Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Betur má ef duga skal.

Einn af hverjum þrem kjósendum í Reykjavík sáu ekki ástæðu til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og kjósa. Samfylkingin er því  með um 20% fylgi allra kjósenda í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn 18%. Þeir sem heima sátu eru því fjölmennasti hópur kjósenda í Reykjavík

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn reyndist vera með meira fylgi í Reykjavík en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna, þá er niðurstaðan samt fjarri því að vera viðunandi fyrir flokk sem hefur fengið um og yfir helming atkvæða í kjósenda þegar best hefur gengið.  Betur má því ef duga skal.

Sem innfæddur Akurnesingur get ég ekki annað en fagnað því að Sjálfstæðismenn með Ólaf Adolfsson í broddi fylkingar skyldu vera hástökkvarar kvöldsins og vinna hreinan meirihluta.

Fréttastofa RÚV vann mikinn sigur með öfugum formerkjum. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík getur öðrum fremur þakkað framgöngu fréttamanna RÚV fyrir góðan árangur í kosningunum. Í hálfan mánuð fyrir kosningar var varla til sá fréttatími þar sem hrokafullir fréttamenn á RÚV létu hjá líða að finna nýja og nýja fordæmingu á ummælum oddvita Framsóknar í Reykjavík um lóð fyrir mosku.

Framsóknarmaddömurnar Sveinbjörg og Guðfinna ættu því að láta það verða sitt fyrsta verk nýkjörnar í borgarstjórn, að færa fréttastofu RÚV veglegan blómvönd í þakklætisskyni fyrir kosningabaráttuna.

Meiri hluti Gnarrista féll og borgarstjórastóll Dags B. Eggertssonar er því valtari en spáð var.  En VG er alltaf til staðar sem hækja Samfylkingarinnar. Ef til vill ætti Dagur að lesa bókina ár drekans eftir flokksbróður sinn Össur Skarphéðinsson áður en hann lætur fleka sig inn í slíkt samstarf. 


Hinir umburðarlyndu

Hinir umburðarlyndu í Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Samfylkingunni hafa undanfarið hneykslast á oddvita Framsóknar í borgarstjórn fyrir efasemdir um lóðaúthlutun fyrir mosku í Reykjavík. Vilhallir fréttamenn þessa "umburðarlynda og víðsýna fólks" hafa elt uppi forustumenn Framsóknarflokksins til kreista fram fordæmingu á flokkssystur sinni.  Ummæli sem fréttahaukarnir telja bera augljósan vott um rasisma og þjóðernisofstæki.

Samt sem áður hefur oddviti Framsóknar ekki mælt styggðaryrði um múslima eða veist að trúarskoðunum þeirra eftir því sem ég veit best. 

Á sama tíma er upplýst að Kristín Soffía Jónsdóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur látið frá sér fara mun alvarlegri ummæli um trúarhóp, en oddviti Framsóknar um múslima. Svo bregður hins vegar við að reynt er að þagga það niður og forustumenn Samfylkingarinnar eru ekki eltir á röndum til að fá afstöðu þeirra til ummæla Kristína Soffíu Jónsdóttur. 

Ummæli Kristína Soffíu sem hér er vikið að um Aust-rómversku kaþólsku kirjkuna eru: "Ömurlegt að Reykjavíkurborg sé búin að úthluta lóð til þessa skítasafnaðar. Þessi söfnuður má fokka sér".

Ummælin viðhafði Kristín Soffía vegna viðhorfa safnaðarins til samkynhneigðra, sem eru raunar svipuð og rómversk kaþólskra og mun mildari í garð samkynhneigðra og réttinda þeirra en afstaða múslima.

Séu ummæli oddvita Framsóknarflokksins og frambjóðanda Samfylkingarinnar borin saman þá fela ummæli frambjóðanda Samfylkingarinnar í sér mun meiri fordóma, skort á umburðarlyndi og skort á víðsýni og eru alvarlegri og fordæmanlegri ef eitthvað er. Samt sem áður er engin krafa gerð um að hún víki úr fjórða sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Fréttamenn elta heldur ekki Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar vegna þessara ummæla flokkssystur hans,  þó þeir hundelti Sigmund Davíð og tíundi í hverjum fréttatíma að hann hafi ekki fordæmt ummæli flokkssystur sinnar.

Ummæli Kristínar Soffíu eru vissulega fordæmanleg og ósæmileg. Athyglisvert er að í urmæðu um málið segist hún sjá eftir því að hafa sagt þetta, en nefnir ekki sérstaklega hvað hún sjái eftir. Hún hefur heldur ekki beðist afsökunar á ummælunum sem telja verður lágmark þegar um svo alvarleg og lágkúruleg ummæli er að ræða.

Finnst Árna Páli Árnasyni og Degi B. Eggertssyni forsvaranlegt að hafa Kristínu Soffíu á framboðslista Samfylkingarinnar eftir að opinberuð hafa verið þessi ummæli hennar. Finnst þeim eðlilegt að hún sitji á framboðslistanum án þess að sinna þeirri lágmarkskurteisi að biðjast afsökunar? 


Innihaldslaust kosningaloforð Samfylkingarinnar

Á meðan Jón Gnarr borgarstjóri hefur heillast af verkefnum sem þjóna sýniþörf hans t.d. á hinsegin dögum, degi fatlaðra, einhverfra, blindra o.s.frv. þar sem hann er samkynhneigðasti einstaklingurinn á hinsegin dögum, fatlaðastur allra og blindastur þegar það á við og tjáir sig um eigin reynslu af  einelti  þegar það á við, hefur Dagur Eggertsson farið sínu fram sem borgarstjóri í pilsfaldi dragdrottningarinnar.

Samfylkingin undir forustu Dags ber því ábyrgð á stjórn Borgarinnar. Nú þegar rignir sést t.d. vel hveru illa viðhaldi gatna hefur verið sinnt, en sumar götur eru beinlínis hættulegar til aksturs. 

Viðhaldi og uppbyggingu hefur verið frestað á meðan verkefni fáránleikans hafa fengið meira vægi eins og sást best á Hofsvallagötunni þegar öruggri götu var breytt í furðufyrirbæri, fuglahúsa og götumynda.

Dagur B. Eggertsson ætlar nú að reisa önnur hús en fuglahús. Eftir að hafa setið í fjögur ár og látið hjá líða að gera eitthvað í húsnæðismálum Reykvíkinga, þá er helsta kosningaloforðið að fjölga leiguíbúðum í Reykjavík um 2500 til 3000.

Þegar ráðandi stjórnmálaflokkur kemur með svona ábyrgðarlaust yfirboð þá er rétt að spyrja hvað margar leiguíbúðir urðu til á kjörtímabilinu. Svarið við því sýnir í hnotskurn að fáránleiki Dags og Samfylkingarinnar nær út yfir þjófamörk  furðulegheitanna á Hofsvallagötunni. 

Nægir að minna á að Samfylkingin telur skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána ofviða efnahagskerfinu á sama tíma og Samfylkingin setur fram kosningaloforð sem kostar miklu meira en skuldaleiðréttingin. Ef skuldaleiðréttingin veldur erfiðleikum í efnahagskerfinu þá er ljóst að kosningaloforð Dags er innihaldslaust.  

 

 


Inn í bæjarblokkirnar

Dagur B. Eggertsson og sósíalistaflokkur hans hefur það helst á stefnuskrá sinni við kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur að troða sem flestum inn í  bæjarblokkir. 2.500 til 3000 viðbótar íbúðir í bæjarblokkum er langstærsti draumur þess fólks sem vill að fólk eigi ekki neitt annað en inneign sína í lífeyrissjóðnum þegar það fer á elliheimilið. Sú inneign er þar tekin af því fyrir utan örlitla dagpeninga. Fólk yrði þá nánast ekki fjár síns ráðandi  allt sitt líf. Sovét Ísland óskalandið sem þá Dag B. Eggertsson og Gylfa Arnbjörnsson formann ASÍ dreymir um yrði að veruleika.

Bæjarblokkirnar kosta jafn mikið í byggingu og annað húsnæði. Það er dýrari lausn að leigja fólki heldur en að gera þeim sem það vilja og geta kleyft að eignast eigið húsnæði.  Með því að fólk eignist húnæði sitt verður það eignafólk myndar sjálfstæðan lífeyri og hefur meira fjárhagslegt svigrúm um og eftir miðjan aldur.

Fólk sem á húsnæðið sem það býr í, leggur á sig ómælda vinnu við að halda húsnæðinu við og dytta að því. Sá kostnaður fellur allur á leigusala í leiguíbúðum og leiguverð verður að miða við það. Þegar upp er staðið þá er greiðsla leiguverðs á mánuði meiri en greiðsla íbúðaláns á sanngjörnum vöxtum.  Með bæjarblokkunum tapast þá möguleikinn til eignamyndunar, sparnaður og hagkvæmni. 

Dagur B. Eggertsson hefur sennilega ekki skoðað að bæjarblokkir í sveitarfélögum landsins hafa verið fjárhagslegur baggi á sveitarfélögum og á stundum leitt til verulegra greiðsluerfiðleika sveitarfélaga. Sé Degi hins vegar kunnugt um þetta þá skiptir verri afkoma borgarsjóðs hann engu máli.

Dagur B og flokksmenn hans hafa atyrt Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir yfirboð og atkvæðakaup með því að knýja á um sanngirni við skuldaleiðréttingu húsnæðislána. En hvað kallast þá þessi stefna Samfylkingarinnar þar sem látið er í það skína að fólk geti fengið íbúðarhúsnæði á niðurgreiddu verði allt á kostnað annarra. 


Íslendingur vil ég ekki vera.

Jón sem jafnan nefnir sig Gnarr,  hefur setið í stóli borgarstjóra í Reykjavík, á meðan Dagur B. Eggertsson hefur gegnt stjórnmálalegum framkvæmdaratriðum, en Jón þessi Gnarr séð um showið. Jón hefur líka tekið borgarstjóralaunin en þrátt fyrir það telur Dagur sig ekki vanhaldinn enda fær hann að ráða öðru en uppákomum.

Jón borgarstjóri hefur tilkynnt að hann muni ekki halda áfram í pólitík. Raunar hefur hann fyrst og fremst verið í pólitísku hlutverki sem góður leikari. Nú segist hann ekki vilja vera Íslendingur lengur af því að hann fái ekki að heita Gnarr. Ættjarðarástin er greinilega ekki að drepa þennan borgarstjóra fyrst hann lætur þetta málefni leiða sig til öflunar nýs ríkisfangs.  

Vel er hægt að samþykkja sjónarmið Jóns Gnarr á því að afskipti stjórnvalda af nafngiftum fólks er of mikil. En er það gild ástæða til að gefast upp og flýja land. Pólitískur baráttumaður mundi beita sér fyrir breytingu á löggjöfinni í stað þess að flýja af hólmi í tvennum skilningi eins og Jón Gnarr hefur nú tilkynnt með skömmu millibili.

Hingað hefur komið fólk og sótt um íslenskt ríkisfang jafnvel þó það þyrfti að kasta nöfnum sínum. Ég minnist dæma um menn sem þurftu að gera það og tóku sér nöfn eins og Ingólfur Arnarson, nafn þáverandi lögreglustjóra eða sóttu um nafnið Egill Skalla-Grímsson sem var hafnað. Þessir menn mátu meira að vera á Íslandi og fá ríkisborgararétt þó að þeir þyrftu að sæta þeirri óhæfu að breyta um nafn vegna fráleitrar löggjafar á Íslandi.

Fyrst Jón Gnarr telur ósætt í landinu vegna löggjafarinnar um mannanöfn og treystir sér ekki í málefnalega baráttu fyrir breytingum þá sést e.t.v. best að Jón Gnarr er hvorki pólitískur né baráttumaður. Hann er hins vegar frábær leikari með mikla sýniþörf. Eða ætlar einhver að hann sé að meina það að sækja um landvist og ríkisborgararétt í öðru landi?


Af hverju vann Halldór?

Flestir töldu að Halldór Halldórsson ætti lítinn möguleika á að ná kosningu í fyrsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar hann tilkynnti um framboð sitt og búsetuskipti skömmu fyrir kosningar.  Júlíus Vífill Ingvarsson hafði staðið sig vel sem oddviti flokksins í Reykjavík þann skamma tíma sem hann hafði skipað þá stöðu. En svo fór að Halldór kom sá og sigraði.

Halldór stóð sig vel í kosningabaráttunni m.a. á flokksfundum fyrir prófkjörið og að því leyti sem það skiptir máli þá naut hann þess. 

Júlíus Vífill geldur fyrir það að mörgum finnst borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafa verið helst til aðgerðarlítill og stefnulaus á kjörtímabilinu þar sem næg tilefni hafa verið til að reka kröftuga stjórnarandstöðu. Júlíusi verður þó ekki kennt um það, en krafa um breytingar vegna óánægju með frammistöðuna á kjörtímabilinu bitnuðu greinilega á honum.

Margir hafa gagnrýnt að hlutur kvenna sé rýr í prófkjörinu en það er rangt. Af þeim sem kosin voru í 10 efstu sætin skipa konur 5 og karlar 5 þó að þrír efstu hafi verið karlar, en við því mátti búast fyrirfram. Það er frekar ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum sem ber skarðan hlut frá borði, en engin af yngri frambjóðendum náðu fylgi og sú sterka krafa um endurnýjun sem heyrðist úr röðum flokksmanna virðist ekki hafa skilað sér með mikilli endurnýjun þegar litið er á úrslit prófkjörsins.

Á flokksskrá Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru um 22 þúsund einstaklingar. Í þessu prófkjöri kusu rúmlega 5.000 eða tæp 25% flokksbundins Sjálfstæðisfólks og undir 10% af kjósendum í Reykjavík. Spurning er hvaða gildi prófkjör eins og þessi hafa til að velja góðan framboðslista fyrir kosningar og hvort lýðræðinu er best þjónað með því að hafa prófkjör í þessari mynd? Kosningaþáttakan bendir tæpast til þess.  


Kamelljónið

Kamelljón eru dýr sem breyta stöðugt um lit eftir því sem þeim hentar. Reykvíkingar eiga sitt kamelljón í Jóni sem nefnir sig Gnarr og er borgarstjóri í Reykjavík. Á hinseginn dögum er Jón Gnarr flottasta dragdrottningin. Hann er fatlaðasti einstaklingurinn þegar fatlaðir vekja athygli á sínum málum og er ofvirkasti einstaklingurinn þegar talað er um ofvirka og lýsir óhugnanlegu einelti í sinn garð og föður síns þegar einelti ber á góma. Engin vandamál í mannlegu samfélagi eru til, sem Jón Gnarr er ekki haldinn.

Af skoðanakönnunum má ráða að fjöldi Reykvíkinga kann vel við að hafa Jón kamelljón í stóli borgarstjóra, þó hann sé upptekin við að bregða sér í allra kvikinda líki en láti embættismönnum og Degi Eggertssyni eftir daglegt amstur við stjórn borgarinnar. Leikarinn Jón Gnarr  getur enn fær heillað hluta kjósenda með leikbrellum sínum og uppákomum.

Stjórnun borgarmála virðist skipta stóran hóp kjósendur minna máli en leikræn tilþrif og uppákomur.  Það flýr þó engin staðreyndir til langframa. Reykjavík er illa stjórnað. Fjárhagsleg staða Reykjavíkur versnar og beinar skuldir Reykjavíkur hafa aukist um 26 milljarða á kjörtímabili Jóns Gnarr eftir því sem Júlíus Vífill Ingvarsson forustumaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir frá í dag.

Auk þess að hafa klúðrað fjárhagsstjórn borgarinnar á kjkörtímabilinu mega borgarbúar þola sífellt meiri tafir og klúður í umferðinni vegna aðgerða Jóns Gnarr og félaga til að torvelda samgöngur auk ýmissa annarra vandamála.

Eftir að hugmyndafræðinni var að mestu vísað út úr íslenskri pólitík hefur almenn stjórn lands- og sveitarstjórnarmála versnað til muna.   Vegna þess hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki mótað nægjanlega skíran valkost við óstjórninni þar sem kjölfestuna hefur vantað þó heldur hafi þeir hlutir batnað á síðustu misserum.

Við framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar verður maður helst var við að frambjóðendur komi fram og segi ég vil þetta eða hitt sætið og ætla að bæta í þessi eða hin velferðarmál sem mundi þýða aukna skuldaaukningu fyrir Reykjavíkurborg og í raun ekkert fráhvarf frá leikrænum stjórnunarháttum kamelljónsins.

Þess vegna var kærkomið að sjá skírskotun Herdísar Þorvaldsdóttur framkvæmdastjóra Þyrluþjónustunnar,þar sem hún leggur áherslu á að rétta af hallarekstur borgarinna og leggur áherslu á frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja og forgangsröðun í þágu heildarhagsmuna. Ég þekki þennan frambjóðanda ekki neitt en hún virðist alla vega hafa grunngildin sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir á hreinu. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins nær ekki fylgi og á það ekki skilið nema hann sé tilbúinn til að standa að málum á grundvelli einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis og draga úr sóun, umframeyðslu og dekri við sérhagsmuni. 

 


Öngstræti borgarstjórnarflokka

Í pólitík kemur það fyrir að flokkar uppskera eins og þeir sá.

Á síðasta kjörtímabili brugðust borgarstjórnarflokkar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar kjósendum sínum. Myndaðar voru vanburðugir meiri hlutar þar sem meiri hlutinn valt á því hvort einn borgarfulltrúinn var veikur eða ekki. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins toppaði ábyrgðarleysið með myndun meirihluta með Ólaf F. Magnússon sem borgarstjóra. 

Í kjölfar þessa ákvað þriðjungur kjósenda að kjósa landsþekktan skemmtikraft sem stóð ekki fyrir neitt sérstakt í pólitík. Þáverandi borgarstjóri boðaði þá líka að öll dýrin í borgarmálapólitíkinni væru skoðanasystkin. Slík hugmyndafræðileg uppgjöf gaf skemmtikraftinum háspilin á hendurnar.

Nú rúmum þrem árum síðar mælist flokkur skemmtikraftsins með mest fylgi í Reykjavík. Samfylkingin sem hélt áfram þeim hráskinnaleik sem hún stóð fyrir næsta kjörtímabil á undan ákvað að sýna fullkomið ábyrgðarleysi og hugmynda- og hugsjónasneyð þegar flokkurinn valdi að koma skemmtikraftinum í borgarstjórastól.  Fylgi Samfylkingarinnar er að vonum í samræmi við það ábyrgðarleysi.

Þrátt fyrir fjögurra ára óstjórn skemmtikraftsins og Samfylkingarinnar í borginni, sem kemur til að kosta Reykvíkinga mikið, þá hefur borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ekki tekist að marka sér vígstöðu sem virkt og viðurkennt stjórnarandstöðuafl. Fjórir af hverjum tíu stuðningsmönnum flokksins í borgarstjórnarkosningum hafa horfið frá honum, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun, frá  því sem að best lét.  

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins þarf að skoða hvort hann er að uppskera eins og hann á skilið miðað við störf sín í borgarstjórn. Sé svo ekki þá hafa kjósendur greinilega ekki orðið varir við það. 


Barátta sem drepur miðborgina

Á sama tíma og fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra berst fyrir þrengingum á götum og aksturshindrunum með góðri hjálp Gísla Marteins ræða menn í Bretlandi um að þessi stefna hafi beðið skipbrot.

Í Bretlandi er talað um að setja nýjar viðmiðanir til að auðvelda bílaumferð, þá helst miðborgarumferð. Stefna þeirra Gísla Marteins og fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra er sögð hrekja bílstjóra frá því að versla í miðborginni en stunda þess í stað viðskipti á netinu eða stórmörkuðum í úthverfum.

Skortur á bílastæðum, þrengingar á götum og hátt verð í tímabundin bílastæði dregur úr löngun fólks til að fara í miðbæinn. Mikilvægt er að bílastæðum í og við miðbæinn verði fjölgað þau verði örugg og ódýr ef vilji er til að skapa daglega meira líf í miðborgarkjarnanum.

Sumarfríum er að ljúka og skólar að byrja. Umferð þyngist. Víða í borginni eru umferðarteppur og umferð gengur hægt vegna þess að ekki hefur verið hugað að nauðsynlegum umbótum á umferðarmannvirkjum.  Í komandi umferðarteppum í vetur geta bílstjórar í Reykjavík hugsað til Jóns Gnarr og meðreiðarsveina hans í umferðarþrengingunum.  Minnast þess í leiðinni að það er nauðsynlegt að kjósa fólk í borgarstjórn sem veit hvað það er að gera og á að gera og skilur samhengi hlutanna.

Kosningar eru nefnilega alvörumál líka borgarstjórnarkosningar. Ekki grín og ekki fíflska.

 


Að rýna í mál eins og þegar skrattinn les Biblíuna.

Árni Þór Sigurðsson formaður þingflokks Vinstri grænna afsakaði það á Alþingi í dag að Vinstri grænir skyldu skipa Ástráð Haraldsson lögmann til setu í landskjörstjórn nokkrum dögum eftir að hann sagði af sér og lýsti sig ábyrgan fyrir klúðrinu við stjórnlagaþingskosningarnar.

Ástráður Haraldsson er hinn mætasti maður og góður lögmaður og margt gott má einnig segja um þá sem með honum sátu í Landskjörstjórninni sem sagði af sér í kjölfar ógildingar á stjórnlagaþingskosningunum.  Þess vegna gat og getur Ástráður með miklum ágætum komið til greina í margvíslegar stöður og embætti.  Það er hins vegar með  eindæmum að maður sem lýsir ábyrgð á hendur sér og segir af sér skuli nokkrum dögum síðar vera skipaður aftur og taka slíkri tilnefningu. Það segir ekki góða sögu hvorki um tilnefningaraðilann né dómgreind þess sem skipaður er hvað þetta varðar.

Orðræða Árna Þórs Sigurðssonar var vissulega einstök í þessu máli. Hann snéri öllum sannleikanum á haus enda lærisveinn Steingríms J.  Allt í einu var hann farinn að tala með svipuðum hætti og ætla má að gerist þegar skrattinn les upp úr Biblíunni.  Orðræða Árna Þórs var sú að allir flokkar lýstu  í raun vantrausti á þá sem sögðu sig úr  Landskjörstjórn með því að endurkjósa þá ekki  nema Vinstri grænir.  Þarna tókst heldur betur vel til að snúa sannleikanum á haus.

Málið snýst um sómatilfinningu, eðlilega starfshætti, virðingu fyrir lögum, ábyrgð og fólk axli ábyrgð á verkum sínum.  Um það snýst þetta mál og ekkert annað. Vinstri grænir eru með endurkjöri Ástráðs að lýsa því yfir að öll verstu einkenni og verklag í stjórnsýslu og stjórnmálum skuli fært í öndvegi en hugmyndir um nýtt og betra vinnulag skuli víkja. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 230
  • Sl. sólarhring: 372
  • Sl. viku: 7183
  • Frá upphafi: 2313912

Annað

  • Innlit í dag: 199
  • Innlit sl. viku: 6629
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband