Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Löggæsla

Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar er skelfilegt.

Enn á ný beitir stjórn KSÍ refsivaldi gegn leikmanni landsliðsins í knattspyrnu vegna ásökunar sem hann getur ekki afsannað að svo stöddu. Öll þessi dyggðarskreyting stjórnar KSÍ er andstæð grundvallarreglum laga um að hver skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. 

Stjórn KSÍ eyðilagði íslenska landsiðið um árabil vegna þessarar dyggðarskreytingar gagnvart okkar bestu landsliðsmönnum vegna ásakana, sem ekkert varð úr. Nú á að halda áfram þeim leik. 

KSÍ er ekki eitt um þessi viðbrögð því miður. Íslenska dyggðarsamfélagið hefur hverfst um refsigleði af þessum toga um nokkurra ára skeið. En það er ekki hlutverk KSÍ að refsa fólki og það á ekki að taka sér refsivald í hönd.

Það sem er enn alvarlegra við þessa nýtískulegu refsigleði gagnvart mönnum, sem hafa ekki haft tækifæri til að grípa til varna er að refsing hins nýgerða almannavalds í réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar felst í því sama og var á svörtustu tímum í sögu kaþólsku kirkjunnar þegar menn voru bannfærðir og gátu enga björg sér veitt. Þeir máttu ekki vinna og enginn mátti rétta þeim hjálparhönd. Í Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar eru menn flæmdir úr starfi og geta takmarkaða björg sér veitt að því leyti er um harðari refsingu að ræða, en almannavaldið gerir mönnum sannist meint sök þeirra. 

Svona má þetta ekki ganga til. Hver einstaklingur verður að njóta mannréttinda og þeirra kosta sem réttarríkið býður þegnum sínum. 


Ekki bregst RÚV vana sínum.

Í hvert skipti, sem ólöglegum innflytjanda er vísað úr landi, á grundvelli laga, skal Áróðursstofa RÚV (ÁRUV), sem kallar sig fréttastofu, koma með einhliða frétt um nauðsyn þess, að viðkomandi, sem hefur orðið uppvís  að sækjast eftir alþjóðlegri vernd á grundvelli falskra forsendna, fái samt andstætt lögum og reglum að vera áfram í landinu.

Ein slík einhliða frétt var flutt í gær og ÁRUV veit, að yfirvöld geta ekki tjáð sig um einstök tilvik, þannig að ÁRUV situr eitt að því að birta sinn ranga og vilhalla áróður.  

Þetta þjóðfjandsamlega kennistef ÁRUV um opin landamæri, hefur verið kyrjað árum saman og í framhaldi hefur jafnan verið sótt að sitjandi dómsmálaráðherra, því miður iðulega með góðum árangri. Þannig kiknaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir jafnan í hnjáliðunum þegar hún var dómsmálaráðherra, en Jón Gunnarsson aldrei. Nú reynir á Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, hvort hún stendur með undirmönnum sínum og lögum og reglum og kiknar hvergi. Ég hef fulla trú á að hún standi sig.

Ísland þarf allra síst,að halda áfram á þeirri braut, að skipta um þjóð í landinu. Fólk af íslensku bergi brotið verður í minnihluta í landinu með sama áframhaldi innan 20 ára.

Þjóðhollum Íslendingum ber skylda til að bregðast við og láta það ekki gerast.

 


Engin ábyrgur?

Íslandsbanki hefur samþykkt að greiða sekt upp á 1.2 milljarða króna vegna athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Slík ofursekt er ekki lögð á fyrirtæki eða þá að fyrirtæki sætti sig við nema eitthvað verulegt sé að í starfseminni.

Íslands­banki gengst við því að hafa ekki starfað í sam­ræmi við eðli­lega og heil­brigða viðskipta­hætti og venj­ur í verðbréfaviðskipt­um vegna fram­kvæmd­ar á sölu hlutabréfa í bankanum skv. margnefndu útboði. Þar komu til samskipti við þáttakendur í útboðinu auk kaupa einstakra starfsmanna á hlut í bankanum.

Æskilegt hefði verið að fá betri og fyllri upplýsingar um þessi alvarlegu brot Íslandsbanka og stjórnenda hans, en það verður sennilega látið liggja í láginni og bankinn sættir sig við að greiða meir en milljarð vegna afglapa og e.t.v. einhvers þaðan af verra.

Nú er það þannig, að þegar fyrirtæki er fundið sekt um að brjóta gróflega af sér eins og Íslandsbanki í þessu tilviki, þá er það ekki lögpersónan Íslandsbanki sem brýtur af sér heldur einstaklingar sem starfa í og/eða stjórna viðkomandi banka. Þá er stóra spurningin hvort einhver verði látinn bera ábyrgð á því að bankinn skyldi brjóta svona gróflega af sér og ekki starfa í samræmi við lög og reglur. 

Af fréttum að dæma virðist engin þurfi að sæta ábyrgð og engin hafa gert neitt af sér nema lögpersónan Íslandsbanki.

Gott að vera í slíku vari ekki síst fyrir bankabófa.


mbl.is Birna Einarsdóttir: Við drögum lærdóm af þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarástand í Reykjanesbæ

Í fréttum Mbl. í dag segir að neyðarástand ríki í almenningssamgöngum í Reykjanesbæ. Rekstraraðili strætisvagna í bænum kvartaði.Þá komst þessi frétt í þau hámæli, að greint var frá henni í Morgunblaðinu. Fréttir af vandamálum vegna ólöglegra innflytjenda eru venjulegar faldar eða gert sem minnst úr þeim svo lengi sem það er hægt. RÚV er auk heldur með stöðugan áróður fyrir góða innflytjandann en þegir um raunveruleikann.

Rekstraraðili almenningssamgangna í Reykanessbæ telur sig ekki geta sinnt þjónustunni lengur nema gagnger breyting verði á. Í álitinu kemur fram, að börn hverfi úr strætisvögnum vegna áreitis og þá séu skemmdarverk mikil. Rekstraraðilinn telur að betra ástand verði hvað þetta  varðar ef strætókortum flóttamanna verði lokað. Þá liggur fyrir hverjir valda. 

Þetta er ein birtingarmynd þeirra vandamála, sem að innflytjendastefna stjórnvalda veldur. Það er nauðsynlegt að breyta um stefnu og gæta hagsmuna fólksins í landinu,en ekki ólöglegra flökkustráka, sem eru uppistaðan í þeim hópi ólöglegra innflytjenda sem valda stöðugum vandræðum, sem fjölmiðlar gæta sem lengst að segja ekki frá. 

Það þarf að breyta um stefnu og loka landinu alla vega tímabundið til að hægt verði að ná tökum á ástandinu og aðlaga þá sem komið hafa hingað löglega með því að kenna þeim íslensku auk annars sem nauðsynlegt er til að þeir aðlagist samfélaginu.

Miðað við orð forsætisráðherra á Bessastöðum í gær virðist hún ekki skilja alvöru málsins. Gangi svo áfram verður ekki hjá því komist að slíta stjórnarsamstarfinu og kjósa á ný milli þeirra sem hafa þjóðlegan metnað og þjóðníðinganna sem vilja skipta um þjóð í landinu.  

 


Góð störf ber að þakka

Það er sjaldgæft í seinni tíð, að stórum hópi fólks þyki miður að ráðherra láti af störfum. En þannig er það með Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, sem hefur staðið sig einstaklega vel sem ráðherra dómsmála þann tíma sem hann hefur gengt því starfi. 

Það hefur oft gustað um Jón í þessu embætti og þannig er það oftast með þá stjórnmálamenn sem láta til sín taka. Því miður gat hann ekki gengið eins langt og hann hefði viljað til að takmarka fjölda meintra hælisleitenda, sem hingað komu, en ljóst má vera að hann gerði það sem hann gat í þessari fjölflokkastjórn, þar sem VG reyndi að sporna á móti sjálfsögðum lagabreytingum og Jón fékk iðulega allt of lítinn stuðning forustufólks í eigin flokki hvað það varðar. 

Jón ávann sér traust og stuðning þorra Sjálfstæðisfólks, sem þykir miður og raunar fráleitt að hann skuli nú hverfa úr ríkisstjórn.

Á sama tíma og Sjálfstæðisfólk almennt telur slæmt að missa Jón úr ráðherrastól, þá þarf ekki að efa, að eftirmaður hans Guðrún Hafsteinsdóttir er vel hæf til að takast á við krefjandi verkefni og er henni hér með óskað alls velfarnaðar í því vandasama starfi sem hún mun taka við í dag. 

Á sama tíma og ég þakka Jóni Gunnarssyni vel unnin störf, þá vænti ég þess, að hann muni láta að sér kveða í þjóðmálum í auknum mæli og takast á við ný og krefjandi verkefni á því sviði. Jón Gunnarsson hefur það alla vega sem veganesti úr dómsmálaráðuneytinu, að þorri Sjálfstæðisfólks treystir honum best og telur hann best dugandi til að takast á við erfiðustu verkefnin í pólitíkinni sem Sjálfstæðismaður.


mbl.is Málefni útlendinga vega þyngst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnarstjórn sektarkenndar

Enn einn bátur yfirfullur af fólki sökk á rúmsjó í Miðjarðarhafi næst Grikklandi og mikill fjöldi fólks fórst. Fjölmiðlar töluðu um sök Grikkja, en Grikkir höfðu ekkert með þennan skipsskaða að gera.

Alla þessa öld hafa smyglarar grætt gríðarlega á að selja fólki sem vill komast frá Afríku og Asíu til Evrópu far á okurverði. Í fæstum  tilvikum mundu bátarnir fá haffærnisskírteini hér. Þegar eitthvað fer úrskeiðis hamra fjölmiðlar á sök Evrópubúa og ógnarkennd sektarkenndar heltekur marga einkum vanstilltum leiðtogum bresku biskupakirkjunnar. Við berum samtn enga ábyrgð á framferði smyglarana eða þá áhættutöku, sem farendurnir svokölluðu takast á hendur. 

Þ. 3.október 2013 sökk bátur við eyjuna Lampedusa. Ítalska strandgæslan bjargaði meira en 100 manns, en 300 drukknuðu. Í kjölfar þessa greip ítalska ríkisstjórnin til víðtækra björgunaraðgerða á ítalska hafssvæðinu, sem kostuðu ítalska skattgreiðendur mikið fé. 

Til svipaðra aðgerða var gripið af hálfu Spánar og Grikklands auk aðgerða sem Evrópusambandið stóð að sbr.störf áhafna á flugvél landhelgisgæslunnar íslensku á Miðjarðarhafi. 

Þrátt fyrir þessar víðtæku aðgerðir til að tryggja aukið öryggi á Miðjarðarhafi, svo að farþegar á lekahripum smyglarana komist alla leið, þá gerast slysin enn enda Miðjarðarhafið ógnar stórt.

Evrópa hefur gert meira en hægt er að ætlast til, en löndin sem heimila starfsemi smyglaranna gera ekki neitt. Það er þessum ríkjum að kenna löndum eins og Líbýu, Marokkó, Alsír,Túnis og að hluta til Tyrklandi að smyglararnir geta haldið upp iðju sinni en ekki okkur. 

Smyglararnir vita hvernig kaupin gerast og nú fara smyglbátarnir af stað með minnsta mögulega bensín, sem dugar ekki til að fara lengra en út á mitt Miðjarðarhafið. Smyglararnir vita að þar verður fólkinu að öllum líkindum bjargað.  

Frá 2013 hefur Evrópa verið að berjast gegn þessu smygli á fólki til Evrópu með litlum árangri. Samt láta fjölmiðlar í Evrópu og einstaka kirkjkudeildir eins og Evrópubúar eigi að bera ábyrgð á öryggi allra sem fara um Miðjarðarhafið löglega eða ólöglega. 

Vilji Evrópubúar gera eitthvað skynsamlegt í þessum málum og koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið verði áfram stærsti kirkjugarður í heimi, þá er ekki rétta leiðin að floti og strandgæsla Evrópuríkja sigldi strax með fólkið til baka til þess lands þaðan sem þau lögðu af stað.

Með þeim eina hætti er hægt að koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið haldi áfram að vera stærsti kirkjugarður í heimi. Með þeim hætti er hægt að tryggja málefnalegri afgreiðslu umsókna hælisleitenda og með þeim hætti yrðu tekið fyrir starfsemi glæpamannanna sem gera sér neyð fólks að féþúfu auk þess að beita það allskyns harðræði m.a. nauðgunum og eignaupptöku. 

Sem betur fer er stjórn Giorgiana Melloni á Ítalíu byrjuð að feta sig inn á þessa leið og vonandi nær hún árangri, en Evrópusambandið dregur lappirnar og gerir ekki neitt skynsamlegt í málinu því miður líklega hér eftir sem hingað til. 

Skipasskaðarnir með flóttafólk á Miðjarðarhafi eru ekki okkur að kenna, en við eigum að leysa vandamálið með því eina sem hægt er að gera þ.e. að sigla beint með fólkið til baka til þess staðar þar sem lagt var úr höfn. 

 


mbl.is Að minnsta kosti 78 fórust og fjölmargra er saknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldastaða Árborgar og hælisleitendur

Alvarleg staða er komin upp í sveitarfélaginu Árborg, þar sem skuldastaðan er svo alvarleg að skuld á hvern íbúa er 2.5 milljónir eða rúmar 10 milljónir á kjarnafjölskyldu. Þetta þykir ógnvænlegur skuldavandi, sem erfitt verður að vinna  úr.  

Á hverjum 2 árum koma álíka margir hælisleitendur til landsins og íbúar Árborgar. Kostnaður vegna hvers hælisleitenda, sem fær ókeypis fæði, uppihald, rándýra lögfræðiþjónustu, tannlæknaþjónustu og sálfræðiþjónustu o.s.frv. og eru fluttir á milli í leigubifreiðum, er álíka eða meiri en sem nemur skuld hvers íbúa Árborgar. Það þykir ekki tiltökumál eða óyfirstíganlegt vandamál. 

Er stór hluti þjóðarinnar og meirihluti þingheims orðinn stjörnugalin í þessum hælisleitendamálum og áttar sig ekki á eða vill ekki sjá, hvað er í gangi?

Finnst fólki eðlilegt að hælisleitendur fái þjónustu sem ríkið borgar, sem íslenskir ríkisborgar hafa ekki efni á að veita sér? Er eðlilegt að ill yfirstíganleg skuldastaða eins stærsta sveitarfélags landsins sé minni en það sem hælisleitendaiðnaðurinn kostar á tveim árum?


Þeir hættulegu

Í grein ristjóra Heimldarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar um ofurinnflutning hælisleitend fjallar hann um hryðjuverk og kemst að þeirri niðurstöðu með tilvísun í kennara nokkurn, að helsta hryðjuverkaógnin stafi frá Evrópubúum, sem vilji ekki skipta um þjóð í löndum sínum. 

Niðurstaða ritstjórans er dæmigert heilkenni vinstri sinnaðra fulltrúa opinna landamæra. Þeir stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við raunveruleikann. 

Íslamistar hafa staðið fyrir nánast öllum hryðjuverkum í Evrópu frá síðustu aldamótum. Lögreglu í Evrópu hefur tekist að koma í veg fyrir nánast öll hryðjuverk múslima síðustu 10 árin, en frá því er sjaldnast sagt í fréttum, en sýnir vel hvaðan ógnin kemur.

Í gær var t.d. sagt frá því og fór lítið fyrir, að sænsku lögreglunni hefði tekist að koma í veg fyrir hryðjuverk Íslamista. 

Hvað skyldi mönnum eins og Þórði Snæ ganga til að reyna að afvegaleiða umræðuna í stað þess að benda á staðreyndir?

Viðbrögð bresku lögreglunnar eftir að Íslamistar myrtu alla ristjórn franska tímaritsins Charlie Hebdo voru að hafa sérstakt eftirlit með áskrifendur Charlie Hebdoe í Bretlandi til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Þessi viðbrögð þóttu að sjálfsögðu  svo galin, að lögreglan gerði sig að algjöru athlægi.

Er ekki rétt að það sama gildi um ritstjóra Heimildarinnar.   

 


Útskúfaður um eilífð

Á ýmsu átti ég frekar von, en að Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum færi að argaþrasast út í skipan Karls Gauta Hjaltasonar í embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum. Sér í lagi þar sem fyrir liggur, að farið var að öllum reglum varðandi vandaða úrvinnslu umsókna um embættið. 

Þrátt fyrir þetta telur bæjarstjórinn að útskúfa beri Karli Gauta um alla eilífð úr samfélagi siðaðra manna fyrir að hafa setið hljóður þegar tveir menn úr 6 manna hópi urðu sér til skammar á Klausturbar um árið. Bæjarstjórinn telur að fyrir þá "synd" hafi Karl Gauti unnið sér til eilífrar óhelgi.

Heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More, sem rekinn var sem kanslari Hinriks 8 Bretakonungs fyrir að neita að samþykkja að hjónaband hans við Katrínu af Aragon væri ógilt, sagði ekki eitt aukatekið orð um málið eftir það og sagði að þögnin væri sín vörn, því engin gæti sótt að sér eða lögsótt sig eða átalið fyrir það að þegja. 

Það var þó ekki nóg fyrir Hinrik 8 og hann lét hneppa Thomas More í fangelsi og taka hann af lífi. Réttlæti Írisar Róbertsdóttur virðist af sama meiði. Fyrir þá sök að Karl Gauti Hjaltason sagði ekki eitt styggðaryrði um einn eða neinn á Klausturbar um árið skal honum úthýst og engin staður heimill nema helvíti. 

Frá því að Hinrik 8 vélaði um líf og dauða fólks, en hann lét taka a.m.k. tvær af eiginkonum sínum 8 af lífi hafa mannréttindi þróast mjög til batnaðar, en það virðist hafa farið framhjá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum.


mbl.is „Hann var fríaður af öllum áburði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og lautinant Þorgerður vitnar

Í bókinni 1984 er greint frá því hvernig stjórnvöld reyndu að ná öllum tökum á hugsun tjáningu og hegðun fólks. Pólitískt nýmál var tekið upp til að auðvelda stjórnun á hugsun og tjáningu fólksins. Höfundur bókarinnar George Orwell hafði ekki hugmyndaflug til að setja inn í pólitíkst nýyrðasafn einræðisvaldsins, að tjáningarfrelsi væri hatursorðræða. Úr þessu hefur Katrín Jakobsdóttir bætt með þingsályktunartillögu um hatursorðræðu.

Tillagan gerir ráð fyrir viðamiklum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir "hatursorðræðu" sem þó hefur ekki fengið viðhlítandi skilgreiningu. Menntun og fræðsla ríkisstarfsmanna og annara sem vilja ganga undir ok ritskoðunarinnar verður væntanlega á höndum lautinanta úr Vinstri grænum. Með því kemur vinnumáladeild VG sennilega þeim flokksmönnum, sem hafa ekki enn fengið vinnu hjá ríkinu í þægilega vellaunaða innivinnu við að fylgjast með hugsunum fólks með sama hætti og var í skáldverkinu 1984.

Í umræðum um málið á þingi nýverið lýstu þingkonur úr Pírötum og Samfylkingu fögnuði með þessa tilraun Katrínar til að vega að  tjáningarfrelsinu.

Þingkonan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem undanfarið hefur samsamað sig með vinstrinu í íslenskri pólitík, Pírötum og Samfylkingunni skyldi lýsa yfir sérstökum fögnuði með þetta dáðríka framtak forsætisráðherra. 

Þorgerður ræddi um þá hættu sem fólki stafaði af hatursorðræðu hægri manna og lofaði framtak forsætisráðherra. Hún sagðist nálgast þetta mál frá "hægri". En þau orð í ræðu Þorgerðar sýna í raun ekkert annað en að flokksformaður Viðreisnar sér ekki handa sinna skil í pólitíska litrófinu.

Engin þingmaður tók til varna fyrir tjáningarfrelsið í umræðunni eða gerði athugasemdir.

Vonandi er til fólk á Alþingi, sem lætur ekki þessa "woke"(bull) hugmyndafræði forsætisráðherra ná fram að ganga. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 39
  • Sl. sólarhring: 1123
  • Sl. viku: 7254
  • Frá upphafi: 2312902

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 6715
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband