Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Að bera sannleikanum vitni

Það getur verið dauðans alvara að segja satt. Það hafa margir reynt í tímans rás. Jesús Kristur sagðist vera í heiminn kominn til að bera sannleikanum vitni og Pontíus Pílatus sagði þá. "Hvað er þá sannleikur" og dæmdi Jesús til krossfestingar.

Í dag kveður enskur áfrýjunardómstóll upp dóm um það hvort framselja eigi Julian Assange aðalmann Wikileaks til Bandaríkjanna, þar sem ljóst er að hans bíða réttarhöld og vafalítið langur fangelsisdómur. 

Julian Assange stóð fyrir því að ná í leynilegar upplýsingar m.a. um framgöngu Bandaríkjanna í Íraksstríðinu auk ýmissa annarra hluta. Ekkert af þeim fréttum, sem að Wikileaks birti voru falsfréttir. Þær voru sannleikur um alvarleg mál, sem áttu erindi til fólks í lýðræðisríkjum.

Það er ansi langt seilst af Bandaríkjamönnum, að segja að fréttirnar sem birtust á Wikileaks fyrir tilstilli Assange hafi varðað þjóðaröryggi Bandaríkjanna, en vissulega voru þessar fréttir ekki fengnar með aljgörlega heiðarlegum hætti, þar sem ýmsir uppljóstrarar, sérstaklega einn voru til staðar, sem miðluðu upplýsingum til Wikileaks.

En Julian sagði satt. Hann bar sannleikanum vitni og náði í fréttir, sem skiptu stundum miklu máli. Það er dapurlegt,að Bandaríkin forusturíki vestrænna lýðræðisríkja skuli standa í því að elta þenanna ástralska ríkisborgara uppi í stað þess að viðurkenna mistökin sem áttu sér stað í Íraksstríðinu og Wikileaks birti upplýsingar um. Hvaða réttlæti er verið að þjóna? 

Sjálfsagt sama réttlæti og leiddi til þess að fremsti skákmaður Bandaríkjamanna, Bobby Fischer, var landflótta áratugum saman og átti það upp á náð íslenskra stjórnvalda, að fá að vera í friði fyrir snuðrurum Bandaríkjanna sem vildu draga Fischer fyrir dóm og refsa honum fyrir að hafa tekið þátt í taflmóti í gömlu Júgóslavíu.  

Vonandi fellur dómurinn í Bretlandi Assange í vil. Það væri sigur frjálsrar fjölmiðlunar.


Hve lengi enn ætlið þið að misbjóða þolinmæði vorri?

Stjórnskörungurinn og ræðusnillingurinn Cicero í Róm, um öld f.kr., hóf mikilvægustu ræðu sína á þessum orðum. "Hve lengi enn ætlar þú Catalína að misbjóða þolinmæði vorri." Með sama hætti mætti segja um ríkisstjórnina vegna kynningar á tillögum um minniháttar breytingar á útlendingalögum í dag:

"Hve lengi enn ætlar ríkisstjórnin að misbjóða þolinmæði vorri."  

Algjört öngþveiti ríkir á landamærunum  og kostnaður skattgreiðenda er kominn yfir þolmörk,vegna gríðarlegs aðstreymis hælisleitenda. Þegar svo háttar til ætti að gefa auga leið, að verkefnið er að ná stjórn á landamærunum.

Í dag var kynnt frv. ríkisstjórnarinnar til breytinga á útlendingalögum. Formenn stjórnarflokkana þriggja kynntu það og fagnaðarerindi ríkisstjórnarinnar af því tilefni. Fyrirfram töldu landsmenn boðskapurinn væri um að ná stjórn á landamærunum og gæta hagsmuna fólksins í landinu ekki síst skattgreiðenda og ríkissjóðs. 

Annað kom í ljós. 

Ríkisstjórnin boðar af gefnu tilefni þetta: 

"Aðgerðirn­ar byggj­ast á því að horft er á mála­flokk­inn út frá fjór­um meg­in­mark­miðum. „Í fyrsta lagi áherslu á hag­kvæm­ari og skil­virk­ari regl­ur og betri þjón­ustu. Í öðru lagi að stuðlað verði að jöfn­um tæki­fær­um og þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Í þriðja lagi betri nýt­ingu mannauðs. Í fjórða lagi betri sam­ræm­ingu og sam­hæf­ingu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni."

Hvar eru stjórnmálamenn eiginlega staddir sem fjalla um mál með svona brenglaðri sýn miðað við tilefnið af óendanlegum léttleika eigin tilveru. Hvað kemur þetta sjórn á landamærunum við? 

Þegar breytingatillögur stjórnarfrumvarpsins um útlendinga eru skoðaðar,kemur í ljós að þar eru ákvæði, sem miða að aukinni skilvirkni á nokkrum sviðum, en kemur ekki í veg fyrir hinn stríða straum hælisleitenda með einum eða neinum hætti og hafi það átt að vera tilgangurinn að við næðum stjórn á landamærunum og eyddum minna fé í þessa algjöru dellu sem svonefnt "verndarkerfi hælisleitenda" byggir á, þá hefur frumvarpið ekkert með það að gera og er því miður bara nýtt kák sem þjónar ekki neinum þeim megintilgangi sem ætlast er til og síaukinn fjöldi landsmanna gerir kröfu til. 

Því miður eru þetta sár vonbrigði og alvarlegt fyrir framtíðarheill lands og þjóðar.  

 


Hvenær skiptir maður um stefnu?

"Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó." sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Halldórs Laxnes.

Svo virðist sem álíka skörp hugmyndafræðileg barátta sé komin upp innan Samfylkingarinnar, þar sem spurningin snýst um það hvort að Kristrún Frostadóttir formaður hafi skipt um stefnu eða ekki í útlendingamálum þegar hún vísaði í Milton Friedman hagfræðing sem sagði að velferðarkerfinu yrði ekki haldið uppi ef við hefðum opin landamæri.

Milton Friedman benti á þetta fyrir rúmlega hálfri öld, að opin landamæri væru í sjálfu sér ekkert vandamál ef við mundum afnema velferðarkerfið, en annars gengi það ekki. 

Kristrún er ekki að segja neitt annað en það sem engilsaxnesku mælandi fólk kallar "common sense" Ýmsir innan Samfylkingarinnar brugðust því hart við og sögðu að þetta væri svik við stefnu flokksins og sennilega er það rétt hjá þeim, að ekki fer saman "common sense" og stefna Samfylkingarinnar. 

Nú hamast fyrrverandi forustumenn Samfylkingarinnar eins og Össur og Ingibjörg við að segja að Kristrún hafi í raun ekki sagt neitt nýtt þó hún hafi vikið af almennri umræðu Samfylkingarfólks og farið að tala af skynsemi. 

Þær fréttir berast frá Egyptalandi að þarlendir séu að byggja múr á landamærum Gaza og Egyptalands. Utanríkisráðherra þeirra segir, þrátt fyrir að allir sjái múrinn að það sé ekki verið að byggja múrinn. Af sömu skynsemi mælir forustufólk Samfylkingarinnar sem segir að engin stefnubreyting felist í orðum Kristrúnar þó það sé jafn augljóst að svo er eins og múrinn sem Egyptar eru að byggja.

Já og hvenær byggir maður múr og hvenær byggir maður ekki múr. Fjandinn ef Egyptar eru bað byggja múr eða Kristrún að skipta um stefnu í málefnum hælisleitenda. Fari í helvíti, Kristrún er ekki að skipta um stefnu. Og þó.

 

 


Það sem verður að gera

Stöðugt hefur verið krafist vopnahlés í stríðinu á Gasa. Eina vopnahléð sem gert hefur verið fór út um þúfur vegna þess að Hamas virti ekki vopnahléið. Hamas var vel undirbúið átökum við varnarsveitir Ísrael og þessvegna hafa stríðsátök dregist á langinn.

Stríð í þéttbýli leiðir af sér gríðarlegar hörmungar fyrir óbreytta borgara. Brýnasta skylda alþjóðasamfélagsins er þá að ?finna leiðir til að koma óbreyttum borgurum í var. 

Af hverju þrýstir alþjóðasamfélagið ekki á Egypta að opna landamærin strax fyrir börnum, konum og eldri borgurum og síðar fleirum og koma upp tímabundnum flóttamannabúðum Egyptalandsmeginn við landamærin. Af hverju var það ekki gert strax?

Gera verður þá kröfu til Bandaríkjanna,Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Arabaríkjanna, að þegar í stað verði slíkum flóttamannabúðum komið upp til að vernda óbreytta borgara. 

 

 


Af hverju eru Arabaríkin stikkfrí?

Utanríkisráðherra sagði í gærkvöldi að hann ætlaði bregðast við kröfum ofbeldisaðilanna á Austurvelli. Kom á óvart miðað við fyrri ummæli og fordæmi. Ekki er þetta til að auka á trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki.

Skrýtið að engin skuli spyrja, hvers vegna Egyptaland skuli nánast ekki gera neitt meðan stríð varnarsveita Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas geisar og bjóða íbúum Gasa að koma tímabundið meðan átökin geysa. Slíkt mundi draga verulega úr mannfalli óbreyttra borgara. 

Þetta dettur Egyptum ekki í hug þó þeir eigi landamæri að Gasa og Gasa hafi áður verið hluti af Egyptalandi. Af hverju hamast framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Guteres, ekki að Egyptum, Írönum og Saudi Aröbum og krefst þess að þeir sinni mannúð og taki við flóttamönnum frá Gasa meðan stríðið geisar. Af hverju hefur Evrópusambandið ekkert um þetta mál að segja?

Í flóttamannasamþykkt SÞ er gert ráð fyrir að flóttamenn séu sem næst heimaslóð þannig að þeir geti auðveldlega flutt til baka þegar styrjöld lýkur. Ursula von der Leyen sem hefur meira að segja skoðun á því hvort blaðamaður má tala við Putin eða ekki hefur enga skoðun á þessu og engin á vegum ES gerir kröfu um að nágrannaríki Gasa hjálpi. Flóaríkin taka ekki við öðrum frá Gasa en æðstu stjórendum þar sem þeir lifa í vellystingum á bestu lúxushótelum og eyða mannúðaraðstoð Vesturlanda sem fólkinu á Gasa var ætlað. 

Bjarni Benediktsson hefði átt að benda á þessi sjónarmið og gera kröfu um að nágrannaríki Gasa tækju til hendinni og lofað stuðningi til þess í stað þess að setja það vafasama fordæmi að flytja hátt í 200 manns frá Gasa til Íslands, þegar hægt hefði verið að hjálpa a.m.k. 20.000 manns á heimaslóð fyrir það sem það kostar og gera það sem Egyptum, Saudi Aröbum og Írönum ber að gera langt umfram okkur. 

Af hverju dettur engum í hug að einhver mannúðarskylda hvíli á Arabaríkjunum og Íran, en hún sé öll hjá ríkjum Evrópu og þó sérstaklega fámenna Íslandi og íslensk stjórnvöld skuli láta þessa vitleysu yfir sig ganga? 

 


Það sem ekki má.

Það er vandratað, þegar stjórnmálafólk í lýðræðisríkjum vill stjórna því við hverja fréttamenn ræða og hverja ekki.

Bandaríski fréttamaðurinn Tucker Carlson átti viðtal við Putin, Rússlandsforseta, sem yfir 200 milljón manns hafa séð. Ekki voru allir sáttir við þetta framtak Tucker Carlson þ.á.m. talsmaður Evrópusambandsins (ES) og fjöldi annarra. Því var jafnvel hótað að Tucker Carlson fengi ekki að koma til Evrópu vegna þessa framtaks síns. 

Dálkahöfundurinn Gideon Rachman sem skrifar í helgarútgáfu Financial Times (FT) kallar Carlson nytsama sakleysingja fyrir framtak sitt, en það heiti er sagt að Lenin hafi notað yfir þá, sem mærðu Sovétið  á sínum tíma, en þeir voru allmargir og lýðræðið í Evrópu á þeim tíma og allt fram undir 1990 gerði ekki aðrar athugasemdir við þá kjána aðrar en málefnalegar.

Hótarnir um að beita fjölmiðlamann viðurlögum fyrir það eitt að sækja efni sem á erindi til almennings í lýðræðisríki er alvarlegt mál eins og mátti heyra á talskonu ES. Fréttafólki á að vera frjálst við hverja þeir ræða og dreifa á markaðstorgi hugmynanna. Það eru grundvallarmannréttindi. En vissulega á að gagnrýna þá málefnalega eftir því sem tilefni gefst til.

Sé það svo, að almenningur í vestrænum lýðræðisríkjum geti ekki þolað að hlusta á viðtal við Putin og leggja hans rök og sjónarmið á vogarskálina ásamt öðrum rökum og sjónarmiðum sem boðið er upp á í lýðræðisríki, þá er illa komið fyrir fólki og alvarlegt að stjórnmálaelítan skuli telja að almenningur í lýðræðisríkjum sé ekki bær um að dæma um menn og málefni. 

Fyrir og um síðustu aldamót 2000 var ítölsk blaðakona sem hét Oriana Fallaci og þótti vera vaskasti blaðamaður síns tíma m.a. fyrir að ná viðtölum við leiðtoga hryðjuverkasamtaka og þursaríkja. 

Oriana Fallaci átti m.a. viðtal við Arafat, leiðtoga PLO, á þeim tíma sem PLO þjálfaði þýsku hryðjuverkasamtökin Baader-Meinhof og Khomeini erkiklerk í Íran um svipað leyti og hann gaf út fatwah eða dauðadóm yfir skáldinu Salman Rushdie og sótti hart að minnihlutahópum í Íran.

Þetta framtak Oriana, þótti hið merkasta og Oriana Fallaci fór efst á virðingarlista blaðamanna fyrir að ná viðtölum við ofangreinda einræðisherra auk margra annarra þeirra líka, sem og óumdeildan mannvin (nema í Peking)Dalai Lama. 

Hvað hefur breyst. Af hverju þykir það afbrot hjá Carlson,sem þótti stjörnublaðamennska hjá Fallaci. Af hverju má sannleikurinn og eftir atvikum lyginn hjá viðmælendum fjölmiðlamanna ekki fá að koma fram. Af hverju á að banna fólki að fá að dæma sjálft um skoðanir og framsetningu erlendra stjórnmálamanna?  

Aðilar og samtök sem þola ekki frjálsa hugsun og tjáningarfrelsi eiga ekki heima í lýðræðisríkjum. 


Þú átt að borga

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið um kostnað vegna hælisleitenda: 

„Það er ekki hægt að segja að það séu höml­ur á þessu þegar þetta eykst svona stjarn­fræðilega á til­tölu­lega stutt­um tíma. Þetta er komið í svo gíg­an­tísk­ar töl­ur að við erum bara ekki sam­fé­lag sem get­ur staðið und­ir þessu,“

Þegar beinn kostnaður við hælisleitendur er kominn yfir 20 milljarða og annað eins og jafnvel meira þarf varðandi þá sem þegar eru komnir þá gefur það auga leið,að þessi kostnaður skerðir lífskjör og velferð fólksins í landinu. 

Það er gott að hafa það í huga þegar virtar eru kröfur þeirra sem öskra á Austurvelli nú síðast barna úr Hagaskóla, sem gátu aðspurð vart komið heilli hugsun óbrenglaðri frá sér.

Raunar virðist það vera svo, að veruleg hugsanabrenglun ekki síst hjá fréttafólki, á sér stað varðandi þær kröfur sem óeirðarfólkið á Austurvelli hefur uppi. 

Kröfurnar eru að íslenskir skattgreiðendur sendi og greiði fyrir rannsóknarteymi til að finna það fólk sem hefur fengið vilyrði fyrir fjölskyldusameiningu og borgi síðan fyrir það ferðina til Íslands. 

Þegar samþykkt var illu heilli að taka við hópi fólks á grundvelli svokallaðrar fjölskyldusameiningar, þá fól það í sér rétt fyrir viðkomandi til að koma til Íslands, en lagði engar skyldur á hendur stjórnvöldum. Múhameð Ali Baba bin Salman á ekki rétt á því að íslenskir skattgreiðendur greiði fyrir að finna konuna hans og flytja hana til Íslands af því að fallist var á beiðni hans um svokallaða fjölskyldusameiningu. 

Við höfum ekki frekari skyldur við það fólk sem samþykkt hefur verið að megi koma hingað en fólkið sem líður sára neyð í Darfur í Súdan eða kristið fólk vegna ofsókna Múslima í Nígeríu og þannig gætum við farið vítt og breytt um heiminn varðandi fólk sem á bágt og væri gott að geta hjálpað. 

Óeirðarliðið er að krefjast þess að fá að vera á beit í buddunni þinni og þú átt kröfu á því að íslenskir stjórnmálamenn standi í lappirnar og hafni því og standi með eigin þjóð gegn algerlega óeðlilegri og ósiðlegri kröfugerð. 

Samt er það svo, að þó þessi kröfugerð sé frekja og umfram velsæmi og allt sem eðlilegt er, þá kikna bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra í hnjáliðunum og gefa óeirðarliðinu undir fótinn með að verið sé að vinna í einhverju sem kemur skattgreiðendum ekki við.

Síðan þarf utanríkisráðherra að sæta því að Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, sem þó er komin frá góðu heimili, öskri á hann og fnæsi fyrir það eitt, að hann er ekki reiðubúinn að yfirlýsa að farið verði að kröfum óeirðarliðsins við Austurvöll og skattgreiðendur látnir borga fyrir það sem óeirðarliðið og aðstandendur þeirra sem heimilað var að koma illu heilli greiði sjálft. 

Af hverju geta ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki bent á það einfalda sem Guðrún Hafsteinsdóttir bendir á: "við erum samfélag sem getur ekki staðið undir þessu."

Það er mergurinn málsins og það er það sem á að segja við óeirðarliðið á Austurvelli sem og ofstopakvendi eins og Jóhönnu Vigdísi, sem fara fram með hreinum dónaskap og frekju gagnvart ráðamönnum með óeðlilegar kröfur á hendur skattgreiðendum.

 


Ofurjarðskjálfti pólitískrar heimsku

Dálkahöfundurinn Ambrose Evans Pritschard hjá DT, segir um aðgerðir Evrópusambandsins(ES) í landbúnaði, að á Richter skala þá sé erfitt að finna nokkuð í líkingu við þá pólitísku heimsku, sem reglur ES í landbúnaði feli í sér.

Bændur í Frakklandi mótæla stefnu ES og sama gera bændur í Belgíu og Spænskir bændur eru taldir líklegir til að fylgja í fótspor þeirra. 

Hækkun á gjöldum á díselolíu til bænda var neistinn sem kveikti bálið að þessu sinni. Einn talsmaður franskra bænda sagði að vandamálin hafi verið valin og skipulögð af ES andstætt almennri skynsemi (common sense)og gegn hagsmunum bænda. Öllum varnaðarorðum hafi verið ýtt til hliðar.

Tekjur bænda í Frakklandi hafa dregist mikið saman og fyrirskipanir ES um að draga úr notkun á skordýraeitri um 50% og tilbúnum áburði um 20% og breyta framleiðslunni þannig að 25% séu lífræn í nafni grænna gilda er framtíð, sem að franskir bændur sjá að þeir geta ekki ráðið við. Með þessu regluverki eru völdin tekin frá þjóðríkjum og ráðstjórnin í Brussel tekur öll völd í sínar hendur. 

Ráðstjórnin í Brussel hefur að þessu sinni gengið allt of langt. Bændur í Hollandi buðu fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og náðu að verða stærsti stjórnmálaflokkur Hollands vegna andstöðu sinnar við fyrirskipanir frá Brussel. Hollenskur landbúnaður er einn sá besti í heimi, en það átti að endurtaka mistökin frá Sri Lanka og banna þeim að nota tilbúin áburð og loka 11.200 bændabýlum (þvingunarráðstöfun)og gera 17.600 bændum til viðbótar að draga úr framleiðslu um þriðjung. Allir sáu að þetta gat aldrei gengið upp - Nema ráðstjórnin í Brussel. Nú tala menn um Nexit í vegna þess hve þeim fjölgar hratt í Hollandi,sem vilja segja sig úr ES.

Í lok greinar sinnar segir Pritschart að best sé að láta kosin þjóðþing og ríkisstjórnir sjá um þessa hluti í stað teknókratana í ES, sem séu einangraðir frá almennri skynsemi og pólitískri ábyrgð, en það sé ekki hægt að víkja þeim frá og það sé mjög erfitt að breyta lagabálkum upp á 180 þúsund blaðsíður. Þessvegna geti stofnunin (ES) haldið áfram rangri stefnu í langan tíma áður en það springur. 

Það er dapurlegt að horfa upp á þessa einræðistilburði ólýðræðislegrar yfirstjórnar ES og þennan skynsemisskort, sem veldur því að Evrópa er stöðugt að dragast aftur úr öðrum. 

Hvaða erindi á Ísland í þennan klúbb ráðstjórnar og einræði, þar sem allt gengur út á að draga úr fullveldi aðildarríkjanna og að sama skapi draga valdið til Brussel á öllum sviðum.

Við þessar aðstæður er dapurlegt að íslenskir stjórnmálamenn telji það helst mega verða til varnar sínum sóma að lögfesta reglur varðandi bókun 35, sem veitir regluverki ES forgang umfram lög samþykkt á Alþingi. 

 


Hvað kemur okkur við?

Áratugum saman hefur þursaveldið Íran, ástundað þjóðarmorð á minnihlutahópum í landinu m.a. trúarbragðahópa, þar sem Bahaiar hafa heldur betur fengið fyrir ferðina, en Gyðingar og kristnir eru flúnir eftir ítrekaðar ofsóknir. 

Klerkastjórn þursaveldisins lætur sér ekki nægja að myrða fólk vegna þess að það hefur aðrar trúarskoðanir en Múhammeðstrú, baráttan gegn mannréttindum snýr líka að eigin borgurum. 

Fyrir rúmu ári var kona um tvítugt handtekin og misþyrmt svo hroðalega, að hún dó. Sök hennar var að hylja ekki hár sitt á almannafæri. Í kjölfar þess brutust út víðtæk mótmæli gegn þursunum sem stjóra Íran, en Siðgæðislögreglan og herinn brugðust við af hörku og hundeltu og drápu unga fólkið sem stóð fyrir mótmælunum. 

Þúsundir á þúsundir ungs fólks var drepið fyrir það eitt að velja frelsið en hafna helsinu. Þessi mótmæli stóðu mánuðum saman fyrir tæpum tveim árum síðan. Af tilviljun var ég staddur í London þegar landflótta Íranir stóðu fyrir mótmælagöngu og sá þá betur þann hrylling sem um er að ræða. Klerkastjórnin hikar ekki við að drepa börn allt niður í 12 ára fyrir það eitt að samsama sig ekki að öllu leyti með því sem þeim er skipað af siðgæðislögreglunni. 

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju RÚV sá ekki ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á aðferðum þessa villimannaríkis, sem voru í stríði við eigin borgara og engin ekki einu sinni svonefnd kvennréttindafélög sáu ástæðu til að mótmæla eða aðrir sem að venju lýsa skoðun sinni með þeim hætti. 

Það var engin mótmælaganga í Reykjavík vegna barnamorðana í Íran. Þar sem um morð á eigin þegnum er að ræða. 

Það skýtur nokkuð skökku við, að engin skuli sjá ástæðu til að mótmæla morðum án dóms og laga í Íran eða hvetja til refsiaðgerða m.a. að fólk kaupi ekki íranskar vörur, á sama tíma og sjálfskipaðir handhafar réttlætisins láta ekki af því að mótmæla varnarviðbrögðum Ísrael eftir hræðilegustu hermdarverkaárás, sem unnin hefur verið í núinu, þannig að það tekur jafnvel út yfir það sem Ísis gerði. 

Samanburður á viðbrögðum við morðin í Íran á eigin borgurum og mannfalli í hernaði í Ísrael er sláandi svo ekki sé meira sagt. 


Lausatökin eru víða

Í Kastljósi í gærkveldi, þar sem Birgir Þórarinsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fór á kostum, kom fram að Ísland sendir marga og mikla styrki eftirlitslaust í meinta mannúðar aðstoð á Gasa svæðinu. 

Tvo milljarða hafa stjórnmálamenn tekið af íslenskum  skattgreiðendum til að greiða til einhverra móttakenda á Gasa. Þessa peninga greiðum við væntanlega Hamas og e.t.v. Al Fatah og þurfum að taka þá að láni. Að Ísland skuli greiða mest allra miðað við fólksfjölda í þessa  meintu mannúðaraðstoð, sýnir bruðl og óráðssíu stjórnmálastéttarinnar, sem verður að stöðva.

Íran hefur sent gríðarlega fjármuni til Hamas samtakanna undanfarinn ár í því skyni, að þeir drepi sem flesta Ísraelsmenn. Íranir viðurkenna sjálfir að greiða um 17 milljarða íslenskra króna á ári í þessu skyni. Sumir halda því fram, að stuðningur Íran við Hamas sé líklega nær 170 milljörðum. 

Íran lagði á ráðin með Hamas um hryðjuverkin í Ísrael 7. október og fjármagnar Hamas, Hissbollah, Houti sem og ýmsar aðrar hryðjuverkasveitir sem hafa það meginmarkmið að strika Ísrael út af landakortinu og drepa alla Gyðinga. Er ekki rétt að þeir takist á herðar afleiðinga gerða sinna og taki við hælisleitendum frá Gasa og sinni nauðsynlegri mannúðaraðstoð. 

Stóra spurningin er samt af hverju er Ísland að greiða mest allra hlutfallslega. Já meira en vellríku ólíuríkin í Arabíu.

Hver ber eiginlega ábyrgð á þessu? 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 120
  • Sl. sólarhring: 353
  • Sl. viku: 3061
  • Frá upphafi: 2294680

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 2790
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband