéttinni. Þessa afbökun má glögglega sjá t.d. af sjónvarps- og kvikmyndaefni, þar sem sýndir eru þættir úr fortíðinni. Sannleikann verður að höndla með þeim hætti, að hann falli að ruglhugmyndafræði meintra fórnarlamba.

Karlmenn geta kallað sig konu skv. furðulögum um kynrænt sjálfræði sem var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi. En raunverulegar konur, sem fara á túr og ala börn og gefa þeim brjóst, geta ekki varið sig. Við hinir hvítu sér í lagi karlmenn, erum forréttindahópur, jafnvel líka þeir sem eru fátækir hrjáðir og smáðir í þeim hópi. Réttarríkið er ekki réttarríki skv. hugmyndafræði vinstri skólaspekinnar heldur kúgunartæki fyrir forréttindahópinn. Þess vegna eiga meint fórnarlömb alltaf réttinn.

Fyrir nokkru sáust merki þessara ruglfræða þegar ungum manni var ekki vært í Menntaskóla Akureyrar og hrökklaðist suður yfir heiðar í Menntaskólann í Hamrahlíð, þar sem hann mátti líka þola einelti, án þess að viðkomandi hefði nokkuð til sakar unnið og hver mætti til að vera kallinn á kassanum í þeim hráskinnaleik? Enginn annar en Ásmundur Einar Daðason barna og félagsmálaráðherra. Það er lærdómsríkt að fylgjast með hvernig skólasamfélagið tók á því máli og sýnir því miður hvað íslenskt skólakerfi á menntaskólastigi er orðið undirokað af rugl hugmyndafræði fórnarlambavæðingar þeirra sem alltaf hafa réttinn sín megin að eigin mati, en það er það eina mat, sem leyft er í þessum nýja búningi „frjálslynda fasismans“.

Guð forði okkur frá því að þessi hugmyndafræði nái meiri fótfestu í réttarkerfinu nóg er nú samt. Þá er úti um grundvöll réttarríkisins.


Sigur eða ósigur?

Ýmsir vinir og stuðningsmenn Hamas samtakanna á Íslandi voru fljótir til að lýsa því yfir þegar Alþjóðadómstóllinn(AD) í Haag kvað upp úrskurð sinn, að í honum fælist viðurkenning á því að Ísrael væri sekt um þjóðarmorð. Það er rangt. 

AD féllst ekki á kröfu kæranda Suður Afríku(SA) um að AD lýsti Ísrael sekt um þjóðarmorð á Gasa. En í stað þess að vísa málinu frá eins og AD hefði átt að gera, þá ákvað pólitíski dómstóllinn að halda málinu hjá sér og benda Ísrael á ýmis atriði. Ekkert þessara atriða skiptir máli í sjálfu sér varðandi framhaldið og ekkert þeirra leiðir til frekari aðgerða gegn Ísrael. 

Ísrael hafði því sigur í því sem mestu máli skipti svo sem við var að búast, en hinsvegar er það umhugsunarvert, að AD skuli telja nauðsynlegt að dæma eftir einhverju öðru en þeim samþykktum sem um dóminn gilda. Ég hef áður bent á að dómarar í AD eru skipaðir af ríkisstjórnum eftir skoðunum þeirra en ekki hæfi sem lögfræðingar. 

Í þessu tilviki var reynt að nota AD til að koma höggi á Ísrael, sem mistókst. En dómur AD sýnir hinsvegar að dómendurnir hika ekki við að dæma eftir allt öðru en lögunum til að þóknast þeim ríkisstjórnum sem skipuðu þá.

Vafalaust er kominn tími til að leggja þennan dómstól niður í núverandi mynd og eftir atvikum stofna nýjan sem gegnir hlutverki sínu sem dómur á grundvelli laga og mannréttinda, en ekki áróðursstofnun eins og AD hefur þróast í að vera. 


Andúð á vestrænni menningu og nýja vinstrið.

Eftir fall kommúnismans í Evrópu árið 1989 þegar hann varð gjaldþrota og vinstri menn um alla veröld þurftu að horfast í augu við að kapítalisminn hafði sigrað. Fóru vinstri sósíalistar og kommúnistar í felur með skoðanir sínar og skriðu í var hjá ýmsum fjölþjóðlegum stofnunum eins og SÞ og Evrópusambandinu.

Nú koma þeir fram sem nýja vinstrið á forsendum woke spekinnar, sem byggir á því, að vestræn menning sé menning ofbeldis, kvennakúgunar og rasisma. Já og hún sé sérstök fyrir þessa illsku, sem sýnir í raun grundvallar vanþekkingu. Fyrir utan það, að engin önnur menning en sú vestræna hefur skilað fólki jafnlangt áfram.

Á grundvelli vestrænnar menningar um lýðræði, mannréttindi og frelsi hafa þær þjóðir sem aðhyllast hugmyndir samkeppnisþjóðfélagsins, mannúðar og mannfrelsis búið við bestu lífskjör og mest öryggi borgaranna og virðingu fyrir mannréttindum og athafnafrelsi einstaklingsins í gjörvallri mannkynssögunni.

Svo virðist sem við séum í miðri pólitískri nýsköpun vinstri hugmynda, þar sem fyrrum andstæðar fylkingar ná nú saman í andstöðu gegn markaðsþjóðfélaginu, baráttu gegn hamfarahlýnun og öfgafullri náttúruvernd, andstöðu við styttur og önnur söguleg menningarverðmæti, hörkuleg barátta fyrir transhugmyndafræði, en síðast en ekki síst núna andstöðu við Ísrael og samsömun með hryðjuverkasamtökunum Hamas.

Hugmyndafræði nýa-vinstrisins fær ekki staðist skynsamlega nálgun. Ungar konur víða í Evrópu, þar sem þær geta sagt það sem þær vilja og klæðst eins og þeim sýnist, taka þátt í mótmælum til stuðnings Hamas. Væur þær á þeim slóðum yrðu þær barðar til dauða af siðferðislögreglunni fyrir að vera úti á götu án þess að hylja hár sitt og vera í ósiðlegum klæðnaði.

Loftslagsgoðið Gréta Túnberg hrópar vígorð með Hamas og gegn samkeppnisþjóðfélaginu Í mótmælagöngum á vesturlöndum m.a. hér á landi, má sjá skilti sem á stendur: „Hommar með Palestínu“ . Sennilega er þetta fólk svo illa að sér, að það áttar sig ekki á að það yðri að öllum líkindum dæmt til dauða í því sem kallað er Palestína.

Er það virkilega orðið baráttumál nýja vinstrisins að samsama sig með íslamistum með öllum þeirra höftum, kvennakúgun og fordómum og hafna þá í framhaldinu baráttu fyrir jafnstöðu karla og kvenna, réttindum samkynhneigðra og sama rétt ólíkra hópa án tillits til trúar, litarháttar eða þjóðernis.

Íslam stefnir að heimsyfirráðum og kúgun allra annarra hópa í samfélaginu, en ekki má orða hugtök eins og rasismi eða fasismi í því sambandi hjá nýja vinstrinu. Þau hugtök notar nýja vinstrið bara um fólk sem vill standa vörð um vestræn gildi og menningu.

Nýja vinstrið er í grundvallaratriðum í andstöðu við hugmyndir hins gamla klassíska vinstris um frjálslyndi og grundvallarmannréttindi. Nýja vinstrið þýðir samstaða með öllu og öllum sem hatast út í vestræna menningu og menningararfleið á þeim forsendum, endursköpunar sögunnar að allt illt í heiminum stafi frá Vesturlöndum, sem þó hafa náð lengst allra fyrr og síðar við að byggja upp þjóðfélög frelsis og mannréttinda.

Fordæming á borgaralegu þjóðfélagi, fjölskyldunni og vestrænni menningu og arfleifð virðist vera það eina sem sameinar nýja vinstrið.


Dómur Alþjóðadómstólsins í Haag

Fyrir nokkru fannst forseta Suður Afríku (SA) viðeigandi að taka innilega í hendur og fagna fyrrum foringja Janjaweed sveitanna, sem framdi þjóðarmorð í Darfur héraði í Súdan. Hatursþjóðir Ísrael hefðu því varla getið fundið verri fulltrúa til að kæra Ísrael til Alþjóðadómstólsins í Haag fyrir þjóðarmorð.

Samþykkt Sameinuðu þjóðanna (SÞ) 1948 um þjóðarmorð, var samþykkt eftir Helförina gegn Gyðingum og í samþykktinni segir að þjóðarmorð verði að vera skipulögð morð framin með glæpsamlegum hætti af ásetningi og vilja til að eyðuleggja í heild eða að hluta, þjóðir, kynþætti eða trúflokka.

Þrátt fyrir mikið mannfall óbreyttra borgara á Gasa, þá er það samt minna, en almennt gerist í bardögum í borgum m.a. nýjustu dæmin í Aleppo í Sýrlandi og Raqqa í Sýrlandi þar sem sótt var að Ísis, þó svo að fréttastofur eins og fréttastofa RÚV segi aldrei frá því.

Mannfall var mest í upphafi átakanna á Gasa eða um 80% af þeim sem hafa fallið skv. upplýsingum frá Hamas. Þá verður að taka tillit til þess einnig að um fjórðungur eldflauga sem Hamas skýtur upp og ætlað er að drepa borgara í Ísrael lendir á Gasa, en mannfall vegna þess er alltaf skrifað á varnarsveitir Ísrael. Fólk er skráð sem börn til 18 ára aldurs, en stór hópur hermanna Hamas er undir þeim aldri og allir stríðsmenn Hamas eru í borgaralegum klæðum.

Miðað við þessar staðreyndir verður ekki séð, að hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að varnarsveitir Ísraels séu að fremja þjóðarmorð á Gasa.

En Alþjóðadómstóllinn í Haag ætlar að kveða upp dóm á morgun um þetta, án þess að hafa kynnt sér neitt sem málinu viðkemur nema að hlusta á ræður fulltrúa SA og Ísrael. Engar vitnaleiðslur fara fram eða lögð fram sönnunargögn umfram það sem að ofan greinir. Niðurstaða dómsins miðað við það sem fyrir liggur, ætti að vera augljós.

Ísrael er ekki að fremja þjóðarmorð á Gasa.

En verður það niðurstaða dómsins? Það er verulegt vafamál. Í dóminum sitja dómarar sem eru fulltrúar ríkisstjórna en eru ekki valdir vegna yfirburða þekkingar á lögfræði. Dómurinn er því eins og flestar stofnanir Sameinuðu þjóðanna í dag mun frekar pólitískur en lögfræðilegur. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig Alþjóðadómstóllinn dæmir mál, þar sem niðurstaðan ætti að vera augljós. Hvort hann kveður upp pólitískan dóm eða dóm byggðan á lögfræðilegum staðreyndum.


Lýðræðið og öfgarnar

Fólk á Vesturlöndum velkist ekki í vafa um að svokallað lýðræði í Íran sé bara að nafninu til. Hópur gamalla íranskra klerka ræður öllu og bannar öllum að bjóða sig fram nema þeim sem þeir samþykkja. Lýðræði þeirra er þið megið kjósa, en við ráðum. 

Í vaxandi mæli hefur þróunin orðið svipuð í Rússlandi, þar sem stjórnarandstæðingar eiga undir högg að sækja og þeim iðulega meinað að bjóða sig fram eða settir í fangelsi fyrir furðusakir.

Lýðræðið á undir högg að sækja og mun alltaf eiga það. Öflin sem vilja að þeim séu tryggð yfirráð án afskipta annarra eru alltaf sterk. Þannig er það á Davos ráðstefnunum þar sem helstu auðmenn heimsins  koma og bjóða völdum vinum sínum eins og Katrínu Jakobsdóttur og ráðslagast um hluti sem þeim kemur í raun ekki við heldur kjósendum í hverju ríki fyrir sig. 

Þýski stjórnmálaflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) hefur verið að auka fylgi sitt og mælist nú af svipuðum styrkleika og Samfylkingin á Íslandi eða með rúmlega 20% fylgi. Það er of mikið fyrir sómakært Samfylkingarfólk í Þýskalandi, sem krefst þess að AfD verði bannaður. Sú staðreynd að slík krafa skuli koma fram í vestrænu lýðræðisríki er alvarleg.

AfD er lýðræðissinnaður flokkur, sem starfar á lýðræðislegum grundvelli og setur fram skoðanir sínar sem slíkur. 

Í þýskalandi hafa sósíalisar og kommúnistar farið í kröfugöngur og að sjálfsögðu tekið börnin með til að mótmæla tilveru AfD. Í lýðræðinu skiptir máli að fólk og flokkar reyni að sannfæra aðra en ætlist ekki til að ríkisvaldið banni skoðanir annarra. Þessvegna er tjáningarfrelsið svo mikilvægt. Í stað þess að banna skoðanir er mikilvægt að tryggja tjáningarfrelsið. 

Vinstrið í Evrópu, sem fékk hefðbundna Sósíalista og hægfara mið- og hægri flokka í lið með sér varðandi ýmis mál m.a. innflytjendamál horfir nú fram á að kjósendur í Evrópu þ.á.m. á Íslandi ætlast til þess að skipt sé um stefnu. Við því verður að bregðast að mati vinstrisins og banna skoðanir og stjórnmálaflokka sem leyfa sér að berjast fyrir skoðunum sem eiga sér mikið fylgi og vonandi meirihlutafylgi. 

Sjaldan bregður vinstra fólk vana sínum og það eitt að stórum hópum vinstra fólks skuli detta í hug að banna lýðræðissinnaðaun stjórnmálaflokk er fordæmanlegt og sýnir því miður hvað lýðræðið ristir grunnt hjá allt of mörgu fólki. 

 

 


Nú og þá

1941 byrjuðu nasistar að fremja fjöldamorð á Gyðingum í Sovétríkjunum. Í einu tilviki höfðu nasistarnir myrt alla fullorðna Gyðinga í þorpinu Bjelaja Zerkow fyrir sunnan Kiev, en 90 Gyðingabörn undir fimm ára aldri höfðu verið skilin eftir án vatns eða matar. Tveir prestar annar kaþólskur en hinn mótmælandi reyndu að koma í veg fyrir að börnin yrðu myrt, en tókst það ekki. Öll börnin voru skotin til bana. Dapurleg er saga af einni lítilli ljóshærðri stúlku sem hélt í hendina á einum SS foringjanum meðan hún beið þess að vera skotin. Ekkert lík barnanna var svívirt frekar en lík foreldra þeirra og aðstandenda í Bjelaja Zerkow. 

Þegar morðæði og mannvonska nasistanna gagnvart Gyðingum var að lokum opinberuð 1945, fylltist allt fólk reiði og viðbjóði. Gjörðir nasistanna voru fordæmdar undantekningalaust. Engum datt í hug í London, París, New York, hvað þá Reykjavík, að fara í göngur til að samsama sig með nasistunum og fordæma hvað margir óbreyttir borgarar og börn, hefðu fallið vegna aðgerða bandamanna gegn nasistum.

Fólk velti því fyrir sér fyrir tæpum 80 árum hvernig gæti staðið á því ómanneskjulega óeðli og grimmd sem nasistarnir sýndu Gyðingum. Allir voru sammála um að þetta væri ómanneskjulegt villidýrseðli

Þ.7.október 2023 réðust önnur öfgasamtök, Hamas á 6 þorp í Ísrael og tónlistarhátíð ungs fólks. Hamas liðarnir drápu alla aðra en þá sem þeir tóku gíslingu með hroðalegum hætti og svívirtu lík þeirra. Þeir brenndu ungabörn lifandi og jafnvel steiktu þau, nauðguðu konum og fundu upp svívirðilegar sársaukafullar aðferðir við að drepa og niðurlægja fólkið. 

Eftir að þessi grimmdarverk fréttust, þá lét fordæming á þessu grimmdar- og villdýrsaðgerðum á sér standa ekki síst samtaka Sameinuðu þjóðanna. Ekki nóg með það. Farið var í hvatningar- og hátíðargöngur til að samsama sig með villidýrunum í Hamas og fordæma Ísrael í borgum eins og London, París, New York og Reykjavík.

Þegar þetta er skoðað þá getum við væntanlega spurt eins og þjóðskáldið."Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg." 

Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sem átti mikinn þátt í að ná fram samþykki fyrir stofnun Ísraels hefði vafalaust óað við að sjá að til væri fólk á Íslandi sem teldi rétt að samsama sig með ofbeldinu og dýrseðlinu. Okkur á líka að óa við því og segja við ofbeldisfólkið fyrir framan Alþingishúsið, að það komi ekki til greina að verða við kröfum þeirra að einu eða neinu leyti miðað við núverandi aðstæður og allt sanngjarnt friðelskandi fólk biði nú eftir því að eftirlifandi gíslar Hamas verði leystir úr ánauð og sekum Hamas liðum refsað með sama hætti og þeim SS foringum og leiðtogum þriðja ríkisins í Þýskalandi var refsað fyrir glæpi sína gagnvart Gyðingum og glæpi gegn mannkyninu.

Það væri eðlilegra að farnar yrðu fjöldgöngur í Reykjavík, London, París og New York til að krefjast þess að ómennunum í Hamas yrði refsað og það fordæmt, að þeir skuli leyfa sér andstætt því sem nasistnarnir gerðu að skýla sér á bak við konur og börn, sem líða nú fyrir ómennsku þeirra og villidýrseðli.


Óþarfi að kaupa RÚV eða Bylgjuna.

Ríkisvaldið í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum (SAF) með aðsetur í Dubai rembist eins og rjúpan við staurin við að kaupa breska stórblaðið Daily Telegraph. Mörgum hefur orðið ómótt við að ríkisstjórnin í SAF vilji kaupa þann breska fjölmiðil, sem hefur verið málefnalegastur vestrænna fjölmiðla og ekki hikað við að gagnrýna ríkisstjórnir Arabaríkjanna. Tilgangur kaupanna er augljós. Gera DT að málpípu og hluta af áróðursvél SAF.

Áður fyrr voru Gyðingar alsráðandi í fjölmiðlaheiminum, sem var ekki gott. En nú eru það Arabar í skjóli olíuauðsins sem ráða mestu. 

Suma fjölmiðla þurfa SAF ekki að kaupa t.d. Bylgjuna og RÚV. 

Í fréttum Bylgjunnar í gær, var greint frá kæru lögmans vegna meintra brota eins tjaldbúans á Austurvelli m.a. á ákvæðum stjórnarskrár Íslands. Bylgjan hafði ekki samband við þann sem benti á þessi augljósu brot. Þess í stað töluðu þau við einhverja kommúnistínu, sem ætlar að kæra umfjöllun Morgunblaðsins um kæru lögmannsins. Flott fréttamat það.

Þetta er þó smáræði við ítrekaða meistaratakta fréttastofu RÚV. Í gær bæði í útvarps- og sjónvarpsfréttum var þessi einstæða fréttastofa í flóru vestrænnar fjölmiðlunnar með langhunda frá Hamas um að þeim hefðu orðið á nokkur mistök, þegar þeir réðust á Ísrael þ. 7. október, drápu 1.200 manns marga með hræðilegum  hætti, misþyrmdu líkum, nauðguðu konum og drápu ungabörn með hræðilegum hætti m.a. með því að steikja þau lifandi. Þessi afsökunarbeiðni Hamas þó án raunverulegrar afsökunarbeiðni var úðað yfir landslýð stóran hluta dagsins í gær.

Tólfunum kastaði síðan þegar sjónvarpsfréttastofa RÚV var með langa frétt, viðtal við einhverja konu vestur í henni Ameríku, sem sagði að hún hefði orðið fyrir morðhótunum eftir að hún setti upp stuðningsyfirlýsingu við Hamas fyrir framan heimili sitt í framhaldi var síðan viðtal við einhvern mann um eitthvað, sem virtist tengjast einhverskonar vaxandi óþoli gagnvart einhverjum af arabískum uppruna vegna einhvers. 

Þessi fréttaflutningur RÚV er dæmigerðar ekki fréttir og bull sem hefur þó þann mikilvæga undirtón, að sýna fram á hvað fólk í Bandaríkjunum sé vont við fólk af arabískum uppruna.

Þessa fréttastofu þarf Sameinaða Arabíska Furstadæmið ekki að kaupa. Hún tekur öllu fram sem þeir hafa keypt á Vesturlöndum til þessa jafnvel þó að kaupin hafi farið fram fyrir löngu.  

RÚV kostar skattgreiðendur milljarða á ári. Fréttastofan furðulega segir ekki frá hótunum sem þeir Íslendingar verða fyrir sem dirfast að andæfa gegn hælisleitendaþjónkuninni, þar gæti verið um raunverulega ógn að ræða en ekki tilbúna eins og ekki fréttir RÚV í gærkvöldi, um eitthvað fólk í henni Ameríkunni, sem telur sig hafa orðið fyrir einhverju þó engar sannanir væru færðar fram eða neitt tilefni væri til viðtala. 

Það er kominn tími til að borgarar þessa lands fái það frelsi að geta valið sér fréttamiðil í stað þess að vera neytt til að greiða til áróðursfréttastofu RÚV. Minni kröfu er vart hægt að gera í frjálsu þjóðfélagi. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 264
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 3320
  • Frá upphafi: 2294998

Annað

  • Innlit í dag: 239
  • Innlit sl. viku: 3026
  • Gestir í dag: 238
  • IP-tölur í dag: 236

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband