Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Eru bara sumir verðugir launa sinna?

Gjörskyggnir Íslendingar gerðu sér grein fyrir því, að kæmi til þess, að alþingisfólk tæki sér 44% launahækkun skv. niðurstöðu Kjararáðs um launakjör alþingisfólks og háembættismanna, þá mundi það leiða til ófarnaðar í þjóðfélaginu. 

Sumir urðu til að vara við þ.á.m.Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri, sá sem þetta ritar og margir fleiri. En stjórnmálastéttin lét sér þau varnaðarorð í léttu rúmi liggja. Pólitísk samstaða myndaðist um það á Alþingi að þingmenn tækju sér 44% launahækkun.

Í frétt í Fréttablaðinu í dag segir fyrrum fjármálastjóri Alþingis Karl M. Kristjánsson frá því þegar hann var kosinn í sveitarstjórn í litlu hreppsfélagi við höfuðborgina, þá hafi hann séð, að þar höfðu sveitartjórnarmenn hækkað greiðslur til sín og nefndarlaun um það sama og alþingisfólk skammtaði sér.

Karl bendir á, að á sama tíma hafi laun fólksins sem vinnur fyrir sveitarstjórnirnar ekki fengið neina launahækkun. Sama gildir raunar um ríkisstarfsfólk. Þrátt fyrir að þingfólk hafi hækkað laun sín um 44% þá datt því ekki í hug, að skrifstofulýðurinn hjá ríkinu eða aðrir launaþrælar þar á bæ ættu rétt á nokkurri launahækkun í líkingu við fína fólkið á Alþingi eða í sveitarstjórnum.

Þá hefur komið í ljós að bæjar- og sveitarstjórar höfðu tekið sér gríðarlegar launahækkanir víða jafnvel umfram það sem Kjararáð skenkti alþingisfólki svo rausnarlega. 

Finnst stjórnmálastéttinni virkilega skrýtið að almennt launafólk telji sig eiga rétt til kjarabóta til jafns við það fólk, sem að hluta til mundi ekki einu sinni fá vinnu væri það á hinum almenna vinnumarkaði og engin nein ofurlaun?

Hætt er við að stjórnmálafólk sem þannig hagar sér þrjóti örendið fyrr fremur en síðar. Alla vega ættu kjósendur að hlutast til um það.


Góður listi Sjálfstæðisflokksins en það er ekki nóg.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík standa sameinaðir um framboðslista flokksins til borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Þrátt fyrir að kjörnefnd gerði tillögu um verulegar breytingar m.a. mikið af hæfu ungu fólki og margir byggjust við verulegum andmælum og andófi þá fór ekki svo. Flokksmenn ákváðu að standa sameinaðir að baki framboðsins. Þannig að það hefur alla vega þann fararheill.

Miklu skipti að vel tækist til um framboð Flokksins þannig að samhent heild starfaði með Eyþóri Arnalds sem flokksmenn höfðu valið sem oddvita sinn í borginni með yfirgnæfandi stuðningi flokksfólks.

Nú reynir á. Reykvíkingar hafa mátt þola óstjórn í borgarmálum um árabil og fyrst keyrði um þverbak þegar tvíeykið Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson skiptu með sér kökunni og ekki batnaði það eftir að Dagur sat einn að aðgerðum.

Nú skiptir máli að Sjálfstæðisfólk í Reykjavík móti sér framsækna stefnu í borgarmálum - af því að það er ekki nóg að hafa bara góðan framboðslista hann verður að eiga fullt erindi til að ná brautargengi. Það þarf að skerga burt Báknið í Reykjavík. Það þarf að tryggja nauðsynlega þjónustu og greiða umferð og umfram allt lækka álögur á borgarbúa. Þetta er vel hægt ef vel verður að verki staðið. 

Þreyttur hugmyndasnauður meirihluti á að víkja fyrir framsækinni stefnu til framfara í Borginni.


Glæsilegur sigur Eyþórs Arnalds

Eyþór Arnalds vann glæsilegan sigur í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fékk rúm 60% greiddra atkvæða. Sá frambjóðandi sem næstur kom, sitjandi borgarfulltrúi til margra ára fékk um 20% atkvæða. Ekki fer á milli mála hver vilji kjósenda er. 

Eyþór er vel að þessum sigri kominn. Hann hefur sýnt það þar sem hann hefur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum, að þar fer traustur,duglegur maður, sem kann að vinna. Ég óska Eyþóri alls velfarnaðar í kosningabaráttunni sem framundan er. 

Vilji Sjálfstæðisfólks í Reykjavík stendur augljóslega til algjörrar endurnýjunar á framboðslista flokksins.

Kjörnefnd er nokkur vandi á höndum, en verður að horfast í augu við þá staðreynd að til að skapa trúverðugt framboð þá verður að koma til algjör endurnýjun og velja samhentan hóp fólks sem veit fyrir hvað það stendur og stendur saman sem órofa fylking til sigurs í kosningunum.

Takist kjörnefnd að leiða verkefni sitt farsællega til lykta þá á Sjálfstæðisflokkurinn möguleika á að auka fylgi sitt verulega. 

Það er áhyggjuefni að ekki skuli fleiri en tæp fjögurþúsund taka þátt í prófkjörinu. Á árum áður tóku að jafnaði yfir 10 þúsund manns þátt í prófkjörum flokksins í Reykjavík. Þetta sýnir að nauðsynlegt er að taka félagsstarfið til gagngerrar endurskoðunar og gleyma því ekki, að það verður að gera útrás á grundvelli nýrra tíma,hugmynda, hugsjóna og nýrra samskiptamöguleika. 

Vert er að óska Eyþóri Arnalds til hamingju með góðan sigur og skora á hann að gera sitt til að Sjálfstæðisflokkurinn fái góða kosningu í Reykjavík og helst að vinna aftur meirihlutann í borginni. Til þess liggja öll málefnaleg rök og spor vinstri meirihlutans hræða. Það er mikil vinna framundan.

Verkamennirnir e.t.v. fáir en uppskeran ríkuleg ef fólk stendur saman og vinnur saman. 


Ber Reykjavíkurborg enga ábyrgð á ónýtum götum í borginni?

Leiðari Fréttablaðsins er oft athyglisverður einkum þar sem fyrrum borgarstjóri Jón Gnarr er í fleti fyrir aftan ritstjórana í stjórnunarstöðu á 365 miðlum.

Í leiðara blaðsins í dag er fjallað um hryllilegt ástand gatna í borginni, ástand sem aldrei hefur verið verra og kemst leiðarahöfundur að þeirri niðurstöðu að um sé að kenna eftirfarandi atriðum fyrst og fremst:  1.Nagladekk 2.Veðrið 3. Ferðamenn 4.Ríkið.

Nagladekk hafa verið við lýði í áratugi í Reykjavík og veðrið hefur iðulega verið ámóta erfitt fyrir göturnar. Þá verður ekki séð að ferðamennirnir spæni upp götur eða hvernig á að skýra bágt ástand gatna þar sem engin tengdur ferðamönnum fer um. Þá telur leiðarahöfundur að ríkið forgangsraði með röngum hætti og Vegagerðin standi sig ekki sem veghaldari.

Til að kóróna þessa makalausu ritsmíð leiðarahöfundar er tíundað að borgin hafi lagt aukið fé til viðgerðar gatna í borginni.

Niðurstaða leiðarahöfundar er því sú að þeir fjórir þættir sem fyrr eru nefndir séu orsakavaldur en stjórnendur Reykjavíkur hafi hins vegar staðið sig einstaklega vel.

Eitt sinn var borgartjóri í Reykjavík, sem hét Geir Hallgrímsson síðar formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann setti fram þá stefnu að malbika skyldi allar götur í Reykjavík. Vinstri menn hæddust að þessu og töluðu um ómerkilegt áróðursbragð því þetta væri ekki hægt. Vissulega hefðu þeir ekki getað gert það, en í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar laust eftir miðja síðustu öld urðu vegir í Reykjavík malbikaðir og greiðfærir.

Um sama leitið og vegir í Reykjavík urðu greiðfærir og malbikaðir var Gambíu veitt sjálfstæði frá Bretum. Til voru nokkrir vegir í Gambíu sem Bretar höfðu malbikað. Síðan leið hálf öld og þeir sem koma til Gambíu gætu allt eins haldið að þeir væru að aka Hverfisgötuna í Reykjavík vegna þess að á malbikuðu vegunum í Gambíu eru álíka mörg göt í malbikinu og á Hverfisgötunni í miðbæ Reykjavíkur. Götin á götunum í Gambíu eru vegna þess að viðhald skortir. Það sama gildir í Reykjavík og gerði alla borgarstjóratíð Jóns Gnarr og nú Dags B.Eggertssonar og af sömu ástæðu eru göt á götum í Reykjavík og í Gambíu.

Í stað þess metnaðar og framsýni sem Geir Hallgrímsson sýndi og síðar Davíð Oddsson hafa setið við stjórnvölinn borgarstjórar sem hafa áhuga á að gera allt annað við göturnar í Reykjavík, en gera þær greiðfærar. Aldrei hefur það verið verra en síðustu tvö kjörtímabil.

En það er náttúrulega ferðamönnunum, veðrinu, nagladekkjunum og ríkinu að kenna en ekki borgarstjóranum núverandi eða fyrrverandi eftir því sem leiðari Fréttablaðsins segir.

Sjálfur Göbbels áróðursmálaráðherra Hitlers hefði ekki getað gert betur en leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag við að afvegaleiða umræðuna og afsaka þá sem ábyrgð bera á Holuhrauninu í Reykjavík.

 


Nú eru gróðapungarnir góðir.

Sósíalistarnir sem stjórna Reykjavíkurborg segja að bílastæðahús í rekstri borgarinnar séu rekin með stórkostlegu  tapi. Þeir sjá ekki rekstrarlegar forsendur fyrir því að halda áfram rekstri bílastæðahúsanna og þá eru góð ráð dýr.

Arftaki Jóns Gnarr í Besta flokknum/Bjartri framtíð kynnti það sem einu lausnina sem þeir sósíalistarnir í borgarstjórninni ásamt honum, Samfylking, Vinstri grænir og Píratar sæu á vandanum væri að selja gróðapungum í borginni húsin til að þeir gætu ráðið bót á þeim vanda sem sósíalistarnir í Reykjavík sjá ekki nokkur tök á að gera.

Einkaframtakið á nú að leysa þann vanda sem sósíalisminn ræður ekki við. Sjaldan hefur heyrst eða sést jafn fullkomin málefnaleg uppgjöf sósíalista gagnvart markaðskerfinu, en kristallast í þessari afstöðu vinstri meirihlutans í borgarstjórn.

Nú geta þeir af því að við getum ekki.


Útfærslan er málið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur viðurkennt að tillagan sem borgarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum um viðskiptabann á Ísrael var  rugl.  Vegna pólitískrar ruglhyggju í orðavali, sem borgarstjóra er töm segir hann að tillagan hafi ekki verið útfærð nógu vel. 

Tillaga um allsherjar viðskiptabann á þjóðríki er tillaga um allsherjar viðskiptabann hvaða útfærslu skortir? 

Borgarstjóri og Björk Vilhelmsdóttir tillögukona, telja að tillagan sé annars efnis en hún hefði átt að vera. Eða e.t.v. öðru vísi en þau hafi meint það, þótt tillagan væri orðuð og samþykkt af þeim, þá hafi þau í raun meint allt annað, en það sem tillagan fól í sér, vegna skorts á útfærslu, sem hafi orðið til þess, að tillagna hafi í raun ekki verið það sem þau vildu, heldur allt annað og hreinn óskapnaður, vegna skorts á útfræslu. Í grínþáttunum "Yes minister" talaði ráðuneytisstjórinn Humphrey Appelby iðulega með sama hætti þegar hann var kominn upp að vegg og í algjört þrot. Það var grínþáttur. Dagur er raunveruleikagrínþáttur.

Fyrst tillagan er nú þessi mikli óskapnaður og hin versta að mati borgarstjóra er þá ekki best að afturkalla hana með öllu á næsta fundi borgarráðs eins og hann hefur boðið. Nei ekki svo auðvelt segir borgarstjóri. Enn skal skarkað á marhnútamiðum og gera frekari útfærslu á viðskiptabanni á Ísrael. Eða eins og liggur í orðana hljóðan af hálfu borgarstjóra þá er ekkert að tillögunni sjálfri nema útfærslan og með breyttri útfærslu á viðskiptabanni á Ísrael þá ætti þetta að vera allt í lagi.

Er ekki betra Dagur B. Eggertsson að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar og draga þetta til baka alfarið.

Fær ekki borgarstjóri og borgarstjórn góð laun til að rækja verkefni sín vel til hagsbóta fyrir borgarbúa. Ef svona einfalt mál þvælist fyrir vegna skorts á útfærslu hvað er þá um hin stærri og flóknari mál. Stjórnun borgar og lands er ekkert grín heldur alvörumál sem skiptir velferð og hagsmuni borgaranna máli. Það verður að hafa í huga þó að einhverjir hafi látið afvegaleiðast á langri vegferð grínarans Jóns Gnarr í stóli borgarstjóra þá kann ekki góðri lukku að stýra, að bæta um betur af borgarstjóra sem vantar gríntaugina sem Jón Gnarr þó hafði.

 


Ég um mig frá mér til mín.

Í greinarkorni sem Jón Gnarr ritar í Fréttablaðið í dag tekst honum að nota persónufornafnið, ég í meir en tuttugu skipti. Nú er það ekki nýlunda að stjórnmálafólki þyki vænt um sjálft sig og þyki mikið til sín koma, en það er fátítt að þeir hinir sömu sýni það á jafn grímulausan hátt og Jón Gnarr gerir í greininni.

Grínistinn Tom Lehrer sem var vinsæll á áttunda áratug síðustu aldar segir frá því í einu ljóði sínu, "We are the folk song army" með sinni kaldhæðnislegu kímni, hvað það er erfitt og óvinsælt að berjast fyrir hlutum, "sem allir aðrir eru á móti" og Jón Gnarr fjallar um í grein sinni málum eins og friði, vináttu og mannkærleik.  

Hér skal tekið undir allar hugrenningar og stílbrögð Jóns Gnarr um gæskuna og mannkærleikann, sem gott er að hafa jafnan í huga og þá er e.t.v. ekki fráleitt að spyrja fyrrum ráðandi stjórnmálamann hvort það hafi verið inntakið í stjórnsýslu hans á liðnu kjörtímabili sem borgarstjóri í Reykjavík. Einhver mundi segja að þar hafi verið "business as usual" (sama stefna og áður) með þeim blæbrigðum sem fólust í lélegri stjórnun, hækkun gjalda og verri þjónustu fyrir borgaranna.

 


Þjónusta borgarinnar er í ólestri.

Sama dag og rektor Háskóla Íslands blandaði þeirri merku stofnun í kosningabaráttu Jóns Gnarr með þáttöku í svonefndu friðarsetri þar sem Dagur B. Eggertsson og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur forgöngu fyrir þennan foringja sinn og leiðtoga, þurftu almennir Reykvíkingar að gera sérstakar ráðstafanir vegna þess að Reykjavíkurborg er hætt að sinna lögmæltum skyldum sínum við borgarana sem skyldi.

Sorp hefur hlaðist upp þar sem einstaklingarnir hafa ekki úrræði til að koma því sjálfir frá sér. Afsökun borgaryfirvalda er sú að færðin í Reykjavík sé með þeim hætti að það afsaki sleifarlagið. Veður eru þó ekki vályndari en við má búast á þessum árstíma og ófærð hefur ekki verið svo máli skipti í henni Reykjavík.

Jafnvel þó að sú afsökun borgarstjóra væri tekin sem sannleikur að vont veður hefði hamlað því að borgararnir fengju eðlilega og viðunandi þjónustu, þá væri samt hægt að bregðast við væri þokkalega hugmyndaríkur borgarstjórnarmeirihluti við völd. Það er hægt að leysa slík vandamál ef vilji er fyrir hendi án mikils kostnaðar. En viljann skortir og þetta er afgangsverkefni hjá Latte lepjandi gáfumönnunum sem stjórna Reyikjavíkurborg.

Á sama tíma og fólk paufast með stóra svarta plastpoka á endurvinnslustöðvar eftir að sorptunnurnar eru löngu orðnar yfirfullar, klæðir borgarstjóri sig uppá og býður til veislu í Höfða til að sinna að hans mati brýnasta verkefni borgarinnar, að stofna kosningamiðstöð fyrir Jón Gnarr. Bogarstjóri og meðvirkur háskólarektor lýsa því síðan fjálglega hvað Reykjavíkurborg geti unnið mikið starf í þágu friðar. Fróðlegt að fylgjast með því.

Við erum epli sögðu hrútaberin.

 


Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki.

Dagur B. Eggertsson hefur undanfarin fjögur ár verið raunverulegur borgarstjóri á meðan leikarinn og sjónhverfingamaðurinn Jón sem kallar sig Gnarr hefur stjórnað uppákomum og almannatengslum á borgarstjóralaunum.

Dagur tók þá ákvörðun,  fyrst hann var rúinn trausti eins og aðrir helstu leikendur í borgarstjórn á kjörtímabilinu 2006 til 2010, að best væri að starfa í anda spakmælanna  "Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki." og  "Sá vinnur sem kann að bíða."  Nú hefur Dagur fengið verðuga umbun æðruleysis og þýlyndis síns og er orðinn borgarstjóri bæði í orði og á borði.

Ástæða er til að óska Degi B. Eggertssyni til hamingju með að vera orðinn borgarstjóri í annað sinn og vonandi tekst betur til nú en í hið fyrra skiptið. 

Óneitanlega hefur Dagur sýnt stjórnvisku á þeim tíma sem liðinn er frá borgarstjórnarkosningunum í anda rómverskra yfirgangsmanna fyrir um 2000 árum í þýlendum sínum þegar þeir störfuðu eftir meginreglunni að  "Deila og drottna"  Dagur byrjaði á því að bjóða Pírötum og Vinstri grænum til meirihlutasamstarfs með sér og Bjartri Framtíð, sem þeir þáðu  með þökkum. Síðan bauð hann Sjálfstæðisflokknum dúsu sem að Sjálfstæðisflokkurinn þáði með þökkum, en með því tókst Degi að reka fleyg á milli stjórnarandstöðuflokkana í borgarstjórn.

Í ljós umræðu um lóð undir Mosku ákvað Dagur í samræmi við boðun spámannsins Múhammeðs að Samfylking, Björt framtíð, Píratar og VG væru í félagsskap útvaldra. Sjálfstæðisflokkurinn væri í Dhimmi stöðu þ.e. megi vera með, þó þeir njóti ekki nema takmarkaðra réttinda. Framsókn er hins vegar  með öllu útskúfað.

Vissulega er fólgin stjórnviska í að deila og drottna. En sú stefna gengur ekki upp nema skammsýnt fólk láti það yfir sig ganga og taki þátt í því.  Því miður féll Sjálfstæðisflokkurinn á fyrsta prófinu í nýrri borgarstjórn.  

 


Nýr foringi?

Elliði Vignisson og sjálfstæðisfólk í Vestmannaeyjum unnu það ótrúlega afrek að fá 73% greiddra atkvæða í bæjarstjórnarkosningunum.

Í lýðræðisríki þar sem stjórnendur ráða ekki fjölmiðlum er algjör undantekning að stjórnmálaflokkur nái svo afgerandi fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað Vestmannaeyjum undanfarin ár og sá stuðningur sem flokkurinn fær nú sýnir að bæjarbúar eru almennt mjög ánægðir með störf meirihlutans.

Elliði Vignisson bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisfólks í Vestmannaeyjum hefur verið óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós og m.a. boðið vinstri menningarelítunni í 101 Reykjavík byrginn. Að honum var heldur betur sótt í kjölfar þess. Elliði stóð hins vegar jafnréttur ef ekki réttari eftir.

Í kjölfar þessa góða árangurs er eðlilegt að Sjálfstæðisfólk gaumgæfi hvort  kominn sé fram nýr foringi flokksins á landsvísu sem líklegur sé til góðra verka og geti notið almenns trausts landsmanna.

Sú forustusveit Sjálfstæðisfólks þ.á.m. nýs forustufólks,  sem nú hefur haslað sér völl víða um land í sveitarstjórnum  þarf að láta  til sín taka í auknum mæli á vettvangi landsmála.

Þjóðin og Sjálfstæðisflokkurinn þurfa á því að halda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1093
  • Sl. sólarhring: 1134
  • Sl. viku: 3503
  • Frá upphafi: 2299476

Annað

  • Innlit í dag: 1028
  • Innlit sl. viku: 3272
  • Gestir í dag: 997
  • IP-tölur í dag: 972

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband