Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Mótmæli gegn ímyndaðri aðför

Hópur fólks ætlar að efna til samstöðufundar gegn meintri aðför að RÚV kl. 17 síðdegis. En hvaða aðför er verið að tala um?  Þeir sem fyrir fundinum standa og stjórnarandstaðan heldur því fram að verið sé í skipulagri aðför að RÚV undir forustu ríkisstjórnarinnar. Aðförin að RÚV sem talað er um er þó ekki til staðar nema í hugarheimi stjórnaranstöðunnar og samtöðuaðilanna sem ætla að skunda á Austurvöll í dag og treysta sín heit við stofnunina.

Fyrir nokkru rétti menntamálaráðherra RÚV um hálfan milljarð til að mæta útgjöldum vegna viðvarandi tapreksturs RÚV og jafnframt til að fresta því óumflýjanlega. Varla getur gjafmildi menntamálaráðherra á kostnað skattgreiðenda talist vera í aðför að RÚV. Þetta er fyrst og fremst aðför gegn skattgreiðendum.

Lífskúnstnerinn og listamaðurinn Jakob Magnússon einn þeirra sem stendur fyrir samstöðufundi ímundunarveikra á Austurvelli síðar í dag segir þann tilgang vera helstan með fundinum

"að við fáum að borga okkar útvarpsgjald með atbeina ríkisins"

Það þýðir að samstaðan er um að ríkið taki útvarpsgjöld af öllum hvort heldur þeir vilja þjónustuna eða ekki. Fundur Jakobs og félaga er þá samstaða um skattheimtu þeirra sem ekki vilja þjónustu fjölmiðils. Síðar talar Jakob um að hann vilji fá að borga 2.000 krónur á ári í útvarpsgjald og virðist ekki gera sér grein fyrir að útvarpsgjaldið er nánast tíu sinnum hærri fjárhæð.

Ímundunin og vænisýkin getur ekki orðið öllu meiri en staðfest er í viðtali við Jakob Magnússon. Í fyrsta lagi á að halda samtsöðufund til að mótmæla aðför að RÚV, sem engin er. Þvert á móti liggur fyrir að stofununin fær aukafjárveitingu. Í annan stað þá er það ímyndun fundarboðenda að útvarpsgjaldið sé 2.000 krónur þegar það er tæplega tíu sinnum hærra.

Væri nú ekki í ráð að ná samtöðu um að útvarpsgjaldið verði árlega það sem boðendur samstöðufundarins á Austurvelli berjast fyrir að útvarpsgjaldið verði kr. 2.000. Mér finnst ástæða til að hvetja fólk til að mæta og krefjast þess með Jakobi að útvarpsgjaldið verði í samræmi við það sem hann talar um eða 2000 krónur á ári.

 


Er RÚV hemill á framsækna fjölmiðlun í landinu?

Samkvæmt reikningum 365 miðla helsta fjölmiðlafyrirtækis landsins fyrir utan RÚV, þá eiga 365 miðlar ekki fyrir skuldum og og vantar þar marga milljarða upp á.  En skuldir 365 miðla umfram eignir nema samt ekki meiru en því sem árlega er lagt til RÚV af skattgreiðendum.

Fjölmiðlar sem 365 reka hafa oft verið framsæknir og tekið upp nýungar þegar ríkisfjölmiðillinn svaf. Til upprifjunar má minna á að Stöð 2 varð fyrst til að taka upp almennilegt barnaefni m.a. á laugardagsmorgnum. Stöð 2 stundaði lengi metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð og áfram mætti telja. Í dag er Bylgjan ein besta útvarpsstöð landsins.

Meðan morgunútvarp RÚV ætlar alla lifandi að drepa úr leiðindum og með slappar fréttir, þá er Bylgjan með lifandi skemmtilegt og fræðandi morgunútvarp. Sama er að segja um síðdegisútvarp Bylgunar sem ber af þó þar sé minni munur en á morgnana. Sá þáttur á RÚV sem tekur eiginlega helst fram því sem Bylgjan hefur fram að færa er þáttur Andra Snæs og Guðrúnar Dís sem er með skemmtilegasta útvarpsefni RÚV.

RÚV hefur sérstöðu á markaðnum. Árlega greiða skattgreiðendur RÚV meir en 5 milljarða. Forskot RÚV á auglýsingamarkaði er líka gríðarlegt. Samt er RÚV skuldum vafinn fjölmiðill. Hvernig er hægt að reka einn fjölmiðil sem hefur þetta gríðarlega forskot svona illa? Hvernig geta aðrir fjölmiðlar staðist ríkisfjölmiðlinum snúning þegar forgjöfin er svona mikil?

Með því að taka rúma 5 milljarða á ári til að leggja til eins fjölmiðils er verið að draga úr samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum og koma í veg fyrir að upp spretti þúsund blóm í stað visins fjölmiðlaakurs RÚV.

Sennilega mundi það koma best íslenskri fjölmiðlun, blaðaútgáfu, ljósvakamiðlun, öryggi, menningu og tungu að ríkið hætti öðrum fjölmiðlarekstri en þeim sem væri vegna öryggis og fræðslu en veitti þess í stað styrki til innlendrar þátta- og dagskrárgerðar. Jafnframt hyrfi RÚV af auglýsingamarkaði, en það eitt ætti að geta tryggt eðlilegan framgang þeirra fjölmiðla sem eiga erindi við neytendur jafnt blaða sem ljósvakamiðla.


Ekkert óviðkomandi

Sigmundur Davíð  forsætisráðherra ákvað að vera í framboði í Norðausturkjördæmi fyrir flokk sinn, en þar er fólk öllu hallara undir Framsókn en Grímsbý lýðurinn eins og fyrrum forustumaður þess flokks kallaði Reykvíkinga á sínum tíma.

Sigmundi hefur allt frá því að kjósendur í Norðausturkjördæmi sýndu honum þann sóma að kjósa hann þingmann sinn fundist að æ sé gjöf til gjalda. Þess vegna ákvað Sigmundur og flokksmenn hans að flytja Fiskistofu til Akureyrar.  Ekki skipti máli þó þessi hreppaflutningur kosti skattgreiðendur nokkur hundruð milljónir og valdi ótal vandamálum. 

Á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í NAkjördæmi nýverið steig forsætisráðherra í ræðustól og gaf kjósendum sínum enn eina gjöfina. Í þetta skipti stærstu beinagrind landsins.  Hingað til hefur það ekki verið til siðs að gefa beinagrindur nema í annarlegum tilgangi. ´Vonandi mun beinagrindin þjóna hlutverki sínu vel og færa auð og velsæld í byggðir norðausturlands.  Það er auk heldur einfaldara að gefa beinagrindur en þjónustustofnanir og veldur minni röskun.   

Svo er nú komið okkar högum að ríkisvaldið lætur sér ekkert óviðkomandi lifandi eða dautt og telur nú rétt að gefa beinagrindur við hátíðleg tækifæri.  


Pólitískt nýmál.

Við sem erum fædd um og fyrir miðja síðustu öld eigum stundum erfitt með að átta okkur á að orð sem hafa verið okkur töm eins og öðrum af okkar kynslóð flokkast nú sem dónaleg, óviðurkvæmleg, særandi og jafnvel niðurlægjandi.

Nokkrir hafa farið hamförum yfir því að ritstjóri Morgunblaðsins skuli ekki hafa tileinkað sér pólitískt nýmál og sagt múlatti um mann sem á svartan fyrirgefið litaðan nei fyrirgefið aftur negra ó nei, nei  nú sagði ég eitthvað ljótt og meiðandi. Alla vega var verið að tala um Obama sem á föður fæddan í Afríku og er ekki með sama litarhátt og móðir hans sem hefði verið hægt að segja fyrir 20 árum að væri WASP, en Guð veit hvort það er réttlætanlegt í dag. Leyfir pólitískt nýmál að tala um hvítt fólk eða á að segja eitthvað annað. Má e.t.v. ekki tala um litarhátt lengur?

Tíu litlir negrastrákar gengur alls ekki lengur. Ég er búinn að stinga þeirri bók efst úti í horni á barnabókaskápnum svo barnabörnin rekist ekki á þetta subbulega heiti og fari að bulla einhverja vitleysu. 

Í bók sinni 1984 skrifar George Orwell um alræðisríkið þar sem tekið var upp pólitískt nýmál og þar segir: "Ætlunin var að þegar Nýmál hefði verið tekið upp og Gamalmál gleymt að þá væru trúvillukenningar óhugsanlegar alla vega að því leyti sem orð tækju til þeirra."

Á grundvelli pólítísks nýmáls má ekki segja neitt ljótt og mynd Clint Eastwood sem hét á sínum tíma "The good, the bad and the ugly."  Heitir í dag "The good, the client of the correctional system and the cosmetically different."

Nú er engin leiðinlegur heldur öðruvísi áhugaverður. Feitabolla er ekki lengur til heldur maður með annað vaxtarlag. Harmur mikill verður síðan kveðinn að hagfræðinni því nú má ekki segja lengur að maður sé fátækur heldur hagrænt fórnarlamb.  Spurning hvað við fáum lengi að halda órökræna nýyrðinu áfallastreituröskun sem fellur  þó einkar vel að ruglhyggju pólitíks réttmáls.

  


Abba og menningarelítan

Það eru 40 ár frá því að Abba vann söngvakeppni Evrópu með laginu Waterloo. Fáir trúðu því þá að Abba ætti eftir að verða vinsælasta dægurlagahljómsveitin að Bítlunum undanskildum.

Meðlimir Abba höfðu reynt árum saman áður en þeir sigruðu með Waterloo að ná frægð og frama. Ári áður reyndi Abba að komast í Evrópsku söngvakeppnina með laginu "Ring Ring" en náðu ekki árangri, en þar sem lagið seldist vel annarsstaðar en í Svíþjóð og varð ofurvinsælt átti Abba greiðari leið árið eftir.

Þó Abba ynni sigur var vinstri sinnaða sænska menningarelítan ekki ánægð með hljómsveitina hvorki fyrir né eftir. Einn sænskur gagnrýnandi talaði um að Abba væri dæmi um "fársjúkt kapítalískt þjóðfélag"  þar sem fólki væri svo ofgert með vinnu að það hefði ekki orku til að hlusta á annað en lágmenningartónlist Abba.

Ef þeir einu sem njóta styrkja frá almenningi vegna listsköpunar sinnar kæmust áfram þá hefði Abba aldrei náð vinsældum og þannig er um marga fleiri topplistamenn fyrr og síðar.

Hvað sem öður líður þá hefur tónlist Abba verið einstök og það er hægt að þakka Abba fyrir að hafa auðgað tilveruna síðustu 40 ár og því viðeigandi  að segja  "Thank you for the music." 

 


Goðsögnin um RÚV og raunveruleikinn

Sú goðsögn er lífsseig meðal þjóðarinnar, að það sé þjóðlegt að framleiða lambakjöt fyrir útlendinga þó gengið sé nærri náttúru landisns og kjötið selt undir framleiðslu-og flutingskostnaði.

Sú goðsögn er líka lífsseig meðal þjóðarinnar að uppspretta, varðveisla og tilurð íslenskrar menningar sé hjá RÚV.

Hvorug goðsagan á nokkuð skylt við raunveruleikann.  

Þegar gripið er til hópuppsasgna hjá RÚV er eðlilegt að skoða hvað er á ferðinni áður en vondir stjórnmálamenn eða útvarpsstjórar eru atyrtir fyrir nísku og illsku í garð RÚV.

Í fyrirtæki eins og RÚV þar sem litlar sveiflur eru í tekjum og hægt er að gera áætlanir langt fram í tímann þarf ekki að grípa til skyndilegra hópuppsagna nema uppsöfnuð vandamál séu orðin til, sem varða stjórnun fyrirtækisins. Vandi RÚV er allt annar og minni en fyrirtækja sem eru háð duttlungum markaðarins.

Í þessari uppsagnarhrinu kemur á óvart hverjir eru látnir fara og hverjir sitja eftir. Þannig er sérkennilegt að fólk sem hefur verið mikilvægt í Kastljósi og morgunútvarpi þurfi að hverfa á braut og hætt sé að segja fréttir frá kl. 12 á miðnætti eins og það skipti kostnaðarlega miklu máli.

Allt þetta mál ber vott um það að stjórn RÚV viti ekki sitt rjúkandi ráð og hafi ekki gaumgæft hvert skuli stefna við rekstur fyrirtækisins.  

Umgjörðin um RÚV sem fyrirtækið starfar eftir var gerð á bóluárunum fyrir Hrunið svokallaða og sú umgjörð hefur ekki verið endurskoðuð sem skyldi  hún hafi verið fráleit frá upphafi.  Þess vegna er mikilvægt núna fyrir velunnara RÚV að skoða hvaða samfélagsleg verkefni það eru sem við teljum eðlilegt og nauðsynlegt að RÚV sinni og sníðum þá umgjörðina um RÚV í samræmi við það. Á grundvelli raunveruleikans en ekki til að viðhalda goðsögnum.  

 


Áskorun á menntamálaráðherra

Sú ákvörðun stjórnenda Verslunarskóla Íslands, að stytta stúdentsnám um eitt ár er áskorun á menntamálaráðherra að láta hendur standa fram úr ermum varðandi þau sjónarmið sem hann hefur sett fram sem stefnumörkun í þeim málum.

Það er fráleitt að íslenskt námsfólk skuli útskrifast stúdentar tveim árum síðar en ungt fólk á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi svo dæmi séu tekin. Íslenskt námsfólk er ekki verr gefið eða seinþroskaðra en ungt fólk í nágrannalöndunum þannig að það er kerfisvilla sem veldur þessu.

Þegar búið verður að koma á þeirri nauðsynlegu kerfisbreytingu að fólk verði almennt stúdentar 18 ára að aldri þá sparar það gríðarlega fjármuni bæði fyrir einstaklinga og ríkið. Það má líka rökfæra það að brotthvarf frá námi muni þá minnka verulega. Fólk væri þá að koma út í atvinnulífið með háskólapróf 23-24 ára.

Takist menntamálaráðherra að koma þessum breytingum í kring að stytta stúdentsnámið um tvö ár þá hefur hann unnið þrekvirki og full ástæða að skora á hann að láta hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar.


Leiðin til vondra og versnandi lífskjara

Í kvöldfréttum RÚV þ.12.2. var sagt frá því að lífskjör hér á landi væru mun lakari en á hinum Norðurlöndunum. Launþegar hér hafa 60% lægri tekjur en launþegar á hinum Norðurlöndunum. Auk þess erum við með dýrustu lán í Evrópu. 

Markmið okkar er að vera í fararbroddi ásamt frændum okkar á Norðurlöndunum og geta boðið fólkinu í landinu upp á bestu lífskjör sem völ er á, frelsi og frjálsa samkeppni. Þessi markmið eru því miður fjarlæg nú  og langt í að framfarasókn þjóðarinnar hefjist.

Sama dag og fréttist af bágum kjörum launamanna í landinu voru stjórnmálamenn þjóðarinnar önnum kafnir við  að gera kröfur um að  auknar byrðar yrðu lagðar á skattgreiðendur og reyna að koma í veg fyrir samkeppni á fjármálamarkaðnum, til að bjarga örsparisjóð á Siglufirði. Fjármálaráðherra og varaformaður Framsóknar jörmuðu um þetta í einum kór eins og þau hafi gleymt að gjaldþrota sparisjóðastefna Steingríms J. hefur þegar kostað þjóðina yfir 50 milljarða.

Fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra og strengjabrúða hans í Samfylkingunni voru önnum kafnir við að auka ríkisstyrk til Hörpu til að rugla samkeppnina á þeim markaði enn meir. Skattgreiðendur borga. Stjórnir Hörpu sitja allar áfram enda málið í endalausu ferli hjá menntamálaráðherra.

Leiðin til vondra og versnandi lífskjara er vörðuð og markviss undir forustu hugsjónalausra, markmiðslausra stjórnmálamanna sem telja rétt að skattgreiðendur hendi endalaust góðum peningum á eftir vondum. 


Friðrik mikli

Í dag eru 300 ár frá fæðingu eins merkasta konungs, hershöfðingja og stjórnmálamanns veraldar, Friðriks 2, Prússakonungs, sem fékk viðurnefnið Friðrik miklu. Í tiltölulega nýju hefti tímaritsins Der Spiegel þá er hann nefndur ekki Friðrik mikli, heldur Friðrik mesti.

Friðrik mikli þurfti að eyða miklum tíma í herfarir en hann barðist við það sem hann kallaði pilsin þrjú og hafði betur á endanum, en þá voru drottningar í Rússlandi og Austurríki og sagt að Madamme Pompadour hjákona Loðvíks 15 Frakkakonungs stjórnaði landinu í raun. Rússland, Austurríki og Frakkland gerðu bandalag gegn Friðrik mikla.

Friðriks mikla er einnig minnst sem umbótamanns í stjórnarfari og hann kallaði sig hinn menntaða einvald og á tímum töldu menn það besta stjórnarfarið þegar sá stjórnaði ríkinu sem væri vel menntaður og hugsaði um hag alþýðu manna. Friðrik mikli hafði það á orði að þegnarnir mættu segja það sem þeir vildu en hann stjórnaði.

Friðrik mikli mælti til vinfengis við skáld og listamenn m.a. Voltaire en það samkomulag þeirra var ekki alltaf upp á  hið besta.

Hvað sem öðru líður þá var Friðrik mikli stjórnandi nýrra tíma. Napóleon hafði jafnan mynd af Friðrik hjá sér og taldi hann merkasta stjórnanda og hershöfðingja og sporgöngumann lýðréttinda.

Hvað sem öðru líður þá var hann merkileg persóna í sögunni og vel þess virði að hans sé minnst.


Tungumál og bækur

Bækur og bóklestur er forsenda kröftugs og lifandi tungumáls.

Lestur ritaðs máls á blöðum minnkar. Fólk sækir í auknum mæli fréttir, fróðleik og afþreyingu á netmiðla og tölvurit. Þessi þróun er bara á byrjunarstigi. Fullkomnari og fullkomnari lestölvur verða til.

Lestölvan er handhægari og léttari en hefðbundar bækur. Bækurnar sem keyptar eru á lestölvuna eru mun ódýrari og  koma strax og pöntun er staðfest. Ekki þarf að bíða í biðröð.

Á síðasta ári telst mér til að hafa keypt 17 rafbækur. Heildarkostnaður er um 23.000 krónur. Þessar bækur keyptar hér hefðu kostað yfir 100 þúsund krónur. Segir þetta einhverja sögu?

Þróunin bíður upp á möguleika og nú skiptir máli fyrir okkur sem viljum vernda tunguna að taka myndarlega á og tölvubókarvæða það sem gefið er út og hefur verið gefið út á íslenskri tungu. Ef vil vill missir einhver spón úr aski sínum við það. En aðrir spónar koma þá í staðinn.

Framrás tækninnar verður ekki stöðvuð.    Vefarar í Bretlandi gátu ekki sigrað saumavélina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1698
  • Frá upphafi: 2296258

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1571
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband