Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Enn hvað það var skrýtið

Umræðan um skuldavanda sveitarfélaga er sérstök á stundum. Forustumenn stórskuldugra sveitarfélaga koma fram og láta eins og eitthvað hafi skyndilega gerst. 

Já það er svo skrýtið að sveitarfélagið á við gríðarlegan fjárhagsvanda að etja segja strandkapteinarnir. Í öllum tilvikum áttu og máttu stjórnendur sveitarfélagsins vita að hverju stefndi  árum saman, en gerðu ekkert. 

Hvað gerist svo þegar fjárhag sveitarfélagsins hefur verið stýrt í þrot? Þá ætla strandkapteinarnir að rétta allt við í staðinn fyrir að þakka fyrir sig og viðurkenna alvarleg mistök.

Í einkafyrirtækjum er sjálfgert fyrir eigandann, að pakka saman,ef illa gengur en hjá hinu opinbera er leitað lausna, sem felast alltaf í að níðast meira á skattgreiðendum undir fyrirsögninni: Ekki mér að kenna.

Laun stjórnenda flestra sveitarfélaga og lykilstarfsmanna eru allt of há. Í Reykjavík er fyrstu varamönnum borgarstjórnar greidd laun,vegna þess, að Dagur þurfti að tryggja stuðning VG við meirihlutasamstarfið á síðasta kjörtímabili eftir að VG missti einn fulltrúa. Þá var í lagi að bæta við nokkrum tugum milljóna við  útgjöld borgarinnar, til starfslauss fólks og allir flokkarnir kjömsuðu á þessu bruðli og létu sér vel líka.

Það sem síðan er verra, er að sveitarfélögum er iðulega illa stjórnað. En forráðamenn þeirra hafa komist upp með meira rugl en Alþingi, þar sem kastljós fjölmiðlanna er beint að Alþingi en nánast ekkert að sveitarfélögunum. Auk þess hafa menn í ýmsum sveitarfélgum komist upp með áralanga óstjórn á grundvelli þess að stjórn og stjórnarandstaða vinnur eftir reglunni. Ég klóra þér á bakinu og þú klórar mér.

Þjóð sem rekur ríkissjóð með gríðarlegum halla í bullandi góðæri og sveitarfélög sem eru við það að segja sig til ríkis vegna gríðarlegs hallareksturs í bullandi góðæri mætti gera sér grein fyrir nauðsyn þess að skipta um stefnu og fólk í brúnni áður en þjóðarskútunni verður siglt í strand með þeim afleiðingum, að verra Hrun getur orðið en árið 2008.

 


Er eitthvað rotið í konungdæminu?

Það er eitthvað rotið í Danmörku segir í "Hamlet" einu höfuðleikriti Vilhjálms Seikspír.(William Shakespear)Þessa umsögn hefur í tímans rás mátt færa upp á margar þjóðir. 

Forseti Kína setur sína taflmenn á mikilvægustu reitina, á meðan Vesturveldin sér í lagi Bandaríkin hafast ekki að. 

Meðan Kínverjar sóttu fram sem áhrifavald í Mið-Austurlöndum, þar sem Bandaríkjamenn voru einráðir voru Bretar uppteknir við að ræða það hvort að konur gætu haft tippi eða ekki. 

Í Bandaríkjunum beindust allra augu að réttarhaldi yfir fyrrum forseta Bandaríkjanna, þar sem vinstri sinnaður saksóknari gerir sitt til að vekja á sér athygli með svo galinni málssókn, að helstu andstæðingar Donald Trump í Repúblíkanaflokknum fordæma hana sem og flestir virtir lögmenn í Bandaríkjunum. 

Meðan þau Macron og Ursula flugu til Kína til að biðja forseta Kína ásjár vegna Úkraínustríðsins, beindust allra augu á Vesturlöndum sérstaklega í Bandaríkjunum að málssókninni gegn Trump. Fjölmiðlafólk beið í röðum til að ná myndum af uppákomunni, þar sem nánast engir aðrir voru viðstaddir en fjölmiðlafólk til að taka myndir hvert af öðru. 

Í góðri grein sem Douglas Murray skrifar í DT í dag, vísar hann til þess, að á sama tíma vaxi rán og gripdeildir í Bandarískum borgum einkum þeim sem stjórnað er af Demókrötum og þær séu að rotna innanfrá á meðan forsetinn hinn "svefnþrungni Jói" er aðgerðarlaus í felum og varaforsetinn hefur enga burði til að gera eitt eða neitt.

Kína blómstrar og fer sínu fram í öllum málum hvort sem er varðandi mannréttindi eða kolefnisfótspor. Vesturlönd eru upptekin við að gera lífskjör verri og draga mátt úr framleiðslu sinni vegna bábilju pólitísku veðurfræðinnar.

Svo illa er komið fyrir Bandaríkjunum, forusturíki Vesturlanda í hartnær heila öld, að helstu forustumenn Vestur Evrópu halda til fundar við Kínverska forsetann í máli, sem forustumenn Evrópu hefðu sótt Bandaríkjaforseta heim til að biðja hann um að taka að sér forustu frá lokum síðasta heimsstríðs 1945. 

Fólk á Vesturlöndum þarf að huga að þeirri nýju stöðu, sem er að verða til í heimspólitíkinni og átta sig á að leið Evrópu og Bandaríkjanna verður  bara verri í samanburði við önnur lönd, ef fólk ætlar að halda áfram að eyðileggja framleiðslutækifæri sín, rífa sig niður á grundvelli sögulegra sjálfsásakana og muna ekki hvaða mannréttindi skipta mestu máli og er harðast sótt að.


Þjóðin skal skattlögð út úr verðbólgunni

Forsætisráðherra tilkynnti í gær, að ríkisstjórnin ætlaði að hækka skatta til að vinna gegn verðbólgu. Tvennt er athyglisvert við þessa yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur.

Í fyrsta lagi er óeðlilegt að völdin séu tekin af fjármálaráðherra og forsætisráðherra tilkynni um væntanlegar aðgerðir í ríkisfjármálum.

Í öðru lagi gengst ríkisstjórnin með þessu í fyrsta sinn við ábyrgð sinni á heildarefnahagsstjórn í landinu. Hingað til hefur virst sem þar á bæ í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík, hafi sú skoðun verið uppi að verðbólga væri alfarið á ábyrgð Seðlabankastjóra og honum að kenna.

Fyrir 3 mánuðum samþykkti Alþingi fjárlög. Nú boðar forsætisráðherra breytingar á þessum nýsamþykktu lögum. 

Ríkisstjórnin hækkaði ýmis þjónustugjöld og neysluskatta við afgreiðslu fjárlaga. Þær aðgerðir voru olía á verðbólgueldinn.  Vonandi vegur ríkisstjórnin ekki enn og aftur í þann knérunn. Þá væri jafnað metin við það þegar Bakkabræður báru inn sólarljósið. 

Sú stefna sem forsætisráðherra kynnti í gær var sú að skattleggja ætti þjóðina út úr verðbólgunni. Allt byggist það á þeim sjónarmiðum, að ríkisvaldið kunni betur með fé að fara en einstaklingarnir, fólkið í landinu. 

Fróðlegt verður að sjá hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins finnur hugmyndafræðilegan farveg þess að háskattastefna út úr efnahagsvanda, sé einmitt það sem Sjálfstæðisflokkurinn eigi að berjast fyrir og með því verði einstaklingsfrelsið og athafnafrelsið best tryggt.  

Fólkið í landinu, sem á erfitt með að ná endum saman í vaxandi verðbólgu hlítur að velta því fyrir sér líka hvort þetta bjargráð ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu sé líkleg til að skapa velferð og velmegun í landinu. 

 

 


Neytendabarátta í 70 ár

Neytendasamtökin eru 70 ára gömul baráttusamtök fyrir bættum hag neytenda. Barátta Neytendasamtakanna mótast af þeim þjóðfélagsaðstæðum sem við búum við hverju sinni. Samt eru alltaf ákveðnir hlutir sem breytast ekki. Það þarf að gæta að því að samkeppni sé virk og vöruvöndun og verðlag sé eðlilegt. 

Það voru tímamót í baráttu neytenda þegar John F.Kennedy þáverandi Bandaríkjaforseti hélt ræðu á Bandaríkjaþingi árið 1962 og sagði þá: 

"Við erum öll neytendur. Þeir eru stærsti hagsmunahópurinn í landinu og þeir hafa áhirf á og verða fyrir áhrifum af næstum sérhverri efnahagsákvörðun opinberra aðila og einkaaðila. En þeir eru eini stóri hópurinn í efnahagslífi okkar, sem ekki getur komið fram sjónarmiðum sínum. Réttur neytenda felur í sér þessi atriði: Réttinn til öryggis. Réttinn til upplýsingar. Réttinn til að velja. Réttinn til að hlustað sé á sjónarmið þeirra."

Víða um heim hafa neytendur ekki enn náð fyrsta markmiðinu, en í okkar heimshluta hefur orðið mjög jákvæð þróun til hagsbóta fyrir neytendur. 

Fyrir um hálfri öld hóf ég starf í Neytendasamtökunum. Ástæða þess var raunar nokkuð skondinn. Ágætur vinur minn og mikill vinstri maður taldi nauðsynlegt að allt pólitíska litrófið ætti sér málsvara innan Neytendasamtakanna og fékk mig til starfa í samtökunum. Mér fannst þessi barátta bæði mikilvæg og nauðsynleg og enn frekar eftir því sem árin liðu. 

Ég var formaður Neytendasamtakanna þegar samtökin áttu 30 ára afmæli. Þá var aðstaða neytenda önnur en nú. Víðtæk ríkiseinokun var til staðar og ríkiseinokunarfyrirtækin voru oft í fararbroddi þeirra fyrirtækja, sem neytendur þurftu að eiga viðskipti við, sem tóku lítið tillit til óska og krafna neytenda. Síbrotafyrirtæki ríksins eins og við kölluðum það á þeim tíma tóku mikinn tíma í neytendastarfi. 

Á þeim tíma vantaði líka nánast alla löggjöf til að standa vörð um hagsmuni neyenda og eðlilegar umferðarreglur í viðskiptalífinu með tilliti til neytenda. Við borðumst í áratugi fyrir að ná fram sama lagaumhverfi og annarsstaðar í Evrópu, en tregðulögmál íslenskra stjórnmála og varðstaða um hagsmuni einokunarfyirtækja gerði þá baráttu erfiða. 

Það var ekki fyrr en við gengum í Evrópusambandið, sem að augu íslenskra stjórnmálamanna opnuðust fyrir því, að allt sem við höfðum sagt og barist fyrir var rétt og við höfðum dregist aftur úr á sviði varðstöðu um hagsmuni neytenda. 

Eitt lítið dæmi má nefna. Við börðumst fyrir því að sett yrði löggjöf um greiðsluaðlögun í tæp 30 ár áður en sú löggjöf varð að veruleika og þá í hruninu sem neyðarlöggjöf. Hefði verið hlustað á okkur á þeim tíma, hefði staðan verið betri og við betur undirbúin til að takast á við hamfarir hrunsins. 

Við þurftum að berjast fyrir mannsæmandi viðskiptaháttum varðandi landbúnaðarafurðir m.a. eina algengustu neysluvöruna, kartöflur, en netyendum var iðulega boðið upp á óæta og heilsuspillandi vöru þ.á.m. kartöflur og það þýddi ekkert að eiga við stjórnvöld. Þau stóðu með einokunarfyrirtækinu gegn neytendum. En svo fór að með samtakamætti höfðu neytendur sigur. 

Því miður hafa Neytendasamtökin ekki náð því að íslenskur lánamarkaður yrði sambærilegur og hann er í okkar nágrannalöndum. En þar er um áratugabaráttu að ræða. Sigur mun vinnast í því líka. En því miður hefur það gengið allt of hægt. 

Samtökin hafa eflst og dafnað. Að sjálfsögðu eru hæðir og lægðir í félagsstarfi frjálsra félagasamtaka og nú virðist vel staðið að málum í Neytendasamtökunum. Það eru hagsmunir íslenskra neytenda og meginforsenda öflugra samtaka er að sem flestir gerist félagar í Neytendasamtökunum. 

Neytendabarátta er spurning um mátt fjöldans til að gæta hagsmuna sinna og réttinda. Við skulum berjast fyrir þeim rétti hvar í flokki sem við stöndum. Því þó að neytendabarátta sé pólitísk barátta þá gengur hún þvert á flokkakerfið og við eigum öll að taka höndum saman um baráttu fyrir þessa hagsmuni okkar allra íslenskir neytendur. 


Valdstjórnin hlustar ekki á þá, sem fordjörfuðu fullveldinu.

Nýr flokkur í Hollandi, Bændaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í síðustu viku. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða og er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum Hollands. Það sýnir að flokkurinn höfðar ekki síður til borgarbúa en bænda.

Formaður flokksins Caroline van der Plas, segir að velgengni flokksins sé vegna þess að kjósendur séu að gera byltingu gegn ofurvaldi Evrópusambandsins (ES) og hvernig bandalagið beitir sér andstætt hagmunum fólks. Kjósendur í Hollandi voru að mótmæla reglum um loftslags- og umhverfismál, sem Evrópusambandið dælir út í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Engu skipti þó að ríkisstjórn Hollands hefði beðið ES um að draga úr kröfum á hendur Hollandi varðandi notkun nítrógens (tilbúins áburðar). Valdstjórn ES í Brussel fór sínu fram, sem fyrr gagnvart minni ríkjum bandalagsins.

Afleiðing þessara reglna ES varð sú að hætta varð framleiðslu á mörgum búum á kostnað skattgreiðenda. Þar er ekki verið að tala um smápeninga. Áætlaður kostnaður er um 25 þúsund milljónir Evra vegna loftslagstrúarbragðana bara vegna þessra reglna.

ES puðrar út fleiri nýjum reglum í umhverfismálum en nokkru sinni fyrr og andstaðan fer vaxandi. Úrslitin í Hollandi sýna vaxandi vantrú á loftslagspólitík EU. Þrátt fyrir að fleiri greiddu atkvæði í kosningunum nú en síðustu 30 árin og úrslitin séu skýr,telja hollensk stjórnvöld sig ekki geta breytt reglum um notkun nítrógen nema með leyfi frá Brussel.

Svona fer þegar þjóðríki tapa fullveldi sínu til báknsins í Brussel.

Evrópusinnar hér á landi ættu að horfa til þess sem er að gerast í ES og hvernig valdstjórnin í Brussel hagar sér gagnvart aðildarríkjunum.

Það er raunar merkilegt miðað við þá breytingu sem hefur orðið á ES að nokkur maður skuli telja það fýsilegt lengur fyrir íslenska þjóð að segja sig til sveitar í Evrópusambandinu.


Lindarhvoll

Af hverju má ekki birta skýrslu Sigurðar Þórðarsonar fyrrum ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols. Því hefur verið haldið fram, að ekki sé um skýrslu að ræða heldur vinnuplagg, en það skiptir í sjálfu sér engu máli.

Hvaða hagsmuni er verið að vernda með leyndarhyggjunni? Eðlilega verður fólk tortryggið þegar málefni Lindarhvols fást ekki rædd með eðlilegum hætti.

Ef engar markveðar upplýsingar eru í skýrslu Sigurðar, þá þarf ekki að ræða það frekar eftir að hún hefur verið birt. Ekki ætti þá að vera ástæða til að birta ekki skýrsluna. Séu hinsvegar mikilsverðar upplýsingar í skýrslunni þá er eðlilegt að um það verði rætt á lýðræðislegum vettvangi. Skýrslan á erindi til fólks í lýðræðisríki. 

Lindarhvoll hefur og er að sýsla með gríðarlega fjármuni og eignir  ríkisins. Ekki hefur verið gerð grein fyrir hvaða ráðstafanir voru gerðar varðandi sölu eigna, hvernig kaupendur voru valdir. Hvort þess hafi verið gætt að hámarka verð hins selda og þá með hvaða hætti. Einnig hvaða þóknanir voru greiddar og hverjum. 

Öll þessi atriði þarf að upplýsa. 

Sjálfstæðisflokkurinn á að vera og þarf að vera í fararbroddi um upplýsingagjöf og opið lýðræðislegt þjóðfélag.  Flokkurinn má ekki takmarka upplýsingagjöf til almennings og standa vörð um leyndarhyggju hvorki varðandi Lindarhvolsmálið né önnur mikilsverð mál sem varða stjórnsýslu ríkisins eða henni tengt. 

  


Óþægilegar staðreyndir

Þegar viðskiptabann á Suður Afríku var til umræðu á Alþingi fyrir margt löngu, lagðist ég gegn því stjórnarfrumvarpi og fékk að sjálfsögðu bágt fyrir sem stjórnarþingmaður að skerast úr leik. Ég taldi að þær refsiaðgerðir mundu bitna mun harðar á almenningi en stjórnvöldum landsins.

Margaret Thatcher sagði varðandi refsiaðgerðir og viðskiptabann á Suður Afríku, að þær virkuðu sjaldnast eins og þeim væri ætlað að gera. Viðskiptaþvinganir auka á fátækt og/eða örbirgð almennings og megna sjaldnast að koma sitjandi stjórnvöldum frá völdum. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tók í sama streng. Ég var því í notalegum félagsskap þó að þessar skoðanir mínar þættu fordæmanlegar á meðal félaga minna í Sjálfstæðisflokknum.

Frá því að Vesturlönd beittu Suður Afríku refsiaðgerðum, höfum við mörg fleiri dæmi eins og t.d. Írak á valdatíma Saddam Hussein, þar sem viðskiptabann olli m.a. gríðalegum ungbarnadauða, en hafði engin áhrif á Saddam. Íran er annað dæmi, þar sem klerkaræðið er enn við lýði þrátt fyrir langvarandi viðskiptabann og aðrar refsiaðgerðir.

Ein ástæða þess að viðskiptaþvinganir virka ekki er að þær bitna iðulega verr á þann sem beitir þeim, en þann sem verður fyrir þeim. Fáir eru til lengri tíma tilbúnir til að fórna til langframa spón úr eigin aski.

Nú eru Rússar beittir harkalegum refsiaðgerðum skv. því sem forustumenn vestrænna ríkja halda fram. Refsiaðgerðirnar hafa þó mun minni áhrif en ætlað hefur verið.

Þó að refsiaðgerðir Vesturveldanna hafi slæm áhrif á efnahag Rússa, þá reiknar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samt með því að þjóðarframleiðsla Rússa hafi vaxið á árinu 2022. Á sama tíma drógst þjóðarframleiðsla Bretlands saman. 

Kínverjar og Indverjar kaupa jarðefnaeldsneytið af Rússum, sem annars hefði verið selt til Evrópu og vestrænar vörur koma bakdyramegin til Rússlands í gegnum t.d. Tyrkland og Armeníu.

Ýmsir mikilvægir vöruflokkar eru undanskildir refsiaðgerðunum t.d. áburður og ákveðnir málmar. Rússar framleiða um fjórðung til fimmtung af öllum tilbúnum áburði í heiminum og stjórnvöld í Bandaríkjunum sögðu að það gæti haft hræðileg áhrif á fæðuöryggi í heiminum og matvælaverð ef áburðurinn væri ekki undanskilinn.

Þessvegna þrátt fyrir að Bandaríkin séu það land, sem veitir mestan stuðning til Úkraínu með vopna- og peningasendingum, þá flæða ýmsar rússneskar vörur áfram inn á Bandaríkjamarkað. Svo notuð séu orð Biden forseta eru Bandaríkjamenn því að viðhalda og styrkja stríðsvél Pútín með því að halda áfram viðskiptum við Rússa á þeim sviðum, sem þeim þóknast. Þessi tvöfeldni Bandaríkjanna er eftirtektarverð. Þeir halda áfram að fæða stríðsvél Rússa á sama tíma og þeir senda peninga, skriðdreka og orustuþotur til Úkraínu.

Bandaríkin mótuðu reglurnar um refsiaðgerðir gegn Rússum og þar voru smugur til að þeir gætu haldið verðmætustu viðskiptum sínum áfram við Rússa þó krummaskuðafólk á Íslandi njóti ekki þess hagræðis og verði af milljarða tekjum árlega.

Tvöfeldni Bandaríkjanna og skortur á stefnumótun Vesturveldanna í Rússnesk/Úkraínska stríðinu og hugmyndir um hvernig beri að ljúka því og ná fram friði er ámælisverð og sorgleg.


Tær snilld.

Nú er komin upp sú staða, að ekkert rýrir lögmæti miðlunartillögunnar, sem Ríkissáttasemjari lagði fram í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Landsréttur kemst samt að þeirri niðurstöðu, að Ríkissáttasemjari eigi ekki rétt á að fá afhenda kjörskrá Eflingar vegna atkvæðagreiðslu um tillöguna. 

Landsréttur vísar í meðferð Alþingis um löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur seint á síðustu öld. Ljóst er að Alþingi tókst á þeim tíma að búa til einstakt klúður og samþykkja löggjöf sem stenst í raun enga vitræna skoðun. Allt í þeim tilgangi að ná eins og þar er sagt "sátt" um málið. 

Sennilega hafa verið of fáir lögfræðingar á  Alþingi þegar þetta var afgreitt sem lög frá Alþingi og þessvegna sitjum við uppi með algert klúður í dag, þegar aðili að vinnudeilu gerir allt til að koma í veg fyrir  að lögmæt ákvörðun Ríkissáttasemjara nái fram að ganga. 

Þannig að nú getur Ríkissáttasemjari látið fara fram atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu  sína væntanlega með atbeina sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þó kjörskrá fyrirfinnist engin eins og sagði að breyttum breytanda í bókinni "Kristnihald undir jökli."

Telur virkilega einhver að hann ríði feitum hesti frá þessari niðurstöðu Landsréttar?


Lindarhvoll og leyndarhyggja

Fjármálaráðuneytið stofnaði félagið Lindarhvol. Verkefni þess var að hafa umsjá með sölu á eignum sem féllu til ríkisins við hrunið. Eignir föllnu bankanna runnu til Lindarhvols, sem átti að hámarka verð þeirra. Lindarhvoll er fyrirtæki í almannaeigu til að gæta hagsmuna fólksins í landinu. 

Mikil leynd hefur hvílt yfir starfsemi Lindarhvols, sem er að sumu leyti eðlileg í ákveðin tíma, en langvarandi leynd um starfsemina er hinsvegar ekki ásættanleg. 

Sigurður Þórðarson fyrrum ríkisendurskoðandi var fenginn til að gera skýrslu um Lindarhvol. Nú mörgum árum eftir að skýrslan var afhent Alþingi og fjármálaráðuneyti, hefur hún ekki fengist birt. Sjálfur furðar Sigurður Þórðarson sig á því.

Skýrslu Sigurðar Þórðarsonar á að birta þegar í stað. Sú afsökun forseta Alþingis að málið sé ekki fullrætt í forsætisnefnd Alþingis stenst ekki og er aumlegt yfirklór yfir eitthvað sem almenningur á rétt á að vita hvað er.

Komið hefur fram að fjallað sé um mikilvæg atriði í skýrslu Sigurðar. Mikilvægt er því,að skýrsla hans sé birt sem fyrst. Einkum og sér í lagi þar sem óeðlilegur draugagangur virðist vera í kringum starfsemi Lindarhvols, sbr. að í nýlegum réttarhöldum, þar sem lögmaður ríkisins í málinu og aðalmaður í Lindarhvoli á sama tíma boðaði stjórnarfólk sameiginlega á vitnafund fyrir þinghald í dómsmálinu  þ.á.m. dómara við Hæstarétt Íslands,sem Hæstiréttur verður að gaumgæfa hvort hafi gert sig vanhæfa til setu í æðsta dómi landsins vegna þess. 

Við ungir Sjálfstæðismenn höfðum og höfum sem vígorð "gjör rétt, þol ei órétt." Nú ríður á að Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson verði trúir þessu kjörorði okkar og hlutist til um það að skýrsla Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol verði gerð opinber þegar í stað og skipuð  rannsóknarnefnd til að fjalla um starfsemi félagsins frá upphafi til dagsins í dag og niðurstöðurnar birtar þegar rannsóknarnefndin lýkur störfum. 

Þetta er félag stofnað af fjármálaráðuneytinu í almannaþágu og.  almenningur á því á rétt á að fá allar upplýsingar um starfsemi félagsins jafnt góðar sem slæmar.

Sé eitthvað slæmt í farteskinu verða þeir sem ábyrgð bera að axla hana, en Sjálfstæðisflokkurinn má ekki vera málssvari leyndarhyggju, vondrar stjórnsýslu og einhvers e.t.v. þaðan af verra. Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei koma í veg fyrir að mál sem eiga erindi til almennings í lýðræðisríki verði falin fyrir fólkinu í landinu.   Málefni Lindarhvols á varða svo sannarlega almenning. 

 

 


Hvika þá allir nema Aðalsteinn?

Verkföll eru slæm og leiða til mikils kostnaðar fyrir þjóðfélagið, atvinnurekendur og launþega. Þess vegna hefur löggjafinn sett reglur  til þess, að komist verði hjá  verkföllum í lengstu lög. 

Þessvegna hefur löggjafinn þ.e. Alþingi sett lög sem heimila trúnaðarmanni ríkisins, Ríkissáttasemjara að grípa til úrræða m.a. setja fram miðlunartillögu, sem aðilar vinnudeilunnar þurfa þá að greiða atkvæði um.  

Í gær setti ríkissáttasemjari Aðalsteinn Leifsson fram slíka miðlunartillögu í samræmi við gildandi lög og reglur. Þá bregður svo við, að allt í einu hamast verkalýðshreyfing og vinnuveitendur að ríkissáttasemjara. 

Forsvarsmenn Eflingar segja að ríkissáttasemjari sé sekur um lögbrot og starfandi forseti ASÍ og burthlaupinn forseti ASÍ setja frá sér rangar ásakanir í garð ríkissáttasemjara og þeirri ákvörðun hans að setja fram miðlunartillögu lögum samkvæmt.

Ótöluleg hjörð skriffinna á samfélagsmiðlum bæta svo um betur og hnjóða í ríkissáttasemjara og halda því fram að hann sé að beita ólögmætu ofbeldi, ráðast á fólk, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og festa láglaunafólk í þrælakistu auðvaldsins.

Þessi skrif eru úr rökrænu samhengi við veruleikann og það sem ríkissáttasemjari ákvað með því að setja fram miðlunartillöguna.

Miðlunartillaga er þess eðlis, að hún kemur engan veginn í veg fyrir að vilji félaga í verkalýðsfélagi nái fram að ganga. Þeir hafa lýðræðislegan rétt með því að beita atkvæði sínu til að samþykkja eða fella tillögu ríkissáttasemjara. 

Til að fella tillögu ríkissáttasemjara þarf meirihluta þeirra sem atkvæði greiða og fjórðung eða 25%  félagsmanna að  verkalýðsfélagsins að lágmarki. Lýðræðislegur réttur verkafólks er því til staðar. Sé það svo að baráttan standi um mikilvæg atriði ætti það ekki að vera vanda bundið að fá fjórðung þeirra sem telja sig órétti beitta til að fella tillöguna. 

Hvar er þá atlagan? Í hverju er árásin fólgin? Er það árás á kjör eða lýðræðisleg réttindi einstaklings eða félaga í verkalýðsfélagi að bjóða þeim að tjá vilja sinn með því að fara að lýðræðislegum leikreglum og greiða atkvæði? 

Raunar er þetta ekki í fyrsta skipti og væntanlega ekki síðasta sem ríkissáttasemjari setur fram miðlunartillögu. En e.t.v. eru þessi glórulausu viðbrögð atvinnurekenda, Eflingar og ASÍ til marks um vaxandi óþol og þjóðfélagslega jaðarmyndun samfélagsins

Ríkissáttasemjari er engin skálkur í þessu efni. Hann fer að lögum. Skálkarnir eru þeir,sem hamast gegn lögum landsins og lýðræðislegri ákvarðanatöku.  

Er það virkilega orðið merki um ofstopa, árás á lífskjör eða fasismi, að gefa fólki kost á því að greiða atkvæði um kaup  sitt og kjör? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 144
  • Sl. sólarhring: 480
  • Sl. viku: 7097
  • Frá upphafi: 2313826

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 6560
  • Gestir í dag: 123
  • IP-tölur í dag: 122

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband