Leita í fréttum mbl.is

Hin viljugu ríki Evrópu

Allt frá því að Bandaríkin fóru að fitla við að reyna að koma á friði milli Úkraínu og Rússa, hafa leiðtogar Evrópuríkjanna hist á ótal fundum og talað um viljug ríki. Svo virðist sem markmiðið sé að hin viljugu ríki taki á sig auknar skuldbindingar í varnarmálum og aukinn stuðning við Úkraínu að því er virðist til að hægt sé að halda stríðinu áfram.

Allt í einu er NATO gleymt og ekki lengur vettvangur öryggismála Evrópu.  Er það nú skynsamlegt?  Hefði ekki einmitt verið nauðsynlegt að hamra á því við Bandaríkin að efla NATO.

Vandamál Bandaríkjanna er að hafa ekki helstu bandamenn sína í nánu samstarfi við að koma á friði milli Úkraínu og Rússlands. Svo virðist því miður sem valdhafar í Washington hafi skömm á valdhöfum Evrópu fyrir að hafa nýtt sér áratugum saman fjármuni bandarískra skattgreiðenda til að tryggja frið og öryggi í Evrópu en þykist nú geta róið sjálf þó ekkert þeirra kunni áralagið.

Í dag sækir forsætisráðherra Íslands fund Evrópuleiðtoga þar sem hin viljugu ríki munu hafa uppi heitstrengingar, sem áður hafa heyrst en ekki skilað neinu öðru en skálaglamri og ræðuhöldum.

Vonandi tekur forsætisráðherra Íslands á málum af meiri skynsemi en utanríkisráðherra og bendir á mikilvægi þess að vera í góðu varnarsamstarfi við Bandaríkin og bendir á það augljósa, að Ísland ætli að vera það. Það eru okkar hagsmunir en ekki að taka undir bullið í Macron og Starmer. 

Það hefði átt að vera sameiginlegt markmið allra NATO ríkjanna að knýja fram frið milli Rússlands og Úkraínu. Það skiptir miklu fyrir öryggi og velmegun allra ríkja Evrópu.

Svo gæti einhver sagt: Maður líttu þér nær. Um 40% af vörum sem fara um Súes skurðinn í Egyptalandi fara til notkunar og neyslu í Evrópu en eingöngu 4% til Bandaríkjanna. Samt sem áður eru það Bandaríkin sem hafa hafið loftárásir á Húta í Yemen til að tryggja flutninga um skurðinn, en Hútar hafa haldið uppi markvissum sjóránum og Evrópuríkin hafa ekkert gert í því utan Breta,sem þó hreyfðu sig af vanmætti. Hvar var Macron þá?

Hin viljugu evrópsku ríki ættu e.t.v. að einbeita sér að því að tryggja öryggi samgangna og vöruflutninga í og til Evrópu. Ef þau ráða ekki við það og þurfa að reiða sig á Bandaríkin til að ráða við skæruliðasveitir vígamanna Húta, þá er ekki líklegt að hin viljugu ríki Evrópu séu til mikils líkleg í alvöru hernaði á víglínunni austur í Úkraínu því miður. 

Kristrún Frostadóttir ætti því að benda samkomunni í París í dag á mikilvægi þess að efla varnarsamstarf NATO, NATO verði eingöngu varnarbandalag, þannig að sameiginlega geti NATO ríkin tryggt frið og öryggi bandalagsgríkjanna með gagnkvæmum skuldbindingum um að árás á eitt NATO ríki sé árás á þau öll. 


Hvernig væri að tala um pólitík

Er ekki mál til komið að íslenska stjórnmálastéttin ræði pólitík í stað einstaklingsbundins vandamáls og meints trúnaðarbrests forsætisráðherra varðandi meðferð á bréfi, sem var sent til fleiri stjórnmálamanna en hennar. 

Varðandi trúnaðarbrestinn, þá hefur Alþingi einfalda leið til að leita eftir því við þar til bæra aðila að þeir afgreiði málið faglega í stað þess að þingmenn þenji sig eins og "stjórnmálaskörungurinn" Steingrímur J. forðum og eyði mörgum þingdögum í að segja það sem aðrir hafa sagt á undan þeim. 

Í bresku stórblaði í dag er slegði upp spurningu, sem væri mikilvægara að ræða: Þar er spurt: Er Ísland til sölu - er að spyrja fyrir bandarískan vin?  Greinilega verið að vísa til Grænlandsáhuga Trump. 

Því miður er því að svara að Ísland er til sölu. Ekki í heilu lagi, en við höfum engar haldbærar hömlur gagnvart t.d. borgurum EES ríkja sem koma í veg fyrir að land og  hlunnindi sem því fylgja sé selt útlendingum. 

Sjálfsagt væri réttara fyrir stjórnmálastéttina að hysja nú upp um sig buxurnar og ganga í að ræða með hvaða hætti á að koma í veg fyrir það að Ísland sé til sölu og/eða að Ísland fyllist hér af fólki, sem hefur engan áhuga á að tileinka sér neitt sem íslenskt er eða vestrænt ef því er að skipta og stendur síðan fyrir upphlaupum sem eyðileggur skólastarf í Breiðholti og girðir fyrir öryggi fólks á heilu hverfi. 

Af nógu er að taka hvað varðar alvarleg mál. Tökum á þeim og eyðum ekki tíma í það sem má kjurrt liggja.


Hinir vammlausu

Svo virðist sem hið "dyggðuga" íslenska "kristna" samfélag hafi gleymt megin inntaki kristinnar trúar um fyrirgefningu. Meira að segja prestar fara hamförum og telja að bannfæra beri  "bersyndugu" konuna, nú fyrrverandi ráðherra.

Hvílíkt og annað eins. 

Má e.t.v. benda hinu "dyggðuga" "kristna" íslenska samfélagi á það sem Jesús sagði um og við bersyndugu konuna í húsi Faríseans (Lúkas 7.kap.36-50) "Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar". Eða þegar bersynduga konan var leidd fram og Jesús spurður hvort ekki væri rétt að grýta hana til bana.

"Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini í hana", sagði Jesús Þá gengu allir burtu. Jesús spurði konuna áfelldist engin þig. Nei sagði hún. Ég áfellist þig ekki heldur sagði Jesús syndga ekki framar.

Hvenær snéri hið "dyggðuga" "syndlausa" "fróma" íslenska samfélag svona algerlega baki við kristnum kærleiksboðskap um fyrirgefninguna?

Við sem erum kristið fólk skulum ekki gera það.

 

 


Þetta gengur ekki

Ronald Reagan gætti þess, að vera alltaf í þéttu sambandi og samráði við bandalagsþjóðirnar í Evrópu áður en stórpólitískar ákvarðanir voru teknar, sem vörðuðu sameiginlega hagsmuni. Því miður virðast hvorki Trump né helstu stjórnendur Evrópu átta sig á mikilvægi þess, að vestræn lýðræðisríki gangi sem mest í takt. 

Bandaríkjaforseti hefur hamast að Úkraínu með að þeir semdu um vopnahlé á þeim forsendum sem Bandaríkin hafa teiknað upp. 

Loksins samþykktu úkraínsk stjórnvöld samningsdrög Bandaríkjanna og því var beðið í ofvæni eftir samtali þeirra Pútín og Trump í gær um vopnahlé. Við því var búist að eitthvað kæmi fram í því samtali og í kjölfar þess, sem gæti verði viti, sem leiðarljós til friðar. 

Því miður var niðurstaðan úr viðræðum Pútín og Trump afar rýrar, mun marklausari en sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar og vesælli en músin sem fæddist, að mati sumra, þegar fjallið tók jóðsótt.

Svo virðist sem Pútín hafi tekist að semja um eitthvað sem skiptir engu máli og komist upp með að hundsa tillögur Trump og nú líka Úkraínu um vopnahlé, án þess að séð verði, að það skipti Pútín einhverju máli. Kósýheitin í spjalli foretanna Pútín og Trump var að því er virðist alls ráðandi, en árangurinn til að ná fram raunverulegu vopnahléi og leiðarljósi í átti til friðar engin. Í raun hafnaði Pútín vopnahléinu að öðru leyti en því sem bindur hendur Úkraínumanna en veitir Rússum á sama tíma fullt svigrúm. 

Betur má Trump nú reynast ef duga skal. Það er ástæðulaust að gefa Pútín öll trompspilin á sama tíma og girt er fyrir góð og nauðsynleg samskipti við helstu bandamenn í Evrópu. 


Allt kyrrt á austurvígstöðvunum?

Mörgum finnst sérkennilegt, hvað vestrænir fjölmiðlar segja lítið frá stríði Rússa og Úkraínumanna. Fréttaflutninginn er að segja frá gríðarlegu mannfalli Rússa, en nánast ekkert annað. 

Almenningi á Vesturlöndum er sagt að litla Úkraína, þekkt fyrir grómtekna spillingu, fátækt og minnstu þjóðarframleiðslu á mann af fyrrum Sovét lýðveldum í Evrópu muni sigra Rússa. Á því byggði Biden stjórnin og sú íslenska aðkomu sína við að viðhalda stríðinu í stað þess að leita samninga um vopnahlé og frið og setja Rússum afarkosti væri pólitískur vilji til þess. 

Í gær kom frétt í hinum virta fréttamiðli Daily Telegraph um hrakfarir Úkraínuhers í Kúrsk. Úkraínuher er á skipulagslitlum flótta eftir mikið mannfall og búist við að Rússar nái öllu landi í Kúrsk í dag. 

En hvers vegna þessi þögn um það sem er raunverulega að gerast á austurvígstöðvunum? Hafa vestrænir fréttamiðlar algjörlega brugðist að sinna eðlilegri fréttamennsku? Eru þeir handbendi afla, sem hafa í raun komið á virkri ritskoðun í raun án lagafyrirmæla, en sé svo hvaða öfl eru það þá?

Við sem kröfðumst þess að komið yrði á friði í Úkraínu og Vesturveldin gerðu Rússum þá úrslitakosti sem væru skynsamlegir höfðum rétt fyrir okkur en þeir sem fylgdu Biden, Boris Johnson línunni voru í raun óvinir Úkraínu og óvinir friðarins. Því er ótrúlegt að utanríkisráðherra skuli ætla að feta í fótspor fyrirrennara síns um að hvetja til hernaðar og henda peningum áfram á þetta ófriðarbál engum til góðs og alla vega ekki þeim sem ætlunin er að hjálpa.

Væri ekki betra fyrir Ísland að taka upp sína gömlu utanríkisstefnu að vera málsvarar friðar og taka ekki þátt í hernaðarlegum átökum. Herská stefna utanríkisráðherra er helstefna smáþjóðar, sem á að vera annt um frelsi sitt og fullveldi.  


Þetta var ekki frétt

Í gær sagði transkona í fréttatíma Stöðvar 2 og RÚV, að hún þyrði ekki til Bandaríkjanna á transráðstefnu, af ótta við að vera vísað úr landi eða þola aðra ánauð vegna þess að hún væri transkona. 

Eru forsendurnar sem transkonan gaf sér fyrir að fara ekki til USA raunverulegar eða rangar. Leituðu fréttamiðlarnir upplýsinga um það? Svo virðist ekki hafa verið. Afleiðingin léleg bullfréttamennska.

Hefur transfólk verið svipt almennum mannréttindum í Bandaríkjunum? Svarið er nei. Ríkisstuðningur hefur verið felldur niður vegna kynbreytingaraðgerða og Bandaríkjaforseti hefur sagt frá þeirri líffræðilegu staðreynd, að það séu bara tvö kyn, en transfólk heldur öllum mannréttindum óbreyttum þ.m.t. ferðafrelsi og að sækja ráðstefnur.

Fréttamiðlar verða að gæta þess að taka ekki sem heilögum sanleik öllu því sem sérhagsmunaaðilar ýta í þá það leiðir til bullfréttamennsku,sem því miður báðar þessar fréttastofur eru illa haldnar af. "Frétt" transkonunar í gær var falsfrétt.


Sjálftaka og sérkjör

Stjórnmálastéttin hefur verið iðin við að hlaða undir sig undanfarin ár. Svo er komið að iðulega er um algert siðleysi að ræða og fara þá sveitarfélög í fararbroddi og skammta sínum stjórnendum ekki úr hnefa heldur hverja handfyllina á fætur annarri. Allt er þetta vegna þess að þessi stjórnendur semja við sjálfa sig og aðra sem eiga sömu hagsmuni að gæta og þá er ekki rifist um prósentur launahækkana heldur frekar tugi prósenta. 

En öll met slær borgarstjórinn í Reykjavík. Hvernig stendur á því að laun hennar margfölduðust á stuttum tíma þrátt fyrir að vinnan sem hún innti af hendi væri afar takmörkuð.  Sjálftaka borgarstjórans með aðstoð vikapilta og vikastúlkna er óafsakanleg. Algjör spilling eins og formaður Eflingar benti á í fréttum í gærkvöldi. 

Það er þörf siðvæðingar í íslenskum stjórnmálum og nauðsyn krefur að heildar uppstokkun verði gerð á launakjörum æðstu stjórnenda landsins og allrar stjórnmálastéttarinnar. Þá verður að endurskoða alla styrki til stjórnmálaflokka og helst fella þá algjörlega niður því þar er einfaldlega um fordæmanlega sjálftöku að ræða. 

Hvernig skyldi standa á því að svonefndir félagshyggju og vinstri flokkar skuli hvað óðast láta greipar sópa um ríkis-, borgar- og sveitarsjóði. 

Hvernig ætla Sósíalistar, Flokkur fólksins og Píratar að rökfæra það að borgarstjórinn sitji áfram þrátt fyrir að rækilega hafi verið sýnt fram á að hjá henni ríður spillingin og persónuleg sjálftaka launa ekki við einteyming.


Farsæl niðurstaða

Hvað svo sem líður stuðningi við eintaka frambjóðendur þar á meðal þess, sem þetta ritar, þá skal viðurkennt, að niðurstaðan þegar á allt er litið gat ekki orðið farsælli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns og Jens Garðars Helgasonar varaformanns bíða mörg og misjafnlega erfið verkefni varðandi endurreisn Sjálfstæðisflokksins til fyrri vegs og virðingar eins og þau orðuðu það bæði eftir að hafa náð kjöri, þó með mismunandi hætti væri. 

Þó Guðrún og Jens eigi ákveðinn hóp sameiginlegra stuðningsmanna, þá fengu þau þó aðallega stuðning frá sitt hvorri fylkingunni sem tókust á í formannskjöri. 

Báðum skal óskað farsældar í störfum sínum fyrir Flokkinn og nú reynir á að þau standi sig og nái að byggja Flokkinn upp á nýju. Allt Sjálfstæðisfólk hvar svo sem það stóð í fylkingu verður að gefa þeim nauðsynlegt svigrúm og styðja þau til allra góðra verka. 


Landsfundur- Ný forusta

Það útheimtir gott skipulag og fjölda fólks sem kann til starfa að skipuleggja og halda rúmlega 2000 manna Landsfund eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú í Laugardalshöll. 

Skipulag og frágangur er til fyrirmyndar að flestu leyti, en á það skortir þó á pappírslausum fundi, að tillögur o.fl. skili sér nægjanlega vel. Þá verður að gagnrýna lýðræðisstífinguna og takmörkun á möguleikum hins almenna flokksmanns til að geta látið til sín taka málefnalega í ræðustól á fundinum.

Þá er það dapurlegt að ötult baráttufólk fyrir Sjálfstæðisflokkinn í meir en hálfa öld og hafa sótt Landsfundi allan tímann síðan, skuli ekki vera fulltrúar á þessum fundi. Í því sambandi nefni ég sérstaklega þá Ólaf Egilsson sendiherra, Þór Whitehead prófessor emeritus og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara, prófessor og lögmann allt emeritus. Marga fleiri mætti nefna. Til að koma í veg fyrir svona slys þyrfti miðstjórn, að geta úthlutað ákveðnum fjölda landsfundarsæta þess vegna með auknu meirihlutasamþykki.

Fyrir þá sem hafa verið um árabil í flokksstarfi er það ómetanlegt að hitta vini og kunningja alls staðar að af landinu. Landsfundur er annað og meira en bara fundur. 

Á sama tíma og aðrir flokkar halda sína aðalfundi og Landsfundi þar sem mæta um hundrað til þrjúhundruð manns, þá sýnir það hvílíkur munur er á skipulagi og því afli sem býr í Sjálfstæðisflokknum og annarra stjórnmálaflokka á Íslandi. 

Slaklega er þá staðið að verki, hvað sem líður lofi og oflofi um fráfarandi forustu þegar þessi ofurkraftur brýst ekki fram og finnur sér stað í kosingum. En það er sú staðreynd sem að flokksmenn horfast í augu við eftir síðustu kosningar.

Það þarf að greina með heiðarlegum hætti og hika ekki við að hverfa frá mið-vinstri stefnunni og taka upp ákveðnari stefnu sem býður upp á raunverulegan valkost frá vinstri villum. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur alla tíð verið óskoraður foringi flokksins meðan hann gegnir formennsku. Miklu skiptir því að vel takist til í dag með val á formanni flokksins. 

Ég sé ekki að neinar breytingar til góðs fyrir flokkinn hvað varðar endurskipulagningu og nýjar áherslur nema okkur beri gæfu til að kjósa Guðrúnu Hafsteinsdóttur athafna- og stjórnmálakonu sem formann flokksins. 

 


Alþingi og þjóðlífið

Bjarni Benediktsson heitinn fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra taldi alla tíð nauðsynlegt að Alþingi væri í sterkum tengslum við þjóðlífið, en það gerði þá kröfu til þingmanna, að þeir hefðu þekkingu og tilveru utan hins hefðbundins stjórnmálastarfs og sagði:

"Til þess að taka að sér forsjá í málum annarra og stjórna þeim, þarf ætíð mikla þekkingu. Stjórnmálamaðurinn verður að þekkja land sitt og gæði þess og torfærur,þjóð sína, kosti hennar og galla"

Það má lesa út úr ræðum Bjarna, að hann telur illt í efni ef allir þeir sem sitja á Alþingi eða stór hluti þeirra séu atvinnustjórnmálamenn og á skorti nauðsynlega þekkingu slíkra stjórnmálamanna. 

Dæmi um sannleiksgildi þessarar hugsunar Bjarna heitins eru flokkslíkamabörnin bresku, bræðurnir Ed og David Miliband. Þeir fóru í háskóla og síðan í pólitík eða pólitískt tengd störf á vegum Verkamannaflokksins og klifruðu síðan upp metorðastigann og enduðu með því að takast á um það hvor þeirra yrði formaður, en þann slag vann Ed. Þeir þekktu ekki þjóðlífið utan stjórnmálanna. 

Vegna skorts á annarri þekkingu en starfi í pólitík skortir þá nauðsynlegu þekkingu til að geta stýrt málum til góðs þegar þeir hafa haldið um valdataumana.  Skýrasta dæmið er hvernig Ed fer fram sem umhverfismálaráðherra. Hann hefur lagt fram tillögur sem mundu drepa breskan landbúnað og en áður hefur hann hafið vegferð gegn vinnslu olíu í Norðursjó þannig að sú vinnsla mun stöðvast. Allt er þetta hið versta mál, en flokkslíkamabarnið Ed skortir skilning á því, þar sem þekking hans er bundin við stjórnmálin eingöngu.  

Þingmenn telja sig oft vera í miklu og góðu sambandi við þjóðina og þekkja kosti hennar styrkleika og veikleika út og inn. Þingmenn eru samt að mestu leyti uppteknir við að tala alltaf við sama fólkið. Þröngan hóp frá stjórnsýslunni eða talsmenn hagsmunasamtaka. Þá skortir því oft nauðsynlega yfirsýn hafi þeir ekki haft yfirgripsmikla þekkingu þegar þeir settust á þing og sinnt almennum störfum til lands eða sjávar. 

Sjálfstæðisflokkurinn velur forustu sína á sunnudaginn. Væri ekki rétt að fara eftir þeim leiðarmerkjum og vísdómsorðum, sem einn farsælasti forustumaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni heitinn Benediktsson taldi nauðsyn á að forustumaður í stjórnmálum hefði til að bera til að geta rækt starf sitt til heilla fyrir land og lýð. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 298
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 2873
  • Frá upphafi: 2503726

Annað

  • Innlit í dag: 274
  • Innlit sl. viku: 2712
  • Gestir í dag: 256
  • IP-tölur í dag: 247

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband