Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Hlýnun í Norðurhöfum- Hvaða hlýnun?

Í dag tóku nokkrir íslenskir vísindamenn bakföll yfir hlýnun hafsins á Norðurslóðum og fræddu okkur um þá miklu vá sem okkur stafar af hlýnun af mannavöldum.

Árið 2016 var mælt sem heitasta árið frá því að mælingar hófust og í fyrravetur var okkur sagt að ísinn í norðurhöfum væri minni en nokkru sinni fyrr og BBC fréttastofan sagði að vegna þess að ísinn í Norðurhöfum væri að hverfa hefði orðið versta loftmengun í Peking höfuðborg Kína.

Í upphafi maí mánaðar á þessu ári kom annað í ljós. Danska veðurfræðistofnunin upplýsti að frá því í desember s.l.hafi hitinn í Norðurhöfum verið mínus 20 gráður og ísinn jafn þykkur og fyrir 13 árum. Íshella Grænlandi óx hraðar að ummáli en gerst hefur í mörg undanfarin ár. Þessar staðreyndir virðast alveg hafa farið framhjá hinu íslenska vísindateymi hlýindafólks.

Árið 2016 var heitasta árið vegna þess að veðurfyrirbrigðið El Nino var sérstaklega sterkt en gervitunglamælingar sýna nú að hitinn hefur lækkað verulega alveg eins og gerðist fyrir 17 árum síðan eftir álíka sterkan El Nino árið 1998 sem þá var heitasta árið sem mælst hafði og álíka heitt og árið 2016.

Þetta þýðir að hitastig jarðar hefur ekki hækkað neitt í 19 ár. En vísindamennirnir sem belgja sig út í fjölmiðlum og krefjast meiri peninga frá skattgreiðendum vegna þeirrar hættu sem steðji að okkur segja ekki frá þessu og fjölmiðlamennirnir gleypa frekar við helvítis- og ógnarspám en raunveruleikanum og forðast að kynna sér málið til hlítar.

(Heimildir: Daily Telegraph- frétt 7.5.2017 "Another Arctic ice panic over as world temperatures plummet:Daily Telegraph reporters;

Paul Homewood blogg: Notalotofpeopleknowthat.)

 

 

 


Vanhæfni og vanþekking

Stjórnarbylting var gerð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þegar meirihluti nefndarmanna ákvað að formaður nefndarinnar Brynjar Níelsson væri vanhæfur til nefndarformennsku í ákveðnu máli vegna þess að hann var verjandi manns við lögreglurannsókn áður en hann settist á þing.

Fulltrúi Viðreisnar í nefndinni gekk í lið með stjórnarandstöðunni og dæmdi formanninn úr leik. Þetta gerði hann eftir að þingmaður VG hafði gelt í fjölmiðlum.

Formaður nefndarinnar er í tímabundnu leyfi frá störfum og átti þess ekki kost eftir því sem mér skilst að gera grein fyrir máli sínu og taka sjálfur ákvörðun um hæfi sitt eða vanhæfi.

Vinnubrögð af þessu tagi eru vægast sagt fráleit og nefndarmaður Viðreisnar sem gekk til liðs við stjórnaranstöðuna  hefur með afstöðu sinni rofið grið á milli stjórnarflokkana og gert það að verkum að formaður nefndarinnar á fáa kosti aðra en að segja af sér.

Óneitanlega kemur það á óvart hvað lítið þingmenn vita eða skilja hlutverk verjanda í sakamáli. Verjandi í sakamáli er skipaður af hinu opinbera og hann samsamar sig ekki með skjólstæðingi sínum og þarf ekki að hafa samúð með honum eða gjörðum hans nema síður sé. Hlutverk verjandans er að færa fram þá bestu vörn fyrir skjólstæðing sinn sem hann hefur framast vit og þekkingu til. Annað hlutverk hefur hann ekki. 

Afstaða meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við að lýsa vantrausti á formann sinn í því máli sem nefndin er nú með til umfjöllunar lýsir því fordæmanlegri vanþekkingu og vanhæfni þeirra sem skipa hinn nýja meirihluta nefndarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki verið í  stjórnarsamstarfi þar sem liðhlaupar úr Viðreisn hlaupa út undan sér eins og klálfar á vordegi við minnsta goluþyt.   


Maður ársins

Björgunvarsveitirnar voru valdar maður ársins á RÚV. En Björgunarsveitirnar eru ekki maður. Maður ársins er einstaklingur ekki samtök óháð því hversu frábær svo sem þau kunna að vera.

Maður ársins hér innanlands er tvímælalaust Guðni Th. Jóhannesson forseti lýðveldisins, sem kom upp úr engu og var kosinn forseti. En það var engin í kosningabaráttu fyrir hann um titilinn maður ársins enda maðurinn nýkjörinn forseti.

Þegar RÚV setur upp kosningu um mann ársins er eðlilegt að einhverjir hugsi gott til glóðarinnar og fari í hreinræktaða kosningabaráttu eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og nokkrir stjórnmálaleiðtogar aðrir en áttu ekki erindi sem erfiði. Óneitanlega hlítur það að vera nöturlegt fyrir Sigmund Davíð eftir allt erfiðið að Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem upplýsti um Panamareikninga tengsl Sigmundar, skuli hafa skákað honum niður um sæti

Kosning sem þessi er að vonum ómarkviss og til viðbótar kemur að RÚV heimilar tilnefningu félagssamtaka og björgunarsveita, sem öll eru góðra gjalda verð. En það er önnur kosning um annað svipað og þegar Time magasine valdi borðtölvuna mann ársins á sínum tíma.

Björgunarsveitirnar eiga sértakan heiður skilinn fyrir afrek sín á árinu. Karlalandsliðið í knattspyrnu á líka heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu á árinu og þannig má áfram telja og e.t.v. væri markvissara að kjósa afreksfólk og samtök ársins flokkað niður.  

Allt er þetta þó meira til gamans, en að það hafi heimssögulega þýðingu. Ekki dregur það úr skemmtanagildinu að sporgöngufólk Sigmundar Davíðs og Birgittu Jónsdóttur skuli leggjast í víking til að styðja sinn frambjóðanda án annars takmarks eða tilgangs.


Stjórnarmyndun í ljósi skoðanakannana

Undanfarið hafa Píratar séð fylgið minnka með hverri nýrri skoðanakönnun sem birtist. Þess vegna spiluðu þeir út þeirri hugmynd að vinstri flokkarnir mynduðu ríkisstjórn í samræmi við skoðanakannanir.

Forustumenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sáu við þessum ruglanda og þökkuðu pent fyrir sig. Katrín Jakobsdóttir sem á erfitt með að taka afstöðu í nokkru máli setti tilboðið í "ferli" en Samfylkingin sem er við dauðans dyr sá kærkomið tækifæri til að leika á sömu pópúlísku pípuna og Píratar.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti áhuga á stjórnarsamvinnu Pírata og annarra vinstri flokka og rykið var dustað af Ólafi Harðarsyni stjórnmálafræðingi sem lýsti þessari auglýsingu sem merkilegustu uppákomu í íslenskum stjórnmálum í tugi ára. Enn meira ryk var síðan dustað og uppmunstraður Jón Baldvin Hannibalsson sem á sínum tíma stóð að stofnun Samfylkingarinna og hann vitnaði um þá  pólitíska blessun sem fælist í tilboði Pírata í sama anda og Steinn Steinar orti á sinni tíð um Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hjálpræðishernum.

Meira þurfti til að koma í þeirri viðleitni að fá einhverja til að glepjast. Fréttadeild Samfylkingarinnar á RÚV lagði sitt að mörkum og þriðjungur kvöldfréttatímans á sunnudagskvöldi fór í að fjalla um þetta "merka pópúlíska útspil" Pírata og kallaðir til meintir sérfræðingar til að slá þá hörpustrengi sem hentuðu Samfylkingunni.

Það er nú einu sinni þannig að það eru kosningar en ekki skoðanakannanir sem telja. Stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana er hvað svo sem þeir heiðursmenn og eðalkratar Jón Baldvin og Ólafur Harðarson segja lítilfjölegt útspil málefnasnauðs flokks til að vekja á sér athygli og viðbrögð Samfylkingarinnar eru dæmigerð viðbrögð annars málefnasnauðs flokks.

Vert er að óska forustufólki Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar til hamingju með að hafa ekki fallið í Píratapyttinn, en þeir Jón Baldvin og Ólafur Harðarson geta kyrjað úr ofangreindu kvæði Steins Steinar:

"Það fékk á vor fátæku hjörtu

og færði oss huggun í sál

að hlusta á þitt Halelúja

og hugljúfa bænamál.

Halelúja Birgittu Jónsdóttir varð í umfjöllun þessara herramanna sem æðri opinberun og mikið yrði nú landinn sæll að fá Steingrím J. aftur sem ráðherra svo ekki sé talð um væri rykið dustað af fleirum krataforingjum eins og t.d. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvílík snilld yrði það nú í stjórnarmyndun að fá það dáindisfólk eða lærisveina þess aftur að stjórn landsins. Tær snilld eins og bankastjórinn orðaði Iceseifið forðum.


Flokkurinn sem er tímaskekkja.

Stjórnmálaflokkurinn Samfylkingin var stofnuð til að sameina vinstra fólk í einum stjórnmálaflokki. Stefnuskráin tók mið af þessu og var vinstri moðsuða um aukningu skattheimtu og ríkisútgjalda. Auk þessa beitti Samfylkingin sér fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hvað sem tautaði eða raulaði

Sameining vinstra fólks mistókst og nú bjóða flokkar vinstri fólks upp á a.m.k. 5 framboð.

Öllum á óvörum komu Píratar út úr skápnum og buðu upp á stjórnarmyndun vinstra fólks, sem þeir skilgreina alla aðra en þá sem styðja Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Tilurð og áframhald Samfylkingarinnar byggir því ekki lengur á sameiningu vinstra fólks í einn flokk. Viðreisn hefur tekið við keflinu fyrir Evrópusambandsaðild, hvað sem tautar eða raular.

Samfylkingin er tímaskekkja eða anakrónismi. Forsendur og tilurð flokksins byggist ekki lengur á hugsjóninni um sameiningu vinstra fólks og Viðreisn hefur tekið við Evópusambandskeflinu þó þeir laumupúkist með það.

Forustufólk Samfylkingarinnar að Össuri Skarphéðinssyni einum undanskildum áttar sig ekki á þessari staðreynd. Kjósendur gera það hins vegar eins og nýlegar fylgistölur sína.


The lowly Iceland

Gremja Englendinga brýst fram með ýmsum hætti vegna þess að landsliðið þeirra tapaði fyrir Íslandi. Í grein í Daily Telegraph í dag er talað um að þeir hefðu tapaði fyrir "the lowly Iceland" þ.e. tapað fyrir þessu ómerkilega Íslandi. Annarsstaðar í blaðinu er liðinu hins vegar hrósað fyrir einbeitni og góðan fótbolta.

Seinna í dag keppir Íslenska landsliðið við það franska á þjóðarleikvangi Frakka í París. Leikvangurinn rúmar meir en 80 þúsund manns eða eins og einn af hverjum fjórum Íslendingum. Þannig kæmust rúmlega 25% íslensku þjóðarinnar á þennan völl.

Þessi stærðarhlutföll og sú staðreynd að við erum ítrekað að keppa við milljónaþjóðir og höfum haft betur fram að þessu sýnir hversu frábær árangur íslenska landsliðsins er.

Það þarf margt að ganga vel og fótboltinn er nú einu sinni þannig að það þarf góða og sterka liðsheild ásamt heppni til að vinna leiki þegar keppt er við álíka góð eða betri lið. Við höfum aldrei átt jafn sterkt og heilstætt landslið þar sem valinn maður er í hverju rúmi og við getum valið um frábæra varamenn til að fylla þeirra skörð ef nauðsyn ber til.

Synir mínir ákváðu að skella sér til Parísar til að styðja okkar menn og buðu mér að koma með, en ég sagðist frekar vilja slá tvær flugur í einu höggi og sjá undanúrslitaleik Íslands við Þýskaland og síðan úrslitaleikinn. Ég vona að mér verði að ósk minni og Ísland vinni Frakkland seinna í dag.

Þegar sú stund nálgast að strákarnir okkar fari að spila á þjóðarleikvangi Frakka í París mun ég fara í svitastorkinn íþróttabúninginn minn, en ég hef ekki viljað þvo hann síðan við byrjuðum að vinna af eintómri þjóðlegri hjátrú, en ég er eins og margir aðrir sem halda að þeir eigi besta leik allra á hliðarlínunni og það sé undir þeim komið hvernig leikurinn fer.

Hvernig svo sem gengur í dag þá erum við samt með langbesta landslið í heimi miðað við fólksfjölda.


Lífið er fótbolti

Ég hef ekki þorað að þvo landsliðsbúninginn minn frá því að EM byrjaði af ótta við að það muni breyta öllu til hins verra fyrir landsliðið. Það skiptir vissulega máli hvernig við á hliðarlínunni og/eða sjónvarpið undirbúum okkur fyrir leikinn. Ef svo heldur fram sem ég vona að íslenska landsliðið spili til úrslita á EM má búast við því að þeir sem næst mér standa þoli illa við í návist óþvegins landsliðsbúnings sem tekið hefur í sig og á öll geðhrif og spenning, gleði og sorg en þó aðallega gleði frá því að mótið byrjaði.

Landsliðsþjálfarinn sagði að úrslitin í leiknum í dag mörkuðu tímamót og mundi breyta einhverjum hlutum í ensku og íslensku þjóðfélagi til frambúðar. Ekki veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að það hefði góð áhrif fyrir þjóðernistaugina ef við mundum vinna Breta. Jafnvel stagneraðir alþjóðahyggjukratar og kommar mundu þá ekki komast hjá því að viðurkenna að í þeim blundaði þjóðernissinni.

Hvað sem þessu öllu líður þá stöndum við með okkar mönnum hvernig sem fer og gleymum því ekki að þeir eru alltaf strákarnir okkar sem eru að gera sitt besta og þeir hafa verið og eru landi og þjóð til sóma. Þetta er besta knattspyrnulandslið sem við höfum nokkru sinni átt og vonandi tekst þeim það illmögulega í kvöld. Að vinna Breta.

Áfram Ísland.


Eldshúsdagsumræður

Hefðbundin almenn stjórnmálaumræða verður í kvöld. Aldrei þessu vant ætla ég að fylgjast með umræðunni. Ástæðan er sú að ég fylgdist með umræðu sænskra stjórnmálaforingja í gær.

Í þau, skal viðurkennt, fáu skipti sem ég hef fylgst með umræðum frá Alþingi undanfarið hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Oft á tíðum er farið fram af mikilli vanþekkingu. Ofar en ekki er farið í ræðustól án takmarks eða tilgangs í því skyni einu að sóa þeim tíma sem Alþingi hefur til umfjöllunar um mál.

Kvennablómi Samfylkingarinnar sker sig úr. Oftar en ekki verða lítil börn hrædd þegar þær fraukur birtast á skjánum með orðskrúði, látbragði og svigurmælum sínum.  Það þarf í sjálfu sér ekki að leita langt til að átta sig á hvað veldur fylgistapi Samfylkingarinnar. 

Umræða formanna sænsku flokkana í sænska sjónvarpinu í gær var þeim til sóma nema e.t.v. helst forsætisráðherranum, sem á stundum líktist kvennablóma systurflokksins síns hér á landi þó að yfirbragð hans og látæði væri allt miklu mildara og geðfelldara. Þar var fjallað um málefni og stefnu. Formennirnir veltu fyrir sér og skiptust á skoðunum um hvað væri skynsamlegast að gera og hvernig bæri að gera hlutina til að ná árangri í stjórn landsins.

Ég vona að stjórnmálaumræða á Íslandi standi fljótt jafnfætis því sem ég hlustaði á í gær í sænska sjónvarpinu og bíð spenntur eftir eldhúsdagsumræðunum að þessu sinni til að reyna að meta íslenska stjórnmálamenn í samanburði við sænska.


Hvenær er maður forsetaframbjóðandi

Fjölmiðlar geypa við hverjum þeim sem segist ætla að fara í framboð til forseta. Sennilega mun töluvert innan við helming þeirra sem segjast gefa kost á sér skila inn framboði. Eru þeir þá forsetaframbjóðendur af því að þeir segjast ætla í framboð án þess að gera það? 

Hingað til hafa ekki aðrir verið taldir í framboði til Alþingis en þeir sem hafa skilað inn kjörgögnum, listum og meðmælendum. Gildir annað í forsetakosningum.

Í frétt er þess getið að fyrrverandi forsetaframbjóðandi Bæring Óalfsson styðji Andra Snæ Magnússon. En var Bæring einhvern tímann í framboði til forseta. Skilaði hann inn meðmælendalistum eða öðrum gögnum. Nei það gerði hann ekki. Hann sagðist bara ætla að gefa kost á sér eins og svo margir aðrir en gerði það aldrei í raun. Hann var því aldrei forsetaframbjóðandi ekki frekar en stærsti hluti þeirra sem nú segjast gefa kost á sér.

Hefðu fjölmiðlar ekki jafn litla sjálfsvirðingu og raun ber vitni og legðu þeir upp úr að sinna vandaðri og málefnalegri fréttamennsku þá væri ekki sá farsi og rugl í kring um t.d. forsetaframboð og ýmsa aðra stjórnmálalega viðburði og fólk hefur horft á undanfarnar vikur. Þar skiptir máli að nefna hlutina réttum nöfnum og varast að kalla fólk frambjóðendur eingöngu vegna þess að þeir segjast vera það.

Frambjóðendur eru þeir sem eru í framboði og þeir eru ekki í framboði í lýðræðisríki fyrr en þeir hafa fullnægt ákvæðum kosningalaga um skil á nauðsynlegum kjörgögnum.


Skoðanakannanir og hvað má lesa úr þeim

Í skoðanakönnun Gallup sem birt var í fréttum RÚV í kvöld gleyma fréttamiðlarnir að geta um það sem er markverðast við skoðanakönnunina. Meirihluti aðspurðra svarar ekki eða tekur ekki afstöðu til flokks. Þannig eru það aðeins 47% aðspurðra sem lýsa stuðningi sínum við ákveðinn stjónrmálaflokk.

Fjöldi þeirra sem spurðir eru í könnununni sem segjast ætla að kjósa Pírata eru 13% og 3% segjast ætla að kjósa Framsókn. Fylgi við aðra flokka en þá sem á þingi sitja er nánast ekkert þó þar séu ýmsir í fleti fyrir eins og Viðreisn sem kemst þó á blað, Þjóðfylkingin og Dögun.

Þrátt fyrir að margir Sjálfstæðismenn hafi hoppað hæð sína vegna þess að fylgið við flokkinn var að hlutfalli miðað við þá sem aftöðu tóku um 27% en af þeim sem spurðir voru voru það einungis 12% sem lýstu yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn.

Skoðanakönnunin lýsir því aðallega vantrú fólks á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum. Ágætur vinur minn þingmaður, ráðherra og mikill áhugamaður um pólitík frá blautu barnsbeini  sem féll frá langt fyrir aldur fram sagði jafnan þegar skoðanakannanir eins og þessar birtust að þær sýndu að stjórnmálaflokkarnir gengju ekki í takt við þjóðina og það vantaði nýtt stjórnmálaafl. Hann brást raunar við slíku kalli, en taldi sig ekki hafa haft erindi sem erfiði þegar upp var staðið þó margir aðrir teldu að svo hefði verið.

Fróðlegt verður að sjá aðrar kannanir til að átta sig á hvort aukið hlutfall kjósenda telur sig eiga samleið með einhverjum stjórnmálaflokk eða hvort meiri hluti fólksins í landinu telur pólitíska eyðimerkurgöngu heppilegri en þá stjórnmálaflokka sem nú starfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 2416
  • Frá upphafi: 2298389

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2250
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband