Leita í fréttum mbl.is

Jerúsalem er höfuðborg Ísrael

Skilgreiningin á höfuðborg ríkis er; borg sem er miðstöð stjórnsýslu og ríkisstjórnar. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er Jerúsalem höfuðborg Ísrael og hefur verið það frá 1949, en frá þeim tíma hefur stjórnsýslan, löggjafarvaldið og Hæstiréttur landsins verið í Jerúsalem. 

Það er ekki annarra ríkja að ákveða fyrir eitt ríki hver sé höfuðborg landsins. Það er viðkomandi lands sjálfs að gera það. Hvert einasta frjálst og fullvalda ríki hefur vald til að ákveða hver höfuðborg ríkisins er.

Það hefur komið fyrir að lönd hafa breytt um höfuðborg eins og t.d. Tyrkland 1923 þegar höfuðborgin var flutt til Ankara, Kína 1949 þegar Peking varð höfuðborg, Brasilía 1960 þegar Brasilía varð höfuðborg og Þýskaland 1999 þegar Berlín varð aftur höfuðborg. Engum datt í hug að véfengja rétt þessara ríkja til að ákveða hver væri höfuðborg þeirra. 

Nú bregður svo við að meirihluta ríkja á þingi Sameinuðu þjóðanna m.a. með stuðningi Íslands hafa ályktað um það að Jerúsalem sé ekki höfuðborg Ísrael.

Hvaðan skyldi Sameinuðu þjóðunum koma vald til að ákveða það fyrir frjáls og fullvalda ríki hvar höfuðborg ríkisins skuli vera. Í sjálfu sér hafa Sameinuðu þjóðirnar ekkert með það að gera. Það er frjálsra og fullvalda ríkja sjálfra að gera það. 

Ríkisstjórn Íslands ákvað að styðja tillögu Erdogan einræðisherra í Tyrklandi þess efnis að Jerúsalem væri ekki höfuðborg Ísrael. Með því gekk Ísland í lið með meiri hluta þjóða, sem taka sér vald sem þau hafa ekki. Með sama hætti gæti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktað að Reykjavík væri ekki höfuðborg Íslands heldur Sauðárkrókur eða Trékyllisvík.

Þessi afstaða ríkisstjórnar Íslands og raunar allra EES ríkjanna er fáránleg og andstæði grunnreglum þjóðarréttarins. Svo virðist sem andúðin á Donald Trump Bandaríkjaforseta byrgi stjórnmálafólki víðsvegar sýn og komi í veg fyrir að það taki skynsamlegar ákvarðanir.

Jerúsalem er höfuðborg Ísrael. Það er ekkert sem kæmi í veg fyrir það að hún yrði einnig höfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínu Araba ef tveggja ríkja lausnin verður einhverntíma að veruleika. Þ.e. ef sú ríkisstjórn sem þá sæti í því ríki flytti stjórnsýsluna, ríkisstjórn og þing til væntanlegs yfirráðasvæðis síns í Jerúsalem. Ályktun á sjötta tug Múslima ríkja um að Jerúsalem sé höfuðborg Palestínu Araba er hins vegar öllu galnari en ný ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna vegna þess að höfuðborg Palestínu Araba er í Ramallah þar er aðstetur stjórnsýlu, ríkisstjórnar o.s.frv.

Í dag ríkir trúfrelsi í Jerúsalem. Öll helg svæði Gyðinga, Kristinna og Múslima eru vernduð sem og þeir sem aðhyllast viðkomandi trúarbrögð. Sérhver þessara þriggja trúarbragða hefur sína sjálfstæðu yfirstjórn í Jerúsalem og að þeim er ekki þrengt. Jerúsalem er einn fárra staða í Mið-Austurlöndum þar sem helgidómar og fornleifar hafa verið varðveitt og trúfrelsi ríkir í raun.  

Hvað er þá vandamálið við að viðurkenna staðreyndir eins og þá að Jerúsalem er miðstöð Ísraelsríkis og de facto höfuðborg. Af hverju er ríkisstjórn Íslands að slást í fylgd með Hund-Tyrkjanum Erdogan og greiða atkvæði andstætt þjóðarrétti og heilbrigðri skynsemi.   

 


Bloggfærslur 21. desember 2017

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 389
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 2970
  • Frá upphafi: 2297704

Annað

  • Innlit í dag: 370
  • Innlit sl. viku: 2775
  • Gestir í dag: 368
  • IP-tölur í dag: 366

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband