Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Á ríkið að byggja olíuhreinsunarstöð eða vera stór hluthafi?

Ég veit ekki hvort það gætir ónákvæmni í fréttinni en ég skil Einar Kr. Guðfinnsson sjávar- og landbúnaðarráðherra þannig að hann telji að ríkisvaldið eigi að koma að því að olíuhreinsunarstöð verði að veruleika þá væntanlega á Vestfjörðum.

Það kann að vera vænlegur kostur í atvinnumálum að olíuhreinsunarstöð verði að veruleika á Vestfjörðum. Þó þannig að það séu áhættufjárfestar sem standi að henni að öllu leyti og starfræki hana. Ríkið á ekki koma að málinu nema hvað varðar hafnar- og vegagerð.

Það er mikilvægt að ríkishyggjunni í atvinnumálum verði ýtt til hliðar. Hún hefur skaðað okkur gríðarlega og ríkishyggjan í byggðamálum hefur ekki orðið til góðs til að styrkja byggðirnar. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur fyrir Stalínískri atvinnuuppbyggingu eins og þeir gerðu við Kárahnjúka.


mbl.is Einar Kr.: Ríksvaldið á að beita sér fyrir olíuhreinsistöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber einhver ábyrgð á þessu?

Ber einhver ábyrgð á því að kostnaður við íþróttamannvirki skuli kosta um milljarði meir en áætlað var. Hver ber ábyrgð á þessu. Er það núverandi meirihluti? Er það meirihlutinn sem Dagur B. Eggertsson leiddi eða er það meirihlutinni sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiddi? Verður málið e.t.v. rakið lengra aftur.

 Það er ekki í lagi þegar hagsmunagæsla borgarfulltrúa fyrir borgaranna er jafn léleg og raun ber vitni. Þessi vinnubrögð eru óviðunandi. Þau bera fyrst og fremst vott um að það sé kastað til höndunum og það er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar í málinu. Það er ekki ásættanlegt að stjórnkerfi og stjórn Reykjavíkur sé geri svona mistök.

Hver ber ábyrgðina?


mbl.is Vissu um framúrkeyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska tilraunin.

Í pistli mínum á Útvarpi Sögu í gær talaði ég m.a. um Íslensku tilraunina í efnahagsmálum með því að hafa flotkrónu og sérstakar hækjur þessa óstöðuga gjaldmiðils, verðtrygging og háir vextir. Ég sagði að kostnaður almennings við þessa tilraun væri óásættanleg og vitnaði í Ólaf Ísleifsson prófessor í því sambandi . Þetta var að hluta til ónákvæmt hjá mér þar sem að skilja mátti á umfjölluninni að Ólafur Ísleifsson ætti höfundarrétt að því að kalla óstjórnina í íslenskum efnahagsmálum "tilraun"  en það er ekki. Ég bið Ólaf Ísleifsson sem mér finnst merkur fræðimaður velvirðingar á því að hafa sett orð hans í þetta samhengi.  Það var Davíð Oddsson Seðlabankastjóri sem á höfundarrétt á því að tala um íslensku tilraunina en hann talar um þessa "merku" íslensku tilraun í ræðu  á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Íslands 31.5.2007.

Slóðin inn á ræðu Daviðs er þessi. http://sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1490

Athyglivert að skoða sýn Seðlabankastjóra á íslensku tilrauninni.    Almenningur í landinu kann honum og ríkisstjórninni vonandi litlar þakkir fyrir að lenda í þeirri stöðu vegna tilraunarinnar að eiga á hættu óðaverðbólgu og atvinnuleysi.


Bera Ísraelsmenn enga ábyrgð?

Undanfarna daga hefur her Ísraels drepið um 200 hundruð Palestínumenn þar á meðal konur og börn vegna þess að vitleysingar á Gasa ströndinni skutu heimatilbúnum flugskeytum á Ísrael og urðu einum manni að bana. Flugskeytaárásir á Ísrael eru óviðunandi og ekki afsakanlegar. En þær afsaka ekki aðgerðir Ísraelsmanna. Ísrael heldur Palestínumönnum í tveim risasórum fangelsum þar sem múrar ófrelsisins loka fólk inni. Það er sorglegt að þessi þjóð sem hefur sjálf mátt þola svo mörg hermdarverk gagnvart sér skuli nú standa að morðum á saklausu fólki aftur og aftur.

Spurning er hvort við eigum að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael? Vissulega kemur það til greina. Þá mundum við taka þá ákvörðun að slíta stjórnmálasambandi við þær þjóðir sem virða ekki frumskyldu ríkis að virða rétt eigin borgara eða þeirra sem ríkið ber ábyrgð á "réttinn til lífs." Ísrael hefur ítrekað sýnt að þeir virða ekki rétt Palestínumanna til lífs og fara gegn þeim með harðræði og morðum. Íran fer einnig þannig að gagnvart ýmsum sínum borgurum og þannig mætti áfram telja því miður nokkur ríki sem virða ekki réttindi borgara landa sinna eða þeim sem þeir bera ábyrgð á að njóti borgaralegra réttinda.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður þá þótti mér vænt um það að Geir H. Haarde forsætisráðherra skyldi lýsa því yfir á Alþingi í dag að aðgerðir Ísralesmanna væru fordæmanlegar og óafsakanlegar. Ég held að það sé betra að halda stjórnmálasambandi við Ísrael og láta þessa "vini"okkar vita að þrátt fyrir að við höfum jafnan staðið með þeim á alþjóðavettvangi þá hafi þeir ítrekað gengið of langt og við munum í framtíðinni leitast við að koma lögum yfir þá sem ógna lífi fólks og sviptir það mannréttindum hvort heldur þar er um einstaklinga eða þjóðir að ræða.


Hvar er þessi hnattræna hlýnun? Ekki í Vestmannaeyjum.

Hvernig skyldi hin pólitíska veðurfræði skýra kaldan vetur á Íslandi í ár þar sem meðalhiti þeirra vetrarmánaða sem liðnir eru, er lægri en í meðalári. Mér er sagt að elstu menn í Vestmannaeyjum muni ekki annan eins harðræðisvetur og þennan.

Er það ekki bara þannig að það skiptast á skin og skúrir og hiti og kuldi og það er útilokað að álykta um hnattræna hlýnun af mannavöldum með því að taka loftslagbreytingar síðustu ára og áratuga inn í myndina. Við höfum dæmi um það í veraldarsögunni að það hefur verið mun hlýrra en það er nú og þá voru engar gróðurhúsalofttegundir af mannavöldum. Yfirborð sjávar var fyrir nokkrum þúsund árum mun hærra en það er núna og Sahara eyðimörkin var aldingarður.  Þegar loftslagsbreytingar verða þá tapast ákveðin svæði en önnur vinnast.

Þrátt fyrir að ég vilji að náttúran njóti vafans þá er ég ekki trúaður á helvítisspár Al Gore og Þórunnar umhverfisráðherra vegna hnattrænnar hlýnunar.


mbl.is Innisnjóaðir Vestmannaeyingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsmet í vantrausti.

Fréttablaðið sagði frá því að aldrei hefði nokkuð stjórnvald mælst með jafnlítið traust og borgarstjórn Reykjavíkur. Skoðanakönnun þar sem þetta kom fram birtist um daginn. Aðeins 9% aðspurðra treystu borgarstjórninni.

Hvað veldur svona afgerandi vantrausti á borgarstjórn Reykjavíkur? Það er athyglivert að það er ekki verið að spyrja um borgarstjórann í Reykjavík eða meirihlutann heldur borgarstjórnina. Dagur B. Eggertsson virðist eitthvað misskilja það sem fólk er að tjá sig um. Hann virðist ekki átta sig á því að þessi niðurstaða er vantraust á hann sem og aðra borgarfulltrúa ekki bara núverandi  meirihluta.

Athyglivert að þegar Fréttablaðið leitaði eftir því að fá viðhorf borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þá náðist ekki í neinn þeirra. Ekki náðist heldur í Ólaf F. Magnússon borgarstjóra. Það er afar athyglivert að svo stór hópur stjórnmálamanna skuli ekki vera aðgengilegur til að tjá sig við fjölmiðil um atriði sem máli skipta. Ég efa að í nokkru öðru lýðræðisríki kæmust stjórnmálamenn upp með að neita að tjá sig með þeim hætti eins og núverandi meirihluti gerir með því að láta fjölmiðla ekki ná í sig.

Af hverju er þetta Íslandsmet í vantrausti á þetta stjórnvald, borgarstjórn Reykjavíkur? Ef til vill væri réttara að spyrja af hverju ætti fólk að bera traust til þessa stjórnvalds?   Hefur það sýnt sig að vera vert trausts?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 2414
  • Frá upphafi: 2298387

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2248
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband