Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Bankasýsla ríkisins. Þegar stofnanir verða eilífar

Í águst 2009 samþykkti Alþingi lög um Bankasýslu ríkisins. Bankasýslan átti að sinna skilgreindum verkefnum vegna aðkomu ríkisins að endurskipulagningu banka- og fjármálakerfisins eftir hrun. Að mati löggjafans voru verkefni  Bankasýslunnar tímabundin og þessvegna var ákveðið að stofnunin skyldi lögð niður eigi síðar en 5 árum frá stofnun hennar.

Ákvæði 9.gr. laga um Bankasýslu ríkisins sem samþykkt var á Alþingi þ. 11.8.2009 hljóðaði svo

"Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því hún var sett á fót og verður hún þá lögð niður."

Löggjafinn miðaði við, að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður eigi síðar en í ágúst 2014 fyrir 8 árum síðan. En það var ekki gert og þrátt fyrir þessi ákvæði í lögum starfaði Bankasýslan áfram óáreitt án lagaheimildar. En síðan var bætt úr því með lögum nr. 7/2019 öðrum 5 árum eftir að leggja átti Bankasýsluna niður en þá var ákvæði 9.gr. laganna fellt brott og þess í stað tekið upp ákvæði til bráðabirgða sem er þannig: 

"Stofnunina skal leggja niður þegar verkefnum hennar er lokið."

Færa má rök fyrir því, að engin þörf hafi verið fyrir að hafa sérstaka Bankasýslu ríkisins frá því í ágúst 2014 heldur hefði betur farið á því og verið ódýrara og skilvirkara, að færa verkefni hennar inn í fjármála og/eða viðskiptaráðuneyti. En það var ekki gert enda um þokkalega feita bitlinga að ræða hvað varðar þóknanir stjórnarmanna svo og laun forstjóra, sem stjórnmálamenn geta úthlutað að geðþótta.

Hin tímabundna Bankasýsla sem átti að ljúka störfum ekki síðar en í ágúst 2014, hefur nú verið gerð eilíf þangað til annað verður ákveðið. 

Skólabókardæmi um skort á skilvirkni í því sem varðar hið opinbera.


50 dagar

Í dag eru 50 dagar frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Á þessum 50 dögum hafa mörg þúsund manns verið drepnir almennir borgarar og hermenn. Eyðilegging í Úkraínu er gríðarleg og stór hluti fólks í Úkraínu á flótta innanlands eða til annarra landa. 

Þegar þetta er skrifað er allt eins líklegt að hafnarborgin Mariupol við Svartahaf hafi verið hertekin af Rússum eftir mikla bardaga um borgina, sem er að miklu leyti rjúkandi rúst.

Á þeim 50 dögum sem stríðið hefur staðið, hafa Vesturlönd sent Úkraínumönnum ógrynni nýtísku vopna og hvatt þá til dáða. Á það hefur skort, að Vesturlönd hafi einhent sér í að vinna að friði og ná fram samningnum milli aðila. Engin samræmd stefna er fyrir hendi á Vesturlöndum önnur en sú að valda Rússum sem mestu efnahagslegu tjóni og sem mestum mannskaða og þá Úkraínu í leiðinni.

Það er dapurlegt. Allt frá byrjun hefði það átt að vera keppikefli vestrænna þjóða að vinna að friði og leita samræmdra lausna í þessum heimshluta m.a. með því að bjóða Úkraínumönnum og  Rússum upp á aðlögunarferli til að þeir geti verið þáttakendur í sameinaðri Evrópu efnahagslega og hernaðarlega.

Það eykur á vandann, að hella sífellt olíu á eldinn og hafa engar tillögur um það hvernig hann skuli slökktur. Því miður skortir á að það séu leiðtogar nú í Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, sem hafa langtímasýn eins og þeir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlans og Roosevelt Bandaríkjaforseti höfðu í miðju síðara heimstríði þegar þeir lögðu á ráðin um framtíðina þegar síðara heimsstríði lyki. Ekki má heldur gleyma de Gaulle hershöfðinga og forseta Frakklands sem talaði um Evrópusamband frá Atlantshafi til Úralfjalla þegar Sovétríkin voru í sem mestum blóma. Það væri annað ef stjórnendur Evrópu hefðu tekið upp stefnu de Gaulle og það er ekki of seint að gera það.

Því miður höfum við ekki slíka leiðtoga sem framámenn í vestrænum stjórnmálum í dag og þessvegna er enn verið að stríða í Úkraínu og engin endir í sjónmáli. Ragmennska og heigulsháttur Vesturlanda ríður ekki við einteyming, en slíkir foringjar lítilla sanda lítilla sæva telja sig fullsæmda af því að láta aðra prófa vopnin sín og stríða fyrir sig og deyja. 


Þegar forsætisráðherra brýtur lög

Í Kóvídinu brugðust ýmsar megingjarðir frjálslynds þjóðfélags og borgararnir urðu stundum að sætta sig við að eðlileg mannleg starfsemi var lýst refsiverð.

Eitt af því sem fellur undir eðlileg mannleg samskipti og hegðun er að fólk haldi partý að vinnudegi loknum og geri sér glaðan dag. 

Í Bretlandi bannaði ríkisstjórn Boris Johnson það með lögum og gerði refsivert að fólk nyti slíkra samskipta. Fólk var ekki sjálfrátt, að urðu allir að hlýða að viðlagðri ábyrgð að lögum.

Einn af þeim sem braut þessi lög. Lögin sem hann setti sjálfur var Boris Johnson þegar hann ásamt fleirum mættu í partý að loknum vinnudegi í íbúðargötu forsætisráðherrans. Því er haldið fram að þetta sé í fyrsta skipti sem starfandi forsætisráðherra sé gerð refsing fyrir brot á eigin lögum.

Þessi uppákoma er næsta furðuleg. Forsætisráðherra setur lög, sem banna eðlileg mannleg samskipti og verður síðan fyrstur til að brjóta þau. Ef til vill telur hin fjölfróði Boris Johnson, að það sé í gildi rómverski málshátturinn "Qoud licet Jovi non licet Bovi" (það sem Júpíter(æðsti guð Rómverja) má gera má nautið ekki gera)og hann megi gera það sem hann bannar öðrum.


Rannsókn á stríðsglæpum

Sænsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á meintum stríðsglæpum í Úkraínu. Mikilvægt er að safnað sé öllum þeim gögnum, sem hægt er að fá varðandi þann óhugnað sem nú á sér stað í Úkraínu. 

Rússar hafa verið sakaðir um að hafa myrt fjölda  borgara í í þorpum í nágrenni höfuðborgarinnar, en þeir neita því með öllu og segja myndir af líkum sé sviðsetning. M.a. þessvegna er mikilvægt að fá allar upplýsingar um málið frá óháðum aðila.

Hafi Rússar framið fjöldamorð á óbreyttum Úkraínskum borgurum svo sem þeim er gefið að sök, þá er það óafsakanlegur stríðsglæpur, sem þeir sem ábyrgð bera verða að svara til sakar fyrir. 

Sú var tíðin, að óbreyttir borgarar fengu að vera að mestu leyti í friði þó að ófriður geisaði og viðurkennt af þjóðum Evrópu, að stríð væri milli hermanna á vígvelli. Það breyttist því miður fyrir um 100 árum rúmum. Það breytir því þó ekki að ástæðulaus dráp á borgurum eru stríðsglæpur og algjör hryllingur sem ber að fordæma.

Hafi Rússar framið þau ódæði sem þeim eru gefin að sök,þá er það með ólíkindum að þeir skuli fara svona fram og geri þá hluti, sem geta ekki orðið til annars en að vekja upp andúð alls heimsins á hryðjuverkunum og þeim sjálfum. Mér finnst nánast ótrúlegt að nokkur geti verið svona vitifirrtur, en komi í ljós að einstakir rússneskir hermenn, yfirmenn þeirra og/eða yfirstjórn Rússlands beri ábyrgð á þessu, þá er ekki hægt að krefjast minna en þeir sem ábyrgð bera á málinu svari til saka með sama hætti og þeir sem á sínum tíma frömdu stríðsglæpi í gömlu Júgóslavíu.

Það er síðan löngu komin tími á að Vesturveldin reyni sitt ítrasta til að koma á friði í þessu stríði og hlutast til um að þeim sem framið hafa stríðsglæpi verði refsað og hugi að framtíðarsýn þar sem þær þjóðir sem nú berjast geti tekið upp eðlileg samskipti í framtíðinni og staðið saman að því að berjast fyrir friði, velferð og öryggi í okkar heimshluta. 

 


mbl.is Svíar hefja rannsókn á stríðsglæpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Homage to Catalonia.

Á Spáni tala menn um, að það sé vetur þó það eigi að vera komið vor. Bændur eru uggandi vegna mikilla kulda. 

Í gær fór ég til Alicante í rysjóttu veðri og sá þar bókina Homage to Catalonia eftir George Orwell. Þar fjallar hann um þáttöku sína sem sjálfboðaliði í borgarastyrjöldinni á Spáni 1937. En þá hafði hann aðsetur í Katalóníu aðallega í Barcelona.

Þar sem veðrið var öllu verra í dag en í gær, fór svo að ég kláraði bókina. Hún er mjög vel skrifuð og blaðamannshæfileikar Orwell leyna sér ekki. Aðrar bækur eftir hann eru m.a. Animal Farm og 1984. Hann var sannfærður vinstri maður við getum sagt kommúnisti og fór þessvegna til að berjast á Spáni.

Lýsingar hans eru eftirtektarverðar um margt m.a. hvernig kommúnistarnir brutu niður kirkjur og áttu í stöðugum innbyrðis átökum sín á milli þ.e. Trotskíistar gegn Sovét kommúnistum og allir gegn Anarkistunum o.s.frv.. Niðurstaða Orwell þessa þá sanntrúaða kommúnista var sú eftir að hafa barist á vígvellinum í hernum gegn Franco,að sú stjórn sem tæki við á Spáni hvort heldur Franco mundi vinna sigur eða kommúnistarnir, að það tæki við fasistastjórn í einvherri mynd. 

Uppgjör hans við kommúnísku hugmyndafræðina birtist síðan þegar hann skrifaði bækurnar Animal Farm og 1984. Hugleiðingar um þjóðfélag þar sem maðurinn er ekki frjáls heldur verður að lúta ofurveldi kerfisins og engin hugsun eða skoðun má komast að önnur en ríkishyggja stjórnvalda. 

Við ættum að huga að þessu í fimbulkuldanum, þegar við borgum háar fjárhæðir af hverjum bensínlítra vegna hjátrúarinnar um hamfarahlýnun af okkar völdum. 

George Orwell dó fyrir 72 árum, en boðskapur hans á enn erindi við okkur og við eigum ekki að sætta okkur við kúgun hins opinbera af því að stjórnmálamenn í auknum mæli eru þeirrar skoðunar að þeir eigi ekki að þjóna okkur, en telja sig eiga þess í stað að breyta okkur og aðlaga allt í samræmið við það sem Orwell lýsti í bók sinni 1984 


Að vita og gleyma

Í þrætubókalist fáránleikans og rökfærslu sem kennd er við sófista frá því 400 árum fyrir okkar tímatal var hægt að setja fram kenningar sem voru vinsælar á menntaskólaárunum, sbr. 

"Þeim mun meira sem þú lærir, því meira veistu. Þeim mun meira sem þú veist, því meiru gleymir þú. Þeim mun meiru sem þú gleymir, því minna veistu. Ergo mikill lærdómur leiðir til minni þekkingar."

Að sjálfsögðu fannst okkur þessi rökfærsla bara aðhlátursefni.

Í grein Michael Deacon í DT í dag fjallar hann um þekkingarleysi unga fólksins á sögunni. Meiri hluti nemdenda veit t.d. ekki hver Mozart var eða hvar London er á landakortinu. 

Síðan bendir hann á, að við þurfum e.t.v.ekki að hafa miklar áhyggjur af þekkingarleysi unga fólksins, þar sem vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu í febrúar á þessu ári, að mikil lærdómur og þekking á stuttum tíma geti verið orsök minnistaps á eldri árum, þar sem heilinn hafi ekki lengur svið eða svæði til að geyma alla þekkinguna og þessvegna gleymist og hverfi dýrmætar persónulegar minningar úr vitund okkar. 

Sé það staðreynd, að unga fólkið og komandi kynslóðir fái minni fræðslu en fólk fékk á árum áður á það semsagt síður á hættu að lenda í okkar sporum varðandi minnistap og getur því búið sig undir elli með meiri vitund en við sem þurftum jafnvel að læra Latínu. 

Svo virðist því greinilega að ekki sé öll vitleysan eins eða af hinu illa. 


Bara forseti að nafninu til.

Allister Heath ritstjóri Sunday Telegraph skrifar um Joe Biden, hörmungina, í Hvíta húsinu sem er forseti Bandaríkjanna sem Heath segir að sé forseti að nafninu til og segir að öðru leyti:

Bandaríkin þurfa leiðtoga sem er ákveðinn og með framtíðarsýn. Í dag sitja þau uppi með forseta sem gerir endalaus mistök.

Í nánast í hvert skipti sem forsetinn talar telja aðstoðarmenn hans sig þurfa að leiðrétta það sem hann sagði. Joe Biden er Bandaríkjaforseti aðeins að nafninu til og sennilega lélegasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna.

Í síðustu viku kom vel í ljós í hvaða stöðu forsetinn svokallaði er í. Þá vék hann frá handritinu af ræðunni sem hafði verið samin fyrir hann og hann hélt í Póllandi, þegar hann sagði að „þessi maður (Pútín) getur ekki verið áfram við völd.“ Þessi orð er varla hægt að misskilja, en samt sem áður gerðu aðstoðarmenn hans það án þess að spyrja Biden um leyfi og gáfu út yfirlýsingu strax eftir að ræðan hafði verið haldin, þar sem sagði að orðin sem forsetinn notaði þýddu í raun ekki það sem lá í augum uppi. Þeir voru sjálfsagt að hugsa um að vernda Biden fyrir sjálfum sér með þessum klaufalega hætti. En þetta sýndi að hlutverk Biden eru bara að mestu leyti formleg. Ríkisstjórn hans og starfsfólk telur að það eigi ekki að taka það alvarlega sem Biden segir.

Biden er ekki uppspretta valds og ákvarðana og er sagður fleipra með það sem fólk hefur talað við hann í einkasamtölum og ætlast er til að fari ekki í hámæli. Undanfarna daga hefur það gerst aftur og aftur að yfirlýsingar forsetans eru dregnar til baka af þeim sem eru raunverulega við völd. Athyglisvert var þegar hann sagði félögum í flugsveit 82, að þeir ættu að fara til Úkraínu bráðlega einnig þegar hann sagði „að Bandaríkin mundu svara á sama hátt ef Rússar notuðu efnavopn.“ Eitt það versta sem hann sagði var í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu „það er eitt ef þetta er minniháttar innrás og þá er spurningin hvað á að gera og hvað á ekki að gera. Biden var þá spurður hvort hann væri í raun að gefa Pútín leyfi til að gera minniháttar innrás í Úkraínu. Biden svaraði „Góð spuring. Þannig hljómaði það var það ekki.“

Starfslið forsetans er á þönum við að leiðrétta og gefa út aðrar yfirlýsingar en forsetinn. Bandaríska stjórnarskráin gerir raunar ekki ráð fyrir því að starfsliðið taki völdin af forsetanum heldur öfugt. Hvað skyldu fjölmiðlar síðan segja. Donald Trump mátti ekkert gera nema það væri gagnrýnt hástöfum af helstu fjölmiðlum í heimnum (ekki síst RÚV). En núna þegja þeir þunnu hljóði þó að ljóst sé að forsetinn sé ekki fær um að gegna embættinu. Það er í raun enn eitt hneykslið sem varðar fjölmiðla. Hefði þetta verið Trump hefði þess verið krafist að ríkisstjórnin beitti 25.gr bandarísku stjórnarskrárinnar sem varðar það hvort forseti er fær eða ófær um að gegna embætti.

Hvers vegna þessi þögn um Biden og algjör skortur á gagnrýni. Getur verið að það sé vegna þess að Demókratar telja að Kamala Harris varaforseti sé ekki heldur fær um að gegna embættinu.

Hugmyndir Biden í skattamálum og ríkisfjármálum valda líka ugg, en hann virðist feta í fótspor vinstri Demókrata sem stjórna ýmsum borgum í Bandaríkjunum. Þar er raunin sú, að venjulegt fólk og fyrirtæki reyna eftir megni að komast burt úr þeim borgum vegna óstjórnar.Þar sem þessir Demókratar stjórna hafa glæpir aukist, skólarnir eru í vanda, aukin skattheimta. Þessar borgir eins og New York,Chicago, San Fransico og Los Angeles misstu meir en 700 þúsund íbúa á meðan fólk sækir í bæjarfélög sem stjórnað er af Repúblikönum og af þeim 10 stöðum þar sem fjölgunin er mest eru 5 sem stjórnað er af Repúblíkönum í Texas og tvö af Repúblíkönum í Flórída.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 713
  • Sl. sólarhring: 1334
  • Sl. viku: 6486
  • Frá upphafi: 2303801

Annað

  • Innlit í dag: 662
  • Innlit sl. viku: 5993
  • Gestir í dag: 647
  • IP-tölur í dag: 628

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband