Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Kaupmáttur eykst meðan framleiðsla minnkar

Fjármálaráðherra sagði að kaupmáttur hefði aukist á síðasta ári.Vafalaust er það rétt. En hefur landsframleiðsla ekki dregist verulega saman frá því árið 2019? 

Sé það rétt að framleiðsla hafi minnkað en samt hafi orðið kaupmáttaraukning, er þá skýringarinnar að leita í vaxandi hallarekstri ríkissjóðs?

Ríkissjóður var rekinn með 530 milljarða halla á síðasta ári. Er þá ríkissjóður að borga kaupmáttaraukninguna með hallarekstri?

 


Megrum báknið

Opinberu starfsfólki hefur fjölgað um 9 þúsund manns á 4 árum. Á sama tíma hefur störfum í einkageiranum fækkað og þau eru nú færri en störf hjá hinu opinbera. 

Á miðöldum var talið að það þyrfti 9 bændabýli, til að standa undir kostnaði af einum riddara. Furstar og kóngar þurftu því að gæta hófs í riddaravæðingu. 

Hvað skyldi þurfa mörg störf í einkageiranum til að standa undir þessari fjölgun opinberra starfa? Þegar störf í einkageiranum eru orðin færri en störf hjá honu opinbera liggur þá ekki ljóst fyrir, að báknið er orðið allt of stórt og tekur of mikið til sín. 

Það er því brýnt, að leita leiða til að megra kerfið. Fyrsta skrefið gæti fjármálaráðherra stigið með því að skipa hóp fólks sem klárar verkefni, til að fara yfir það með hvaða hætti mætti ná fram sem mestri megrun kerfisins, þannig að báknið þyrfti undan að láta. Verði það ekki gert eða jafnvel gripið til enn róttækari aðgerða, verður ríkissjóður ekki sjálfbær og góð fjárhagsstaða ríkissjóðs breytist í slæma fyrr en varir. 

Forsenda bættra lífskjara og hagsældar í landinu er báknið burt.


Sérkennileg skattastefna Framsóknar

Leiðtogaumræðurnar í sjónvarpinu í gærkvöldi voru vægast sagt rislitlar. Eitt kom þeim sem þetta ritar sérstaklega á óvart, en það voru hugmyndir sem formaður Framsóknarflokksins reifaði um skattastefnu Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi boðaði einhverskonar háskattastefnu á þá sem gengur vel í atvinnurekstri. Þannig að færi hagnaður fyrirtækja umfram ákveðið mark, sem formaðurinn var ekki með á hreinu hvað væri, þá ætti að skattleggja viðkomandi sérstaklega þannig að helst væri að skilja, að lítið sem ekkert sæti þá eftir af hagnaðinum.

Hugmyndir sem þessar hafa iðulega komið upp, en jafnan hefur verið fallið frá þeim, þar sem þær leiða yfirleitt til þess, að vegið er í raun að hugmyndafræði frjálsrar samkeppni og markaðshyggju og skekkja samkeppnisaðstöðu fyrirtækja. 

Alla útfærslu vantaði þó hjá Sigurði Inga um það hvernig þetta ætti að vera. En aðalatriðið er það, að með þessu er Sigurður Ingi í raun að boða þá stefnu Framsóknarflokksins, að auka skattheimtu og láta hana vera valkvæða þannig, að þeir sem skara framúr skuli bera þyngri skattbyrði en aðrir eftir síðari tíma geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna. 

Íslenskir stjórnmálamenn þurfa heldur betur að vinna tillögur sínar um það hvernig þeir ætla að leggja ofurskatta á þjóðina en Sigurður Ingi hefur gert miðað við orð hans í leiðtogaumræðunum í gær. 

 


Er nóg til?

Ríkasti maður heims um næstliðin aldamót John D. Rockefeller var spurður að því af blaðamanni á sjötugsafmælinu sínu hvað hann þyrfti mikið meira til að hafa nóg. Rockefeller svaraði. Bara örlítið meira "Just a little bit more" 

Forseti ASÍ telur hinsvegar að nóg sé til svo auka megi millifærslur og hækka hverskyns styrki í þjóðfélaginu jafnvel þó ríkissjóður sé rekinn með umtalsverðum halla og við séum fjarri því að vera ríkust í heiminum eins og Rokcefeller var. 

Forseti ASÍ dansar ekki ein þennan dans ímyndunarinnar. Forustumenn allra stjórnmálaflokka dansa með henni í aðdraganda kosninganna. Fréttastofu RÚV hefur auk heldur verið með fastan þátt í hverjum fréttatíma í rúm 12 ár sem gæti heitið ég eða við eigum svo bágt að stórauka verður framlög ríkisins til mín eða okkar. Sérkennilegt ef nóg er til.

Af hverju er ekki hægt að ráðast í mörg brýn verkefni fyrst nóg er til. Já og hvers vegna er ríkissjóður rekinn með hundraða milljarða halla ef nóg er til. 

Getur verið að svo sé komið fyrir íslensku stjórnmálastéttinni og fréttaelítunni sem og verkalýðshreyfingunni, að þeir hópar séu ófærir um að taka á málum eða tala um þau út frá öðrum viðmiðunum en raunveruleikaheimi Lísu í Undralandi. 

 


Alræðisríkið

Fasistaleiðtoginn Benito Mussolini kom með hugmyndina um alræðisríkið. Hann lýsti því hvernig fasisminn þyrfti að ná til allra sviða þjóðfélagsins og gæti ekki viðurkennt neina takmörkun afskipta af hvaða vettvangi þjóðfélagsins sem er enda engar málamiðlanir leyfðar.

Fasistar Mússólíni börðust fyrir sínum sósíalisma á Ítalíu og vildu á grundvelli hugmydafræði sinnar um allsherjarríkið stjórna því sem gerðist í vinnustöðum, verkalýðsfélögum, skólum, hverfum, sveitarfélögum o.s.frv.

Nú hefur íslenska þjóðin eignast svipaðan sósíalistaflokk og flokk Mússólínis, sem krefst alræðisstjórnar, sósíalistaflokk Gunnars Smára Egilssonar.

Íslensku sósíalistarnir boða eins og ítölsku fasistarnir gerðu á sínum tíma að það eigi ekki að gera neinar málamiðlanir. Semsagt andstaða lýðræðislegra hugmynda, en málamiðlanir eru ein meginstoð lýðræðislegra stjórnarhátta, þar sem tekið er tillit til mismunandi skoðana og reynt að ná sameiginlegri framtíðarlausn án ofbeldis. Sósíalistaflokkurinn er því andlýðræðislegur.

Í stefnuskrá flokksins segir: "Þess vegna þarf almenningur að ná völdum ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn,hverfið, sveitarfélagið, þorpið---." Alræðisflokkurinn ætlar að koma á sósíalísku þjóðfélagi, sem hefur í för með sér biðraðir, skort og frelsisskerðingu. Sérkennilegt ef slíkar skoðanir eiga fylgi í íslensku samfélagi.

Í dag má sjá felst ungt fólk og miðaldra, sjálfsöruggt fólk, sem hefur þekkingu og vit á því hvað það vill og hegðar sér almennt eins og upplýstir neytendur sem vilja velja sjálfir hvort þeir kaupa þessa tegund af sjónvarpi, bifreið eða hverju sem er. Það kynnir sér mismunandi verð og gæði á netsíðum og það ætlast til að því sé mætt sem fólki með sjálfstæðan vilja en ekki aðgerðarlaust fólk í biðröð eftir að geta keypt það sem kommúnistaeinokun Gunnars Smára býður þeim þann daginn fyrir það verð sem alræðisstjórn verksmiðju öreigana ákveður þann daginn. Það er að segja ef það verður þá ekki allt uppselt þegar röðin kemur að viðkomandi. Veruleiki sósíalistaflokksins er bergmál og afturhvarf til hugmynda frá því fyrir einni öld síðan, sem átti við allt aðra þjóðfélagsgerð en okkar.  

Fólk ætti að hugleiða að í raun er Gunnar Smári og sósíalistarnir hans ekki að boða annað en fráhvarf frá frelsi einstaklinganna til eigin ákvörðunartöku og alræðis Sósíalista enda á ekki að leyfa neinar málamiðlanir. 

 

  

 


Kvöldstemmning

Í blíðviðrinu í gærkvöldi fannst mér og frú Margréti tilvalið að fá okkur göngu í Nauthólsvík. Gangan var hin skemmtilegasta í kvöldstemmningunni.

Öskjuhlíðin, sem mér skilst að sé jafn hátt og Himmelbjerget hæsta fjall Dana, hefur orðið til muna fallegri á síðustu áratugum og betri til útivistar. Sama má segja um nánast allt umhverfi Nauthólsvíkur. Að sjálfsögðu ber einnig að minnast orða skáldanna um að ekkert sé fegurra en vörkvöld í Reykjavík og/eða vorkvöld í vesturbænum. En það á líka við um kvöldstemmningu sumur, haust og vetur í höfuðborginni. 

Fyrst minnst er á Himmelbjerget, þá komu dönsku stráin upp í hugann. Dönsk strá voru keypt til að prýða umhverfi bragga sem borgarstjórinn í Reykjavík ákvað að gera upp og prýða að innan sem utan. Ekki var hjá því komist að berja augum braggann dýra og stráin dýru. Þarna blasti dýrðin við. Dýrðin sem kostaði Reykvíkinga um einn milljarð. 

"Hann Einbúi gnæfir svo langt yfir lágt að lyngtætlur lýta á hann hissa" orti enn annað skáld,en það sama verður ekki sagt um þennan lágreista bragga og stráin dýru. Þarna kúrði bragginn lágreistur og hnípinn í rekstrarlegum vanda.

Skelfing merkilegt að einhverjum skyldi detta í hug að endurgera bragga fyrir á annað hundrað milljónir sem síðar urðu að um það bil milljarði. "Snillin" getur ekki leynst neinum sem berja þetta afrek augum. 

Þegar "snilli" borgarstjóra í braggamálinu var afhjúpuð, þá lagðist borgarstjóri í rúmið og fór í veikindaleyfi til að þurfa ekki að svara fyrir þetta frekar en annað góðgæti,sem honum finnst erfitta að svara fyrir. Það kom í hlut samstarfsfólks að verja vitleysuna og þau gerðu það. Líka Viðreisn sem kom þó ekki að málinu fyrr en eftir á. Viðreisn greip til heiftarlegra varna enda dýrseldur flokkur. 

Í kvöldkyrrðinni velti ég því fyrir mér hvort reykvískir kjósendur mundu hugsa til þessa máls við næstu kosningar og veita þeim sem að þessu bulli standa og verja fá makleg málagjöld í næstu kosningum. 

Hvað sem öðru líður og þó þetta sé allt dapurlegt og beri vott um óafsakanlegt stjórnleysi og spillingu, þá er samt ekki annað hægt en að brosa út í annað yfir því, að nokkrum skuli hafa dottið í hug að eyða nokkur hundruð milljónum sem urðu að milljarði í vitleysu eins og þessa. Það fólk veit greinilega ekki hvað ráðdeild og sparnaður þýðir enda auðvelt að klúðra hlutum þegar fólk telur sér heimilt að fara illa með annarra fé.  

 

 


Sölutrygging

Sala á hlutabréfum í Íslandsbanka tókst vonum framar og á að skila ríkissjóði 48 milljörðum. Skv. Viðskiptablaðinu mun þó eitthvað hvarnist af þessum söluhagnaði. 

Blaðið tilgreinir að sölutryggingarþóknu sé 1.4 milljarðar og áætlað er að kostnaður bankans við sölunaog þóknanir muni nema um 750 milljónum. 

Ríkissjóður greiðir þá beint og óbeint 2.150.000 auk hugsanlega einhvers sem er ótalið enn. Tveir milljarðar eru mikið fé og óneitanlega vekur það athygli að jafn einfalt útboð eins og hér var um að ræða skuli kosta útboðsaðila á þriðja milljarð króna. 

Ljóst er að hér er vel í lagt og nauðsynlegt að fá upplýst hverjir fengu þá fjármuni sem um ræðir og hvort um eðlilega verðlagningu geti verið að ræða. Eða skiptir það e.t.v. engu máli. Já og af hverju þurfti að sölutryggja og borga fyrir það 1.4 milljarða?

 


Spámaður er oss fæddur

Þegar síldin hvarf seinni hluta sjöunda áratugs síðustu aldar minnkaði þjóðarframleiðsla og gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega. Þá átti þjóðin frábæra hagfræðinga, sem voru með báða fætur á jörðinni menn eins og Ólaf Björnsson alþingismann og prófessor, Davíð Ólafsson alþingiasmann og síðar Seðlabankastjóra og Birgi Kjaran alþingismann og hugmyndafræðing svo nokkrir séu nefndir. 

Þessir hagfræðingar voru sér meðvitaðir um að afla verður þeirra fjármuna, sem borgað er með og hvorki heimili né ríkissjóður verða endalaust rekinn fyrir lánsfé. 

Við eigum enn góða hagfræðinga, sem greina ástandið með einföldum og skýrum hætti. Einn þeirra er Ragnar Árnason prófessor, sem benti m.a. á í Morgunblaðsgrein þ.6.mars s.l. að ferðaþjónustan hefði staðið undir þorranum af hagvexti áranna 2014-2019. Þá benti hann líka  á, að núverandi velmegun sé tekin af láni og segir m.a. "Þessar lántökur verður að greiða til baka fyrr eða síðar." Í sjálfu sér ekki ný sannindi, en horfin sumum. 

Á sínum tíma setti Böðvar Guðmundsson skáld og trúbadúr fram þá kenningu að hér á landi þyrftum við engu að kvíða því ameríski herinn mundi sjá um þjóðina þá ekki síst íslenskar alþýðupíkur eins og skáldið orðaði það í kvæði sínu. Allir gerðu sér grein fyrir, að Böðvar var með ádeilukvæði sínu að gera grín. 

Nú hefur þjóðin eignast spámann í líki Gylfa Zoega,sem hefur fundið þá einföldu lausn allra vandamála þjóðarinnar, að með því að loka landinu og halda áfram skuldsetningu, verði þjóðinni best borgið. Fagnaðarboðskap Gylfa hefur verið tekið með miklum fögnuði. Þekkt er úr sögunni fyrr og nú að dansinn í kringum gullkálfinn er fólki hugleikinn, sérstaklega ef ekkert þarf annað á sig að leggja en að dansa.

En veruleikinn skyggnist alltaf fram um síðir jafnvel þó hann verði ekki í líki Móse komnum af fundi Jahve á fjallinu helga. Spurningin er hvort falsspámenn verði þá vegnir og léttvægir fundnir eða geti sveiflað sér á aðra grein eins og skáldmæringar hagfræðinnar á árunum fyrir hrun gerðu.

 


Hin nýja sýn á vandanum.

Spakvitrasti stjórnmálamaður norðan Alpafjalla, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, fjallar stundum um mál með þeim hætti að vísuhending um fjallið Einbúinn verða næsta hugleiknar eins og segir: Hann Einbúi gnæfir svo langt yfir lágt að lyngtætlur stara á hann hissa.

Í fréttatíma RÚV í hádeginu fann hann 5 ára fjármálaáætlun fjármálaráðherra allt til foráttu og segir að ekki sé ráðist að rót vandans sem sé atvinnuleysi. Logi bendir samt ekki á nein arðbær atvinnuskapandi verkefni, en setti fram nýja kenningu sem er einkar athygliverð.

Þannig sagði Logi formaður að þegar talað væri um tekjubætandi aðgerð í fjármálaáætluninni væri verið að vísa til niðurskurðar og skattahækkana. 

Nú fer mér eins og lyngtætlunum í kvæðinu Einbúinn. Svo vís er þessi kenning Loga, að hún verður ekki sett í vitrænt samhengi við allílfið eða neinar hagfræðikenningar fyrr eða síðar hvorki borgaralegar né sósíalskar.

Hvað er tekjubætandi aðgerð? Skv.orðskýringu er það aðgerð sem kemur í stað skatta og eykur þá væntanlega ráðstöfunartekjur fólks. Okkur lyngtætlunum er því fyrirmunað að skilja þá rökfræðilegu útleggingu Loga formanns, að tekjubætandi aðgerð þ.e. lækkun skatta sé ávísun á niðurskurð og skattahækkanir. 

Umræða verður um málið á Alþingi á morgun og væntanlega mun Logi sem hefur hér haslað sér völl með nýja sýn á hagfræðileg hugtök, orsök og afleiðingu gera okkur lyngtætlunum vitsmunalega grein fyrir því hvernig þetta getur farið saman með þeim hætti sem hann heldur fram.


Milliliður allra milliliða

Pétur Benediktsson heitinn, sendiherra, bankastjóri og alþingismaður gaf á sínum tíma út kverið "Milliliður allra milliliða" Á þeim tíma hömuðust sósíalistar og kommúnistar þess tíma sem og þesslyndir Framsóknarmenn við að gagnrýna svonefndan milliliðagróða og héldu því fram að lífskjör mundu batna til ef hægt yrði að útrýma honum. 

Pétur benti með beinskeyttum hætti á það, hversu vitlaus þessi umræða væri og ekki yrði hjá milliliðum komist þó ekki væri til annars en að framleiða vörur, koma þeim á markað og milli markaða. Til gamans benti hann á, að kýrin væri í raun milliliður allra milliliða. Hún biti gras og afurðin mjólk yrði til. 

Pétur benti líka á hversu vitlausar niðurgreiðslur væru þ.e. að ríkið tæki peninga skattgreiðenda og lækkaði með því vöruverð á sumum neysluvörum. Í því sambandi birti hann skopmynd, þar sem feitur maður situr við borð og skóflar í sig dýrindis krásum. Mjór og glorsoltinn hundur kemur að borðinu og mænir á feita manninn biðjandi augum. Feiti maðurinn tekur upp hníf og sker af rófunni á hundinum og stingur upp í hann og hundurinn labbar alsæll í burtu. 

Pétri fannst þessi skopmynd sýna vel að fólk borgi alltaf fyrir niurgreiðslur að lokum neytendur og skattgreiðendur. 

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur til, að "gefa" fólki ferðagjöf. Ráðherrann ætlar ekki að borga ferðagjöfina sjálf. Þeir sem fá gjöfina borga hana. Sama og þegar feiti maðurinn skar hluta rófunnar af hundinum og stakk upp í hann. 

Ferðagjöf ferðamálaráðherra er þó smáræði á við það sem félagsmálaráðherra er búnn að unga út upp á síðkastið og greinilegt að hann er búinn að vera í kosningabaráttu lengi á kostnað skattgreiðenda til að tryggja sér þingsæti í Reykjavík. 

Þegar viðbrögð stjórnvalda við Kóvíd faraldrinum leiddu til mikils tekjufalls flestra á frjálsa markaðnum, sem ríkisvaldið ákvað að bæta með myndarlegum hætti fyrir suma, þá virðist sem flóðgáttir millifærslna og ríkishyggju hafi skyndilega brostið og peningum skattgreiðenda er ausið út eins og þeir séu óþrjótandi og aldrei þurfi að borga fyrir þessa innistæðulausu veislu. 

Sú hugsun virðist gleymd að stjórnmálamenn eru alltaf að fara með fjármuni annars fólks og þeim ber skylda til að gæta þess vandlega. Hvað skýrast kom þetta fram í viðhorfi formanns BSRB fyrir nokkru þegar hún sagði, að ríkissjóður væri ekkert heimilisbókhald og því væru engin tormerki á því að auka enn hallarekstur ríkissjóðs með myndarlegri framlögum til tekjuauka fyrir hálaunafólk. 

Samband íslenskra samvinnufélaga var stærsta fyrirtæki landsins og þar var ekki fylgt lögmálum heimilisbókhaldsins. SÍS fór í raun á hausinn vegna þess að grundvallarreglur heimilisbókhaldsins eru alltaf til staðar. 

Sama var um Baug, umsvifamesta fyrirtækis landsins um árabil. Þar var ekki fylgt heimilisbókhaldsreglum frekar en hjá SÍS og það endaði með þúsund milljarða gjaldþroti. 

Ríkissjóður lítur sömu lögmálum þegar upp er staðið. Auknar lántökur og hallarekstur ríkissjóðs í núinu leiða til hækkunar skatta og vaxta. Það eru þau óumflýjanlegu efnahagslömál, sem aldrei er hægt að komast framhjá þegar hallarekstur ríkis eða fyrirtækja er eingöngu til eyðslu í núinu.

En veislunni sem millifærslufurstarnir í ríkissjóð hafa boðið til enda ekki fyrr en eftir kosningar og svo virðist sem nánast öll stjórnmálastéttin sem og drjúgur hluti þjóðarinnar vilji dansa sem lengst í kringum þennan gervi gullkálf í draumi þess sýndarveruleika að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem gömlu lánin megi alltaf greiða með nýjum eins og stjórnendur Baugs og SÍS töldu.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 500
  • Sl. sólarhring: 1618
  • Sl. viku: 8312
  • Frá upphafi: 2310019

Annað

  • Innlit í dag: 481
  • Innlit sl. viku: 7617
  • Gestir í dag: 472
  • IP-tölur í dag: 461

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband